Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
1. gr. Landbúnaðarráðherra er heimilt að semja við stjórn Búnaðarsambands Suðurlands um sameiginlegan rekstur tilraunastöðvar að Stóra-Ármóti í Flóa.
2. gr. Aðalviðfangsefni tilraunastöðvarinnar skal vera alhliða tilraunastarfsemi í nautgriparækt með aðaláherslu á fóðrun og meðferð gripa, en auk þess sinni hún verkefnum á sviði annarra búgreina, eftir því sem aðstæður leyfa hverju sinni.
3. gr. Tilraunastarfsemin verði rekin innan sviðs landbúnaðarrannsókna á Íslandi samkvæmt lögum nr. 64/1965 um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.
4. gr. Þátttaka ríkissjóðs í kostnaði við mannvirkjagerð og rekstur ákvarðast af fjárveitingu hverju sinni.
5. gr. Við tilraunastöðina starfi sérfræðingur í fóðurfræði og rannsóknamaður, ráðnir af Rannsóknastofnun landbúnaðarins, en launaðir af ríkissjóði. Auk þess skulu sérfræðingar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og ráðunautar Búnaðarsambands Suðurlands hafa aðstöðu til rannsókna á tilraunastöðinni, eftir því sem aðstæður leyfa hverju sinni samkvæmt mati stjórnar tilraunastöðvarinnar.
6. gr. Tilraunastöðin starfar undir yfirstjórn þriggja manna, og skal hún skipuð þannig: Einn maður tilnefndur af Búnaðarsambandi Suðurlands, forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og starfandi bóndi á svæði Búnaðarsambands Suðurlands, tilnefndur af landbúnaðarráðherra. Ráðherra skipar stjórn og stjórnarformann til 4ra ára í senn.