Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 123a. Uppfært til 1. janúar 1999.
Lög um Þróunarsjóð sjávarútvegsins1)
1994 nr. 92 24. maí
1)Lögin gilda til 31. desember 2009 og skulu eignir sjóðsins þá renna til Hafrannsóknastofnunar og andvirði þeirra varið til hafrannsókna, sbr. l. 152/1996, 7. gr.
1. gr. [Hlutverk Þróunarsjóðs sjávarútvegsins er að taka við þróunarsjóðsgjöldum skv. 4. og 6. gr., fara með og selja eignir og hlutabréf í eigu sjóðsins skv. 11. gr., fara með og selja hlutabréf í eigu hlutafjárdeildar skv. 12. gr., innheimta skuldabréf í eigu atvinnutryggingadeildar skv. 13. gr. og greiða skuldbindingar sjóðsins. Þá skal Þróunarsjóður sjávarútvegsins taka lán til að fjármagna kaup eða smíði á rannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnunina.]1)
1)L. 152/1996, 1. gr.
2. gr. Sjávarútvegsráðherra skipar þrjá menn í stjórn Þróunarsjóðs til fjögurra ára í senn. …1) Ráðherra skipar formann sjóðstjórnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
1)L. 152/1996, 2. gr. Sjá 7. gr. s.l. um gildistöku þessarar breytingar.
3. gr. Þróunarsjóður tekur við öllum eignum og skuldbindingum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins, sbr. lög nr. 65/1992, eignum og skuldbindingum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar vegna sjávarútvegsfyrirtækja, sbr. lög nr. 42/1991, og öllum eignum og skuldbindingum hlutafjárdeildar Byggðastofnunar, sbr. lög nr. 42/1991. Yfirtakan miðast við stöðu eigna og skulda við gildistöku laga þessara að frádregnum 950 millj. kr. endurlánum ríkissjóðs til atvinnutryggingardeildar sem ríkissjóður tekur að sér að greiða. Jafnframt ábyrgist Þróunarsjóður gagnvart ríkissjóði það sem á kann að falla vegna ríkisábyrgðar á verðbættu nafnvirði A-hlutdeildarskírteina hlutafjárdeildar. Halda skal fjárreiðum framangreindra sjóða aðskildum í bókhaldi sjóðsins. Þá skal ríkissjóður leggja sjóðnum til að láni jafnvirði 4.000 millj. kr. á árunum 1994 og 1995. Skal hver hluti lánsins afborgunarlaus fyrstu tvö árin en endurgreiðast síðan með jöfnum árlegum afborgunum þannig að þau verði að fullu greidd árið 2005.
Þróunarsjóðsgjald.4. gr.1) Eigendur fiskiskipa, sem skráð eru á skipaskrá [Siglingastofnunar Íslands]2) 1. janúar ár hvert og leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, skulu árlega greiða gjald til Þróunarsjóðs. …3) Skal gjaldið nema 750 kr. af hverju brúttótonni en þó skal gjaldið aldrei nema hærri fjárhæð en 285.000 kr. fyrir hvert skip. Gjalddagi þróunarsjóðsgjalds er 1. janúar ár hvert og greiðist gjaldið án tillits til þess hvort skipi er haldið til veiða eða ekki. Liggi brúttótonnamæling skips ekki fyrir skal miða gjaldið við brúttórúmlest.
Gjald skv. 1. mgr. skal innheimt gegnum greiðslumiðlunarkerfi sjávarútvegsins og skal hluti þess fjár, sem greiðist inn á vátryggingarreikning skipa skv. 2. tölul. 7. gr. laga nr. 24/1986, ganga til greiðslu gjaldsins. Skal Landssamband íslenskra útvegsmanna mánaðarlega skila þessu gjaldi til Þróunarsjóðs uns fullnaðarskil vegna viðkomandi almanaksárs hafa verið gerð. Ráðherra ákveður í reglugerð hvernig innheimtu gjalds skv. 1. mgr. skuli háttað hjá þeim aðilum sem ekki falla undir 5. og 7. gr. laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.
Sé gjaldið ekki greitt fyrir lok álagningarárs skal greiða í Þróunarsjóð dráttarvexti af því sem gjaldfallið er samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, sbr. III. kafla vaxtalaga, nr. 25/1987, með síðari breytingum. Lögveð er í skipum fyrir þróunarsjóðsgjaldi.
Þróunarsjóðsgjald skv. 1. mgr. er grunngjald. Ráðherra er heimilt með reglugerð að breyta gjaldi þessu þannig að það breytist í réttu hlutfalli við þá breytingu sem kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987. Grunntaxti gjaldsins er miðaður við byggingarvísitölu í ágúst 1993, þ.e. 192,5 stig.
