Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.


Lög um biskupskosningu1)

1980, nr. 96, 31. desember

1)Falla úr gildi 31. desember 1998, sbr. l. 78/1997, 64. gr.

1. gr.
        ...1)

1)L. 78/1997, 64. gr.

2. gr.
        Kosningarrétt við biskupskjör eiga:
1. [Biskup Íslands, þjónandi vígslubiskupar, sóknarprestar og prófastar, svo og aðstoðarprestar og sérþjónustuprestar ráðnir af ráðherra, kennarar guðfræðideildar Háskóla Íslands sem eru í föstum embættum eða störfum (prófessorar, dósentar, lektorar) og rektor Skálholtsskóla, enda séu þeir guðfræðikandídatar, svo og biskupsritari og aðrir starfsmenn biskupsstofu í föstu starfi með sama skilorði, aðstoðarprestar ráðnir af sóknarnefndum og prestar sem ráðnir eru af stjórn sjúkrastofnana eða sveitarfélögum til prestþjónustu þar og lúta yfirstjórn kirkjulegra stjórnvalda í kirkjulegum efnum, enda gegni þeir því starfi sem aðalstarfi, og prestvígðir menn sem ráðnir eru til sérstakra starfa innan þjóðkirkjunnar á vegum biskups og kirkjuráðs, eftir því sem nánar segir í reglugerð, sbr. 7. gr.]1)
2. Kjörnir leikmenn, sem sæti eiga á kirkjuþingi, þegar biskupskosning fer fram, svo og leikmenn, sem sitja í kirkjuráði, en eigi eru jafnframt kjörnir kirkjuþingsmenn.
3. [Enn fremur einn leikmaður fyrir hvert prófastsdæmi, kjörinn af leikmönnum, sem sæti eiga á héraðsfundi, til fjögurra ára í senn, og skulu varamenn einnig kjörnir á sama hátt.]1)

1)L. 91/1997, 1. gr.

3. gr.
        Biskupskosning skal vera skrifleg og leynileg.
        Þriggja manna kjörstjórn fer með yfirstjórn, undirbúning og framkvæmd biskupskosningar. Formaður hennar er ráðuneytisstjórinn í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, en varamaður hans skrifstofustjórinn í sama ráðuneyti. Aðalfundur Prestafélags Íslands tilnefnir annan kjörstjórnarmann til 4 ára í senn, svo og varamann. Kirkjumálaráðherra skipar þriðja manninn og varamann hans til 4 ára í senn.
        Kjörstjórn semur kjörskrá fyrir biskupskosningu, og skal hún liggja frammi á biskupsstofu eða öðrum stað eða stöðum, sem kjörstjórn ákveður, í 4 vikur, eftir því sem nánar segir í auglýsingu kjörstjórnar.
        Kjörstjórn úrskurðar um kosningarrétt samkvæmt lögum þessum, svo og um gildi einstakra atkvæðaseðla, og enn fremur um kjörgengi. Úrskurði kjörstjórnar má, innan viku frá því er hann gekk, skjóta til kirkjumálaráðherra, sem leysir úr málinu til fullnaðar.

4. gr.
        Kjörstjórn sendir þeim, sem kosningarrétt eiga, nauðsynleg kjörgögn: auðan kjörseðil, óáritað umslag, eyðublað fyrir yfirlýsingu kjósanda um það, að hann hafi kosið, og umslag með utanáskrift kjörstjórnar. Þá skal fylgja leiðbeining um það, hvernig kosning fari fram. Greina skal glögglega, fyrir hvaða tíma kjörseðill skuli hafa borist kjörstjórn.
        Kjósandi ritar á kjörseðil nafn eins biskupsefnis. Eigi skal hann undirrita kjörseðil eða auðkenna hann með öðrum hætti. Setur hann seðilinn síðan í óáritaða umslagið, sbr. 1. mgr., og lokar því, útfyllir eyðublaðið og leggur gögnin í áritaða umslagið og sendir kjörstjórn það í ábyrgðarpósti.

5. gr.
        Kærur út af kosningunni skulu hafa borist kjörstjórn innan viku frá því, er fresti lauk til að skila atkvæðaseðlum, og úrskurðar kjörstjórn þær. Að svo búnu telur kjörstjórn atkvæði og úrskurðar þau, nema kosning sé úrskurðuð ógild. Úrskurði kjörstjórnar má skjóta til kirkjumálaráðherra innan viku frá því að hann gekk, og leysir hann úr málinu til fullnaðar.

6. gr.
        Réttkjörinn biskup er sá, sem fær meirihluta greiddra atkvæða. Nú fær enginn þann atkvæðafjölda, og skal þá kosið að nýju milli þeirra þriggja, sem flest fengu atkvæði. Ef atkvæði verða jöfn, skal hlutkesti ráða um þá, sem kosið er um. Sá er réttkjörinn, sem þá fær flest atkvæði. Nú verða atkvæði jöfn, og skal þá veita embættið öðrum hvorum þeirra, sem flest fengu atkvæðin, eða einum af þremur, ef þeir fá allir jöfn atkvæði.
        ...1)

1)L. 78/1997, 64. gr.

7. gr.
        Í reglugerð,1) sem kirkjumálaráðherra setur, skal mælt nánar fyrir um biskupskosningu.

1)Rg. 151/1981, sbr. 361/1997.

8. gr.
        Lög þessi taka gildi 1. janúar 1981, og fer eftir þeim um kosningu biskups á árinu 1981. ...