Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Lögin geta einnig tekið til almennra lána vegna fasteignaviðskipta þar sem samið er sérstaklega um að ákvæðum um greiðslujöfnun við endurgreiðslu eftirstöðva kaupverðs skuli beitt.
Lög þessi taka eingöngu til verðtryggðra lána, en viðskiptaráðherra er heimilt að setja reglur um sambærileg lánskjör óverðtryggðra lána.
Greiðslumark af fullverðtryggðum lánum, sem tekin voru fyrir 1. mars 1982, er gjaldfallin afborgun og gildandi vextir á verðlagi 1. mars 1982.
Greiðendum lána, er um ræðir í þessari grein sem eiga í umtalsverðum greiðsluerfiðleikum að mati Húsnæðisstofnunar, skal gefinn kostur á að fresta greiðslum af þessum lánum samkvæmt ákvæðum 5. gr. þessara laga, enda berist stofnuninni umsókn þar að lútandi fyrir 1. september 1985.
Sé framreiknað greiðslumark lægra en gjalddagafjárhæð gjaldfellur einungis sá hluti gjalddagafjárhæðar sem samsvarar greiðslumarki. Greiðslu á ógreiddum hluta gjalddagafjárhæðar er frestað og myndar hann skuld á sérstökum jöfnunarreikningi sem telst hluti af höfuðstól lánsins.
Sé greiðslumark hærra en gjalddagafjárhæð skal heildargreiðslan miðuð við greiðslumark að því marki sem skuld er á jöfnunarreikningi, en sé jöfnunarreikningur skuldlaus skal gjalddagafjárhæð ráða greiðslu.
Ef skuld er á jöfnunarreikningi eftir að upprunalegum lánstíma er lokið skal endurgreiða hana á sama gjalddaga (gjalddögum) ársins miðað við framreiknað greiðslumark á síðasta gjalddaga lánsins.
Lánskjör, þ.m.t. vextir og verðtrygging vegna skuldar á jöfnunarreikningi, skulu vera þau sömu og af upprunalegu láni.