Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 123a. Uppfært til 1. janúar 1999.


Lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

1964 nr. 39 19. maí


I. kafli.
Um meðferð ölvaðra manna.
1. gr.
        Þegar lögreglan tekur mann höndum sakir ölvunar, skal hún tilkynna nánustu vandamönnum hans aðgerðir sínar, ef um mann undir 21 árs aldri er að ræða. Sé maður handtekinn vegna ölvunar tvisvar sinnum eða oftar með skömmu millibili, skal lögreglan tilkynna nafn hans til áfengisvarnarráðunauts eða áfengisvarnanefndar, sem heldur spjaldskrá í þessu skyni.
        Þegar um ítrekaðar handtökur er að ræða, eða grunur leikur á, að hinn handtekni sé haldinn drykkjusýki, eða yfirvofandi drykkjusýki, skal lögreglan, að fengnu læknisvottorði, flytja hinn handtekna í sjúkrahús, er veitt getur slíkum sjúklingi viðtöku.
        Nú er ekki völ á rúmi í sjúkrahúsi í þessu skyni, og skal þá veita hlutaðeigandi sjúklingi læknismeðferð, eftir því sem við verður komið.

2. gr.
        Ölvaða menn, sem sæta meðferð samkvæmt ákvæðum 1. gr., skal hafa í gæslu, uns af þeim er runnið, og allt að tveimur sólarhringum til læknisrannsóknar, eftir því sem ástæða þykir til samkvæmt ákvæðum 3. gr.

3. gr.
        Læknir, sem stundar ölvaða menn samkvæmt ákvæðum 1. og 2. gr., skal sjá um, að hlutaðeigandi sjúklingi sé látin í té viðeigandi aðhlynning, en auk þess gerir hann sér far um að kynna sér líkamlegt og andlegt ásigkomulag þeirra, svo og allar aðstæður með tilliti til drykkjuhneigðar þeirra og drykkjuskapar. Komist hann að raun um, að um drykkjusýki eða yfirvofandi drykkjusýki sé að ræða, tilkynnir hann hlutaðeiganda sjálfum, eða aðstandendum hans, eftir því sem við á, niðurstöður sínar og er til ráðuneytis um, hvernig við skuli bregðast.

4. gr.
        Auka skal svo fljótt sem verða má sjúkrahúskost til fullnægingar ákvæðum 1.–3. gr. Kostnaður við byggingu slíkra sjúkrahúsa eða sjúkrahúsadeilda skal greiðast úr gæsluvistarsjóði eftir nánari ákvörðun heilbrigðismálastjórnarinnar.

5. gr.
        Ákvæði 1.–3. gr. raska ekki ákvæðum laga um viðurlög við ölvunarbrotum, enda mega ákvæði þessara laga ekki verða því til hindrunar, að þeim viðurlögum verði komið fram.

6. gr.
        Kostnaður af dvöl á sjúkrahúsi samkvæmt 2. gr. greiðist á sama hátt og annar sjúkrahúskostnaður.

7. gr.
        Ráðherra setur nánari reglur um meðferð ölvaðra manna samkvæmt ákvæðum 1.–3. gr., með sérstöku tilliti til þess, ef um endurtekin tilfelli, drykkjusýki eða yfirvofandi drykkjusýki er að ræða, að hlutaðeigendum gefist kostur á sem fullkomnustum leiðbeiningum og aðstoð sér til viðréttingar, og þá sérstaklega, ef unglingar eiga í hlut.

II. kafli.
Um meðferð drykkjusjúkra manna.
8. gr.
        Meðferð drykkjusjúkra skal vera í höndum lækna, sjúkrahúsa, heilsuverndarstöðva eða annarra stofnana, sem til þess hafa hlotið sérstakt leyfi heilbrigðisstjórnarinnar og háðar eru eftirliti hennar.
        Stofnanir eða einstakir læknar, sem hafa drykkjusjúklinga til meðferðar, skulu senda landlækni, eða þeim, er hann ákveður, upplýsingar á þar til gerðum eyðublöðum, er skrifstofa landlæknis lætur í té.

9. gr.
        Á geðsjúkrahúsi ríkisins og síðar á móttökudeild þess, er byggð verður, skal vera unnt að veita drykkjusjúklingum meðferð og framkvæma á þeim nauðsynlegar rannsóknir. Í þessu skyni skal auka sjúkrarými stofnananna, svo að unnt verði að vista þar drykkjusjúka til skammrar sjúkrahúsmeðferðar. Í tengslum við geðsjúkrahúsið eða móttökudeild þess skal reka lækningastöð fyrir þá, sem ekki þarfnast innlagningar, svo og til eftirmeðferðar þeirra, sem innlagðir hafa verið. Í tengslum við geðsjúkrahúsið skal enn fremur reisa og reka sérstök hæli til meðferðar þeirra, sem ekki er talið að veitt verði viðhlítandi meðferð á annan hátt; hér með talin deild á sjúkrahúsinu fyrir þá, sem haldnir eru psychoses alcoholicae eða alcoholismus symptomaticus in aliis psychosibus.
        Til þess að mæta hinum auknu störfum, sem ákvæði þessarar greinar leggja á geðsjúkrahúsið, skal ráða sérstakan aðstoðaryfirlækni, er hafi m.a. með höndum meðferð drykkjusjúkra í sjúkrahúsinu og fyrir- og eftirmeðferð í lækningastöð. Annað starfslið, sem nauðsynlegt kann að þykja til að fullnægja þessum störfum, skal heimilt að ráða eftir þörfum.

