Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 123a. Uppfært til 1. janúar 1999.


Lög um aðild Íslands að samningi um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi

1981 nr. 68 29. maí


1. gr.
        Ríkisstjórninni er heimilt að fullgilda fyrir Íslands hönd samning frá 18. nóvember 1980 um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með lögum þessum.

2. gr.
        Sjávarútvegsráðherra er heimilt að setja reglur1) um framkvæmd samningsins.

1)Rg. 263/1970 (alþjóðlegt fiskveiðieftirlit utan landhelgi og fiskveiðilögsögu), augl. 222/1971 (um bann við síldveiði með herpinót á svæði í hafinu suður af Írlandi og vestur af Englandi) og rg. 181/1976 (um takmörkun á síldveiðum íslenskra skipa í Norðursjó, Skagerak og á svæði VI (a) vestan Skotlands).


3. gr.
        Brot á reglum sem settar verða samkvæmt 2. gr. laga þessara skulu varða sektum 2000–40.000 gullkrónum, sbr. lög nr. 4 11. apríl 1924.
        Ennfremur er heimilt að gera afla og veiðarfæri upptæk.
        Auk þess má láta brot varða skipstjóra fangelsi allt að 6 mánuðum þegar sakir eru miklar eða þegar um ítrekað brot er að ræða.
        [Kyrrsetja skal]1) skip, sem staðið er að meintum ólöglegum veiðum, þegar er það kemur til hafnar, og er eigi heimilt að láta það laust fyrr en dómur hefur verið kveðinn upp í máli ákæruvaldsins gegn skipstjóra skipsins eða máli hans lokið á annan hátt og sekt og kostnaður greiddur að fullu. Þó er heimilt að láta skip laust fyrr ef sett er bankatrygging, eða önnur trygging jafngild að mati dómara, fyrir greiðslu sektarinnar og málskostnaðar.
        Til tryggingar greiðslu sektar samkvæmt þessari grein og kostnaðar skal vera lögveð í skipinu.
        Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

1)L. 19/1991, 195. gr.


4. gr.
        Lög þessi öðlast þegar gildi. …

Fylgiskjal.

Samningur um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi.

        Samningsaðilar sem gera sér ljóst að strandríki við Norðaustur-Atlantshaf hafa í samræmi við viðeigandi grundvallarreglur í þjóðarétti fært út lögsögu sína yfir hinum lifandi auðlindum aðliggjandi hafsvæða í allt að tvö hundruð sjómílur frá grunnlínum þeim er víðátta landhelgi miðast við, og beita innan þessara svæða fullveldisrétti í því skyni að rannsaka og hagnýta, vernda og hafa stjórnun á auðlindum þessum, sem taka tillit til starfa þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að því er varðar fiskveiðar, sem óska þess að stuðla að verndun og bestu nýtingu á fiskveiðiauðlindum í Norðaustur-Atlantshafi á þann hátt er samrýmist útfærslu fiskveiðilögsögu strandríkja, og samkvæmt því hvetja til alþjóðlegrar samvinnu og samráðs að því er auðlindir þessar varðar, sem líta svo á að samningurinn um fiskveiðar á norðausturhluta Atlantshafs frá 24. janúar 1959 ætti því að víkja, hafa orðið ásáttir um eftirfarandi:
1. gr.
        1. Svæði það sem samningur þessi nær til, hér á eftir nefnt „samningssvæðið“, er hafsvæði:
a. innan þess hluta Atlantshafsins og Norður-Íshafsins og aðliggjandi hafsvæða sem er norðan 36° n. br. og milli 42° v. l. og 51° a. l., að undanteknu:
i. Eystrasalti og sundunum sunnan og austan lína sem liggja frá Hasenörehöfða til Gnibentanga, frá Korshage til Spodsbjerg og frá Gilbjerghöfða til Kullen, og
ii. Miðjarðarhafi og aðliggjandi hafsvæðum að skurðpunkti 36° n. br. og 5°36' v. l.
b. á Atlantshafinu fyrir norðan 59° n. br. og milli 44° v. l. og 42° v. l.
2. Samningur þessi tekur til allra fiskiauðlinda á samningssvæðinu að undanteknum sjóspendýrum, botntegundum, þ.e. lífverum sem á þeim tíma er þær má nýta eru annað hvort kyrrstæðar á hafsbotninum eða undir honum eða geta ekki hreyft sig nema í stöðugri snertingu við hafsbotninn eða botnlögin og, að svo miklu leyti sem fjallað er um þær í öðrum alþjóðasamningum, fartegundum og tegundum sem leita aftur upp í ár.


