Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.


Lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði

1989, nr. 92, 1. júní

I. kafli.

Dómstólar í héraði.

1. gr.
        Héraðsdómstólar fara með dómstörf, hver í sínu umdæmi, í opinberum málum og einkamálum, þar á meðal við skipti, fógetagerðir og uppboð.

2. gr.
        Héraðsdómstólar eru 8 og nefnast þeir héraðsdómar. Þeir eru kenndir við umdæmi sín, sem eru: Reykjavík, Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland, Suðurland og Reykjanes. Lögsagnarumdæmi þeirra og aðsetur eru sem hér segir:
1. Héraðsdómur Reykjavíkur. Lögsagnarumdæmi hans er frá mörkum milli Reykjavíkurborgar og Kópavogskaupstaðar að mörkum milli Kjósar- og Borgarfjarðarsýslna. Dómstóllinn hefur aðsetur í Reykjavík.
2. Héraðsdómur Vesturlands. Lögsagnarumdæmi hans er frá mörkum milli Kjósar- og Borgarfjarðarsýslna að mörkum milli Dala- og Barðastrandarsýslna. Dómstóllinn hefur aðsetur í Borgarnesi.
3. Héraðsdómur Vestfjarða. Lögsagnarumdæmi hans er frá mörkum milli Dala- og Barðastrandarsýslna að mörkum milli Stranda- og Húnavatnssýslna. Dómstóllinn hefur aðsetur á Ísafirði.
4. Héraðsdómur Norðurlands vestra. Lögsagnarumdæmi hans er frá vesturmörkum Húnavatnssýslu að austurmörkum Skagafjarðarsýslu og Siglufjarðarkaupstaðar. Dómstóllinn hefur aðsetur á Sauðárkróki.
5. Héraðsdómur Norðurlands eystra. Lögsagnarumdæmi hans er frá vesturmörkum Ólafsfjarðarkaupstaðar að austurmörkum Þingeyjarsýslu. Dómstóllinn hefur aðsetur á Akureyri.
6. Héraðsdómur Austurlands. Lögsagnarumdæmi hans er frá mörkum milli Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu að mörkum milli Austur- og Vestur-Skaftafellssýslna. Dómstóllinn hefur aðsetur á Egilsstöðum.
7. Héraðsdómur Suðurlands. Lögsagnarumdæmi hans er frá mörkum milli Austur- og Vestur-Skaftafellssýslna að vesturmörkum Árnessýslu. Dómstóllinn hefur aðsetur á Selfossi.
8. Héraðsdómur Reykjaness. Lögsagnarumdæmi hans er frá vesturmörkum Árnessýslu að mörkum milli Kópavogskaupstaðar og Reykjavíkurborgar. Dómstóllinn hefur aðsetur í Hafnarfirði.

        Rétt er héraðsdómara að halda dómþing utan lögsagnarumdæmis síns ef það þykir heppilegt til að upplýsa mál, enda valdi það ekki verulegum drætti á því.

3. gr.
        Með reglugerð,1) sem dómsmálaráðherra setur, má skipta hverju lögsagnarumdæmi í tvær eða fleiri þinghár sem hver hafi tiltekinn fastan þingstað.
        Héraðsdómur skal halda regluleg dómþing á föstum þingstöðum innan umdæmis síns eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð.
        Rétt er héraðsdómara að halda önnur dómþing þar sem hentugt þykir innan lögsagnarumdæmis síns ef það þykir heppilegt til að upplýsa mál.

1)Rg. 58/1992, sbr. 409/1992.

