Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Ef lík finnst, þá skal sá, er finnur, tilkynna næsta löggæslumanni líkfundinn.
Ef maður hverfur og er talinn af, en líkið finnst ekki, þá skal húsráðandi á því heimili, er maðurinn hafði síðast næturvist, tilkynna löggæslumanni hvarfið jafnskjótt sem líkur eru til, að maðurinn hafi farist.
Ef skip ferst og kemst enginn af, þá skal sá löggæslumaður, sem skráð hafði skipverja til vátryggingar, taka mannskaðann til rannsóknar. Nú voru skipverjar ekki vátryggðir, og heyrir þá rannsóknin undir löggæslumann í þeirri sveit, þar sem skipið átti heima.
Þessi ákvæði koma ekki til greina, ef [sjópróf fer fram].1)
Ef læknir er beðinn um dánarvottorð, og finnur hann sönnur eða líkur fyrir því, að dauðdaginn hafi verið voveiflegur, eða líkið fundist, en löggæslumanni ekki skýrt frá því, þá skal hann synja dánarvottorðs að svo stöddu, og gera löggæslumanni aðvart.
Ef prestur er beðinn að jarða lík, og veit hann eða grunar, að maðurinn muni hafa dáið voveiflega, eða líkið hefur fundist, en löggæslumanni ekki verið tilkynnt, þá skal hann neita að jarðsyngja að svo stöddu, og gera löggæslumanni aðvart; má prestur aldrei jarðsyngja fundið lík, eða lík manns, er dáið hefur voveiflega, fyrr en honum er afhentur úrskurður löggæslumanns, er heimilar greftrun, og dánarvottorð frá löggiltum lækni.
Löggæslumaður skal ráða því, hvar líkið er geymt, og hvernig um það búið. Hann skal kveðja lækni með sér, og skulu þeir báðir í senn skoða líkið, og læknir því næst kryfja það, ef þörf gerist. Löggæslumaður ræður því, hvort líkið er krufið, en það skal hann jafnan fyrirskipa, ef nokkur minnsti vafi getur leikið á því, hvað manninum hafi orðið að bana.
Héraðslæknar skulu hafa á hendi réttarlæknisskoðanir á líkum, og að jafnaði sá, sem skemmst er til. Ef ekki næst til neins þeirra með hægu móti, má löggæslumaður heimta til þess starfa hvern þann löggiltan lækni, sem völ er á.
Þegar líkrannsókn er lokið, skal læknir gefa út dánarvottorð, en löggæslumaður leyfi til að jarða líkið.
...3)