Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Ákvæði laga þessara gilda einnig um endurlán ríkissjóðs eftir því sem við á. Endurlán verða þó ekki veitt aðilum utan B- og C-hluta ríkissjóðs, nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum sem ábyrgð heimila.
Ábyrgð ríkissjóðs skal ekki nema hærra hlutfalli en 75% af lánsfjárþörf verkefnis sem veitt er ríkisábyrgð.
Ríkissjóði er óheimilt að takast á hendur ábyrgð fyrir aðila sem er í vanskilum við ríkissjóð eða Ríkisábyrgðasjóð.
Ábyrgðarþegi skal greiða afgreiðslugjald samkvæmt gjaldskrá sem fjármálaráðherra setur. Skal það taka mið af kostnaði við afgreiðslu og mat á viðkomandi ábyrgð. Afgreiðslugjaldið skal renna til Ríkisábyrgðasjóðs.
Lánveitandi annast innheimtu áhættu- og afgreiðslugjalda hjá ábyrgðarþega.
Eigi sjaldnar en árlega skal endurmeta áhættu og afskriftaþörf Ríkisábyrgðasjóðs vegna ábyrgða og endurlána og á grundvelli þess endurákvarða framlag á afskriftareikning. Leiði sú endurskoðun í ljós að varasjóður Ríkisábyrgðasjóðs nægi ekki til að mæta þannig metnum skuldbindingum skal fjármálaráðherra gera Alþingi viðvart og gera tillögu um aðgerðir til að koma jafnvægi á fjárhag sjóðsins.
Ríkisábyrgðasjóður skal fylgjast með rekstri þeirra aðila er ríkissjóður hefur gengið í ábyrgð fyrir eða veitt lán. Ábyrgðarþegum er skylt að láta Ríkisábyrgðasjóði í té ársreikninga og hverjar þær skýrslur og gögn er nauðsynleg teljast til þess að hann geti rækt þetta eftirlit. Verði dráttur á afhendingu umbeðinna upplýsinga er ráðherra heimilt að beita dagsektum uns gögnin eru komin fram. Um fjárhæð dagsekta skal nánar kveðið á í gjaldskrá er fjármálaráðherra setur. Dagsektir þessar skal ákveða með ábyrgðarbréfi, og má innheimta þær með aðför.
Ábyrgðargjald skv. 1. mgr. nemur 0,0625% á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra erlendra skuldbindinga og 0,0375% á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra innlendra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili, sbr. 8. gr. Gjaldið rennur í ríkissjóð.
Ábyrgðargjald vegna skuldbindinga fyrirtækja, sem eru að hluta í eigu ríkissjóðs, skal reikna í sama hlutfalli og eignaraðild ríkissjóðs nemur. Eignaraðild ríkissjóðs í félögum og fyrirtækjum þar sem ábyrgð eigenda takmarkast við framlag þeirra, t.d. í hlutafélögum, veldur ekki gjaldskyldu.
Gjaldskyldir aðilar skv. 6. gr. skulu skila skýrslu í því formi sem Ríkisábyrgðasjóður ákveður þar sem fram komi brúttófjárhæð allra gjaldskyldra skuldbindinga eins og höfuðstóll þeirra er hinn 10., 20. og síðasta dag hvers mánaðar á hverju gjaldtímabili. Gjaldstofn ábyrgðargjalds er einfalt meðaltal fyrrgreindra fjárhæða.
Ábyrgðargjaldi skv. 6. og 7. gr. skal skila, ásamt skýrslu skv. 2. mgr., ársfjórðungslega eftir á. Gjalddagi vegna hvers ársfjórðungs er 15. dagur næsta mánaðar eftir að gjaldtímabili lýkur. Sé ábyrgðargjald ekki greitt á gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er skv. 10. gr. laga nr. 25/1987, með síðari breytingum.