Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 123a. Uppfært til 1. janúar 1999.


Lög um brunatryggingar

1994 nr. 48 6. maí


1. gr.
        Húseigendum er skylt að vátryggja gegn eldsvoða allar húseignir, þar með talin öll útihús, hvort heldur eru gripahús, hlöður, geymslur eða annað sem metið verður sem hús skv. 2. gr. Hús í smíðum skal einnig vátryggja og fer um vátryggingarupphæð þeirra á hverjum tíma eftir samkomulagi milli eiganda og vátryggingafélags.
        Ný hús skal meta eigi síðar en fjórum vikum eftir að þau eru tekin í notkun og er eiganda skylt að sjá um að slíkt sé tilkynnt vátryggjanda.
        Vátryggingafélag skal ekki taka gilda uppsögn á skylduvátryggingu skv. 1. mgr. nema uppsögn fylgi staðfesting á að húseigandi hafi stofnað til nýrrar skylduvátryggingar hjá öðru vátryggingafélagi. Við eigendaskipti skal viðkomandi vátryggingafélag ekki taka gilda uppsögn nema henni fylgi staðfesting um að nýr eigandi hafi stofnað til skylduvátryggingar.

2. gr.
        Vátryggingarupphæð húsa, sem lög þessi ná til, annarra en húsa í smíðum, skal nema fullu verði þeirra eftir virðingu. Dómkvaddir matsmenn eða Fasteignamat ríkisins annast virðingu skylduvátryggðra húsa. [Þó skal Fasteignamat ríkisins að jafnaði annast fyrstu virðingu.]1) Þegar dómkvaddir matsmenn sjá um virðingu skulu þeir skila Fasteignamati ríkisins upplýsingum um matið innan 15 daga frá því að mati lauk.
        Virðing skal gerð samkvæmt matseiningakerfi Fasteignamats ríkisins. Markmið virðingar er að finna hið sanna vátryggingarverðmæti (brunabótamat) húseignar á þeim tíma er virðing fór fram. Ef annar hvor aðili vill ekki una niðurstöðu virðingar getur hann óskað yfirmats. [Sjái Fasteignamat ríkisins ástæðu til getur það framkvæmt endurmat, húseiganda og vátryggingafélagi að kostnaðarlausu.]1)
        [Breyta skal vátryggingarverði húsa til samræmis við vísitölu byggingarkostnaðar hinna ýmsu tegunda húseigna.]1)
        [Húseigendur skulu árlega greiða umsýslugjald af brunabótamati húseignar er nema skal 0,025‰ (prómillum) af brunabótamatinu og skal gjald þetta renna til Fasteignamats ríkisins. Gjaldið skal notað til þess að standa undir kostnaði stofnunarinnar við að halda skrá yfir brunabótamat húseigna í landinu. Vátryggingafélag skal innheimta gjaldið samhliða innheimtu brunatryggingariðgjalda og skila til stofnunarinnar eigi síðar en 45 dögum eftir gjalddaga þess.]2)

1)L. 150/1994, 1. gr.2)L. 131/1996, 1. gr.


3. gr.
        Bætur fyrir tjón á húseign má aðeins greiða til þess að gera við húseign sem skemmst hefur við bruna eða til endurbyggingar. Vátryggjanda er skylt að sjá til þess áður en bætur eru greiddar að þeim sé réttilega varið.
        [Vátryggjanda er heimilt að veita undanþágu frá byggingarskyldu að höfðu samráði við skipulagsyfirvöld gegn því skilyrði að 15% dragist frá bótafjárhæðinni. Frádrætti þessum skal þó ekki beitt ef endurbygging er eigi heimil af skipulagsástæðum eða öðrum ástæðum sem tjónþola er ekki sjálfrátt um. Hafi ákvörðun verið tekin um að veita undanþágu frá byggingarskyldu og telji vátryggjandi brunabótamat húseignar greinilega hærra en markaðsverð húseignar er vátryggjanda heimilt að miða bótafjárhæð við markaðsverð viðkomandi húseignar. Rísi ágreiningur um bótafjárhæð skal málinu skotið til gerðardóms sem ráðherra setur nánari ákvæði um í reglugerð,1) sbr. 5. gr. laga þessara.]2)
        Nú verður brunatjón meira en helmingur brunabótamatsverðs og sveitarstjórn telur nauðsynlegt vegna eldhættu eða af skipulagsástæðum að hlutaðeigandi hús verði fjarlægt og er henni þá heimilt að leysa húsið til sín. Greiðir hún þá mismun þann sem er á brunabótum og heildarmatsverði hússins. Ef sveitarstjórn eða eigandi telja brunabótamatsverð ekki rétt getur hvor um sig krafist endurmats og skal þá miða greiðslu við endurmatsverðið.

1)Augl. 332/1996.2)L. 150/1994, 2. gr.


