Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Eiginnöfn og millinafn mega aldrei vera fleiri en þrjú samtals.
Barn öðlast nafn við skírn í þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi eða með tilkynningu um nafngjöf til Hagstofu Íslands, Þjóðskrár, prests eða forstöðumanns skráðs trúfélags.
Berist Þjóðskrá tilkynning um eiginnafn eða millinafn sem ekki er á mannanafnaskrá skal það ekki skráð að svo stöddu heldur skal málinu vísað til mannanafnanefndar.
Þeir sem fara með forsjá barns hafa bæði rétt og skyldu til að gefa því eiginnafn eftir því sem greinir í lögum þessum.
Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn. Þó er eiginnafn foreldris í eignarfalli heimilt sem millinafn. Millinöfn, sem eru mynduð með sama hætti og föður- og móðurnöfn, sbr. 3. mgr. 8. gr., eru óheimil.
Millinafn, sem víkur frá ákvæðum 2. mgr., er heimilt þegar svo stendur á að eitthvert alsystkini þess sem á að bera nafnið, foreldri, afi eða amma ber eða hefur borið nafnið sem eiginnafn eða millinafn.
Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
Millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Hver maður, sem ber ættarnafn í þjóðskrá, má breyta því í millinafn, sbr. 15. gr.
Hver maður, sem ekki ber ættarnafn en á rétt til þess, má bera það sem millinafn.
Maður má bera ættarnafn sem millinafn hafi eitthvert alsystkini hans, foreldri, afi eða amma borið það sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn.
Maður á og rétt á að taka sér ættarnafn maka síns sem millinafn. Honum er einnig heimilt að taka sér nafnið sem millinafn beri maki hans það sem millinafn skv. 2. eða 3. mgr.
Hver maður skal kenna sig til föður eða móður nema hann eigi rétt á að bera ættarnafn og kjósi að gera svo, sbr. 5. mgr. Manni er enn fremur heimilt að kenna sig til beggja foreldra sinna eða bera ættarnafn sem hann á rétt á til viðbótar því að kenna sig til föður eða móður. Heimilt er að ófeðrað barn sé kennt til afa síns.
Föður- og móðurnöfn eru mynduð þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum og millinafni, ef því er að skipta, kemur nafn föður eða móður í eignarfalli, að viðbættu son ef karlmaður er en dóttir ef kvenmaður er.
Nú óskar maður þess að hann eða barn hans beri kenninafn sem dregið er af erlendu eiginnafni foreldris og má þá með úrskurði mannanafnanefndar laga kenninafnið að íslensku máli.
Maður, sem samkvæmt þjóðskrá ber ættarnafn við gildistöku þessara laga eða bar ættarnafn í gildistíð laga nr. 37/1991, má bera það áfram. Sama gildir um niðja hans hvort heldur er í karllegg eða kvenlegg.
Maður, sem samkvæmt þjóðskrá er kenndur til föður eða móður maka síns við gildistöku þessara laga, má kenna sig svo áfram.
Óheimilt er að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi.
Maður, sem við gildistöku þessara laga ber ættarnafn maka síns, má bera það áfram. Eftir að hjúskap lýkur er honum og heimilt að bera ættarnafn fyrrverandi maka síns. Þó getur maður krafist þess að dómsmálaráðherra úrskurði að fyrri maka sé óheimilt að bera ættarnafn hans eftir að hinn fyrri maki gengur í hjúskap að nýju. Sé viðkomandi maður látinn hefur eftirlifandi maki hans sama rétt til að gera þess háttar kröfu. Krafa skal gerð innan sex mánaða frá því að hlutaðeigandi gekk í hjúskap. Dómsmálaráðherra reisir úrskurð sinn á því hvort þyngri séu á metum hagsmunir fyrri maka af því að halda nafni eða þau rök sem fram eru borin fyrir því að hann hætti að bera fyrra nafn.
Hafi annað íslenskra hjóna tekið upp föður- eða móðurnafn hins við búsetu erlendis er því skylt að leggja það niður við flutning til landsins. Sama gildir um niðja þeirra.
Sé annað foreldri barns erlendur ríkisborgari eða hafi verið það er heimilt að barninu sé gefið eitt eiginnafn og/eða millinafn sem víkur frá ákvæðum 5.--7. gr. ef unnt er að sýna fram á að hið erlenda nafn sé gjaldgengt í heimalandi hins erlenda foreldris. Barnið skal þó ávallt bera eitt eiginnafn sem samrýmist 5. gr.
Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um börn manns, sem fær íslenskt ríkisfang með lögum, og öðlast íslenskt ríkisfang með honum, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 100/1952.
