Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Í hreppum er hreppsnefnd heimilt að starfrækja vatnsveitu, sbr. 1. mgr., og leggja í framkvæmdir við gerð hennar enda sýni rannsóknir og kostnaðaráætlanir að hagkvæmt sé að leggja veituna og reka hana.
Sveitarstjórn er heimilt að kjósa sérstaka stjórn til að hafa yfirumsjón með starfsemi vatnsveitunnar og fara með þau verkefni, sem sveitarstjórn eru falin með lögum þessum, í umboði hennar. Sveitarstjórn getur ráðið sérstakan vatnsveitustjóra til að annast daglegan rekstur vatnsveitunnar.
Heimæðar, sem lagðar hafa verið fyrir 1. janúar 1992 og liggja yfir einkalóðir, verða eign vatnsveitu sveitarfélags í framhaldi af endurnýjun vatnsveitunnar á þeim. Eignarhald á öðrum heimæðum skal vera óbreytt nema um annað náist samkomulag milli sveitarstjórnar og eiganda heimæðarinnar. Eigandi heimæðar kostar viðhald hennar.]1)
Vatn, sem tekið er úr stofnkrana innan húss, er eingöngu heimilt að nota til venjulegra heimilisþarfa. Að öðrum kosti þarf leyfi sveitarstjórnar. Réttur eiganda til að nota vatn til heimilisþarfa skuldbindur ekki sveitarstjórn til þess að tryggja að þrýstingur í götuæðum sé ávallt nægjanlegur. Hvers konar tenging dælubúnaðar við heimæð af hálfu eiganda, m.a. til að auka þrýsting vatns, er óheimil nema sveitarstjórn leyfi annað.
Þurfi að gera breytingar á heimæð vegna framkvæmda á vegum eiganda sjálfs skal hann sækja um leyfi til sveitarstjórnar. Eigandi ber sjálfur kostnað við breytingar sem þessar.
Ef vatnsæðar hafa ekki verið lagðar þar sem eigandi óskar eftir vatnsnotkun getur sveitarstjórn sett það skilyrði fyrir lagningu vatnsæða að fyrir fram ákveðinn hluti kostnaðar við lagningu þeirra skuli endurgreiddur af eiganda fasteignarinnar.
[Vatnsinntak skal að jafnaði vera á þeirri hlið húss sem snýr að vatnslögn þeirri sem leggja á heimæð frá, nema sveitarstjórn samþykki annars konar fyrirkomulag. Sveitarstjórn er heimilt að gera kröfu um gerð, staðsetningu og frágang inntaksrýmis.]1)
Nú liggur matsverð fullfrágenginnar fasteignar eigi fyrir við álagningu vatnsgjalds, en fasteign getur notið vatns frá vatnsveitu sveitarfélagsins, sbr. 1. mgr., og er þá sveitarstjórn heimilt að ákveða upphæð vatnsgjaldsins með hliðsjón af því hver verður líklegur álagningarstofn fullfrágenginnar eignar og ber þá að taka mið af fasteignamati sambærilegra fasteigna í sveitarfélaginu.
Verði ágreiningur um gjaldstofn skv. 2. mgr. skal vísa honum til úrskurðar Fasteignamats ríkisins. Þeim úrskurði má skjóta til yfirfasteignamatsnefndar ríkisins. Úrskurðum nefndarinnar má skjóta til dómstóla.
Sveitarstjórn ákveður upphæð vatnsgjalds sem má nema allt að 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni. Sveitarstjórn er heimilt að ákveða hámark og lágmark vatnsgjalds miðað við rúmmál húseigna. Sveitarstjórn er enn fremur heimilt að miða vatnsgjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar og/eða notkunar samkvæmt mæli. Álagning skv. 2. og 3. málsl. verði þó aldrei hærri en segir í 1. málsl. þessarar málsgreinar. Gjalddagar vatnsgjalds skulu vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu vatnsgjalds hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts, sbr. 4. gr. laga nr. 4/1995.]1)
Sveitarstjórn lætur þeim er greiða skulu aukavatnsgjald í té löggilta vatnsmæla. Sveitarstjórn er eigandi vatnsmælanna og ákveður upphæð gjalds fyrir leigu á þeim. Aukavatnsgjald skal að jafnaði greiða samkvæmt mældri notkun, en verði því eigi við komið ákveður sveitarstjórn aukavatnsgjaldið samkvæmt áætlaðri notkun. Aukavatnsgjald skal innheimta eftir á eftir nánari ákvörðun sveitarstjórnar og skal hámark gjaldsins tilgreint í reglugerð sem félagsmálaráðherra setur.
Endurgjald hafnarsjóðs til sveitarsjóðs vegna vatnssölu til skipa, báta og annarra úr vatnsdreifikerfi hafnar skal miðast við mælda notkun og ákveður sveitarstjórn gjald fyrir hvern rúmmetra. Hafnarstjórn/sveitarstjórn ákveður verð fyrir hvern rúmmetra vatns sem seldur er til skipa og báta.
Í þeim tilvikum, þegar um óvenjumikil kaup á vatni er að ræða eða vatn er keypt til sérstakrar framleiðslu, er sveitarstjórn heimilt að gera sérstakt samkomulag við kaupanda um endurgjald fyrir vatnið.
Vatnsgjald og heimæðargjald eru, ásamt áföllnum kostnaði, tryggð með lögveðsrétti í fasteigninni næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði. Ef hús brennur eftir að vatnsgjald eða heimæðargjald fellur í gjalddaga er sami forgangsréttur í brunabótafjárhæð fasteignarinnar.
Heimilt er að loka fyrir heimæðar hjá þeim sem vanrækja að greiða aukavatnsgjald að undangenginni skriflegri aðvörun. Aukavatnsgjald og leigugjald fyrir vatnsmæli, ásamt áföllnum kostnaði, má taka fjárnámi.
Heimilt er að loka fyrir heimæðar hjá þeim sem eyða vatni óhóflega og einnig þegar gera þarf við bilanir á vatnsæðum.
1)Rg. 421/1992, sbr. 175/1994 og 614/1996.
...1)