4. gr.
        [Öll iðgjöld og matskostnaður af húseignum í skyldutryggingu hvíla sem lögveð á eignunum sjálfum og ganga í tvö ár fyrir öllum öðrum skuldbindingum sem á þeim hvíla nema sköttum til ríkissjóðs.
        [Séu brunatryggingariðgjöld og önnur gjöld og skattar sem ákvörðuð eru sem hlutfall af brunabótamati og innheimtast eiga samhliða innheimtu iðgjalda, svo og matskostnaður, eigi greidd innan sex mánaða frá gjalddaga er heimilt að krefjast nauðungarsölu á hinni vátryggðu eign án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Önnur gjöld og skattar samkvæmt þessari málsgrein eru brunavarnagjald, umsýslugjald, forvarnagjald, viðlagatryggingariðgjald og álag á viðlagatryggingariðgjald.]1)]2)

1)L. 131/1996, 2. gr.2)L. 150/1994, 3. gr.


[4. gr. a
        Hafi brunatrygging húss, sem tekin hefur verið, fallið niður af ástæðum sem húseiganda verður ekki um kennt ber Sambandi íslenskra tryggingafélaga að bæta honum tjón á húseign hans af völdum eldsvoða.
        Samband íslenskra tryggingafélaga skal endurkrefja vátryggingafélög, sem hafa með höndum brunatryggingar húsa, um kostnað vegna slíkra bótagreiðslna nema í ljós verði leitt hver ber ábyrgð á að vátrygging féll niður og skal sambandið þá endurkrefja þann aðila. Kostnaði skal skipt á félögin í hlutfalli við bókfærð iðgjöld þeirra í lögboðnum brunatryggingum húsa hér á landi. Skal í því efni miðað við nýjustu upplýsingar um markaðshlutdeild félaganna við uppgjörsdag tjóns.
        Skilyrði starfsleyfis lögboðinna brunatrygginga húseigna er að félag skuldbindi sig til að taka þátt í þessari tilhögun um greiðslu bóta vegna óvátryggðra húseigna.]1)

1)L. 150/1994, 4. gr.


5. gr.
        [Ráðherra]1) skal setja reglugerð2) um nánari framkvæmd þessara laga, þar á meðal verksvið vátryggjanda, skyldur vátryggingataka, bótauppgjör, undanskildar áhættur, réttarstöðu við eigendaskipti, rétt veðhafa og framkvæmd virðingar og yfirmats, þar á meðal kostnað virðingar.

1)L. 10/1995, 3. gr.2)Rg. 484/1994. Augl. 332/1996.


6. gr.
        Lög þessi öðlast þegar gildi. …

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
        Undanþága Reykjavíkurborgar frá ákvæðum 4. gr. fyrstu tilskipunar ráðsins 73/239/ EBE, með síðari breytingum, um rekstur Húsatrygginga Reykjavíkur, sbr. IX. viðauka í EES-samningnum, gildir áfram eftir gildistöku þriðju tilskipunar ráðsins 92/49/EBE að öðru leyti en því að einkaréttur Reykjavíkurborgar vegna brunatryggingar húseigna í sveitarfélaginu fellur niður frá og með 1. janúar 1995. Húseigendur skulu þó í síðasta lagi fyrir 30. nóvember 1994 tilkynna Húsatryggingum Reykjavíkur skriflega hyggist þeir flytja þessar tryggingar til annars félags. Tilkynningu um uppsögn skal fylgja staðfesting vátryggingafélags þess efnis að stofnað hafi verið til lögboðinnar brunatryggingar frá og með 1. janúar 1995. Að öðrum kosti framlengist vátryggingin til eins árs í senn. Tekjur sem Reykjavíkurborg kann að hafa af rekstri Húsatrygginga Reykjavíkur skal leggja í sjóð til eflingar brunavörnum og tryggingarstarfsemi.

II.
        Húseigendur utan Reykjavíkur skulu bundnir af þeim samningum sem gerðir hafa verið milli sveitarfélaga og vátryggingafélaga um brunatryggingar allra húseigna í hlutaðeigandi sveitarfélagi og af þeim vátryggingaskilmálum sem gerðir hafa verið milli húseigenda og vátryggingafélaga með stoð í fyrrgreindum samningum til loka árs 1994. Frá og með 1. janúar 1995 skal húseigendum utan Reykjavíkur heimilt að brunatryggja húseignir sínar hjá vátryggingafélagi sem þeir sjálfir kjósa, enda hafi félagið heimild til að hafa með höndum slíkar tryggingar. Húseigendur skulu þó í síðasta lagi fyrir 30. nóvember 1994 tilkynna brunatryggingafélagi sínu skriflega hyggist þeir flytja þessar tryggingar til annars félags. Tilkynningu um uppsögn skal fylgja staðfesting annars vátryggingafélags þess efnis að stofnað hafi verið til lögboðinnar brunatryggingar frá og með 1. janúar 1995. Að öðrum kosti framlengist vátryggingin til eins ár í senn.