Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Formenn þingnefnda, sbr. 13. gr. þingskapa, og formenn þingflokka skulu fá greitt 15% álag á þingfararkaup. Enginn getur fengið nema eina álagsgreiðslu mánaðarlega samkvæmt þessari málsgrein. Enn fremur er heimilt að greiða formanni sérnefndar, sbr. 32. gr. þingskapa, svo og varaformanni fastanefndar, sambærilegt álag eða hluta þess, ef sérstök ástæða er til.
Nú gegnir alþingismaður starfi hjá ríki eða ríkisstofnun með þingmennsku og skal hann þá njóta launa fyrir það starf samkvæmt mati viðkomandi ráðuneytis, þó aldrei hærri en 50%.
Alþingismaður, sem á heimili utan Reykjavíkur eða nágrennis en fer að jafnaði milli heimilis og Reykjavíkur um þingtímann, á rétt á að fá endurgreiddan ferðakostnað, auk þriðjungs af greiðslu skv. 1. mgr. mánaðarlega.
Haldi alþingismaður, sem á aðalheimili utan Reykjavíkur eða nágrennis, annað heimili í Reykjavík er heimilt, meðan svo stendur, að greiða honum álag, allt að 40%, á fjárhæð skv. 1. mgr.
Endurgreiða skal alþingismanni kostnað við aðrar ferðir er hann þarf að fara innan lands í tengslum við störf sín, svo og gisti- og dvalarkostnað í þeim ferðum. Heimilt er að ákveða að kostnaður við ferðir umfram tiltekna vegalengd frá heimili eða starfsstöð innan kjördæmis verði endurgreiddur þrátt fyrir ákvæði 1. mgr.
Endurgreiða skal alþingismönnum annan starfskostnað samkvæmt reglum sem forsætisnefnd setur. Heimilt er að greiða starfskostnað samkvæmt þessari málsgrein sem fasta fjárhæð í stað endurgreiðslu samkvæmt reikningum.
Hverfi þingmaður af þingi um sinn vegna slyss eða veikinda fær hann þingfararkaup og aðrar fastar greiðslur samkvæmt lögum þessum eigi að síður allt að einu ári.
Nú er þingmaður forfallaður af öðrum ástæðum en getur í 1. og 2. mgr. og varamaður tekur sæti hans á þingi, og missir hann þá þingfararkaups og annarra kjara þann tíma sem hann er fjarverandi.
Alþingismaður nýtur slysa- og ferðatrygginga.
[Nú tekur alþingismaður, er nýtur biðlauna skv. 1. mgr., við starfi í þjónustu ríkisins eða annars aðila áður en þriggja eða sex mánaða tímabilið er liðið og skulu þá launagreiðslur samkvæmt þessari grein falla niður ef laun þau er nýja starfinu fylgja eru jöfn eða hærri en biðlaunagreiðslur til hans. Ef launin í nýja starfinu eru lægri skal greiða honum launamismuninn til loka þriggja eða sex mánaða tímabilsins.]1)
Forsætisnefnd Alþingis ákveður aðrar greiðslur samkvæmt lögum þessum og setur nánari reglur um þær.
Ef vafi leikur á um rétt alþingismanns samkvæmt lögum þessum sker forsætisnefnd úr.