10. gr.
        Vilji bæjarfélag eða samtök, sem starfa að bindindis- eða líknarmálum og fengið hafa leyfi heilbrigðismálastjórnarinnar, reisa og reka á sinn kostnað lækningastöð eða hæli til aðhlynningar og lækningar drykkjusjúku fólki, er heimilt að veita til þess styrk úr gæsluvistarsjóði, að því tilskildu, að heilbrigðismálastjórn staðfesti reglugerð slíkra stofnana, enda séu þær háðar eftirliti hennar.

11. gr.
        Til hælisvistar skv. 9. og 10. gr. verða teknir:
1. Þeir, sem sækja sjálfir um að verða aðnjótandi slíkrar vistar í allt að sex mánuði. Umsóknin skal undirrituð af umsækjanda í viðurvist tveggja vitundarvotta, sem staðfesta, að undirskriftin sé gerð af fúsum og frjálsum vilja og að umsækjandi hafi verið vel fær um að gera sér grein fyrir þeirri skuldbindingu, er í umsókninni fólst.
2. Þeir, sem sviptir eru sjálfræði vegna drykkjusýki.
3. Þeir, sem undirgangast fyrir [dómi]1) að sæta hælisvist allt að sex mánuði.
4. Þeir, sem dæmdir eru til hælisvistar, sbr. 65. gr. laga nr. 19 12. febrúar 1940.

        Tekið skal fram í umsókn, sbr. tölul. 1, og yfirlýsingu fyrir dómi, sbr. tölul. 3, að umsækjandi gangist undir að virða í einu og öllu þær reglur, sem um hælisvist eru settar.

1)L. 92/1991, 41. gr.


12. gr.
        Sá, sem fengið hefur hælisvist skv. 1.–3. tölul. 11. gr., skal dvelja á hælinu svo lengi sem læknir þess ákveður. Þó skal sjúklingur, er hlotið hefur hælisvist skv. 1. eða 3. tölul. 11. gr., aldrei dvelja lengur á hæli en hann hefur skuldbundið sig til með umsókn, þ.e. í mesta lagi sex mánuði, nema samþykki hans komi til að nýju.
        Sá, sem dæmdur hefur verið til hælisvistar skv. 4. tölul. 11. gr., skal hlíta vistinni svo lengi sem segir í 65. gr. laga nr. 19 12. febrúar 1940.
        Nú fer sá, sem fengið hefur hælisvist samkvæmt ákvæðum þessara laga, heimildarlaust af hæli, þar sem hann dvelst, og er þá heimilt að þröngva honum, eftir atvikum með lögregluvaldi, í vistina á ný og til að hlíta henni, uns lokið er þeim tíma, sem segir í 1. og 2. mgr. þessarar greinar.

13. gr.
        Hælisvist fylgir vinnuskylda, eftir því sem yfirlæknir hælisins segir fyrir um eða aðstoðarlæknir hans eða aðrir í hans umboði.

14. gr.
        Hver sá, er gefur eða veitir áfengi þeim, sem honum vitanlega er í meðferð vegna drykkjusýki eða aðstoðar hann við útvegun áfengis, skal sæta sektum.

15. gr.
        Um greiðslu kostnaðar vegna hælisvistar fer eftir lögum nr. 78 1936,1) um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla.

1)l. 117/1993.


16. gr.
        Ráðherra setur nánari reglur um meðferð drykkjusjúkra manna samkvæmt lögum þessum, þar á meðal með hverjum skilyrðum þeim verði veitt hælisvist, rekstur hæla skv. 9. gr., vist þar, vinnu vistmanna, svo og aðrar skyldur þeirra og réttindi.1)

1)Rg. 227/1969 (um vistheimilið Bláa bandið).


III. kafli.
1)

1)L. 144/1995, 48. gr.

IV. kafli.
Um meðferð þeirra, er misnota önnur slævandi eða örvandi efni.
18. gr.
        Ráðherra er heimilt að ákveða, að lög þessi taki einnig til þeirra, sem misnota önnur slævandi eða örvandi efni, að því leyti, sem við getur átt, og skal þá sérstök reglugerð sett þar um.

V. kafli.
Niðurlagsákvæði.
19. gr.
        Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda eftir því sem skilyrði verða fyrir hendi til að fullnægja ákvæðum þeirra. …