Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Með verðbréfaþingsstarfsemi er átt við að á reglubundinn hátt séu leidd saman sölu- og kauptilboð í verðbréf til opinberra viðskipta og verðskráningar. Verðbréfin skulu vera úr tilteknum flokkum sem stjórn Verðbréfaþings hefur með formlegum hætti tekið á sérstaka skrá þar sem útgefendur skuldbinda sig meðal annars til að sinna tiltekinni upplýsingaskyldu.
Verðbréfaþingið tekur við öllum réttindum, eignum, skuldum og skuldbindingum Verðbréfaþings Íslands sem starfar samkvæmt reglum nr. 26/1992.
Verðbréfaþinginu er skylt og einu heimilt, nema lög ákveði annað, að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið ,,verðbréfaþing`` eitt sér eða samtengt öðrum orðum.
Heimili og varnarþing Verðbréfaþingsins er í Reykjavík.
[Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi, vera lögráða, hafa óflekkað mannorð og vera fjár síns ráðandi. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld.]1)
Hafi stjórn ekki verið fullskipuð skv. 1. mgr. á þann hátt að Verðbréfaþinginu hafi borist tilnefning hlutaðeigandi aðila með formlegum hætti fyrir lok [aprílmánaðar]1) skipar viðskiptaráðherra þá stjórnarmenn sem á vantar án tilnefningar.
Reglur, sem settar eru af stjórninni, skulu birtar í Lögbirtingablaðinu.
Rétt til setu á aðalfundi hafa auk stjórnarmanna, varamanna þeirra og framkvæmdastjóra fulltrúar allra þingaðila, sbr. IV. kafla.
Stjórnin getur, þegar hún telur tilefni til, boðað alla þingaðila, sbr. IV. kafla, til fundar. Hver þingaðili, sem ekki hefur fulltrúa í stjórn, á rétt á að senda einn fulltrúa á slíka fundi. Skylt er henni að boða til fundar ef þriðjungur þingaðila æskir þess.
Framkvæmdastjóranum og öðrum starfsmönnum er án leyfis stjórnar óheimilt að sitja í stjórn stofnana og atvinnufyrirtækja utan Verðbréfaþingsins eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti. Hlutafjáreign í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki ræður úrslitum um stjórnun þess og telst fyrst og fremst ávöxtun sparifjár. Bankaeftirlitið sker úr ágreiningi í einstökum tilvikum. Þegar sérstaklega stendur á getur bankaeftirlitið veitt hlutaðeigandi aðila frest í allt að þrjá mánuði til þess að uppfylla skilyrði þessarar málsgreinar.
Þingaðilar einir hafa rétt til að setja fram tilboð og eiga viðskipti með verðbréf á Verðbréfaþinginu.
[Stjórn Verðbréfaþings setur nánari reglur um aðild að Verðbréfaþingi Íslands.]1)
Stjórnin lætur útbúa nauðsynlegar upplýsingar um skráð verðbréf er almenningur hefur aðgang að.
Útgefandi skráðra verðbréfa eða þingaðili fyrir hans hönd getur óskað eftir því skriflega að þau verði felld af skrá Verðbréfaþingsins. Skal stjórn þingsins verða við því að undangenginni athugun á forsendum fyrir slíkri ósk.
Ráðherra getur tímabundið stöðvað öll viðskipti á Verðbréfaþinginu þegar sérstakar aðstæður krefjast þess. Hann skal hafa samráð við stjórn þingsins sé þess nokkur kostur áður en slík ákvörðun er tekin.
Þingaðilar skulu gera stjórn Verðbréfaþingsins grein fyrir þóknun sem þeir taka fyrir að annast kaup eða sölu skráðra bréfa.
Ársreikningur og ársskýrsla skulu undirrituð af stjórn og framkvæmdastjóra. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann undirrita með fyrirvara og gera grein fyrir því í ársskýrslu hvers eðlis fyrirvarinn er.
Ársreikningur skal gefa glögga mynd af eignum, skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu Verðbréfaþingsins.
Í ársskýrslu skal koma fram yfirlit yfir starfsemi Verðbréfaþingsins á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu hennar og afkomu á reikningsárinu er ekki koma fram annars staðar í ársreikningnum. Í ársskýrslu skal jafnframt veita upplýsingar um fjölda starfsmanna að meðaltali á reikningsárinu, heildarfjárhæð launa, þóknun eða aðrar greiðslur til starfsmanna, stjórnar og framkvæmdastjóra og annarra í þjónustu þingsins.
Skylt er að veita endurskoðanda aðgang að öllum eignum, bókum og fylgiskjölum og öðrum gögnum Verðbréfaþingsins og jafnframt skulu stjórn og starfsmenn hennar veita honum allar umbeðnar upplýsingar sem unnt er að láta í té.
Endurskoðandi áritar ársreikning og greinir frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Hann gefur yfirlýsingu um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður og að hann hafi verið saminn í samræmi við ákvæði laga og reglna. Endurskoðandi lætur í ljós álit sitt á ársreikningnum og greinir frá niðurstöðum að öðru leyti.
Endurskoðaður ársreikningur ásamt ársskýrslu skal sendur bankaeftirliti Seðlabanka Íslands innan þriggja mánaða frá lokum reikningsárs.
[Birta skal endurskoðaðan ársreikning í B-deild Stjórnartíðinda.]1)
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal stjórn Verðbréfaþingsins annast eftirlit með því að verðbréfaviðskipti í þinginu séu í samræmi við lög þessi og reglur eða reglugerðir settar samkvæmt þeim. Stjórn þingsins skal heimill aðgangur að öllum gögnum og upplýsingum um starfsemi þingaðila og útgefenda skráðra verðbréfa sem hún telur nauðsynleg vegna eftirlitshlutverks síns. Verði stjórn eða starfsmenn þingsins þess áskynja að brotið hafi verið gegn þeim skal stjórnin þegar grípa til viðeigandi ráðstafana og jafnframt gera bankaeftirlitinu viðvart.
Stjórn og starfsmenn Verðbréfaþingsins skulu þegar gera bankaeftirlitinu viðvart verði þeir í starfi sínu varir við starfsemi sem ætla má að sé í andstöðu við lög, reglugerðir eða reglur og ekki fellur undir ákvæði 2. mgr., enda sé umrædd starfsemi til þess fallin að skaða hagsmuni verðbréfamarkaðarins.
Ákvæði 2. mgr. skerðir í engu rétt bankaeftirlitsins til eftirlits og aðgerða gagnvart þeim sem lög þessi taka til telji bankaeftirlitið slíkt nauðsynlegt.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Verðbréfaþinginu heimilt að hafa samvinnu við erlendar kauphallir eða lögbær yfirvöld erlendis og láta þeim í té upplýsingar að því tilskildu að greindir erlendir aðilar uppfylli kröfur um samsvarandi þagnarskyldu í sínu heimalandi. Með upplýsingar, sem Verðbréfaþingið fær ofangreindum erlendum aðilum og einkenndar eru sem trúnaðarmál eða eru það eðli máls samkvæmt, skal fara að hætti 1. mgr.
Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.