Í lögum þessum merkir:
- 1. Verðbréfaviðskipti: Starfsemi skv. 8. og 9. gr. sem stunduð er af fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu sem til þess hafa starfsleyfi viðskiptaráðherra.
- 2. Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu:
- a. Verðbréfafyrirtæki sem fengið hefur leyfi viðskiptaráðherra til að stunda starfsemi skv. 8. gr., svo og þeir sem hafa rétt til að stunda slíka starfsemi hér á landi samkvæmt lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
- b. Verðbréfamiðlun sem fengið hefur leyfi viðskiptaráðherra til að stunda starfsemi skv. 9. gr., svo og þeir sem hafa rétt til að stunda slíka starfsemi hér á landi samkvæmt lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Ákvæði III. kafla eiga við um verðbréfamiðlun eftir því sem við getur átt.
- 3. Verðbréf:
- a. Hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum.
- b. Skilyrt skilríki til peningagreiðslu á grundvelli tiltekins verðbréfs eða verðbréfa skv. a-lið.
- 4. Almennt útboð: Sala samkynja verðbréfa sem boðin eru almenningi til kaups í fyrsta sinn með almennri og opinberri auglýsingu eða kynningu með öðrum hætti sem jafna má til opinberrar auglýsingar, enda séu verðbréf í sama flokki ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði.
- 5. Fastur rekstrarkostnaður: Rekstrargjöld að frátöldum fjármagnsgjöldum og óreglulegum gjöldum.
- 6. Fjárvarsla: Þjónusta, veitt samkvæmt sérstökum samningi gegn endurgjaldi sem felur í sér að taka við fjármunum til fjárfestingar í verðbréfum eða öðrum verðmætum fyrir eigin reikning viðskiptamanns.
- 7. Gistiríki: Ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem innlent fyrirtæki í verðbréfaþjónustu starfrækir útibú eða veitir þjónustu.
- 8. Heimaríki:
- a. Ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem lögaðili, sem hefur heimild til að stunda verðbréfaviðskipti hér á landi, hefur skráða skrifstofu eða, hafi hann enga skráða skrifstofu í samræmi við eigin landslög, það ríki þar sem hann hefur aðalskrifstofu.
- b. Ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem skipulegur verðbréfamarkaður hefur skráða skrifstofu eða, hafi markaðurinn enga skráða skrifstofu í samræmi við eigin landslög, það ríki þar sem hann hefur aðalskrifstofu.
- 9. Náin tengsl: Innbyrðis tengsl tveggja eða fleiri lögaðila sem fela í sér beina eða óbeina hlutdeild þessara aðila sem nemur a.m.k. 20% af eigin fé eða atkvæðisrétti fyrirtækis. Einnig er um náin tengsl að ræða ef fyrrgreindir aðilar, eða dótturfélög þeirra, hafa vegna samninga yfirráð í fyrirtæki eða sambærileg innbyrðis tengsl eins eða fleiri lögaðila eða einstaklinga við fyrirtæki.
- 10. Skipulegur verðbréfamarkaður:
- a. [Kauphöll sem hlotið hefur starfsleyfi hér á landi og hliðstæðar kauphallir innan Evrópska efnahagssvæðisins.]1)
- b. Aðrir verðbréfamarkaðir innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem verðbréf ganga kaupum og sölum og sem eru opnir almenningi, starfa reglulega og eru viðurkenndir með þeim hætti sem [Fjármálaeftirlitið]2) metur gildan.
- c. Markaðir skv. a- og b-lið sem staðsettir eru í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og eru viðurkenndir með þeim hætti sem [Fjármálaeftirlitið]2) metur gildan.
- 11. Sölutrygging: Samningur milli fyrirtækis í verðbréfaþjónustu skv. 8. gr. og útgefanda eða eiganda verðbréfa þar sem fyrirtækið skuldbindur sig til þess að kaupa ákveðinn hluta eða öll verðbréf í tilteknu útboði innan fyrir fram ákveðinna tímamarka og á fyrir fram ákveðnu verði.
- 12. Veltubók: Verðbréf sem fyrirtæki í verðbréfaþjónustu hefur eignast eða heldur eftir með endursölu í huga og/eða í því skyni að hagnast á skammtímabreytingum á markaðsvirði þessara skjala eða öðrum verð- eða vaxtabreytingum. Jafnframt teljast til veltubókar stöður í fjármálaskjölum sem verða til við samtímis skipti á höfuðstólsfjárhæðum, svo og fjármálasamningar sem fyrirtæki í verðbréfaþjónustu er aðili að í því skyni að baktryggja aðra þætti veltubókar. Til veltubókar teljast enn fremur áhættuþættir tengdir óuppgerðum og ófrágengnum viðskiptum og afleiddum skjölum sem verslað er með innan og utan verðbréfamarkaðar, svo og áhættuþættir er tengjast skuldbindingum fyrirtækis í verðbréfaþjónustu sem myndast vegna viðskipta með verðbréf í veltubók.
- 13. Verðbréfafyrirtæki: Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skv. a-lið 2. tölul.
- 14. Verðbréfamiðlun: Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skv. b-lið 2. tölul.
- 15. Viðskiptavaki: Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skv. 8. gr. eða annar aðili sem til þess hefur heimild samkvæmt lögum og hefur skuldbundið sig formlega til að kaupa og selja fyrir eigin reikning tiltekin verðbréf, í því skyni að greiða fyrir því að markaðsverð skapist á verðbréfunum, og tilkynnt það opinberlega.
- 16. Virkur eignarhluti: Bein eða óbein eignarhlutdeild í fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sem nemur 10% eða meira af eigin fé þess eða atkvæðisrétti eða önnur hlutdeild sem gerir það kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun fyrirtækis sem eignarhlutdeild er í.
1)L. 35/1998, 1. gr.2)L. 84/1998, 1. gr.
II. kafli.Leyfi til verðbréfaviðskipta.