Ákveða má, með samningi við Danmörku, Finnland, Noreg og Svíþjóð, að eitt eða fleiri ákvæðanna í A–C hér á eftir, skuli fá gildi. Orðin norrænt samningsríki í greininni eiga við það eða þau ríki, sem gerður er við slíkur samningur.
- A. Þegar beitt er 3. gr. skal meta lögheimili í norrænu samningsríki til 16 ára aldurs til jafns við lögheimili hér á landi. Þó skal sá, sem hlut á að máli, hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 5 árin, þegar yfirlýsing er gefin.
Þegar beitt er 4. gr. skal meta lögheimili í norrænu samningsríki til 12 ára aldurs til jafns við lögheimili hér á landi.
Þegar beitt er 8. gr. skal meta lögheimili í norrænu samningsríki í minnst 7 ár til jafns við lögheimili hér á landi.
- B. Ríkisborgari í norrænu samningsríki, sem
- 1. hefur öðlast ríkisborgararétt þar með öðrum hætti en með lögum eða samsvarandi hætti,
- 2. hefur náð 18 ára aldri,
- 3. hefur átt lögheimili hér á landi síðustu 7 árin, og
- 4. hefur ekki á því tímabili verið dæmdur [í fangelsi]1) eða til að sæta öryggisgæslu eða hælisvist samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga, öðlast íslenskt ríkisfang með því að tilkynna dómsmálaráðherra skriflega þá ósk sína. Ákvæði 5. gr. eiga hér við.
- C. Sá sem misst hefur íslensks ríkisfangs, og hefur síðan óslitið verið ríkisborgari í norrænu samningsríki, öðlast ríkisfang að nýju með því að tilkynna dómsmálaráðuneytinu skriflega þá ósk sína, enda hafi hann þá fengið lögheimili hér á landi. Ákvæði 5. gr. eiga hér við.]2)
1)L. 82/1998, 151. gr.2)L. 49/1982, 9. gr.