Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Kaupandi að hlutdeild í afnotarétti af fasteign sem staðsett er á Evrópska efnahagssvæðinu nýtur verndar í samræmi við ákvæði þessara laga þótt um samninginn fari eftir löggjöf lands utan svæðisins.
Heimilt er að veita framangreindar upplýsingar á sérstöku skjali sem seljanda er skylt að afhenda en allar slíkar upplýsingar eru hluti af samningi. Í öllum auglýsingum ber að geta þess hvar nálgast megi upplýsingar sem eru hluti af samningi aðila samkvæmt þessum lögum.
Leggi seljandi ekki fram upplýsingar sem nefndar eru í 1.--3. tölul., a- og b-lið 4. tölul., svo og 6.--9. tölul. 4. gr. við undirritun samnings er kaupandi óbundinn af tilboði sínu í þrjá mánuði þar á eftir. Veiti seljandi fullnægjandi upplýsingar innan þeirra tímamarka byrjar frestur skv. 1. mgr. að líða frá þeim degi er seljandi fullnægði upplýsingaskyldu sinni.
Hafi seljandi ekki veitt upplýsingar skv. 2. mgr. innan þriggja mánaða frá undirritun samnings og kaupandi ekki notfært sér rétt sinn til þess að ganga frá samningnum vegna skorts á upplýsingum byrjar frestur skv. 1. mgr. að líða frá fyrsta degi eftir að þriggja mánaða frestinum skv. 2. mgr. er lokið.
Seljanda er óheimilt að krefja kaupanda um greiðslu fyrr en að liðnum fresti skv. 1. mgr.
Kaupanda, sem riftir samningi í samræmi við 1. mgr. 6. gr., er einungis skylt að greiða lögboðin gjöld sem seljanda var skylt að greiða áður en frestur var liðinn, enda séu slík gjöld sérstaklega tekin fram í samningi.