Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 123a. Uppfært til 1. janúar 1999.
Tilskipun um aðgang herskipa og herloftfara erlendra ríkja, er ekki eiga í ófriði, að íslensku forráðasviði
1939 nr. 44 24. júlí
I. kafli.Erlend herskip.
1. gr. Herskipum erlendra ríkja, sem ekki eiga í ófriði er frjálst að koma á íslenskar hafnir og í aðra íslenska landhelgi, enda hafi koma þeirra verið fyrirfram tilkynnt opinbera boðleið, og ekki annað ákveðið í sérstökum dæmum. Þó skal ekki fleirum en þremur herskipum sama ríkis heimilt að dvelja í sömu íslenskri höfn, og ekki má dvöl herskips í höfn vera lengri en 15 dagar.
Undanþágu frá ákvæðum þessarar greinar er hægt að gera með sérstöku leyfi, fengnu opinbera boðleið.
2. gr. Undanþegin ákvæðum 1. gr. eru:
- a. herskip, sem flytur erlendan þjóðhöfðingja eða opinberan fulltrúa hans, svo og þau skip, er því fylgja, enda séu þau ekki fleiri en þrjú,
- b. herskip, sem lenda í sjávarháska,
- c. herskip, sem ætluð eru einungis til eftirlits með fiskveiðum eða til vísindalegra rannsókna,
- d. herskip, sem sigla viðstöðulaust gegnum íslenska landhelgi (passage inoffensif).
3. gr. Erlendu herskipi er óheimilt að framkvæma sjómælingar eða dýptarmælingar (aðrar en þær, sem nauðsynlegar eru skipinu á ferð þess) og að halda hvers konar heræfingar í íslenskri landhelgi eða á íslensku landi.
Erlendur kafbátur skal jafnan vera ofansjávar, meðan hann heldur sig innan íslenskrar landhelgi.
4. gr. Erlendu herskipi er skylt að fylgja á íslensku forráðasviði gildandi ákvæðum um hollustuháttu, hafnsögu og tollgæslu.
5. gr. Erlendum herskipum er skylt að leggjast við akkerisfestar á þann stað í íslenskri höfn, eða skipalægi, er hlutaðeigandi hafnaryfirvöld, ef til eru, benda þeim á, og er samkvæmt beiðni skylt að flytja sig til í höfn eða skipalægi, eftir nánari tilvísun.
Leyfi, sem gefin hafa verið erlendum herskipum til að dvelja í íslenskri höfn eða á íslensku skipalægi, eru afturkallanleg hvenær sem er.
6. gr. Áhöfn erlends herskips, sem liggur í íslenskri höfn, er óheimilt að bera vopn í landi, þó skal liðsforingjum, undirforingjum og liðsforingjaefnum heimilt að bera þau vopn í landi, er tilheyra einkennisbúningi þeirra.
II. kafli.Erlend herloftför.
7. gr. Erlendum herloftförum er bannað að koma á íslenskt forráðasvið, nema samkvæmt áður fengnu leyfi opinbera boðleið. Undanþegin ákvæðum þessarar greinar eru:
- a. loftfar, sem flytur erlendan þjóðhöfðingja eða opinbera fulltrúa hans, svo og þau loftför, er því fylgja, enda séu þau ekki fleiri en þrjú,
- b. loftfar, sem haft er meðferðis á erlendu herskipi, er það dvelst í eða siglir um íslenska landhelgi,
- c. loftfar, sem er í háska statt.
8. gr. Loftfari, sem haft er meðferðis á erlendu herskipi, sem dvelst í eða siglir um íslenska landhelgi, er óheimilt að hefja sig til flugs á íslensku forráðasviði, nema að fengnu leyfi samkvæmt undanfarandi grein, og skulu með leyfisbeiðninni fylgja þær upplýsingar, er getur í næstu grein hér á eftir.
9. gr. Beiðni um leyfi það, sem um ræðir í 7. gr., skulu fylgja upplýsingar um eftirfarandi atriði:
- 1. Tölu þeirra herloftfara, er taka eiga þátt í fluginu.
- 2. Tegund og einkenni loftfaranna.
- 3. Ráðgerða leið yfir íslenskt forráðasvið.
- 4. Staði þá, sem ráðgert er að heimsækja.
- 5. Komu- og brottfarartíma.
- 6. Sé um loftfar með þráðlausum firðritunar- eða firðtalstækjum að ræða, skulu tilgreind hin ýmsu kallmerki.
- 7. Áhöfn og tölu hennar.
- 8. Vopnaútbúnað loftfaranna.
- 9. Myndatæki, sem loftför hafa meðferðis.
10. gr. Erlend herloftför skulu á íslensku forráðasviði fylgja vandlega gildandi ákvæðum, sem sett eru til öryggis loftferðum.
Heimilt er að hafa í herloftfari vopn, án skothleðslna, svo og ljósmyndatæki án annars útbúnaðar til myndatöku.
Erlendum herloftförum er bannað að halda heræfingar á íslensku forráðasviði.