Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 123a. Uppfært til 1. janúar 1999.
Lög um áfengis- og vímuvarnaráð
1998 nr. 76 15. júní
Áfengis- og vímuvarnaráð.1. gr.
Stofna skal áfengis- og vímuvarnaráð sem heyrir undir ráðherra heilbrigðismála.
Tilgangurinn með stofnun áfengis- og vímuvarnaráðs er að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir, sérstaklega meðal barna og ungmenna, og sporna við afleiðingum af neyslu áfengis og annarra vímuefna.
Markmiðið með starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs er að uppræta fíkniefnaneyslu og draga stórlega úr áfengisneyslu. Ráðið skal stuðla að samvinnu og samræmingu milli þeirra sem starfa að áfengis- og vímuvörnum, svo sem heilsugæslu og annarra heilbrigðisstofnana, félagsmálayfirvalda sveitarfélaga, löggæslu, menntakerfis, refsivörslukerfis og félagasamtaka.
Skipan áfengis- og vímuvarnaráðs.2. gr.
Heilbrigðisráðherra skipar átta menn í áfengis- og vímuvarnaráð og jafnmarga til vara til fjögurra ára í senn. Til setu í áfengis- og vímuvarnaráði skal að jafnaði velja einstaklinga sem eru sérfróðir um áfengis- og vímuvarnir. Forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra, utanríkisráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefna hver sinn fulltrúa. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti.
Heilbrigðisráðherra skipar formann og varaformann úr ráðinu.
Verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs.3. gr.
Verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs eru:
- 1. Að hafa eftirlit með að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé framfylgt, sem og stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma.
- 2. Að vera ríkisstjórn og öðrum stjórnvöldum, þar á meðal staðbundnum nefndum sem starfa að áfengis- og vímuvörnum, til ráðuneytis um áfengis- og vímuvarnir, m.a. um þörf á meðferðarúrræðum, og gera tillögur um stefnu stjórnvalda á þessu sviði, með hliðsjón af niðurstöðum rannsókna.
- 3. Að gera tillögur til heilbrigðisráðherra um veitingu styrkja úr Forvarnasjóði til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna.
- 4. Að beita sér fyrir samhæfingu starfa þeirra sem vinna að áfengis- og vímuvörnum, sbr. 3. mgr. 1. gr., m.a. með því að halda reglulega samráðsfundi með fulltrúum þessara aðila.
- 5. Að stuðla að rannsóknum á sviði áfengis- og vímuvarna, m.a. árlegum könnunum á áfengis- og vímuefnaneyslu barna og ungmenna, og fylgjast með tengslum áfengis- og fíkniefnanotkunar og afbrota.
- 6. Að fylgjast með stöðu áfengis- og vímuvarna í grannríkjum og annast samskipti við hliðstæðar stofnanir í nágrannalöndunum.
- 7. Að stuðla að útgáfu fræðslugagna um áfengis- og vímuvarnir og annast gagnasöfnun í vímuefnamálum þannig að hjá ráðinu séu nýjustu og haldbærustu upplýsingar um stöðu mála. Ráðið skal gefa út ársskýrslu um starfsemi sína og stöðu áfengis- og vímuvarna.
- 8. Að annast önnur verkefni sem ráðherra eða ríkisstjórn felur ráðinu.
Dagleg starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs.4. gr.
Heilbrigðisráðherra ræður framkvæmdastjóra að fenginni umsögn áfengis- og vímuvarnaráðs. Framkvæmdastjóri stýrir daglegri starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs og ræður annað starfsfólk ráðsins.
Árlegt ráðstöfunarfé áfengis- og vímuvarnaráðs.5. gr.
Áfengis- og vímuvarnaráð hefur árlega eftirgreinda fjármuni til ráðstöfunar til að sinna hlutverki sínu:
- 1. Forvarnasjóð skv. 8. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi.
- 2. Fjárveitingar samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
- 3. Framlög sem fyrirtæki eða aðrir kunna að leggja af mörkum til starfsemi á vegum ráðsins.
Reglugerðarheimild.6. gr.
Heilbrigðisráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, m.a. um ráðstöfun fjár úr Forvarnasjóði.
Gildistökuákvæði.7. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1998.