1)Fellur úr gildi 31. desember 2008, sbr. l. 152/1996, 7. gr.2)L. 7/1996, 28. gr.3)L. 89/1995, 1. gr.
5. gr. …1)
1)L. 152/1996. 7. gr.
6. gr.1) Frá og með því fiskveiðiári sem hefst 1. september 1996 skal Fiskistofa innheimta gjald til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins af úthlutuðu aflamarki. Skal gjaldið nema a.m.k. 1.000 kr. fyrir hverja þorskígildislest miðað við þá verðmætastuðla af einstökum tegundum sem sjávarútvegsráðuneytið ákveður. Gjaldið fellur í gjalddaga með þremur jöfnum greiðslum hvert fiskveiðiár, 1. september, 1. janúar og 1. maí. Hafi greiðsla ekki borist innan mánaðar frá gjalddaga fellur veiðileyfi skipsins niður. Fiskistofa skal standa Þróunarsjóði jafnharðan skil á innheimtu gjalda.
Ráðherra er heimilt með reglugerð að breyta gjaldinu í samræmi við þær breytingar sem kunna að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987. Grunntaxti gjaldsins er miðaður við byggingarvísitölu í ágúst 1993, þ.e. 192,5 stig.
[Bátar er veiðar stunda með línu og handfærum með dagatakmörkunum samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða skulu greiða gjald er miðast við landaðan afla viðkomandi báts á tímabilinu 1. ágúst til 31. júlí fyrir upphaf hvers fiskveiðiárs miðað við skráningu aflans í aflaupplýsingakerfi Fiskistofu. Um gjald þetta gilda að öðru leyti ákvæði 6. gr. eftir því sem við á.]2)
1)Fellur úr gildi frá og með því fiskveiðiári er hefst 1. september 2008, sbr. l. 152/1996, 7. gr.2)L. 89/1995, 2. gr.
Fækkun fiskiskipa.7.–11. gr. …1)
1)L. 152/1996, 3. gr.
Hlutafjárdeild og atvinnutryggingardeild.12. gr. Hlutverk hlutafjárdeildar er að fara með og selja hlutabréf í eigu deildarinnar. Hlutafjárdeild er óheimilt að kaupa ný hlutabréf. Deildinni er þó heimilt við samruna félaga eða skipti á hlutabréfum að taka við nýjum hlutabréfum sem samsvara fyrri hlutabréfaeign. Hlutafé í eigu deildarinnar skal boðið til sölu a.m.k. einu sinni á ári og skal starfsfólk og aðrir eigendur fyrirtækisins, sem í hlut á, njóta forkaupsréttar. Hlutdeildarskírteini deildarinnar skulu skráð á nafn og geta gengið kaupum og sölum. Hlutafjárdeild skal tilkynnt um eigendaskipti á hlutdeildarskírteinum.
13. gr. Hlutverk atvinnutryggingardeildar er að innheimta skuldabréf í eigu deildarinnar. Henni er óheimilt að veita ný lán. Þó er stjórn sjóðsins heimilt að skuldbreyta lánum atvinnutryggingardeildar í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu sjávarútvegsfyrirtækja, í samvinnu við aðrar lánastofnanir, við sameiningu eða verulega minnkun á afkastagetu einstakra fyrirtækja. Byggðastofnun annast reikningshald og innheimtu fyrir atvinnutryggingardeild eftir nánara samkomulagi við stjórn Þróunarsjóðs.
Ýmis ákvæði.14. gr. Stjórn Þróunarsjóðs hefur yfirumsjón með starfsemi sjóðsins. Hún ræður framkvæmdastjóra og annað starfsfólk til að annast daglegan rekstur hans eða semur um það við fjármálastofnanir eftir því sem hagkvæmt þykir.
[Fyrir 1. september ár hvert skal stjórn sjóðsins leggja fyrir sjávarútvegsráðherra til staðfestingar sundurliðaða rekstrar- og greiðsluáætlun fyrir næsta starfsár.]1)
1)L. 4/1998.
15. gr. [Stjórn sjóðsins er heimilt að taka lán, þó ekki með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings, í því skyni að jafna misræmi milli tekna af þróunarsjóðsgjöldum skv. 4. og 6. gr., sem og innborgana af skuldabréfum í eigu sjóðsins og afborgana og vaxta af lánum sem sjóðurinn á að standa skil á.]1)
1)L. 152/1996, 5. gr.
16. gr. Þróunarsjóður sjávarútvegsins er undanþeginn fasteignagjöldum af fasteignum sem sjóðurinn kann að eignast. Öll skjöl viðvíkjandi lánum, sem sjóðurinn tekur, skulu undanþegin stimpilgjöldum.
