Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 123a. Uppfært til 1. janúar 1999.


Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að láta öðlast gildi alþjóðleg einkamálaréttarákvæði í samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um hjúskap, ættleiðingu og lögráð

1931 nr. 29 8. september


1. gr.
        Ríkisstjórninni er heimilt að ákveða með auglýsingu í Stjórnartíðindunum, að samningur sá, er undirritaður var í Stokkhólmi þann 6. febrúar 1931 milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar og prentaður er sem fylgiskjal með lögum þessum, um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, skuli öðlast gildi.

Fylgiskjal.

Samningur.

I.
Hjúskapur.
1. gr.
        [Nú óskar ríkisborgari einhvers samningsríkjanna könnunar á hjónavígsluskilyrðum eða lýsingar hjá stjórnvaldi einhvers hinna ríkjanna, og skal þá kanna rétt hans til að ganga í hjúskap eftir lögum þess ríkis, enda eigi annað hjónaefna þar heimili, en ella eftir lögum þess ríkis, þar sem hann á ríkisfang. Ætíð skal þó beita lögum þess ríkis, sem hjónaefnið á ríkisfang í, ef það óskar þess. Nú skal kanna rétt til að ganga í hjúskap eftir lögum þess ríkis, þar sem hjónaefni á ríkisfang, og getur hlutaðeigandi stjórnvald þá krafist þess, að rétturinn sé sannaður með vottorði, sem gefið var út af stjórnvöldum þess ríkis, sem það á ríkisfang í.
        Nú er svo fyrir mælt í lögum samningsríkis, sem hjónaefni á heimilisfesti í, að foreldrar þess eða lögráðamaður samþykki ráðahaginn, og skal þá eftir því farið, þótt slíks samþykkis sé ekki krafist í lögum þess ríkis, þar sem könnun hjónavígsluskilyrða fer fram.
        Um könnunina og lýsinguna gilda að öðru leyti lög þess ríkis, sem hlutaðeigandi stjórnvald heyrir til.]1)

1)L. 95/1973, 1. gr. fylgiskjals.


2. gr.
        [Hafi könnun á hjónavígsluskilyrðum eða lýsing átt sér stað hjá stjórnvaldi einhvers samningsríkjanna, getur stjórnvald í öðru samningsríki, meðan könnun eða lýsing er enn í gildi, framkvæmt hjónavígslu án nýrrar könnunar eða lýsingar. Gildir þetta án tillits til þess, hvort aðilarnir eiga ríkisfang í einhverju samningsríkjanna.
        Um hjónavígsluna gilda að öðru leyti lög þess ríkis, sem vígslumaðurinn heyrir til.]1)

1)L. 98/1969, 2. gr. fylgiskjals.


3. gr.
        Um réttaráhrif hjúskapar milli þeirra, sem eiga ríkisfesti í einhverju samningsríkjanna, eða áttu hana, er þau gengu í hjúskapinn, skal, að því er snertir fjármál hjónanna, dæma eftir lögum þess af ríkjunum, er hjónin tóku sér heimilisfesti í, er þau gengu í hjúskapinn. Hafi hvorttveggja hjónanna síðar tekið sér heimilisfesti í einhverju hinna ríkjanna, skal beita lögum þess ríkis í stað hinna, enda sé eigi um að ræða áhrif löggernings, er fyrr var gerður.
        Um heimild annarshvors hjóna til að ráða yfir fasteign eða yfir réttindum, sem sett eru á borð með þeim, skal, ef eignin er í einhverju af ríkjunum, jafnan dæma eftir lögum þess ríkis.

4. gr.
        Kaupmálar milli þeirra, sem eiga ríkisfesti í samningsríkjunum, og áttu hana, er þau gengu í hjúskapinn, og sem þá tóku sér heimilisfesti í einhverju af ríkjunum, skulu metnir gildir, að því er form þeirra snertir, í sérhverju samningsríkjanna, ekki aðeins þegar laga þeirra hefir verið gætt, er samkvæmt 3. gr. ráða fjármálum hjónanna, heldur einnig er kaupmálinn fullnægir fyrirmælum um form í því ríki, er báðir aðiljar eða annar þeirra á ríkisfesti í.
        Sérhvert ríkjanna getur gert það að skilyrði fyrir gildi kaupmála gagnvart þriðja manni, að honum hafi verið þinglýst eða hann tilkynntur til dómstóls samkvæmt þeim lögum, er þar gilda.

5. gr.
        Beiðni um slit á fjárfélagi hjóna, sem svo er ástatt um sem segir í 4. gr., skal úrskurða í því ríki, er hvorttveggja hjónanna á heimilisfesti í. Ef þau eiga heimilisfesti hvort í sínu ríki, skal beiðnina úrskurða í því ríki, er það hjóna á heimilisfesti í, sem kröfunni er beint gegn, eða eigi það heimilisfesti í Finnlandi, þá í ríki þeirra laga, er samkvæmt 3. gr. ráða fjármálum hjónanna.

6. gr.
        Beri samkvæmt lögum einhvers þess ríkis, er hér ræðir um, að dæma um réttaráhrif hjúskapar eftir hinni eldri hjúskaparlöggjöf, þá eiga 3.–5. gr. ekki við um þau hjónabönd.