4. gr.
        Dómarar við héraðsdómstóla nefnast héraðsdómarar. Við héraðsdóm Reykjavíkur skulu vera 21 héraðsdómari, við héraðsdóm Vesturlands 1, við héraðsdóm Vestfjarða 1, við héraðsdóm Norðurlands vestra 1, við héraðsdóm Norðurlands eystra 3, við héraðsdóm Austurlands 1, við héraðsdóm Suðurlands 3 og við héraðsdóm Reykjaness 7. Þar sem héraðsdómarar eru þrír eða fleiri við dómstól má skipta honum í deildir eftir málaflokkum með samþykki dómsmálaráðherra.
        Einn héraðsdómari skipar dóm í hverju máli. Um heimild dómara til að kveðja meðdómsmenn til setu í dómi fer eftir reglum laga um meðferð einkamála í héraði og laga um meðferð opinberra mála.
        Sérhver héraðsdómari starfar sjálfstætt og á eigin ábyrgð að dómstörfum.
        Þar sem héraðsdómarar eru fleiri en einn við dómstól skipar dómsmálaráðherra einn þeirra dómstjóra héraðsdómsins til 6 ára í senn að fenginni tillögu þeirra. Láti dómstjóri af störfum við dómstólinn áður en starfstímabili hans lýkur skal nýr dómstjóri skipaður til næstu 6 ára. Nú verður sæti dómstjóra laust um stundarsakir eða hann forfallast og fer þá sá dómari með dómstjórn sem elstur er að embættisaldri við dóminn.
        Dómstjórar héraðsdóma hafa yfirstjórn þeirra með höndum og bera á henni ábyrgð. Þeir fara með fyrirsvar héraðsdómsins út á við. Þeir úthluta héraðsdómurum málum til meðferðar og skipa þeim í deildir ef héraðsdómur er deildaskiptur.

5. gr.
        [Ráðherra skipar héraðsdómara ótímabundið.]1) Engan má skipa héraðsdómara nema hann fullnægi eftirtöldum skilyrðum:
1. Sé svo andlega og líkamlega hraustur að hann geti gegnt stöðunni.
2. Hafi náð 30 ára aldri.
3. Sé lögráða og hafi forræði bús síns.
4. Hafi óflekkað mannorð.
5. Hafi íslenskan ríkisborgararétt.
6. Hafi lokið embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands eða [sambærilegu prófi við annan háskóla og hafi næga þekkingu á íslenskum lögum].2)
7. Hafi enn fremur þrjú ár samtals verið alþingismaður, gegnt málflutningsstörfum að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi í þágu ríkis eða sveitarfélags. Leggja má saman starfstíma í hverri einstakri af starfsgreinum þessum.

        Dómsmálaráðherra skipar dómnefnd til fjögurra ára í senn sem fjallar um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Í nefndinni sitja þrír menn og tilnefnir Hæstiréttur einn nefndarmann og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Dómarafélag Íslands tilnefnir einn nefndarmann úr hópi héraðsdómara og Lögmannafélag Íslands tilnefnir þriðja nefndarmanninn úr hópi starfandi lögmanna. Sömu aðilar tilnefna varamenn í nefndina. Nefndin skal gefa dómsmálaráðherra skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur.
        Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um störf nefndarinnar.3)

1)L. 83/1997, 25. gr.2)L. 133/1993, 26. gr.3)Rg. 40/1992.

6. gr.
        [Dómsmálaráðherra getur skipað fulltrúa við héraðsdómstól [til fimm ára í senn]1) til að framkvæma dómsathafnir í umboði og á ábyrgð dómstjóra eða héraðsdómara þar sem eigi er skipaður dómstjóri. Sá einn getur hlotið slíka skipun sem fullnægir skilyrðum 1. og 3.--6. tölul. 5. gr.
        Dómstjóri eða héraðsdómari, þar sem eigi er skipaður dómstjóri, getur falið fulltrúa að annast hvers konar dómsathafnir, en þó ekki að fara með og leysa að efni til úr einkamálum þar sem vörnum er haldið uppi eða opinberum málum frá því að þau koma til aðalmeðferðar.]2)

1)L. 83/1997, 26. gr.2)L. 80/1995, 1. gr.

7. gr.
        Dómsmálaráðherra setur héraðsdómara til þess að fara með og dæma einstök mál (setudómara) þar sem allir hinir reglulegu dómarar við héraðsdómstól þann, er málið ber undir, hafa vikið dómarasæti.
        Ef mál er sérstaklega umfangsmikið getur dómsmálaráðherra að ósk dómstjóra eða héraðsdómara skipað sérstakan dómara til að fara með það.
        Nú verður sæti héraðsdómara laust, hann forfallast eða fær leyfi frá störfum. Er þá dómsmálaráðherra rétt að setja dómara í hans stað um stundarsakir, en þó ekki um lengri tíma í senn en 12 mánuði, nema dómari megi ekki gegna starfi sínu vegna veikinda.
        Dómarar skv. 1.--3. mgr. skulu fullnægja ákvæðum 1.--7. tölul. 1. mgr. 5. gr. Þó má, ef sérstaklega stendur á, gera undantekningar frá skilyrðum 2. og 7. tölul.

