Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Breytingar á samþykktum hlutarútgerðarfélags ná því aðeins gildi, að ríkisstjórnin staðfesti þær.
Óheimilt er að ráða fasta starfsmenn hjá félaginu í landi eða skipverja á skip þess, nema þeir um leið gerist félagar og undirriti yfirlýsingu um, að þeir hlýði lögum félagsins eins og þau eru á hverjum tíma. Undantekningu má þó gera frá þessu að því er snertir ráðningu skipverja í forföllum annarra, ef brýn nauðsyn krefur.
Inngangseyrir sé 10 krónur frá hverjum félagsmanni, er renni í varasjóð.
Félagsmaður, er fer úr félaginu, eða bú þess, sem deyr, ber ábyrgð samkvæmt þessari grein á skuldbindingum félagsins, er á því hvíldu, er hann gekk úr, þó eigi lengur en tvö ár frá næstu áramótum eftir úrgöngu, nema risið hafi mál út af skuld, er stofnuð var á meðan hann var í því, er bíði úrskurðar dómstólanna.
Fé varasjóðs má nota sem veltufé í þarfir félagsins.
Heimilt er að ákveða að tillög í sjóðinn skuli vera hærri en að framan greinir, ef þurfa þykir, enda sé það samþykkt af hlutarútgerðarfélaginu og viðkomandi bæjar- eða sveitarstjórn.
Tryggingarsjóður skal ávaxtaður í banka eða annarri tryggri peningastofnun, og skulu vextir af honum lagðir við höfuðstólinn um hver áramót.
Hlutarútgerðarfélag eða stjórn þess getur ekki ráðstafað innstæðu tryggingarsjóðs, og óheimilt er að skerða sjóðinn til lúkningar skuldum félagsins, en hætti félagið störfum, skal sjóðurinn ávaxtaður áfram á nafni hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélags, sem getur notað innstæðu hans til að greiða tillög í tryggingarsjóði annarra hlutarútgerðarfélaga, sem þar starfa.
Atkvæðisrétt á félagsfundum hafa allir meðlimir félagsins. Félagsfundir eru lögmætir, ef helmingur félagsmanna er mættur. Sé fundur ekki lögmætur sökum fámennis, skal boða til nýs fundar, og er hann þá lögmætur án tillits til þess, hve margir eru mættir. Á fundum ræður meiri hluti atkvæða úrslitum mála, nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum félaganna. Til funda sé boðað með minnst viku fyrirvara.
Endurskoðendur skulu sannprófa, að reikningum félagsins beri saman við bækur þess, enda hafa þeir aðgang að öllum bókum og skjölum á hvaða tíma sem er, og er stjórninni skylt að veita þeim þær upplýsingar, sem þeim eru nauðsynlegar við framkvæmd starfsins. Ennfremur er það skylda endurskoðenda að hafa eftirlit með starfrækslu félagsins yfirleitt. Nú verða þeir varir við misfellur, er þeir álíta, að félaginu stafi hætta af, og skulu þeir þá hlutast til um, að bót verði á ráðin svo fljótt sem þörf krefur, en takist það eigi, skulu þeir kveðja til fundar í félaginu og bera málið þar upp til úrlausnar. Endurskoðendur bera ábyrgð fyrir aðalfundi.
Á aðalfundi skal árlega leggja fram endurskoðaða reikninga fyrir næstliðið reikningsár og taka ákvörðun um þá. Nú fellir fundurinn tillögu um að samþykkja reikningana, og getur hann þá ákveðið, að yfirskoðun skuli fara fram, eftir þeim reglum, sem fundurinn setur. Að þeirri yfirskoðun lokinni skal að nýju boða til fundar, sem tekur fullnaðarákvörðun um reikningana.
Tilkynningu skulu fylgja samþykktir félagsins í 2 eintökum og lögboðin gjöld. Sé um útibú að ræða, skal það einnig tilkynnt. Ef samþykktum félags er breytt, eða breyting verður að öðru leyti á því, sem tilkynnt hefir verið til skrásetningar, skal tilkynna [sýslumanni]1) breytinguna innan mánaðar.
Nú vantar í tilkynningu greinargerð um einhver þau atriði, sem skylt er að geta, eða henni er áfátt að öðru leyti, og skal [sýslumaður]1) birta það tilkynnanda svo fljótt sem kostur er á, en fresta skrásetningu uns úr er bætt. Rétt er tilkynnanda að bera málið undir [viðskiptaráðherra]1) eða leita úrlausnar dómstóla.
Tilkynningu til skrásetningar skal [sýslumaður]1) tafarlaust birta í Lögbirtingablaðinu á kostnað tilkynnanda.
Sömu aðilar, sem ráða félagsslitum, geta stöðvað þau á hvaða stigi sem er, fengið félagsbúið aftur afhent sér í hendur og haldið áfram starfsemi félagsins að nýju, en þar að lútandi ályktun skal vera samþykkt með sama hætti og hin upphaflega ályktun um félagsslitin.