Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Landlæknir semur leiðbeiningar um ritun dánarvottorða, er ráðherra staðfestir.
Dánarvottorð ritar löggiltur læknir á eyðublað, er landlæknir gerir úr garði og lætur í té.
Nú er ekki auðið að ná til læknis þess, er stundaði hinn látna, eða hafi enginn læknir séð hann í banalegunni, og skal þá innan sólarhrings sækja lækni til að skoða líkið og rita dánarvottorð.
Nú er ekki auðið að ná til læknis þess, er stundaði hinn látna, eða hafi enginn læknir séð hann í banalegunni, og skal þá, svo fljótt sem við verður komið, tilkynna hlutaðeigandi héraðslækni mannslátið og skýra honum nákvæmlega frá tildrögum þess. Ritar héraðslæknir síðan dánarvottorð samkvæmt þeim upplýsingum.
Nú fer útför látins manns fram í prestakallinu, þar sem hann dó, og skal þá dánarvottorð hans afhent þeim sóknarpresti eða safnaðarstjóra, sem annast útfararathöfnina.
Nú annast útfararathöfn prestvígður maður annar en hlutaðeigandi sóknarprestur (safnaðarstjóri), og skal hann þá fullvissa sig um það, áður en athöfnin fer fram, að dánarvottorð hins látna sé fyrir hendi. Hann skal enn fremur annast um, að dánarvottorðið sé, áður en athöfnin fer fram, afhent sóknarpresti þess prestakalls, þar sem dánarheimili hins látna var, og gildir þetta hvort sem hinn látni var í þjóðkirkjunni eða utan hennar. Loks skal hann tilkynna útförina bæði sóknarpresti prestakallsins og Hagstofunni innan þriggja daga. --- Ákvæði 2. málsl. þessarar málsgreinar eiga ekki við, þegar hinn látni hefur dáið í öðru prestakalli en hann er jarðsettur í, en í þess stað skal hlutaðeigandi annast um, að staðfesting samkvæmt 6. gr. komist í hendur sóknarpresti prestakallsins.
Nú er ekki presti eða safnaðarstjóra ætlað að aðstoða við útför manns, og skal þá afhenda dánarvottorðið sóknarpresti þess prestakalls, þar sem dánarheimili hins látna var, og kvittar prestur fyrir viðtöku. Gildir þetta hvort sem hinn látni var í þjóðkirkjunni eða utan hennar. Er slík útför óheimil, nema fyrir hendi sé vottorð hlutaðeigandi sóknarprests til staðfestingar því, að í vörslu hans sé dánarvottorð hins látna.
Nú er lík látins manns flutt úr því prestakalli, þar sem hann dó, í annað prestakall til útfarar, og skal þá afhenda dánarvottorð hans sóknarpresti þess prestakalls, þar sem dánarheimili hans var, hvort sem hinn látni var í þjóðkirkjunni eða utan hennar. Sama gildir, þegar lík er flutt úr landi. Skal þá enn fremur afhenda viðkomandi skipaútgerð eða flugfélagi staðfest eftirrit hlutaðeigandi sóknarprests af dánarvottorði hins látna, og fylgi eftirritið líkinu til viðtakanda þess erlendis. Má ekki taka við líki til útflutnings til útlanda, nema þessum fyrirmælum sé fylgt.
Ef fleiri en einn sóknarprestur aðstoða við útför, skal afhenda dánarvottorðið þeim sóknarpresti, sem kastar rekum við athöfnina, enda sé um að ræða þau atvik, er um ræðir í 2. mgr. og í 2. og 3. málsl. 1. mgr. þessarar greinar.
Reykjavíkurprófastsdæmi skoðast sem eitt prestakall við framkvæmd á ákvæðum 2. mgr. og 1. málsl. 5. mgr. þessarar greinar. Heimilt er að ákveða, að sama skuli gilda um tvö eða fleiri prestaköll, sem liggja hvert að öðru.
Þá er sérstök vandkvæði eru á því vegna fjarlægðar eða samgönguerfiðleika, að hlutaðeiganda geti borist dánarvottorð samkvæmt 5. gr., áður en útför er gerð, má í þess stað koma tilkynning (símleiðis eða á annan hátt) frá héraðslækni um, að hann hafi ritað og eigi í sínum vörslum dánarvottorð hins látna.
Sóknarprestar (safnaðarstjórar) skulu senda Hagstofunni dánarvottorð, er þeir veita viðtöku, á sömu tímum og með sömu frestum og þessir aðilar senda Hagstofunni aðrar skýrslur samkvæmt ákvörðun hennar.
Hagstofan semur upp úr dánarvottorðum skýrslur um dánarorsakir hér á landi, í samræmi við alþjóðareglur, sem Ísland hefur gerst aðili að.
Fyrir andvana fædd börn eru ekki rituð dánarvottorð, en prestar og ljósmæður tilkynna þau Hagstofunni með lifandi fæddum börnum.
Óheimilt er að setja lík andvana fædds barns eða látins ungbarns í kistu með öðru líki, nema hlutaðeigandi presti (safnaðarstjóra) hafi áður verið tilkynnt það. Útfararstjóri ber ábyrgð á því, að þessu ákvæði sé fylgt.
1)Sjá l. 34/1954.