Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.


Forsetabréf um hina íslensku fálkaorðu

1944, nr. 42, 11. júlí

1. gr.
        [Orðunni má sæma innlenda menn eða erlenda fyrir vel unnin störf í þágu íslensku þjóðarinnar eða á alþjóðavettvangi.]1)

1)Forsbr. 98/1978, 1. tölul.

2. gr.
        Forseti Íslands er stórmeistari orðunnar.

3. gr.
        Nefnd fimm manna ræður málefnum orðunnar. Eftir tillögu forsætisráðherra kveður forseti Íslands 4 menn, sem sæmdir eru og bera heiðursmerki orðunnar, til setu í nefndinni til sex ára í senn, og tilnefnir formann nefndarinnar svo og einn mann til vara til þriggja ára í senn. Úr nefndinni ganga þriðja hvert ár tveir aðalmanna, en í fyrsta sinn eftir hlutkesti. Þá er úr ganga, má kveðja til setu í nefndinni á ný. Ráðherra má ekki eiga sæti í nefndinni. Ritari forseta Íslands er orðuritari og skipar fimmta sætið í nefndinni. Nefndarstarfið er heiðursstarf án launa, og setur nefndin sér sjálf starfsreglur, sem hún leggur fyrir forseta til staðfestingar.

4. gr.
        Orðunefndin gerir tillögur til stórmeistarans um veitingu orðunnar.
        [Við hátíðleg tækifæri getur stórmeistari þó, er honum þykir hlýða, veitt orðuna án tillagna orðunefndar.]1)
        Þegar íslenskur ríkisborgari er sæmdur orðunni, skal ávallt skýra opinberlega frá því, hverjir sérstakir verðleikar hafa gert hann verðan sæmdarinnar.

1)Forsbr. 115/1945.

5. gr.
        Stig orðunnar eru þessi: Stórkrossriddari, stórriddari með stjörnu, stórriddari, riddari.

6. gr.
        Við hátíðleg tækifæri ber stórmeistarinn, auk stórkrossstjörnunnar, merkið í gullnri keðju um hálsinn. Keðjan liðast í blásteinda skildi með [silfruðum]1) fálka og skjaldarmerki lýðveldisins í litum þess til skiptis.
        [Keðjan, ásamt stórkrossstjörnunni, er jafnframt æðsta stig orðunnar, og ber stórmeistari það einn íslenskra manna. Stórmeistari getur sæmt þjóðhöfðingja annarra ríkja þessu stigi orðunnar.]2)

1)Forsbr. 98/1978, 2. tölul.2)Forsbr. 103/1949.

7. gr.
        Sameiginlegt merki orðunnar er gullrenndur, innskorinn, hvítsteindur kross og álmuhornin stýfð af inn á við. Framan á krossinum miðjum er gullrenndur, blásteindur skjöldur og á honum silfurfálki, er lyftir vængjum til flugs. Aftan á krossinum miðjum er blásteind, sporöskjulöguð, gullrennd rönd, og á hana letrað með gullnum stöfum: Seytjándi júní 1944.
        Krossar stórkrossriddara og stórriddara eru jafnstórir. Riddarakrossar minni. Band orðunnar er heiðblátt, en jaðrar hvítir með hárauðri rönd; band stórkrossriddara er breiðast, en riddara mjóst.
        Stórkrossriddarar bera krossinn á hægri mjöðm í bandinu um vinstri öxl. Stórriddarar bera hann í bandinu um hálsinn, en riddarar á brjóstinu vinstra megin.
        Stórkrossriddarar bera enn fremur á brjóstinu, vinstra megin, átthyrnda silfurstjörnu með krossmarkinu á.
        Embættismenn kirkjunnar og vígðir kennarar í guðfræðideild Háskólans, sem eru stórkrossriddarar, bera krossinn, þegar þeir eru í embættisbúningi kirkjunnar, í bandi um hálsinn.
        Stjarna stórriddara er átthyrnd silfurstjarna og á henni miðri blásteindi silfurskjöldurinn með silfurfálkanum, og bera þeir hann á brjóstinu vinstra megin. Öll merki orðunnar og bönd skulu gerð samkvæmt teikningum, sem stórmeistarinn hefur samþykkt.

8. gr.
        Formaður orðunefndar ber, stöðu sinnar vegna, hægra megin á brjóstinu stórkrossstjörnuna.

9. gr.
        [Stórmeistarinn undirritar útnefningarbréfið og einnig formaður orðunefndar.]1)

1)Forsbr. 98/1978, 3. tölul.

10. gr.
        Innsigli orðunnar er stórkrossstjarnan og áletrun: Sigillum ordinis falconis Islandiæ. Á bandi fyrir ofan stjörnuna standa einkunnarorð Jóns Sigurðssonar: Eigi víkja. Fyrir neðan stjörnuna: 17. júní 1944.

11. gr.
        Stórmeistari getur, að ráði orðunefndar, svipt mann, sem hlotið hefur orðuna, en síðar gerst sekur um misferli, rétti til að bera hana.

12. gr.
        Við andlát þess, er orðunni hefur verið sæmdur, ber tafarlaust að skila aftur til orðuritara orðunni eða orðunum. Í útlöndum má fá [sendiráðum]1) og ræðismönnum orðurnar til frekari fyrirgreiðslu. Stórkrossriddara ber við útnefningu að skila stórriddarastjörnunni, hafi hann verið sæmdur henni áður, svo og stórriddarakrossinum, hafi hann haft hann áður.

1)Forsbr. 98/1978, 4. tölul.

13. gr.
        Íslenskur ríkisborgari, sem sæmdur er orðunni, skal við útnefningu og aftur, ef honum hlotnast æðra stig orðunnar, senda orðuritara stutta æviskýrslu sína. Að manninum látnum afhendir orðuritari skýrsluna Þjóðskjalasafninu til geymslu.

[14. gr.
        Þegar erlendur ríkisborgari er sæmdur stórriddarakrossi fálkaorðunnar með stjörnu, skal, eftir atvikum hverju sinni, afhenda honum stjörnuna og krossinn eða einungis stjörnuna.
        Erlendur ríkisborgari, er hlotið hefur stórriddarakross, skal að jafnaði skila krossinum aftur, verði hann sæmdur stjörnu stórriddara.
        Ákvæði þessi gilda gagnvart borgurum ríkja, er búa við svipaðar reglur.]1)

1)Forsbr. 5/1948.

15. gr.
        Allur kostnaður orðunnar greiðist úr ríkissjóði.