Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Jörð, sem ekki hefur verið setin í 2 ár eða lengur, telst eyðijörð, og þó að hús séu fallin eða rifin, telst hún lögbýli, nema jörðinni sé ráðstafað til annarra nota með samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar, t.d. lögð til afréttar eða sameinuð annarri jörð.
[Jörð eða lögbýli teljast enn fremur býli sem hlotið hafa samþykki landbúnaðarráðuneytisins sem ný býli.]1)
Jarðanefnd getur undanþegið jarðareiganda byggingarskyldu á jörð, ef hún er að dómi nefndarinnar svo kostarýr til búskapar eða þannig í sveit sett, að nefndin telur ekki fært að hafa búskap þar að aðalatvinnu. [Jarðanefnd getur einnig undanþegið stéttarfélög byggingarskyldu á jörð, ef jörðin er vel fallin til útivistar og orlofsheimili félagsmanna eru þar starfrækt eða áformuð.]1)
Nú hefur eigandi jarðar nytjað eignarjörð sína án þess að sitja á jörðinni og hvorki hann, fjölskylda hans né umsjónarmaður á hans vegum hefur þar lögheimili, en jörðin rýrnar svo, að sveitarfélagið bíður hnekki af, að mati jarðanefndar, og skal þá sveitarstjórn krefjast þess, að jarðareigandi bæti það, sem áfátt er, innan tveggja missira eða byggi jörðina frá næstu fardögum, en sæti ella ráðstöfun sveitarstjórnar á jörðinni skv. 1. mgr.
Nú er land fallið úr tölu lögbýla eða hefur skipst úr jörð án þess að verða nýbýli og er ekki nytjað af eiganda né leigt hreppsbúum, en þess er þörf vegna búskapar í sveitarfélaginu að mati jarðanefndar og getur þá sveitarstjórn tekið það leigunámi til þeirra nota 5 ár í senn, en ábyrgjast verður hún að landið sé hóflega nýtt að viðlagðri bótaskyldu. Á sama hátt fer um jarðir, sem undanþegnar eru byggingarskyldu skv. 2. mgr.
Eftirgjald jarða eða landa, er sveitarstjórn tekur til ráðstöfunar samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, ákveður jarðanefnd, nema um semjist við eiganda, en hvor aðili um sig getur krafist yfirmats skv. 44. gr.
Undanskilin leiguliðaafnotum eru vatnsréttindi, þar með talið jarðhiti, námur, byggingarefni, svo sem sand- og malarnámur og önnur jarðefni, sem ekki geta talist til venjulegra leiguliðanota af jörð, einnig land til nauðsynlegra bygginga, til þess að eigandi geti hagnýtt þessi efni. Þó á leiguliði rétt á vatni til áveitu og heimilisrafstöðvar og til upphitunar á húsum jarðar, þar með talin gróðurhús til eigin atvinnurekstrar, svo og byggingarefni til búsþarfa. Leiguliði á rétt á bótum fyrir jarðrask og átroðning, sem leiðir af virkjun vatns eða starfrækslu þvílíkra fyrirtækja.
Ekkja leiguliða heldur ábúðarrétti hans.
Heimilt er eiganda að taka jörð eða jarðarhluta úr lífstíðarábúð vegna eigin þarfa eða til ábúðar handa sjálfum sér, barni sínu, barnabarni, kjörbarni, fósturbarni, systkini eða foreldri, nema landsdrottinn hafi fallið frá þessum rétti í byggingarbréfi.
Nú segir landsdrottinn upp ábúð, en hvorki flytur sjálfur á jörðina né afhendir hana öðrum til ábúðar, samkvæmt þessari grein, og er þá sú uppsögn ógild, og á leiguliði heimtingu á að fá jörðina aftur, ef hann krefst þess, innan árs frá því að hann flutti af jörðinni. Auk þess bæti landsdrottinn allan þann skaða, er leiguliði kann að hafa beðið af þessum sökum.
Náist ekki samkomulag um eftirgjald skal jarðanefnd úrskurða það. Ákvörðun jarðanefndar má skjóta til yfirmats skv. 44. gr. innan eins mánaðar frá dagsetningu ákvörðunarinnar.
