Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.


Lög um gjald af kvikmyndasýningum

1952, nr. 28, 4. febrúar

1. gr.
        Sveitarstjórnum (bæjarstjórnum og hreppsnefndum) er heimilt að leggja sérstakt gjald á kvikmyndasýningar, aðrar en sýningar íslenskra kvikmynda og fræðslukvikmynda.

2. gr.
        Gjaldið má vera allt að 10% af aðgangseyri að kvikmyndasýningum, þegar frá honum hefur verið dreginn álagður skemmtanaskattur, enda séu þá eigendur kvikmyndahúsanna undanþegnir sætagjaldi.

3. gr.
        Gjaldið skal ákvarðað af sveitarstjórn, sem einnig setur nánari reglur um gjalddaga þess og annað, er að innheimtu lýtur.

4. gr.
        Gjaldinu skal varið til menningar- og líknarmála í viðkomandi sveitarfélagi eftir ákvörðun sveitarstjórnar.

5. gr.
        Gjald samkvæmt lögum þessum má innheimta með lögtaki.
        [Ef gjaldandi lætur ekki í té upplýsingar, sem skipta máli um innheimtu gjaldsins, skal hann sæta allt að 1.000 króna dagsektum. Brot gegn lögum þessum og reglugerð samkvæmt þeim varða sektum.]1)

1)L. 10/1983, 8. gr.