Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Þegar um ítrekaðar handtökur er að ræða, eða grunur leikur á, að hinn handtekni sé haldinn drykkjusýki, eða yfirvofandi drykkjusýki, skal lögreglan, að fengnu læknisvottorði, flytja hinn handtekna í sjúkrahús, er veitt getur slíkum sjúklingi viðtöku.
Nú er ekki völ á rúmi í sjúkrahúsi í þessu skyni, og skal þá veita hlutaðeigandi sjúklingi læknismeðferð, eftir því sem við verður komið.
Stofnanir eða einstakir læknar, sem hafa drykkjusjúklinga til meðferðar, skulu senda landlækni, eða þeim, er hann ákveður, upplýsingar á þar til gerðum eyðublöðum, er skrifstofa landlæknis lætur í té.
Til þess að mæta hinum auknu störfum, sem ákvæði þessarar greinar leggja á geðsjúkrahúsið, skal ráða sérstakan aðstoðaryfirlækni, er hafi m.a. með höndum meðferð drykkjusjúkra í sjúkrahúsinu og fyrir- og eftirmeðferð í lækningastöð. Annað starfslið, sem nauðsynlegt kann að þykja til að fullnægja þessum störfum, skal heimilt að ráða eftir þörfum.
Tekið skal fram í umsókn, sbr. tölul. 1, og yfirlýsingu fyrir dómi, sbr. tölul. 3, að umsækjandi gangist undir að virða í einu og öllu þær reglur, sem um hælisvist eru settar.
Sá, sem dæmdur hefur verið til hælisvistar skv. 4. tölul. 11. gr., skal hlíta vistinni svo lengi sem segir í 65. gr. laga nr. 19 12. febrúar 1940.
Nú fer sá, sem fengið hefur hælisvist samkvæmt ákvæðum þessara laga, heimildarlaust af hæli, þar sem hann dvelst, og er þá heimilt að þröngva honum, eftir atvikum með lögregluvaldi, í vistina á ný og til að hlíta henni, uns lokið er þeim tíma, sem segir í 1. og 2. mgr. þessarar greinar.
1)Nú l. 117/1993.
1)Rg. 227/1969 (um vistheimilið Bláa bandið).