Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.


Lög um bæjanöfn o.fl.

1953, nr. 35, 18. febrúar

1. gr.
        Hvert býli utan kaupstaða, kauptúna eða þorpa skal nafn hafa. Í kaupstöðum og kauptúnum eða þorpum skulu hús auðkennd með götunafni og númeri. Þó er eiganda húss heimilt að auðkenna hús sitt jafnframt með öðru nafni, svo og að gefa húsi sínu nafn, þar sem svo hagar til, að húsið verður eigi auðkennt með götunafni og númeri, sbr. þó 6. gr.

2. gr.
        Ráðherra skipar 5 manna nefnd, er nefnist örnefnanefnd. Hún skal auk eftirlits og tillagna um býlanöfn hafa á hendi eftirlit með nafnsetningu á landabréfum þeim, sem gefin eru út að tilhlutun ríkisins, og vera ráðuneytinu til leiðbeiningar og aðstoðar um önnur málefni, er varða hvers konar staðarnöfn hér á landi.

3. gr.
        Nöfnum á býlum utan kaupstaða og kauptúna eða þorpa, þeim, er talin eru í fasteignabók 1942, má eigi breyta nema með leyfi ráðherra, að fengnum tillögum örnefnanefndar (sbr. 5. gr.).

4. gr.
        Eigi má taka upp nafn á nýbýli utan kaupstaða, kauptúna eða þorpa, nema með leyfi ráðherra, að fengnum tillögum örnefnanefndar.

5. gr.
        Vilji eigandi breyta nafni býlis síns samkvæmt 3. gr. eða taka upp nafn á nýbýli sínu samkvæmt 4. gr., skal hann senda örnefnanefnd beiðni um það. Í beiðninni skal hann skýra frá ástæðum til þess, að farið er fram á, að hið eldra nafn býlisins verði lagt niður, og þeim ástæðum, er ráðið hafa vali umsækjanda á hinu nýja nafni. Sé hið nýja nafn dregið af staðháttum, skal þeim lýst í umsókninni, hvort sem um er að ræða nafn á nýbýli eða nafn á býli, sem eigandi vill breyta um nafn á. Umsókninni skal fylgja vottorð sýslumanns um eignarrétt umsækjanda á býlinu. Breytingar á nafni býlis skal ekki leyfa, nema alveg sérstaklega standi á, svo sem býlið eigi samnefnt við annað lögbýli í sama [héraði]1) eða því um líkt. Við upptöku nýnefna skal gæta þess, að fylgt sé þeim venjum, sem ráðið hafa nafngjöfum býla hér á landi. Ekki mega nafngiftir leiða til samnefna á fasteignum í sama [héraði]1) né nafna, sem eru svo lík öðrum nöfnum á fasteignum í [héraðinu],1) að hætt sé þess vegna við nafnabrenglum.
        Nú þykir örnefnanefnd betur fara að breyta nafni á býli, annaðhvort af því að það er samnefnt öðru býli í sama [héraði]1) eða svo líkt, að hætta getur verið á mistökum, eða nafnið er málskrípi eða sérstaklega óþjált, og er þá rétt að hún hlutist til um að fá nafninu breytt til betri vegar.

1)L. 108/1988, 54. gr.

6. gr.
        Nú vill eigandi húss í kaupstað, kauptúni eða þorpi gefa húsi sínu nafn samkvæmt 1. gr. eða breyta nafni á því, og skal hann þá afhenda til þinglýsingar yfirlýsingu sína um nafn hússins. Í yfirlýsingunni skal eignin skilgreind svo nákvæmlega, að eigi geti verið vafi á, við hvaða eign er átt. Yfirlýsingunni skal fylgja skilríki fyrir eignarrétti þess manns, er yfirlýsinguna gefur, að eigninni, svo og meðmæli bæjarstjórnar eða hreppsnefndar með nafninu. [Þinglýsingarstjóra]1) skal heimilt að neita um þinglýsingu nafnsins og banna upptöku þess, ef honum virðist nafnið að einhverju leyti óheppilegt eða afkáralegt. Eigi má taka upp nafn, sem önnur fasteign í sama kaupstað, kauptúni, þorpi eða sýslufélagi hefur áður fengið með löglegum hætti.

1)L. 92/1991, 29. gr.

7. gr.
        Nú myndast þéttbýli --- þorp --- í landi einhverrar jarðar eða jarða, og er þá rétt, að [sveitarstjórn]1) sæki um það til örnefnanefndar að fá lögfest nafn á því, enda geri hún þá jafnframt tillögur um nafnið og lýsi staðháttum, eftir því sem ástæða er til (sbr. 5. gr.).

1)L. 108/1988, 55. gr.

8. gr.
        Örnefnanefnd skal svo fljótt sem henni er mögulegt, eftir að henni hafa borist beiðnir um nafnfesti á býlum eða þorpum eftir 5. og 7. gr. senda ráðherra rökstuddar tillögur um málið. Nú telur ráðherra nafntökunni ekkert til fyrirstöðu, og gefur hann þá út leyfisbréf til nafntökunnar. Nú telur örnefnanefnd ekki rétt að lögfesta nafn, sem um er beðið á nýbýli, og skal hún þá tilkynna það umsækjanda og jafnframt benda honum á þrjú nöfn, sem hann megi velja á milli á býli sitt. Hafi umsækjandi ekki innan sex mánaða valið eitt þeirra eða nýtt nafn, sem nefndin fellst á, og tilkynnt það örnefnanefnd, sendir örnefnanefnd öll gögn viðvíkjandi málinu til ráðherra, og úrskurðar hann, hvert nafn býlið skuli fá, og gefur út fyrir því leyfisbréf. [Leyfisbréfið sendir ráðherra [þinglýsingarstjóra]1) til þinglýsingar og skal dómari skýra þinglýstum veðhöfum frá nafnbreytingunni, ef þeir eru kunnir.]2) Eigi má taka við skjölum til þinglestrar viðvíkjandi fasteign, sem hefur ekki fengið viðurkennt nafn samkvæmt lögum þessum. Sýslumaður innheimtir lögboðið þinglestrargjald hjá eiganda býlisins. Birta skal árlega í B-deild Stjórnartíðindanna skrá um nöfn þau, sem leyft hefur verið að taka upp á árinu. Svo skal og, er lög þessi hafa tekið gildi, birta skrá yfir nöfn þau, er leyfð hafa verið á eldri býlum og ekki eru talin í fasteignabók 1942 og ekki hafa þegar verið birt.

1)L. 92/1991, 29. gr.2)L. 22/1978, 1. gr.

9. gr.
        Ákvæði 5. og 8. gr. gilda einnig um nöfn á nýbýlum, sem tekin hafa verið upp og ekki eru talin í fasteignabók 1942. Eigendur skulu hafa sótt um nafnleyfi á slíkum býlum innan 6 mánaða frá gildistöku laga þessara.

10. gr.
        Brot gegn lögum þessum varða sektum ...1) er renna í ríkissjóð. ...2)
        ...3)

1)L. 10/1983, 70. gr.2)L. 92/1991, 29. gr.