Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Í þessu skyni er ráðherra heimilt að leggja fram í reiðufé allt að 4 millj. kr. sem hlutafé í hinu nýja félagi og kveðja aðra aðila til samstarfs um stofnun þess. Auk þess skal ráðherra heimilt að leggja félaginu til þann búnað sem Flugmálastjórn hefur nýtt til flugkennslu og verði hann metinn til hlutafjár.
Kennsla sú sem skólinn veitir skal miðast við öll stig atvinnuflugnáms og miða að því að búa nemendur undir próf loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar til öflunar atvinnuflugréttinda í samræmi við gildandi reglur á hverjum tíma.
Flugskóli Íslands hf. skal leita samvinnu og samstarfs við aðra flugskóla um ákveðna kennsluþætti, einkum þá verklegu. Skulu nemendur eiga þess kost að semja sjálfir við aðra flugskóla um afnot flugvéla, eða leggja til eigin vélar, enda verði skilyrðum skólans að öllu leyti fullnægt.
Skólinn skal sinna endurmenntun atvinnuflugmanna eftir því sem þörf krefur.
Heimilt er að halda inntökupróf í Flugskóla Íslands hf. og gera tiltekinn prófárangur að skilyrði fyrir að geta hafið nám.
Samgönguráðherra fer með eignarhlut ríkisins í félaginu.
Stjórn skólans skipuleggur skólastarfið, ákvarðar tilhögun kennslu, undirbýr námskeið og stundaskrár og ákveður námsefni. Auk þess hefur stjórnin með höndum yfirstjórn annars þess sem varðar rekstur skólans. Hún ræður skólastjóra sem auk kennslu skal, sem framkvæmdastjóri, framfylgja ákvörðunum stjórnar. Stjórnin ræður kennara að skólanum í samráði við skólastjóra.
Auk fjárframlaga samkvæmt samningi skólans við ríkið skal rekstur hans fjármagnaður með skólagjöldum nemenda. Stjórn skólans ákveður upphæð þeirra skólagjalda sem nemendum er gert að greiða.
Tilgangur félagsins er ekki að afla hluthöfum fjárhagslegs ávinnings, heldur skal rekstrarafgangi varið til frekari uppbyggingar skólastarfsins og skulu samþykktir félagsins innihalda ákvæði þess efnis.
Að öðru leyti en greinir í lögum þessum fer um stofnun og starfsemi Flugskóla Íslands hf. eftir ákvæðum hlutafélagalaga.