17. gr. …1)
1)L. 152/1996, 6. gr. Um gildistöku þessarar breytingar sjá 7. gr. s.l.
18. gr. Stjórnarmenn og allir starfsmenn Þróunarsjóðs sjávarútvegsins eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
19. gr. Þróunarsjóður er í eigu ríkisins. Miða skal við að þróunarsjóðsgjöld skv. 4., 5. og 6. gr. standi undir skuldbindingum og rekstrarkostnaði sjóðsins. Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga Þróunarsjóðs og skal hún árlega gera sérstaka athugun á möguleikum sjóðsins til að standa undir skuldbindingum sínum miðað við stöðu efnahagsreiknings og áætlun um framtíðarútgjöld og tekjur, sbr. 2. málsl. þessarar málsgreinar.
Komi í ljós að framtíðartekjur sjóðsins séu ekki í samræmi við skuldbindingar skal ráðherra leggja fyrir Alþingi tillögur um breytingar á tekjustofnum sjóðsins, sbr. 4., 5. og 6. gr.
20. gr. …1)
1)L. 149/1994, 12. gr.
21. gr. Þróunarsjóði er heimilt að kaupa hlutdeildarskírteini hlutafjárdeildar.
22. gr. Sjávarútvegsráðherra setur nánari reglur um starfsemi Þróunarsjóðs sjávarútvegsins með reglugerð.1)
1)Rg. 8/1997
, sbr. 322/1997, 473/1997 og 813/1998.
23. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. … Ákvæði 4. gr. um gjald á fiskiskip koma til framkvæmda frá og með árinu 1995. Ákvæði 5. gr. um gjald á fiskvinnslustöðvar koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1995 á gjaldstofn ársins 1994.
Ákvæði til bráðabirgða.I. Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt á árinu 1994 að taka að láni og endurlána Þróunarsjóði sjávarútvegsins allt að 2.720 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á staðfestingardegi laganna.
[Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt á árinu [á árinu 1996]1) að taka að láni og endurlána Þróunarsjóði sjávarútvegsins allt að 500 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á staðfestingardegi laganna.]2)
[Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt á árinu 1997 að taka að láni og endurlána Þróunarsjóði sjávarútvegsins allt að 1.000 m.kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á staðfestingardegi laganna. Skal láninu varið til að fjármagna kaup eða smíði á rannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnunina.]3)
1)L. 157/1995, 1. gr.2)L. 89/1995, brbákv. I.3)L. 152/1996, brbákv. I.
II. [Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. um þriggja ára greiðsluskyldu á hvorki við um þau skip er fá úthlutað tiltekinni hlutdeild af heildarafla og voru skráð á skipaskrá fyrir 1. janúar 1994 né um báta 6 brl. og minni er veiðar stunda með línu og handfærum með dagatakmörkunum sem skráðir voru á skipaskrá fyrir [1. september 1995].1)]2)
1)L. 109/1996, 1. gr.2)L. 89/1995, brbákv. II.
[III. [Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal greiða styrk til úreldingar krókabáta á sóknardögum frá gildistöku bráðabirgðaákvæðis þessa og til [1. október 1998].1) Skal úreldingarstyrkur nema allt að 80% af húftryggingarverðmæti. Gilda ákvæði 7. og 8. gr. laga nr. 92/1994, sem og ákvæði til bráðabirgða II, sbr. lög nr. 89/1995, að öðru leyti um styrkveitingu þessa. Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt á árinu 1998 að taka að láni og endurlána Þróunarsjóði sjávarútvegsins allt að 200 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á gildistökudegi bráðabirgðaákvæðis þessa.]2)]3)
1)L. 49/1998, 3. gr.2)L. 146/1997, 1. gr.3)L. 89/1995, brbákv. III.
[IV. Umsóknir um styrki vegna úreldingar fiskiskipa sem borist hafa Þróunarsjóði sjávarútvegsins fyrir gildistöku laga þessara skulu afgreiddar í samræmi við þágildandi ákvæði laga nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum. Til að stuðla að þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis er stjórn sjóðsins heimilt þrátt fyrir ákvæði 3. gr. að leggja fram framleiðslutæki, þar með talin skip sem keypt hafa verið fyrir gildistöku laga þessara, sem hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækjum utan Íslands eða hlutafélögum sem stofnuð eru hér á landi til að taka þátt í sjávarútvegsverkefnum erlendis. Um innheimtu ógoldinna þróunarsjóðsgjalda sem á hafa verið lögð fyrir gildistöku laga þessara skulu gilda ákvæði laga nr. 92/1994, með síðari breytingum, eins og þau voru fyrir gildistöku laga þessara.]1)
1)L. 152/1996, brbákv. III.