Vítalaust er landsdrottni, ef íbúðarhús er fullnægjandi fyrir meðalfjölskyldu og þá vinnuhjálp, sem ætla má að þurfi, til þess að jörð verði nytjuð með venjulegum hætti, og peningshús fylgja fyrir 3/4 hluta þess bústofns, sem úttektarmenn meta, að jörðin geti borið, miðað við ástand hennar, þegar ábúandi tekur við ábúðinni.
Nú er ekki fyrir hendi hinn tilskildi húsakostur, er viðtaka fer fram, og skal þá í byggingarbréfi ákveðinn sá frestur, er landsdrottinn hefur, til þess að úr sé bætt, og tilgreint, með hvaða hætti það skuli gert. Húsakostur telst ekki leigufær án umbóta, ef ekki má ætla, að hann með eðlilegu viðhaldi sé nothæfur í 10 ár.
Undanþeginn þessari húsaskyldu er landsdrottinn um þær jarðir, sem vegna kostarýrðar, skorts á ræktunarskilyrðum eða annarri aðstöðu til búrekstrar verða ekki taldar búhæfar að mati jarðanefndar, svo og jarðir innan takmarka kaupstaða, sjávar- og sveitaþorpa, er rétt þykir að dómi landbúnaðarráðuneytisins, að fengnum tillögum [Bændasamtaka Íslands],1) að skipta niður í ræktunarlóðir.
Nú leggur landsdrottinn að ósk leiguliða fram fé til umbóta á jörð sinni, og skal þá landskuld hækka, þannig að af framlaginu greiðist sömu vextir og af lánum hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins á hverjum tíma.
Nú vill leiguliði auka húsakost ábúðarjarðar sinnar, og hans telst þörf, að mati viðkomandi héraðsráðunautar og byggingafulltrúa, en landsdrottinn vill ekki kosta auknar byggingaframkvæmdir. Leiguliða er þá heimilt að byggja, eftir að hafa sannanlega tilkynnt landsdrottni, enda sé gerð bygginga og fyrirkomulag samþykkt af byggingafulltrúa viðkomandi héraðs og jarðanefnd.
Ef landsdrottinn vill ekki gera jarðarbótina á sinn kostnað, en hún er samkvæmt skriflegu áliti hlutaðeigandi héraðsráðunautar álitleg til að gefa góðan arð, er leiguliða heimilt að framkvæma verkið.
[Þá er ábúanda ríkisjarðar heimilt að veðsetja ábýlisjörð sína til tryggingar lánum, sem hann á kost á í Búnaðarbanka Íslands, til bústofnskaupa.]1)
Helming þeirrar fjárhæðar sem landsdrottni er gert að greiða samkvæmt mati, ber honum að inna af hendi með þremur jöfnum greiðslum innan níu mánaða frá því úttekt fór fram og eftirstöðvar með jöfnum afborgunum á sex árum nema um annað semjist. Landsdrottni ber að greiða sömu vexti af skuldum vegna kaupa á mannvirkjum leiguliða og Stofnlánadeild landbúnaðarins reiknar af lánum vegna sambærilegra mannvirkja hverju sinni.
Þau hús, sem ekki teljast nauðsynleg til búrekstrar og unnt er að flytja, er jarðareigandi ekki skyldugur að kaupa af fráfaranda. Verði ekki samkomulag um kaup á þeim, hefur fráfarandi rétt til að flytja þau af jörðinni eða selja þau öðrum til brottflutnings og er skylt að sjá um, að þau verði rifin, ef viðtakandi krefst, og þá svo, að viðtakanda sé sem minnst mein að. Séu mannvirki minna virði, að mati úttektarmanna, en þau voru, er leiguliði tók við jörð, skal hann greiða landsdrottni mismuninn. Sá mismunur, er greiðast skal, er lögtakskræfur. Við matsgerðir þessar ber úttektarmönnum að taka tillit til almennra verðbreytinga, sem orðið hafa á kostnaði við mannvirkjagerð.
Landbúnaðarráðherra setur reglur um viðhald húsa á leigujörðum, að fengnum tillögum [Bændasamtaka Íslands]1) og [Stofnlánadeildar landbúnaðarins].1)
Neiti leiguliði að kaupa eða hafi hann ekki svarað tilboði innan missiris, hefur hann fyrirgert ábúðarrétti sínum.