8. gr.
        Geri dómari eða dómarafulltrúi sig sekan um vanrækslu í dómarastarfi án þess þó að refsing liggi við að lögum eða framkoma hans eða athafnir í dómarastarfi eða utan þess þykja að öðru leyti ósamrýmanlegar dómarastarfinu skal veita honum áminningu.
        Forseti Hæstaréttar veitir áminningu þegar í hlut á forstöðumaður dómaraembættis. Dómstjóri veitir áminningu þegar í hlut á annar héraðsdómari við það embætti eða dómarafulltrúi. Tilkynna skal dómsmálaráðherra um veitta áminningu.
        Nú telur dómsmálaráðherra dómara hafa misst hin almennu dómaraskilyrði eða hafa gert sig sekan um misferli í dómarastarfi, enda hafi áminning skv. 2. mgr. eigi komið að haldi, eða dómari hefur að áliti ráðherra með öðrum hætti rýrt svo álit sitt siðferðislega að hann megi ekki lengur gegna dómaraembætti og víkur ráðherra honum þá frá embætti um stundarsakir en síðan skal höfða mál á hendur honum til embættismissis svo fljótt sem verða má.
        [Ákvæði 3. mgr. gilda einnig um dómara skv. 7. gr. og fulltrúa dómara.]1)
        Rétt er þeim, sem skv. 3. eða 4. mgr. hefur verið sviptur embætti eða starfa, að höfða mál með venjulegum hætti á hendur dómsmálaráðherra fyrir hönd ríkisvaldsins til úrlausnar um lögmæti þeirrar ráðstöfunar, enda höfði hann málið innan 6 mánaða frá því að hún var gerð.
        Forseti getur þó veitt þeim dómara, sem orðinn er fullra 65 ára að aldri, lausn frá embætti, enda njóti hann þá sömu eftirlauna sem hann hefði fengið ef hann hefði gegnt starfinu til 70 ára aldurs.

1)L. 80/1995, 2. gr.

[8. gr. a.
        Dómari skal bæta tjón af dómaraverkum sínum ef hann veldur því af ásetningi eða gáleysi. Um refsiábyrgð dómara fer samkvæmt almennum hegningarlögum og sérákvæðum einstakra laga.
        Í æðra dómstóli má með dómi í aðalmálinu gera héraðsdómara að greiða skaðabætur vegna meðferðar sinnar á máli, enda hafi honum verið stefnt til greiðslu skaðabóta. Einnig má sækja slíkt mál sjálfstætt fyrir æðra dómi ef það er höfðað innan frests til að áfrýja þeirri dómsathöfn sem leiddi til tjóns.
        Í héraði verður dómari eingöngu sóttur til greiðslu skaðabóta vegna dómaraverks í sambandi við opinbert mál út af því eða eftir að refsidómur hefur verið kveðinn upp yfir honum í opinberu máli fyrir afbrot í dómarastarfi.
        Með dómi æðra dómstóls í aðalmálinu eða sjálfstætt má dæma héraðsdómara til sektar fyrir hvers konar misferli við meðferð þess, enda hafi honum verið stefnt til ábyrgðar.]1)

1)L. 91/1991, 161. gr.

9. gr.
        Haldast skulu sérreglur laga um félagsdóm, ...1) landsdóm og siglingadóm.2)

1)L. 91/1991, 161. gr.2)Reglur um siglingadóm voru felldar úr gildi með l. 35/1993 og er hann því ekki lengur til.

II. kafli.

Umboðsvald í héraði.

10. gr.
        Sýslumenn fara, hver í sínu umdæmi, með stjórnsýslu ríkisins eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um. Þar á meðal fara þeir með lögreglustjórn, tollstjórn og innheimtu opinberra gjalda, að því leyti sem hún er ekki falin öðrum, sbr. þó 12. gr.

