1966 nr. 35 29. apríl/ Lög um Lánasjóð sveitarfélaga
Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 123a. Uppfært til 1. janúar 1999.
Lög um Lánasjóð sveitarfélaga
1966 nr. 35 29. apríl
1. gr. Stofna skal Lánasjóð sveitarfélaga. Sjóðurinn er sjálfstæð stofnun, sameign allra sveitarfélaga á Íslandi, en þau bera þó ekki ábyrgð á skuldbindingum hans umfram hin árlegu tillög sín til sjóðsins. Sjóðurinn lýtur sérstakri stjórn, sbr. 3. gr. laga þessara, og starfar undir yfirumsjón ríkisstjórnarinnar.
2. gr. Hlutverk Lánasjóðs sveitarfélaga er:
- 1. Að veita sveitarfélögum stofnlán til nauðsynlegra framkvæmda eða fjárfestinga, sem eru svo kostnaðarsamar, að fjár til þeirra verði ekki aflað af tekjum sveitarfélagsins, nema á löngum tíma. Enn fremur að aðstoða sveitarfélög við öflun stofnlána og hafa milligöngu um töku þeirra.
- 2. Að annast samninga við lánastofnanir um bætt lánakjör sveitarfélaga, sem búa við óhagstæð lánakjör og óska aðstoðar sjóðsins í þessu skyni, eða veita þeim, eftir því sem fært er, lán til greiðslu óhagstæðra lána, ef samningar takast ekki um bætt lánakjör við hlutaðeigandi lánastofnanir.
- 3. Að aðstoða sveitarfélög við útvegun nauðsynlegra rekstrarlána hjá bönkum og sparisjóðum.
- 4. Að stuðla að því að sveitarfélögin verði traustir og skilvísir lántakendur, sem þurfi ekki að setja tryggingar fyrir lánum, sem þeim eru veitt, nema sérstaklega standi á.
3. gr. Stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga skipa fimm menn valdir eins og hér segir: Fulltrúaráð Sambands íslenskra sveitarfélaga kýs fjóra menn í stjórnina, en ráðherra skipar einn mann og er hann formaður stjórnarinnar. Varamenn skulu vera jafnmargir og valdir með sama hætti.
Kjörtímabil stjórnarinnar er fjögur ár.
4. gr. Stjórn sjóðsins tekur ákvarðanir um allar lánveitingar úr sjóðnum og önnur verkefni sjóðsins, samkvæmt 2. gr. laga þessara.
Hún ræður sjóðnum framkvæmdastjóra, sem annast bókhald fyrir sjóðinn og daglega afgreiðslu á vegum hans eftir nánari fyrirmælum stjórnarinnar. Samþykki stjórnarinnar þarf fyrir ráðningu aðstoðarfólks. Hún ákveður laun starfsfólks í samræmi við launagreiðslur starfsmanna ríkisins, eftir því sem við getur átt.
Stjórninni er heimilt að semja við stjórn Bjargráðasjóðs Íslands um sameiginlega framkvæmdastjórn og afgreiðslu fyrir Lánasjóð sveitarfélaga og Bjargráðasjóð Íslands.
Ráðherra ákveður þóknun til stjórnarnefndarmanna fyrir störf þeirra.
Allur kostnaður við rekstur sjóðsins greiðist úr sjóðnum.
5. gr. [Ráðstöfunarfé Lánasjóðs sveitarfélaga er sem hér segir:
- a. Árlegt framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, er nema skal 5% af vergum tekjum sjóðsins.
- b. Árlegt framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvæðum fjárlaga. Skal framlagið nema eigi lægri upphæð en 21/2% af tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á viðkomandi ári.
- c. Árlegt lán úr Framkvæmdasjóði Íslands.
- d. Aðrar lántökur.
- e. Afborganir og rekstrartekjur.
Framlag Jöfnunarsjóðs greiðist þannig: Þriðjungur fyrir 1. maí, þriðjungur fyrir 1. september og eftirstöðvarnar fyrir 1. desember.]1)
1)L. 99/1974, 1. gr.
6. gr. Til þess að afla sjóðnum lánsfjár, samkvæmt c- og d-lið 5. gr., er stjórn hans heimilt að gefa út skuldabréf fyrir hönd sjóðsins. [Stjórninni er þó ekki heimilt að gefa út og selja skuldabréf og aðrar endurgreiðanlegar skuldaviðurkenningar til almennings.]1) Samanlagðar skuldbindingar sjóðsins vegna útgáfu verðbréfa svo og ábyrgða skv. 10. gr., mega ekki nema hærri fjárhæð en þrefaldri hreinni eign hans á hverjum tíma. Ráðherra ákveður afborganir og vaxtakjör og gerð verðbréfa þessara í samráði við stjórn Seðlabanka Íslands, að fengnum tillögum sjóðsstjórnarinnar.
1)L. 49/1995, 1. gr.
7. gr. Nú hyggst sveitarfélag sækja um lán úr sjóðnum, samkvæmt 2. gr. 1.–2. tölul., og skal það þá senda bráðabirgðaáætlun um lánsfjárþörf sína á næsta ári til sjóðsstjórnar fyrir 30. september, en endanleg umsókn ásamt gögnum þeim, sem um ræðir í 8. gr., skal send fyrir 31. janúar ár hvert.
Nú hrekkur ráðstöfunarfé sjóðsins, sbr. 5.–6. gr., ekki til þess að greiða úr lánaþörfinni samkvæmt áætlun sjóðsstjórnar, og skal stjórnin þá beita sér fyrir útvegun þess fjármagns, sem á vantar, í samráði við ráðherra og stjórn Seðlabanka Íslands.
8. gr. Sjóðsstjórnin lætur gera eyðublöð undir umsóknir um lán og aðra þá aðstoð, sem um ræðir í 2. gr. laga þessara.