2. gr.
        Ekkert í samningi þessum skal talið hafa áhrif á réttindi, kröfur eða skoðanir nokkurs samningsaðila varðandi mörk eða víðáttu fiskveiðilögsögu.

3. gr.
        1. Með samningi þessum samþykkja samningsaðilar að setja á stofn og starfrækja Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefnd, hér á eftir kölluð „nefndin“.
2. Nefndin skal vera lögaðili og njóta í samskiptum sínum við aðrar alþjóðastofnanir og á landssvæðum samningsaðila þeirrar réttarstöðu er nauðsynleg kann að vera til að rækja störf sín og ná tilgangi sínum.
3. Sérhver samningsaðili skal tilnefna í nefndina allt að tveimur fulltrúum sem mega hafa með sér á fundum hennar sérfræðinga og ráðunauta.
4. Nefndin kýs sér sjálf forseta og eigi fleiri en tvo varaforseta.
5. Skrifstofa nefndarinnar skal vera í London.
6. Ákveði nefndin ekki annað skal hún koma saman einu sinni á ári í London á þeim tíma sem hún ákveður, að því þó tilskildu að, að ósk samningsaðila og með samþykki þriggja annarra samningsaðila, skuli forsetinn, svo fljótt sem auðið er, kveðja til fundar á þeim stað og tíma sem hann ákveður.
7. Nefndin skipar framkvæmdastjóra og annað starfslið eftir þörfum.
8. Nefndinni er heimilt að stofna nefndir og aðrar undirdeildir eftir því sem hún telur æskilegt til að annast skyldur sínar og störf.
9. Sérhver samningsaðili skal fara með eitt atkvæði í nefndinni. Ákvarðanir nefndarinnar skulu hljóta einfaldan meirihluta eða, áskilji samningur þessi sérstaklega veginn meirihluta, tvo þriðju hluta atkvæða allra samningsaðila sem viðstaddir eru og atkvæði greiða með eða á móti, að því tilskildu að engin atkvæðagreiðsla skal fara fram nema a.m.k. tveir þriðju samningsaðila séu viðstaddir. Nú skiptast atkvæði jafnt um málefni sem hlítir einföldum meirihluta, og skoðast tillagan þá felld.
10. Nefndin setur sér fundarsköp í samræmi við ákvæði þessarar greinar, þar með talin ákvæði um kjör forseta og varaforseta og um kjörtíma þeirra.
11. Fundargerðir nefndarinnar skal senda svo fljótt sem auðið er til samningsaðila á ensku og frönsku.


4. gr.
        1. Nefndin skal rækja störf sín til verndunar og bestu nýtingar á fiskiauðlindum innan samningssvæðisins og taka mið af bestu tiltækum vísindalegum niðurstöðum.
2. Nefndin skal vera vettvangur samráðs og skipta á upplýsingum um ástand fiskiauðlinda innan samningssvæðisins og stjórnunarstefnur, þar með talið könnun á heildaráhrifum þeirra stefna á fiskiauðlindirnar.