11. gr.
        Landið skiptist í 26 stjórnsýsluumdæmi auk Reykjavíkurumdæmis, sem nær yfir Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstað, Mosfellsbæ, Kjalarneshrepp og Kjósarhrepp. Aðsetur sýslumanna eru sem hér segir: 1. Reykjavík, 2. Akranes, 3. Borgarnes, 4. Stykkishólmur, 5. Búðardalur, 6. Patreksfjörður, 7. Bolungarvík, 8. Ísafjörður, 9. Hólmavík, 10. Blönduós, 11. Sauðárkrókur, 12. Siglufjörður, 13. Ólafsfjörður, 14. Akureyri, 15. Húsavík, 16. Seyðisfjörður, 17. Neskaupstaður, 18. Eskifjörður, 19. Höfn í Hornafirði, 20. Vík í Mýrdal, 21. Hvolsvöllur, 22. Vestmannaeyjar, 23. Selfoss, 24. Keflavík, 25. Keflavíkurflugvöllur, 26. Hafnarfjörður, 27. Kópavogur. Umdæmi sýslumanna skv. 2.--27. tölul. skulu ákveðin með reglugerð1) að fenginni umsögn viðkomandi sýslumanna og sveitarstjórna.
        Eigi má fækka stjórnsýsluumdæmum eða taka upp ný nema með lögum.

1)Rg. 57/1992, sbr. 500/1996.

12. gr.
        Með þau verkefni, sem sýslumönnum eru falin í öðrum umdæmum, fara lögreglustjórinn í Reykjavík, tollstjórinn í Reykjavík og sýslumaðurinn í Reykjavík sem hér segir:
1. Lögreglustjórinn í Reykjavík fer með lögreglustjórn, þar á meðal útlendingaeftirlit, ásamt þeim störfum sem honum eða lögreglustjórum eru almennt falin með fyrirmælum einstakra laga.
2. Tollstjórinn í Reykjavík fer með tollstjórn, innheimtu tekna ríkissjóðs, að því leyti sem hún er ekki sérstaklega falin öðrum, og lögskráningu skipshafna, auk starfa samkvæmt fyrirmælum einstakra laga.
3. Með önnur störf en þau, sem falla innan marka 1. og 2. tölul., fer sýslumaðurinn í Reykjavík.

        Dómsmálaráðherra sker að öðru leyti úr um hvaða verkefni heyri undir einstök embætti skv. 1. mgr.

13. gr.
        Sýslumaður skal hafa skrifstofur í umdæmi sínu eftir því sem dómsmálaráðherra kveður á um hverju sinni og fé er veitt til á fjárlögum.1)

1)Rg. 57/1992.

14. gr.
        [Ráðherra skipar sýslumenn til fimm ára í senn.]1) Málefni sýslumanna eiga undir dómsmálaráðherra.
        Engan má skipa sýslumann, nema hann fullnægi skilyrðum 1. og 3.--7. tölul. 1. mgr. 5. gr.

1)L. 83/1997, 27. gr.

15. gr.
        Sýslumenn hafa yfirumsjón og ábyrgð á rekstri embætta sinna.
        Dómsmálaráðherra getur að tillögu sýslumanns kveðið á um skiptingu sýslumannsembættis í starfsdeildir eftir verkefnum. Heimilt er að [ráða]1) sérstaka deildarstjóra sem veita viðkomandi starfsdeildum forstöðu á ábyrgð sýslumanns. Ef starfsdeildir við sýslumannsembætti eru fleiri en ein skal einn deildarstjóra teljast staðgengill sýslumanns, enda fullnægi hann hæfisskilyrðum til skipunar í sýslumannsembætti.
        Við sýslumannsembætti skal auk sýslumanns vera það starfslið sem [sýslumaður]1) telur þörf á. Um hæfisskilyrði löglærðra fulltrúa sýslumanns gilda ákvæði 1. og 3.--6. tölul. 1. mgr. 5. gr.

1)L. 83/1997, 28. gr.

III. kafli.

Gildistaka og ákvæði til bráðabirgða.

16. gr.
        Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.
        ...1)

1)L. 92/1991, 103. gr.

17.--20. gr.
        ...

21.--22. gr.
        ...1)

1)L. 91/1991, 161. gr.