Umsókn til sjóðsstjórnar skulu fylgja eftirtalin gögn:
- 1. Ársreikningar sveitarfélagsins fyrir síðasta reikningsár, ef fullgerðir eru, annars reikningar næstsíðasta reikningsárs.
- 2. Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir yfirstandandi ár.
- 3. Kostnaðaráætlun vegna þeirra framkvæmda eða fjárfestinga, sem um ræðir í 2. gr. 1. tölul., eða greinargerð um óhagstæð lán, sbr. 2. gr. 2. tölul., eða greinargerð um rekstrarlánaþörf, sbr. 2. gr. 3. tölul., allt eftir því sem við á.
- 4. Aðrar þær upplýsingar, sem sveitarstjórn telur skipta máli í sambandi við umsóknina.
9. gr. Skilyrði fyrir því, að lán verði veitt úr Lánasjóði sveitarfélaga, eru þessi:
- 1. Að ársreikningar sveitarfélagsins hafi verið gerðir samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 58/1961.1)
- 2. Að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins hafi verið gerð samkvæmt sömu lögum.
- 3. Að umsækjandi sé ekki í vanskilum við sjóðinn vegna eldri lána, sem veitt hafa verið.
- 4. Að fjárhagur sveitarfélagsins sé, að dómi sjóðsstjórnar, svo traustur, að telja megi vísa greiðslu afborgana og vaxta á umsömdum tíma, ella verði sett trygging fyrir láninu, sem sjóðsstjórn metur gilda.
- 5. Að sveitarfélaginu sé að dómi sjóðsstjórnar nauðsyn á umbeðnu láni að nokkru eða öllu leyti vegna framkvæmda, sem gera þarf í sambandi við þau verkefni, sem sveitarfélagið annast skv. 10. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 58/1961,1) stafliðum A og B a, ef um er að ræða lán skv. 2. gr. 1. tölul. þessara laga.
- 6. Önnur þau skilyrði, sem sjóðsstjórn kann að setja fyrir lánveitingunni.
1)Nú l. 8/1986.
10. gr. Lánasjóði sveitarfélaga er heimilt að takast á hendur sjálfsskuldarábyrgð á rekstrarlánum sveitarfélaga, sbr. 2. gr. 3. tölul., og á lánum sveitarfélaga til þess að greiða fyrir bættum lánskjörum, sbr. 2. gr. 2. tölul., enda hafi hlutaðeigandi sveitarfélag þá ætíð sett tryggingu vegna ábyrgðarinnar, sem sjóðsstjórnin metur gilda, sbr. 9. gr. 4. tölul.
Fjárhæð þeirra ábyrgða, sem sjóðsstjórnin tekst á hendur vegna rekstrarlána sveitarfélaga, skal háð því, hve mikið sjóðurinn á í handbæru fé. Nánari ákvæði um hlutfallið á milli handbærs fjár og samanlagðra rekstrarlánaábyrgða setur ráðherra.
11. gr. Ríkisstjórnin ákveður vexti af lánum sjóðsins í samráði við Seðlabanka Íslands.
Fjárhæð stofnlána má vera allt að 75% af áætluðu kostnaðarverði hlutaðeigandi framkvæmda, sem sveitarsjóði er ætlað að leggja fram.
Sjóðsstjórnin ákveður lánstíma í hverju einstöku tilfelli, en lánstími má þó aldrei vera lengri en 20 ár.
12. gr. Til þess að standast kostnað af rekstri sjóðsins ber sveitarfélögunum að greiða til sjóðsins eftirtalin gjöld:
- 1. Lántökugjald, er vera skal 1% af lánsfjárhæð þeirra lána, sem sjóðurinn veitir.
- 2. Gjald vegna ábyrgða þeirra, sem sjóðurinn tekst á hendur samkvæmt 10. gr. og vera skal 1/2% af hverri ábyrgðarfjárhæð.
Gjöld samkvæmt grein þessari skulu greidd um leið og lán er afgreitt eða ábyrgð veitt.
[Skuldabréf fyrir lánum, sem sjóðurinn tekur og veitir, skulu undanþegin stimpilgjöldum.]1)
1)L. 99/1974, 2. gr.
13. gr. Nú vanrækir sveitarfélag greiðslu afborgana og vaxta af lánum úr sjóðnum á réttum gjalddaga, og getur ráðherra þá greitt vanskilin af framlagi hlutaðeigandi sveitarfélags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eftir því, sem til vinnst. Sama gildir um greiðslur, sem Lánasjóður sveitarfélaga kann að hafa innt af hendi vegna ábyrgða, sem hann hefur tekist á hendur samkvæmt 10. gr.
14. gr. Heimilt skal sveitarstjórnum að koma til geymslu og varðveislu í Lánasjóði sveitarfélaga sjóðum, sem eru í eign eða umsjá sveitarfélaga, og fela honum að ávaxta þá og hafa á hendi reikningshald þeirra og afgreiðslu, ef um getur samist.
15. gr. Reikningsár Lánasjóðs sveitarfélaga er almanaksárið.
Ársreikningar sjóðsins skulu gerðir fyrir janúarlok ár hvert.
Fjármálaráðherra skipar tvo endurskoðendur til þess að endurskoða reikninga sjóðsins, annan án tilnefningar, og skal hann vera löggiltur, en hinn eftir tilnefningu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skulu þeir hafa lokið endurskoðun reikninga sjóðsins fyrir marslok ár hvert.
Að endurskoðun lokinni afgreiðir stjórn sjóðsins reikningana til félagsmálaráðherra, sem úrskurðar þá.
Reikninga sjóðsins skal birta í B-deild Stjórnartíðinda.
16. gr. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara að fengnum tillögum sjóðsstjórnar.