Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.


Lög um Myndlista- og handíðaskóla Íslands

1965, nr. 38, 11. maí

I. kafli.

Tilgangur og skipan deilda.

1. gr.
        Skólinn heitir Myndlista- og handíðaskóli Íslands.

2. gr.
        Tilgangur skólans er:
1. Að veita kennslu og þjálfun í myndlistum,
2. listiðnum og
3. búa nemendur undir kennarastörf í vefnaði, teiknun og öðrum greinum myndrænna lista, sem kenndar eru í skólum landsins.

3. gr.
        Í skólanum eru þessar deildir:
1. Myndlistadeild, en til hennar teljast forskóli og námsflokkar til framhaldsnáms í þessum greinum: frjálsri myndlist, rítlist, mótlist og veggmyndalist. Enn fremur námsflokkar til undirbúnings að námi í tæknifræðum og húsagerðarlist.
2. Kennaradeild, er greinist í teiknikennaradeild og vefnaðarkennaradeild.
3. Listiðnadeild.
4. Námskeið.

II. kafli.

Inntökuskilyrði, námsdeildir og próf.

4. gr.
        Myndlistadeild. 1. Rétt til inngöngu í forskóla myndlistadeildar veitir landspróf miðskóla, gagnfræðapróf eða hliðstæð próf með þeirri einkunn, sem stjórn skólans metur gilda. Ef sérstaklega stendur á, getur skólastjórn veitt undanþágu frá þessum ákvæðum að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins.
Við inntöku í forskólann skal höfð hliðsjón af hæfileikum umsækjanda á sviði myndrænna listgreina.
Forskólinn veitir tveggja ára undirbúningsmenntun í almennum myndlistum. Aðalkennslugreinar skulu vera teiknun, málun og myndmótun.
2. Rétt til framhaldsnáms í myndlistadeild eiga þeir, sem lokið hafa forskólanámi með fullnægjandi árangri, eða hlotið hliðstæðan undirbúning annars staðar.

        Þessir skulu vera flokkar framhaldsnáms:
a. Frjáls myndlist. Aðalgreinar eru teiknun, málun og myndmótun.
b. Frjáls rítlist. Aðalgreinar eru teiknun og almennar greinar rítlistar.
c. Hagnýt rítlist. Aðalgreinar eru teiknun, letrun, sérgreinar ríttækni og gerð auglýsinga.
d. Veggmyndalist. Aðalgreinar eru teiknun, málun og gerð veggmynda.
e. Mótlist. Aðalgreinar eru teiknun og myndmótun.
f. Undirbúningur að námi í tæknifræðum og húsagerðarlist. Aðalgreinar eru fríhendisteiknun, tækni- og rúmsæisteiknun og hagnýt mótun. Nám í flokkum a--e tekur tvö ár og lýkur með prófi.

5. gr.
        Kennaradeild. 1. Teiknikennaradeildin veitir tveggja ára undirbúning að kennarastarfi í teiknun og skyldum greinum í barna- og framhaldsskólum landsins.
Inntökuskilyrði eru, að umsækjandi hafi áður lokið tveggja ára forskólanámi myndlistadeildar, eða hlotið hliðstæða undirbúningsmenntun.
2. Vefnaðarkennaradeildin veitir tveggja ára undirbúning að kennarastarfi í vefnaði.
Inntökuskilyrði eru, að umsækjandi hafi áður stundað undirbúningsnám í vefnaði með þeim árangri, sem skólastjóri metur gildan.
3. Nám í öðrum greinum kennaradeildanna en sérgreinum skal vera hið sama eða hliðstætt námi í undirbúningsdeild sérnáms í Kennaraskóla Íslands. Námi í kennaradeild lýkur með kennaraprófi.

6. gr.
        Listiðnadeild. Listiðnadeildin veitir kennslu í listiðnum eða einstökum þáttum þeirra, svo sem listvefnaði, tískuteiknun og leirmunagerð. Um inntökuskilyrði, námstíma og próf fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar skólans.

7. gr.
        Námskeið. Skólinn heldur uppi kennslu á skemmri eða lengri námskeiðum:
a. Fyrir almenning í einstökum greinum myndrænna lista og handíða, og
b. í sérgreinum kennaradeildanna fyrir starfandi kennara.

8. gr.
        Heimilt er að fjölga eða fækka kennsludeildum að fengnum tillögum skólastjóra og fræðsluráðs og með samþykki menntamálaráðuneytisins.

III. kafli.

Skólastjórn, kennarar og skólaráð.

9. gr.
        Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn skólans.
        Skólastjórn er skipuð skólastjóra og föstum kennurum skólans, og skal starfssvið hennar nánar ákveðið í reglugerð.
        [Skólastjóri skal skipaður af ráðherra til fimm ára í senn að fengnum tillögum skólastjórnar. Skólastjóri ræður kennara og annað starfslið skólans.]1)
        ...1)

1)L. 83/1997, 91. gr.

10. gr.
        ...1)
        ...2)

1)L. 83/1997, 92. gr.2)L. 51/1978, 18. gr.

11. gr.
        ...1)

1)L. 83/1997, 93. gr.

12. gr.
        Til þess að stuðla að sem nánustum tengslum skólans við þróun þeirra þátta í atvinnu- og menningarlífi þjóðarinnar, sem mestu skipta starf hans og tilgang, skal skipa sérstakt skólaráð.
        Skólaráð skal vera stjórn skólans til ráðuneytis um ýmis mál er skólastarfsemina varða, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Skólaráð skal skipað fimm mönnum til þriggja ára í senn. Borgarráð Reykjavíkur, Landssamband iðnaðarmanna, Kvenfélagasamband Íslands og Bandalag íslenskra listamanna tilnefna hvert um sig einn fulltrúa í ráðið og sé fulltrúi B.Í.L. myndlistamaður. Menntamálaráðherra skipar formann skólaráðs án tilnefningar. Skólaráðið starfar án launa.

IV. kafli.

Kostnaður og önnur ákvæði.

13. gr.
        Ríkissjóður greiðir einn allan kennslu- og rekstrarkostnað, er af kennaradeildunum leiðir.
        Ríkissjóður greiðir laun skólastjóra og fastra kennara.
        Nú eru fastir kennarar skólans færri en heimilt er skv. 10. gr., og greiðir þá ríkissjóður stundakennslu, sem því nemur, að fullu.
        Kostnaður við stundakennslu umfram það, sem fram er tekið í 3. mgr. þessarar greinar, svo og annar kostnaður við rekstur skólans, að frádregnum tekjum, skiptist að jöfnu milli ríkissjóðs og borgarsjóðs.

14. gr.
        Menntamálaráðuneytið setur nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.1)

1)Starfsreglur 130/1991. Rg. 393/1996.