5. gr.
        1. Nefndin skal þar sem það á við gera ályktanir um fiskveiðar utan þeirra svæða sem falla undir fiskveiðilögsögu samningsaðila. Slíkar ályktanir skulu gerðar með vegnum meirihluta.
2. Við framkvæmd starfa sinna samkvæmt 1. mgr. skal nefndin leitast við að tryggja samræmi milli:
a. sérhverrar ályktunar er varðar fiskstofn eða fjölda fiskstofna sem fyrirfinnast bæði innan svæðis er lýtur fiskveiðilögsögu samningsaðila og utan þess, eða sérhverrar ályktunar sem hafa myndi áhrif vegna tengsla tegunda á fiskstofn eða fjölda fiskstofna sem fyrirfinnast að öllu leyti eða að hluta á svæði er lýtur fiskveiðilögsögu samningsaðila, og
b. sérhverra ráðstafana og ákvarðana sem teknar eru af samningsaðila til stjórnunar og verndunar þess fiskstofns eða fjölda fiskstofna hvað snertir fiskveiðar sem fram fara innan svæðis er lýtur fiskveiðilögsögu þess. Samningsaðili sá er í hlut á og nefndin skulu samkvæmt þessu beita sér fyrir samræmingu slíkra ályktana, ráðstafana og ákvarðana.
3. Til þess að 2. mgr. nái tilgangi sínum skal hver samningsaðili jafnan láta nefndinni í té upplýsingar um ráðstafanir og ákvarðanir sínar.


6. gr.
        1. Nefndin má gera ályktanir varðandi fiskveiðar sem fram fara innan svæðis í fiskveiðilögsögu samningsaðila að því tilskildu að hlutaðeigandi samningsaðili óski þess og hann greiði ályktun þar um atkvæði.
2. Nefndin getur verið ráðgefandi um þær fiskveiðar er um getur í 1. mgr. ef hlutaðeigandi samningsaðili óskar þess.


7. gr.
        Við framkvæmd starfa sinna samkvæmt 5. og 6. gr. má nefndin íhuga meðal annars ráðstafanir varðandi:
a. reglur um veiðarfæri og útbúnað, þar á meðal möskvastærð fiskneta,
b. reglur um lágmarksstærð fisks sem skip mega hirða, landa, sýna eða bjóða til sölu,
c. ákvörðun um lokun á tilteknum tímum eða um lokuð svæði,
d. eflingu eða aukningu fiskiauðlinda, og getur til þess talist tækniklak og flutningur lífvera og seiða,
e. ákvörðun á hámarksafla og skiptingu hans milli samningsaðila,
f. stjórnun fiskveiðisóknarinnar og skiptingu hennar milli samningsaðila.


8. gr.
        1. Nefndin má gera ályktanir með vegnum meirihluta varðandi ráðstafanir um eftirlit með fiskveiðum sem fram fara utan svæða sem lúta fiskveiðilögsögu samningsaðila til þess að tryggja framkvæmd samnings þessa og sérhverra ályktana sem gerðar eru samkvæmt honum.
2. Nefndin má einnig gera ályktanir varðandi ráðstafanir um eftirlit með fiskveiðum sem fram fara innan svæðis sem lýtur fiskveiðilögsögu samningsaðila að því tilskildu að hlutaðeigandi samningsaðili óski þess og að hann greiði ályktun þar um atkvæði.
3. Ályktanir sem gerðar eru samkvæmt þessari grein mega fela í sér ákvæði um uppsögn önnur en þau sem gert er ráð fyrir í 13. gr.


9. gr.
        1. Nefndin má gera ályktanir með vegnum meirihluta sem kveða á um söfnun tölfræðilegra upplýsinga um fiskveiðar sem fram fara utan svæða sem lúta fiskveiðilögsögu samningsaðila.
2. Nefndin má einnig gera ályktanir sem gera ráð fyrir söfnun tölfræðilegra upplýsinga um fiskveiðar sem fram fara innan svæðis sem lýtur fiskveiðilögsögu samningsaðila að því tilskildu að sá samningsaðili greiði ályktun þar um atkvæði.


10. gr.
        Þegar nefndin gerir ályktanir skal hún ákveða hvort og með hvaða skilyrðum þær ályktanir skulu taka til fiskveiða sem fram fara einungis vegna vísindarannsókna sem framkvæmdar eru í samræmi við viðeigandi grundvallarreglur þjóðaréttar.

11. gr.
        1. Nefndin skal án ótilhlýðilegs dráttar tilkynna samningsaðilum um ályktanir sem hún gerir samkvæmt samningi þessum.
2. Nefndin má gefa út eða dreifa á annan hátt skýrslum um starfsemi sína og öðrum upplýsingum varðandi fiskveiðar á samningssvæðinu.