7. gr.
        [Krafa um skilnað að borði og sæng eða fullan lögskilnað hjóna, sem eru ríkisborgarar í samningsríkjunum, ákvarðast í því ríki, sem bæði hjónanna eiga heimilisfang í, eða þau hafa seinast átt búsetu í samtímis og annað þeirra á enn þá heimilisfang í.
        Nú er ekki samkvæmt fyrstu málsgrein hægt að ákvarða um málið í neinu ríkjanna, og má þá gera út um málið í því ríki, þar sem annað hjónanna á ríkisfang.
        Lögskilnað eftir skilnað að borði og sæng má ávallt veita í ríki, sem bæði hjónanna eiga ríkisborgararétt í.]1)

1)L. 62/1954, 7. gr. fylgiskjals.

8. gr.
        Í sambandi við kröfu um skilnað að borði og sæng eða um lögskilnað getur sama yfirvald eða annað gert ákvarðanir um sambúðarslit um stundarsakir, um búskipti, skaðabótagreiðslur, framfærsluskyldu og foreldravald.
        Ágreining, er síðar rís um framfærsluskyldu og foreldravald, skal úrskurða í ríki því, sem það hjónanna, er kröfunni er beint gegn, á heimilisfesti í. Þetta gildir einnig að því er tekur til breytinga á ákvörðun, sem gerð hefir verið í einhverju af hinum ríkjunum. Séu lög þess ríkis, þar sem úrskurður gekk um skilnað að borði og sæng eða um lögskilnað, því til fyrirstöðu, að síðar sé ákveðið eða hækkað meðlag til maka, sem skilinn er að borði og sæng eða lögskilinn, verður eigi heldur tekin ákvörðun um það í hinum ríkjunum.

9. gr.
        [Í sérhverju ríkinu ber að fara eftir þar gildandi lögum um ákvarðanir þær, sem nefndar eru í 7. og 8. gr. Eignaskipti og skaðabætur ákvarðast þó ávallt eftir þeim lögum, sem samkvæmt 3. gr. gilda um fjármál hjónanna.
        Skilnaður að borði og sæng, sem fengist hefur í einu ríkjanna, veitir í hinum ríkjunum sama rétt til lögskilnaðar sem skilnaður að borði og sæng, er þar hefur fengist.
        Nú er ekki til að dreifa reglum um skilnað að borði og sæng í lögum samningsríkis, en í vissum tilvikum byggt á, að umhugsunarfrestur sé undanfari lögskilnaðar, og geta þá hjón, sem veittur hefur verið skilnaður að borði og sæng í einhverju hinna samningsríkjanna, fengið lögskilnað í þessu ríki án slíks undanfarandi umhugsunarfrests, enda hafi þau, frá því að skilnaður að borði og sæng var veittur, lifað aðskilin svo lengi, að svarar til slíks umhugsunarfrests, og hafi ekki tekið upp sambúð að nýju.]1)

1)L. 95/1973, 9. gr. fylgiskjals.


10. gr.
        [Þegar fjármál hjóna, sem fengið hafa skilnað að borði og sæng, ákvarðast eftir lögum samningsríkis, sem ekki byggir á reglum um skilnað að borði og sæng, skulu fjárverðmæti, sem öðru áskotnast eftir skilnaðinn, verða séreign þess, en ábyrgð á skuldum miðast við aðstæður eins og þær voru við skilnað að borði og sæng. Að öðru leyti skal farið að lögum þessa ríkis, að því er til búskipta tekur við lögskilnað.
        Andist annað hjóna, eftir að skilnaður að borði og sæng er veittur, og spurning vaknar um rétt hins eftirlifandi til arfs eftir hið látna samkvæmt reglum um lögerfðir eða samkvæmt erfðaskrá, og beita skal lögum samningsríkis, sem ekki byggir á reglum um skilnað að borði og sæng, skal skilnaður að borði og sæng lagður að jöfnu við lögskilnað, ef hinn fyrrnefndi varir enn.]1)

1)L. 95/1973, 10. gr. fylgiskjals.


II.
Ættleiðing.
11. gr.
        Vilji ríkisborgari einhvers samningsríkjanna, sem heimilisfesti á í einhverju þeirra, ættleiða mann, sem ríkisfesti á í einhverju ríkjanna, skal sækja um leyfi til þess í því ríki, er ættleiðandi á heimilisfesti í.

12. gr.
        Við úrskurð slíkrar umsóknar skal í hverju ríkjanna beitt þeim lögum, sem þar gilda. Sé ættleiðingur yngri en 18 ára og eigi hann heimilisfesti í því ríki, sem hann á ríkisfesti í, má eigi veita leyfi til ættleiðingar hans í öðru ríki, fyrr en hlutaðeigandi yfirvöldum, sem eftirlit hafa með börnum í ríki því, sem hann á ríkisfesti í, hefir verið gefinn kostur á að láta í ljós álit sitt um málið.