Ákvæði 1. mgr. taka enn fremur til manna sem fá íslenskt ríkisfang skv. 2.--4. gr. laga nr. 100/1952.
Þeim sem fyrir gildistöku laga þessara hafa fengið íslenskt ríkisfang með nafnbreytingarskilyrðum skal með leyfi dómsmálaráðherra heimilt að taka aftur upp þau nöfn sem þeir báru fyrir og/eða fella niður þau nöfn sem þeim var gert að taka sér, þó þannig að eiginnöfn þeirra og millinöfn verði ekki fleiri en þrjú samtals, sbr. 2. mgr. 1. gr. Sama gildir um niðja þeirra.
Nafnbreyting barns undir 16 ára aldri er háð því skilyrði að séu forsjármenn þess tveir standi þeir báðir að beiðni um nafnbreytinguna. Beri forsjármaður barns fram ósk um breytingu á nafni þess og hafi orðið breyting á forsjánni frá því barninu var gefið nafn skal, ef unnt er, leita samþykkis þess foreldris sem með forsjána fór við fyrri nafngjöf. Þótt samþykki þess foreldris liggi ekki fyrir getur dómsmálaráðherra engu að síður heimilað nafnbreytingu ef ótvíræðir hagsmunir barns mæla með því.
Sé barn undir 16 ára aldri ættleitt eftir að því var gefið nafn má gefa því nafn eða nöfn í ættleiðingarbréfi í stað hinna fyrri eða til viðbótar nafni eða nöfnum sem það hefur áður hlotið.
Breyting á eiginnafni eða millinafni barns undir 16 ára aldri skal háð samþykki þess hafi það náð 12 ára aldri.
Það er skilyrði nafnbreytingar að hin nýju nöfn séu á mannanafnaskrá eða samþykkt af mannanafnanefnd, sbr. þó 3. mgr. 6. gr. og 7. og 10. gr.
Nú gengur móðir ófeðraðs barns í hjónaband og má þá kenna barnið til stjúpföður þess.
Heimilt er með leyfi dómsmálaráðherra að feðrað barn sé kennt til stjúpforeldris. Leita skal samþykkis þess kynforeldris sem ekki fer með forsjá barnsins, ef unnt er, áður en ákvörðun er tekin um slíkt leyfi. Nú er kynforeldri ekki samþykkt breytingu á kenninafni og getur dómsmálaráðherra þá engu að síður leyft breytinguna ef sérstaklega stendur á og telja verður að breytingin verði barninu til verulegs hagræðis.
Ákvörðun skv. 2. og 3. mgr. skal háð samþykki stjúpforeldris.
Heimilt er með leyfi dómsmálaráðherra að fósturbarn, sem er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum, sé kennt til fósturforeldris. Leita skal samþykkis kynforeldra barnsins, ef unnt er, áður en ákvörðun er tekin um slíkt leyfi. Nú er kynforeldri ekki samþykkt breytingu á kenninafni og getur dómsmálaráðherra þá engu að síður leyft breytinguna ef sérstaklega stendur á og telja verður að breytingin verði barninu til verulegs hagræðis.
Ef óskað er breytingar á kenninafni barns þannig að það fái ættarnafn sem það á rétt á eða verði kennt til móður í stað föður eða öfugt og foreldrið, sem barnið hefur verið kennt til, er andvígt breytingunni getur dómsmálaráðherra leyft hana ef sérstaklega stendur á og telja verður að hún verði barninu til verulegs hagræðis.
Þegar barn er ættleitt skal það kennt til kjörforeldris nema kjörforeldri óski eftir að barnið haldi fyrra kenninafni sínu.
Breyting á kenninafni barns undir 16 ára aldri skal háð samþykki þess hafi það náð 12 ára aldri.
Allar nafnbreytingar samkvæmt lögum þessum, sem ekki eru bundnar leyfi dómsmálaráðherra, skulu tilkynntar Þjóðskrá.
Breyting á eiginnafni, millinafni eða kenninafni samkvæmt lögum þessum tekur ekki gildi fyrr en hún hefur verið færð í þjóðskrá.
Í skiptum við opinbera aðila, við samningsgerð, skriflega og munnlega, svo og í öllum lögskiptum, skulu menn tjá nafn sitt eins og það er ritað í þjóðskrá á hverjum tíma.
Úrskurðum mannanafnanefndar er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds. Nefndin skal birta niðurstöður úrskurða sinna árlega.
Að öðru leyti varða brot gegn lögum þessum sektum nema þyngri viðurlög liggi við eftir öðrum lögum.
Dómsmálaráðherra er enn fremur heimilt að kveða á með reglugerð um mörkin milli íslenskrar löggjafar um mannanöfn og löggjafar annarra þjóða á því sviði.
...