12. gr.
        1. Ályktun verður bindandi fyrir samningsaðila samkvæmt ákvæðum greinar þessarar og tekur gildi þann dag er nefndin ákveður, þó eigi fyrr en 30 dögum eftir lok tímabils eða tímabila til mótmæla sem gert er ráð fyrir í grein þessari.
2. a. Sérhver samningsaðili má mótmæla ályktun sem gerð er samkvæmt 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 8. gr. eða 1. mgr. 9. gr., innan 50 daga frá dagsetningu tilkynningar um hana. Komi slík mótmæli fram má sérhver annar samningsaðili á sama hátt mótmæla innan 40 daga eftir að hafa fengið tilkynningu um þau mótmæli. Komi einhver mótmæli fram innan þessa síðara 40 daga tímabils mega aðrir samningsaðilar bera fram mótmæli innan 40 daga lokatímabils eftir að hafa fengið tilkynningu um þau mótmæli.
b. Ályktun skal ekki binda samningsaðila sem hefur mótmælt henni.
c. Ef þrír eða fleiri samningsaðilar hafa mótmælt ályktun skal hún ekki binda neinn samningsaðila.
d. Samningsaðili sem hefur mótmælt ályktun má hvenær sem er draga mótmæli til baka og skal hann þá vera bundinn af ályktuninni innan 70 daga eða frá þeirri dagsetningu sem nefndin ákveður samkvæmt 1. mgr., hvort sem seinna er, nema þegar ályktunin er ekki bindandi fyrir neinn samningsaðila samkvæmt ákvæðum c-liðar.
e. Sé ályktun ekki bindandi fyrir neinn samningsaðila mega tveir eða fleiri samningsaðilar eigi að síður hvenær sem er samþykkja sín á milli að láta hana koma til framkvæmda, en í slíku tilviki skulu þau1) þegar í stað tilkynna nefndinni um það.
3. Hafi ályktun verið gerð samkvæmt 1. mgr. 6. gr., 2. mgr. 8. gr. eða 2. mgr. 9. gr. má, innan 60 daga frá dagsetningu tilkynningar um ályktunina, eingöngu sá samningsaðili sem fer með fiskveiðilögsögu á umræddu svæði mótmæla henni og verður ályktunin þá ekki bindandi fyrir neinn samningsaðila.
4. Nefndin skal tilkynna samningsaðilunum um sérhver mótmæli og sérhverja afturköllun jafnskjótt og hún hefur móttekið slíkt og um gildistöku sérhverrar ályktunar og sérhvers samkomulags sem gert er samkvæmt 2. mgr. e.

1)Svo í Stjtíð., en virðist eiga að vera „þeir“.


13. gr.
        1. a. Sérhver samningsaðili getur hvenær sem er að ári liðnu frá gildistöku ályktunar sem gerð er samkvæmt 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 8. gr. eða 1. mgr. 9. gr. tilkynnt nefndinni að hann samþykki ekki lengur ályktunina og, sé tilkynningin ekki afturkölluð, skal ályktunin ekki lengur vera bindandi fyrir þann samningsaðila að ári liðnu frá dagsetningu tilkynningarinnar.
b. Ályktun sem hefur misst gildi sitt gagnvart samningsaðila skal eigi vera bindandi fyrir neinn annan samningsaðila 30 dögum eftir þann dag sem hinn síðarnefndi tilkynnir nefndinni að hann samþykki ekki lengur ályktunina.
2. Hafi ályktanir verið gerðar samkvæmt 1. mgr. 6. gr., 2. mgr. 8. gr. eða 2. mgr. 9. gr. má einungis sá samningsaðili sem fer með fiskveiðilögsögu á umræddu svæði tilkynna nefndinni að hann samþykki ekki lengur ályktunina og skal hún þá ekki lengur vera bindandi fyrir neinn samningsaðila að liðnum 90 dögum frá dagsetningu tilkynningarinnar.
3. Nefndin skal tilkynna samningsaðilunum um sérhverja tilkynningu samkvæmt þessari grein þegar hún hefur móttekið hana.