Geti ábúandi ekki keypt ábúðarjörð sína eða vilji hann það ekki, hefur sveitarstjórn rétt til að ganga í kaupin með þeim skilmálum, sem jörðin var boðin ábúanda.
Leiguliða er skylt hið síðasta að hefja ábúð, þegar sjö vikur eru af sumri, ella fyrirgerir hann ábúðarrétti sínum, en ber að greiða eins árs jarðarafgjald auk bóta eftir almennum reglum, ef tjón sannast.
Til leiguliðaafnota teljast öll hús, mannvirki, ræktun, svo og hlunnindi, er jörðinni fylgja, svo sem lax- og silungsveiði, sellátur, eggver og annað, sem leiguliðaafnotum hefur fylgt að fornri landsvenju, nema sérstakur samningur sé um annað, sbr. 2. gr. laga um lax- og silungsveiði.
Leiguliði skal hafa not slíkra hlunninda það vor, sem hann flytur á jörð, nema um annað sé samið. Heimilt er landsdrottni eða leiguliða, ef samkomulag verður þar um, að leigja öðrum hlunnindi, sem vegna fjarlægðar eða aðstöðu er erfitt að nytja af jörðinni, enda sé slíkt gert í samráði við jarðanefnd og býlið lífvænlegt til búrekstrar, að dómi jarðanefndar, þó að þau hlunnindi séu undan tekin. Þá má landsdrottinn og leigja lóðir undir hús eða land til uppsáturs og fiskverkunarreita og spildur til ræktunar í óyrktu landi leigujarðar, ef hlutaðeigandi héraðsráðunautur eða trúnaðarmaður [Bændasamtaka Íslands]1) telur það ekki valda leiguliða verulegum skaða eða takmarki ekki aðstöðu hans til ræktunar á jörðinni, enda lækki jarðarafgjaldið að réttri tiltölu eftir mati úttektarmanna.
Hvarvetna, þar sem landsdrottinn segir leiguliða upp ábúð eða byggir honum út, vegna vanefnda á skyldum hans, skal hann hafa gert það sannanlega fyrir jól, miðað við næstu fardaga.
Úttekt á jörð skal fara fram fyrir 20. júní. Úttektarmenn skulu gera viðtakanda og fráfaranda aðvart með nægum fyrirvara, hvenær úttekt fer fram, svo og landsdrottni eða umboðsmanni hans, svo að þeir geti verið viðstaddir og gætt réttar síns.
Allir fullveðja búendur hreppsins, yngri en 60 ára, eru skyldir að taka útnefningu.
Úttektarmenn skulu, áður en þeir byrja störf sín, undirrita í úttektarbókina drengskaparheit um að gegna starfi sínu hlutdrægnislaust og eftir bestu vitund og sannfæringu.
[Sýslumaður skipar tvo menn í nefndina til 6 ára og varamenn til sama tíma.]1) Sýslumaður eða fulltrúi hans er sjálfkjörinn formaður nefndarinnar. Heimilt er sýslumanni að kveðja, ef ástæða þykir til, að auki í nefndina tvo meðnefndarmenn, jarðræktarráðunaut og byggingafulltrúa viðkomandi sýslu. Skylt er formanni nefndarinnar að tilkynna gagnaðila, að krafist hafi verið yfirmats, og veita honum nægan frest, svo að hann geti gætt réttar síns.
Yfirnefndarmenn eiga sömu laun fyrir starfa sinn sem úttektarmenn og auk þess hæfilegan ferðakostnað. Yfirnefnd úrskurðar hvernig kostnaður við yfirmat greiðist.
Fara skal eftir ákvæðum laga þessara um réttindi og skyldur leiguliða og landsdrottins varðandi framkvæmdir á leigujörð, sbr. 12.--16. gr., greiðslu jarðarafgjalds og annarra gjalda af jörð, sbr. 7.--9. gr., riftun og uppsögn ábúðarsamnings, sbr. 30. og 31. gr., enda þótt ábúðarsamningur hafi verið gerður fyrir gildistöku laganna.