Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.


Lög um ábyrgð ríkissjóðs á tjóni, sem hlýst af veru herliðs Bandaríkja Norður-Ameríku hér á landi

1943, nr. 99, 16. desember

1. gr.
        Ríkissjóði skal skylt að bæta íslenskum ríkisborgurum tjón, er þeir hafa beðið eða kunna að bíða vegna aðgerða hernaðaryfirvalda Bandaríkja Norður-Ameríku hér á landi eða af völdum manna úr herliði þeirra.

2. gr.
        Bótaskylda ríkissjóðs samkvæmt 1. gr. kemur því aðeins til greina, að sá, sem tjóninu hefur valdið, mundi vera bótaskyldur samkvæmt íslenskum lögum. Um upphæð skaðabótanna, svo og um það, hvaða hagsmuni bæta skuli, fer og eftir íslenskum lögum. Þó er hámark hverrar kröfu á hendur ríkissjóði samkvæmt lögum þessum [kr. 100.000,00].1)

1)L. 65/1944, 1. gr.

3. gr.
        Bótakröfur samkvæmt lögum þessum má sækja fyrir [héraðsdómi]1) Reykjavíkur, og svarar fjármálaráðuneytið til sakar.

1)L. 92/1991, 26. gr.

4. gr.
        Nú hefur sá, er tjón beið, tekið við greiðslu skaðabóta frá þeim, sem valdur var að tjóninu, og er þá ábyrgð ríkissjóðs lokið, hvort sem hann fékk fullar bætur eða eigi.
        Bótaskylda ríkissjóðs gildir ekki gagnvart vátryggjanda, er bætur hefur greitt vegna tjónsins. Tjónþoli getur eigi heldur krafið ríkissjóð bóta að svo miklu leyti sem hann fær tjónið bætt af vátryggjanda.
        Nú er bótakrafa eigi komin til ráðuneytisins innan eins árs frá því, að tjónið varð, og er þá bótaskylda ríkissjóðs niður fallin. Fyrningarfrestur á kröfum, sem til eru orðnar fyrir gildistöku laga þessara, telst þó frá gildistökudegi þeirra.

5. gr.
        Nú greiðir ríkissjóður skaðabætur samkvæmt 1. gr., og öðlast hann þá bótakröfu þá, er sá, sem þær bætur fékk, kann að eiga á hendur þeim, er tjóninu hefur valdið, eða öðrum.

6. gr.
        Lög þessi gilda um allar skaðabótakröfur samkvæmt 1. gr., sem til hafa orðið frá 7. júlí 1941.