14. gr.
        1. Til þess að tryggja sem besta framkvæmd þeirrar starfsemi sem um getur í 4., 5. og 6. gr. skal nefndin leita upplýsinga og ráða hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu. Slíkra upplýsinga og ráða skal leita um mál sem varða starfsemi nefndarinnar og falla undir valdsvið ráðsins, þar á meðal upplýsinga og ráða um líffræði og stofnstærðardreifingu þeirra fisktegunda sem um ræðir, ástand fiskstofna, áhrif veiða á þá stofna og ráðstafanir til verndunar þeirra og stjórnunar.
2. Til þess að auðvelda störf Alþjóðahafrannsóknaráðsins við að láta nefndinni í té upplýsingar og ráð skal nefndin leitast við að gera í samráði við ráðið ráðstafanir til þess að tryggja að hvatt sé til rannsókna í þessum tilgangi, þar með talinna sameiginlegra rannsókna, og að þær séu framkvæmdar eftir bestu getu og án ótilhlýðilegs dráttar.
3. Nefndin má stofna til vinnusamstarfs við hverja aðra alþjóðastofnun sem hefur svipað markmið.


15. gr.
        1. Án þess að það hafi áhrif á rétt samningsaðilanna varðandi hafsvæði sem lúta fiskveiðilögsögu þeirra, skulu samningsaðilar gera þær ráðstafanir, þar á meðal setja hæfileg viðurlög við brotum, sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að láta ákvæði samnings þessa ná fram að ganga og að sérhver ályktun sem verður bindandi samkvæmt 12. gr. komist í framkvæmd.
2. Sérhver samningsaðili skal senda nefndinni árlega skýrslu um ráðstafanir þær sem hann hefur gert samkvæmt 1. mgr.


16. gr.
        1. Sérhver samningsaðili skal tilkynna nefndinni um löggjöf sína og samninga sem hann kann að hafa gert að svo miklu leyti sem þessi löggjöf og samningar varða verndun og nýtingu á fiskiauðlindum á samningssvæðinu.
2. Sérhver samningsaðili skal að beiðni nefndarinnar láta í té allar tiltækar vísindalegar og tölfræðilegar upplýsingar sem þörf er á til þess að samningur þessi nái tilgangi sínum og aðrar þær upplýsingar sem þurfa þykir samkvæmt 9. gr.


17. gr.
        1. Sérhver samningsaðili skal greiða kostnað vegna eigin sendinefndar á fundum sem haldnir eru samkvæmt samningi þessum.
2. Á fyrsta fundi sínum skal nefndin samþykkja fjárhagsáætlun fyrir fyrsta fjárhagsár sitt. Á þessum fundi má nefndin líka, ef það þykir henta, samþykkja fjárhagsáætlun fyrir annað fjárhagsárið.
3. Á hverjum ársfundi skal nefndin samþykkja fjárhagsáætlun fyrir næsta fjárhagsár og spá um fjárhagsáætlun fyrir næsta fjárhagsár þar á eftir. Uppkast að fjárhagsáætlun og uppkast að spá um fjárhagsáætlun skal forseti nefndarinnar leggja fyrir samningsaðilana eigi síðar en 40 dögum fyrir þann fund nefndarinnar þar sem taka skal þau til athugunar.
4. Nefndin ákveður framlög sem hverjum samningsaðila ber að greiða samkvæmt hinni árlegu fjárhagsáætlun samkvæmt eftirfarandi reglum:
a. Einn þriðji af heildarupphæð fjárhagsáætlunar skiptist jafnt milli samningsaðila.
b. Tveir þriðju af heildarupphæð fjárhagsáætlunar skiptast milli samningsaðila í hlutfalli við afla þeirra á samningssvæðinu upp úr sjó á grundvelli endanlegra aflatalna Alþjóðahafrannsóknaráðsins á almanaksárinu sem lýkur eigi síðar en 24 og eigi fyrr en 18 mánuðum fyrir upphaf fjárhagsársins.
c. Árlegt framlag samningsaðila sem hefur færri en 300.000 íbúa skal þó takmarkað við 5% heildarupphæðar fjárhagsáætlunarinnar. Þegar framlag er þannig takmarkað skiptast eftirstöðvar fjárhagsáætlunarinnar milli hinna samningsaðilanna í samræmi við a- og b-lið. Regla þessi skal gilda fyrstu fimm fjárhagsár nefndarinnar og síðan skal nefndin endurskoða hana árlega og má hún breyta henni með ákvörðun sem tekin er með þremur fjórðu meirihluta allra samningsaðilanna.
5. Nefndin skal tilkynna hverjum samningsaðila upphæð framlags sem honum ber að greiða samkvæmt 4. mgr. og innan hvaða dags nefndin hefur ákveðið að greiðslu þessa skuli inna af hendi.
6. Framlag samningsaðila sem gerst hefur aðili að samningi þessum fyrir lok fjárhagsárs skal fyrir það ár greiða hluta í hlutfalli við fjölda heilla mánaða ársins sem óliðnir eru miðað við ársframlag sem reiknað er samkvæmt 4. mgr.
7. Framlög skulu greiðast í mynt þess ríkis þar sem skrifstofa nefndarinnar er staðsett.
8. Hafi samningsaðili ekki staðið skil á framlögum sínum fyrir þann dag sem nefndin hefur ákveðið í tvö ár skal hann ekki eiga rétt á að greiða atkvæði og koma á framfæri mótmælum samkvæmt samningi þessum fyrr en hann hefur fullnægt skyldum sínum, nema nefndin ákveði öðruvísi að ósk þess samningsaðila sem í hlut á.
9. Nefndin skal samþykkja reglur um fundarsköp varðandi fjármál sín.


