Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.


Lög um sjóntækjafræðinga

1984, nr. 17, 24. apríl

1. gr.
        Rétt til þess að kalla sig sjóntækjafræðing og starfa sem slíkur hefur sá einn sem til þess hefur leyfi heilbrigðismálaráðherra.

2. gr.
        [Leyfi skv. 1. gr. skal veita íslenskum ríkisborgurum og ríkisborgurum í EES-ríki sem lokið hafa prófi frá skólum sem viðurkenndir eru sem slíkir af heilbrigðisstjórn þess lands sem námið er stundað í. Leita skal umsagnar prófessorsins í augnlækningum við Háskóla Íslands, félags sjóntækjafræðinga og landlæknis áður en leyfið er veitt.]1)

1)L. 116/1993, 8. gr.

3. gr.
        [Nú uppfyllir maður skilyrði 2. gr. að öðru leyti en því að hann hefur hvorki íslenskt ríkisfang né ríkisfang í EES-ríki og er þá ráðherra heimilt að veita honum ótakmarkað eða tímabundið leyfi að fenginni umsögn sömu aðila og um getur í 2. gr.]1)

1)L. 116/1993, 8. gr.

4. gr.
        Ráðherra getur veitt íslenskum ríkisborgurum, sem eru í starfi við gildistöku laganna og hafa starfað í 5 ár samfellt, ótakmarkað starfsleyfi að fenginni umsögn sömu aðila og um getur í 2. gr.

5. gr.
        Sjóntækjafræðingur annast alla almenna gleraugnaþjónustu, þ.e.a.s. sölu gleraugna og vinnslu þeirra.
        Sjóntækjafræðingi er einungis heimilt að fullvinna og selja sjónhjálpartæki (gleraugu og snertilinsur) að fyrir liggi tilvísun og/eða forskrift læknis.

6. gr.
        Óheimilt er að ráða til hvers konar sjóntækjafræðistarfa aðra en þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum.

7. gr.
        Sjóntækjafræðingi ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.

8. gr.
        Sjóntækjafræðingi er skylt að halda dagbók um þá er leita til hans og aðrar skýrslur í samræmi við fyrirmæli landlæknis.

9. gr.
        Um sjóntækjafræðinga gilda að öðru leyti reglur læknalaga, nr. 80/1969.1) Reglur læknalaga gilda um viðurlög við brotum í starfi, sviptingu starfsleyfis og endurveitingu starfsréttinda.
        Með mál út af brotum gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.

1)l. 53/1988.

10. gr.
        Ráðherra getur sett nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laga þessara.

11. gr.
        Lög þessi öðlast þegar gildi.