13. gr.
        Um slit ættleiðingar milli ríkisborgara samningsríkjanna, er stofnað hefir verið til í einhverju þeirra, skal útkljáð í því ríki, sem ættleiðandi á heimilisfesti í eða eigi hann ekki heimilisfesti í neinu samningsríkjanna, þá í því ríki, sem ættleiðingur á heimilisfesti í.
        Við úrslit þessa máls skal í hverju ríkinu beitt þeim lögum, sem þar gilda.

III.
Lögráð.
14. gr.
        Lögráð ólögráða ríkisborgara samningsríkjanna, er heimilisfesti eiga í einhverju hinna ríkjanna, heyra undir yfirvöldin í hinu síðarnefnda ríkinu, nema fæddur lögráðamaður eða skipaður fari þegar með lögráðin í einhverju hinna ríkjanna.
        Sama gildir um sviptingu lögræðis og lögráð lögræðissviptra manna.

15. gr.
        Skipa má lögráðamann til bráðabirgða og gera aðrar bráðabirgðaráðstafanir í hverju ríkjanna um sig.

16. gr.
        Úrskurða skal málefni þau, sem ræðir um í 14. og 15. gr., í hverju ríki eftir þeim lögum, sem þar gilda.

17. gr.
        Um áhrif ólögræðis í fjármálum og um heimildir lögráðamanns fer eftir lögum þess ríkis, þar sem með lögráðin er farið.
        Ákvæði þetta gildir ekki um hæfi manna til að gangast undir víxil- eða checkskuldbindingar.

18. gr.
        Með samkomulagi hlutaðeigandi ráðuneyta má flytja lögráð til einhvers hinna ríkjanna, ef hinn ólögráði maður hefir öðlast þar heimilisfesti eða það telst heppilegt af öðrum ástæðum.

19. gr.
        Um afnám lögræðissviptingar, sem ákveðin hefir verið í einhverju samningsríkjanna, skal úrskurða í því ríki, þar sem með lögráðin er farið, ef hinn lögræðissvipti er ríkisborgari einhvers af samningsríkjunum.
        Við úrskurðinn skal í hverju ríki beita lögum þeim, er þar gilda.

20. gr.
        Verði ríkisborgari einhvers samningsríkisins sviptur lögræði í einhverju hinna ríkjanna, eða verði lögræðissvipting hans afnumin, þá skal tafarlaust tilkynna það hlutaðeiganda ráðuneyti þess ríkis, sem hann á ríkisfesti í.

21. gr.
        Ákvæðum 17., 19. og 20. gr. skal beitt eftir því sem við á, er ríkisborgari einhvers samningsríkisins, er heimilisfesti á í Danmörku og eigi hefir áður verið sviptur lögræði í einhverju ríkjanna, er settur undir tilsjón (Lavværgemaal) í Danmörku. Tilsjón þessi er því eigi til fyrirstöðu, að lögræðissvipting fari fram í einhverjum hinna ríkjanna, er hlutaðeigandi tekur sér heimilisfesti í.

IV.
Almenn ákvæði.
22. gr.
        [Úrskurðir umboðsstjórnar og aðfararhæfir dómsúrskurðir, er gengið hafa í einhverju ríkjanna samkvæmt 5., 7., 8., 11., 13., 14., 15., 19. og 21. gr., skulu gilda í hinum ríkjunum án sérstakrar staðfestingar og án rannsóknar á því, hvort úrskurðurinn sé réttur eða forsendur hans, þær er taka til heimilisfesti eða ríkisfesti í einhverju samningsríkjanna. Þetta á einnig við um aðfararhæfa dómsúrskurði, sem gengið hafa í einhverju ríkjanna og kveða á um ógildi eða ógildingu hjúskapar milli ríkisborgara í samningsríki.]1)

1)L. 95/1973, 22. gr. fylgiskjals.

23. gr.
        Samning þennan skal fullgilda og skal skipst á fullgildingarskjölunum í Stokkhólmi eins fljótt og auðið er.
        Samningurinn gengur í gildi 1. janúar eða 1. júlí næstan á eftir afhendingu fullgildingarskjalanna.
        Sérhvert ríkjanna getur sagt samningnum upp við hvert hinna með 6 mánaða fresti, þannig að hann gangi úr gildi 1. janúar eða 1. júlí. …

Lokaákvæði.

Í sambandi við undirskriftina í dag undir samning þann milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, er hefir að geyma alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, hafa umboðsmenn samningsríkjanna gefið eftirfarandi yfirlýsingu:

Milli samningsríkjanna er samkomulag um:

1. að samningurinn skyldar eigi yfirvöld neins samningsríkjanna til að gefa þá í hjúskap, er sakir ófrávíkjanlegs ákvæðis í löggjöf hlutaðeigandi ríkis mega eigi ganga í hjúskap vegna skyldleika eða mægða;
2. að sá, sem eigi hefir náð 21 árs aldri, en hefir fengið lögræði eftir finnskum lögum við það að ganga í hjúskap, eða eftir íslenskum lögum við skilnað að borði og sæng eða við hjúskaparslit, skuli eigi talinn ólögráður vegna æsku, þótt hann taki sér heimilisfesti í öðru samningsríkjanna en annaðhvort Finnlandi eða Íslandi.