18. gr.
        Nefndin má með vegnum meirihluta skipta samningssvæðinu niður í svæði og má breyta mörkum og fjölda svæðanna að því tilskildu að sérhver samningsaðili sem hefur fiskveiðilögsögu í einhverjum hluta umrædds svæðis greiði ákvörðuninni atkvæði.

19. gr.
        1. Sérhver samningsaðili getur komið fram með tillögu um breytingu á samningi þessum. Sérhver slík tillaga um breytingu skal send framkvæmdastjóranum a.m.k. 90 dögum fyrir fund þann sem samningsaðilinn leggur til að tillagan verði afgreidd á. Framkvæmdastjórinn skal tafarlaust senda tillöguna til samningsaðilanna.
2. Til þess að tillaga um breytingu hljóti samþykki þarf þrjá fjórðu meirihluta allra samningsaðila. Texta samþykktrar breytingar skal nefndin senda vörsluríkinu sem skal tafarlaust senda hana samningsaðilunum.
3. Breyting skal taka gildi fyrir samningsaðilana 120 dögum eftir dagsetningu tilkynningar vörsluríkisins um móttöku skriflegs samþykkis þriggja fjórðu hluta allra samningsaðila, nema einhver hinna samningsaðilanna tilkynni vörsluríkinu innan 90 daga frá dagsetningu tilkynningar vörsluríkisins um slíka móttöku að það mótmæli breytingunni, og skal þá breytingin ekki taka gildi fyrir neinn samningsaðila. Samningsaðili sem hefur mótmælt breytingu getur hvenær sem er afturkallað mótmæli sín. Séu öll mótmæli við breytingu afturkölluð skal breytingin taka gildi gagnvart öllum samningsaðilum 120 dögum eftir dagsetningu tilkynningar vörsluríkisins um móttöku síðustu afturköllunar.
4. Aðili sem fullgildir, staðfestir, samþykkir eða gerist aðili að samningi þessum eftir að breyting hefur verið samþykkt í samræmi við 2. mgr. skal talinn hafa samþykkt breytinguna.
5. Vörsluríkið skal tafarlaust tilkynna samningsaðilunum móttöku tilkynninga um samþykki á breytingum, móttöku tilkynninga um mótmæli eða afturköllun mótmæla og gildistöku breytinga.


