Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur eftirfarandi hlutverk:1)
- 1. Sjóðurinn skal fjármagna stofnkostnað þjónustustofnana fatlaðra, sbr. 9. gr., og heimila fatlaðra skv. 3.–6. tölul. 10. gr. sem eru á vegum ríkisins.
- 2. Sjóðurinn fjármagnar þjónustustofnanir og heimili fatlaðra á vegum sveitarfélaga, sbr. 1. tölul., eftir því sem nánar er kveðið á um í samningum skv. 13. gr.
- 3. Heimilt er sjóðnum að veita félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum styrk til að koma á fót þjónustustofnunum og heimilum fatlaðra, sbr. 1. tölul.
- 4. Sjóðnum er heimilt að veita framkvæmdaraðilum félagslegra leiguíbúða og kaupleiguíbúða í leigu, sbr. lög um Húsnæðisstofnun ríkisins og 1. og 2. tölul. 10. gr. laga þessara, styrk til greiðslu framlags sem framkvæmdaraðilum ber að leggja fram samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. [Styrkur þessi má ná til alls framlags framkvæmdaraðila.]2) Framlag Framkvæmdasjóðs samkvæmt þessu ákvæði er endurkræft sé íbúð tekin til annarra nota en í þágu fatlaðra.
- 5. Heimilt er að verja allt að 10% af ráðstöfunarfé sjóðsins til lagfæringa á aðgengi opinberra bygginga með það að markmiði að hreyfihamlaðir og blindir geti athafnað sig með eðlilegum hætti. Framlag úr sjóðnum skal aldrei vera meira en sem nemur helmingi af kostnaði vegna hverrar einstakrar framkvæmdar.
- 6. Heimilt er að verja allt að 25% af ráðstöfunarfé sjóðsins til meiri háttar viðhaldsframkvæmda, sem ekki falla undir rekstrarviðhald í skilningi fjárlaga, á þeim heimilum fatlaðra og þjónustustofnunum fatlaðra, sbr. 1.–3. tölul., sem byggðar/keyptar hafa verið og falla innan gildissviðs þessara laga. Úthlutun þess fjár sem varið er til viðhaldsframkvæmda skal vera í höndum félagsmálaráðuneytis.
- 7. Auk verkefna skv. 1.–6. tölul. er Framkvæmdasjóði fatlaðra heimilt að veita fé til annarra framkvæmda sem nauðsynlegar eru taldar í þágu fatlaðra, svo sem breytinga á almennum vinnustöðum þar sem fatlaðir starfa. Enn fremur er sjóðnum heimilt að veita fé til kannana og áætlana í málefnum fatlaðra.
1)Sjá einnig ákvæði l. 158/1998, 4. gr.2)L. 161/1996, 4. gr.
XVII. kafli.Fjármögnun og rekstur.
Stofnkostnaður.