Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Viðskiptaráðherra annast undirbúning að stofnun fjárfestingarbankans og fer með framkvæmd laga þessara.
Viðskiptaráðherra ákveður heildarfjárhæð hlutafjár í fjárfestingarbankanum við stofnun hans. Skal við það miðað að heildarfjárhæð hlutafjár við stofnun fjárfestingarbankans sé eigi hærri en sem nemur eigin fé Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs sem rennur til fjárfestingarbankans skv. 3. gr. eins og það er samkvæmt endurskoðuðum ársreikningum sjóðanna fyrir árið 1996.
Ráðherra skipar sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna til að leggja mat á heildarfjárhæð stofnhlutafjár í fjárfestingarbankanum. Niðurstöður nefndarinnar skulu liggja fyrir í síðasta lagi 1. október 1997. Um aðgang nefndarinnar að gögnum og um þagnarskyldu nefndarmanna fer skv. 3. mgr. 20. gr. Ráðherra setur nefndarmönnum erindisbréf.
Með atkvæði fyrir hönd ríkissjóðs á aðalfundi og öðrum hluthafafundum í fjárfestingarbankanum fer fimm manna nefnd. Þar af skulu tveir menn skipaðir af iðnaðarráðherra, annar eftir ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í iðnaði, og tveir skulu skipaðir af sjávarútvegsráðherra, annar eftir ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi. Iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra skipa einn mann sameiginlega.
Ákvæði 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995 gilda ekki um tölu stofnenda og fjölda hluthafa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.
Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á skuldbindingum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. umfram það sem kveðið er á um í þessari grein og í hlutafélagalögum.
Nú tekur maður, sem áður gegndi starfi hjá Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði eða Iðnþróunarsjóði, við starfi hjá fjárfestingarbankanum, og skal hann þá njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Réttur hans til launa hjá Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði eða Iðnþróunarsjóði fellur niður er hann tekur við starfinu.
Stjórn fjárfestingarbankans skal í janúarmánuði 1998 auglýsa úr hvaða gjaldmiðlum reikningseiningin er samsett og í hvaða innbyrðis hlutföllum. Í sömu auglýsingu skal þeim lánþegum sem hlut eiga að máli gefinn kostur á uppgreiðslu lána eða endursamningum um viðmiðunargengi skulda sinna og má setja þeim frest í því skyni, eigi skemmri en átta vikur. Skilmálabreyting skal háð samþykki síðari veðhafa samkvæmt almennum reglum. Af skjölum sem varða slíka endursamninga skal ekki greiða stimpilgjald.
Vanskil lána í reikningseiningum Fiskveiðasjóðs Íslands (RFÍ) teljast alltaf í RFÍ, þ.e. þau halda gengis- og verðtryggingu fram til greiðsludags. Dráttarvextir á slíkum vanskilum skulu vera gildandi samningsvextir RFÍ-lána hverju sinni að viðbættu álagi sem nemur fjórðungi samningsvaxtanna. Dráttarvextir eru þá 1,25 sinnum samningsvextir á ári. Dráttarvextir reiknast sem dagvextir.
Umboð stjórna sem skipaðar eru samkvæmt núgildandi lögum um Fiskveiðasjóð, Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð fellur niður á því tímamarki sem greinir í 1. mgr. þessarar greinar.
Stofnhlutafé Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. verður ekki greitt til hans fyrr en 1. janúar 1998, sbr. 3. gr. laga þessara.
Frá stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og þar til hann tekur til starfa skv. 1. mgr. 19. gr. skal hann, þrátt fyrir ákvæði laga um þagnarskyldu, hafa fullan aðgang að gögnum Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Stjórnendur og starfsmenn sjóðanna skulu veita stjórnendum og starfsmönnum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. nauðsynlega aðstoð. Stjórnendur og starfsmenn Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. eru bundnir af þagnarskyldu með sama hætti og stjórnendur og starfsmenn umræddra sjóða.
Allur kostnaður af stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. greiðist af honum.