20. gr.
        1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar frá 18. nóvember 1980 til 28. febrúar 1981 fyrir eftirtalda aðila: Búlgaríu, Danmörku vegna Færeyja, Efnahagsbandalag Evrópu, Finnland, Ísland, Kúbu, Noreg, Pólland, Portúgal, Sovétríkin, Spán, Svíþjóð og Þýska alþýðulýðveldið. Hann skal fullgiltur, staðfestur eða samþykktur svo fljótt sem auðið er og skjölum um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki komið í vörslu ríkisstjórnar Hins sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands sem nefnt er í samningi þessum „vörsluríkið“.
2. Samningur þessi öðlast gildi eftir að ekki færri en sjö þeirra sem hafa undirritað hann hafa lagt fram skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki, að því tilskildu að meðal þeirra hafi a.m.k. þrír fiskveiðilögsögu á samningssvæðinu. Hafi samningur þessi hins vegar ekki öðlast gildi innan árs frá þeim degi er hann var lagður fram til undirritunar, en ekki færri en fimm þeirra sem hafa undirritað hann hafa lagt fram skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki, þar á meðal þrír sem hafa fiskveiðilögsögu á samningssvæðinu, geta þessir aðilar samþykkt sín á milli með sérstakri bókun dagsetningu þá er samningur þessi öðlast gildi; með tilliti til hvers þess aðila sem fullgildir, staðfestir eða samþykkir síðar öðlast samningur þessi gildi þann dag er hann leggur fram skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki.
3. Sérhver þeirra aðila sem nefndur er í 1. mgr. og ekki hefur undirritað samning þennan getur gerst aðili að honum hvenær sem er eftir að hann hefur öðlast gildi samkvæmt 2. mgr.
4. Sérhvert ríki sem ekki er nefnt í 1. mgr. að framan, nema aðildarríki Efnahagsbandalags Evrópu, getur gerst aðili að samningi þessum hvenær sem er eftir að hann hefur öðlast gildi samkvæmt 2. mgr., að því tilskildu að umsókn um aðild þess ríkis hljóti samþykki þriggja fjórðu hluta allra samningsaðila.

Umsókn um aðild skal senda skriflega til vörsluríkisins sem skal tilkynna öllum samningsaðilunum um hana. Umsóknin er samþykkt ef, innan 90 daga frá dagsetningu slíkrar tilkynningar, þrír fjórðu allra aðila þeirra, sem samningur þessi hefur þá öðlast gildi gagnvart, hafa tilkynnt vörsluríkinu um samþykki sitt á umsókninni.

Vörsluríkið skal tilkynna ríki því sem sækir um aðild og öllum samningsaðilunum um afgreiðslu umsóknarinnar.

5. Aðild skal ná fram með því að koma skjölum um aðild til vörsluríkisins og skal öðlast gildi á móttökudegi. Frá þeim degi skal hver sá aðili sem gerist aðili að samningi þessum vera bundinn af ályktunum sem eru, þegar hann gerist aðili, bindandi fyrir alla aðra samningsaðila svo og ályktunum sem eru þá bindandi fyrir einn eða fleiri samningsaðila og ekki eru sérstaklega undanskildir af hálfu þess sem gerist aðili í aðildarskjali hans.
6. Vörsluríkið skal tilkynna öllum þeim er undirritað hafa samninginn og öllum sem gerst hafa aðilar að honum um öll skjöl um fullgildingu, staðfestingu, samþykki og aðild sem komið hefur verið í vörslu, og skal tilkynna þeim er undirritað hafa um dagsetningu og þá aðila sem samningur þessi öðlast gildi gagnvart.
7. Vörsluríkið skal boða til fyrsta fundar nefndarinnar svo fljótt sem henta þykir eftir að samningur þessi hefur öðlast gildi og skal senda bráðabirgðadagskrá til allra samningsaðilanna.


21. gr.
        Hvenær sem er eftir að tvö ár eru liðin frá því að samningur þessi hefur öðlast gildi gagnvart samningsaðila getur sá aðili sagt samningnum upp með skriflegri tilkynningu til vörsluríkisins. Sérhver slík uppsögn skal öðlast gildi tólf mánuðum eftir að hún hefur verið móttekin, og skal vörsluríkið tilkynna samningsaðilum um hana.

22. gr.
        Samningi þessum skal komið í vörslu hjá ríkisstjórn Hins sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands og eru textarnir á ensku og frönsku jafngildir. Vörsluríkið skal senda rétt staðfest endurrit til þeirra er hafa undirritað hann og gerst aðilar að honum og skal skrásetja samninginn í samræmi við 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna.