Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Í nefndinni eiga sæti sjö menn, einn tilnefndur af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, einn af Sjómannasambandi Íslands, einn af Vélstjórafélagi Íslands, þrír af Landssambandi íslenskra útvegsmanna og formaður sem sjávarútvegsráðherra skipar að höfðu samráði við framangreind samtök sjómanna og útvegsmanna. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn.
Úrskurðarnefnd ræður starfsfólk eða semur við aðra aðila um að annast starfsemi fyrir nefndina eftir því sem hagkvæmt þykir.
Á sama hátt geta heildarsamtök sjómanna skotið til nefndarinnar ákvörðun fiskverðs í viðskiptum útgerðar við aðila sem ekki telst skyldur útgerðinni ef samningar um slíkt verð hafa ekki tekist innan fimm daga frá því að áhöfn skips óskaði slíkra samninga.
Útgerð og viðskiptaaðili hennar teljast skyld í þessu sambandi ef þau eru í eigu eða rekstri sama aðila, eða ef sami aðili á meiri hluta beggja fyrirtækjanna, svo sem meiri hluta stofnfjár eða hlutafjár eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar í þeim báðum eða hefur með öðrum hætti raunveruleg yfirráð þeirra beggja. Sama á við ef annað fyrirtækið hefur raunveruleg yfirráð yfir hinu með eignaraðild, atkvæðisrétti eða með öðrum hætti.
Ákvörðun nefndarinnar nær til verðs fyrir afla sem landað er eftir að málinu var skotið til hennar ef ákvörðun varðar viðskipti milli skyldra aðila, en til verðs fyrir afla sem landað er eftir að ákvörðun nefndarinnar er tilkynnt aðilum ef hún varðar viðskipti milli óskyldra aðila. Nefndin ákveður sjálf hversu lengi ákvörðun hennar skuli gilda. Þó skal hún aldrei gilda lengur en í þrjá mánuði.
Ákvörðun nefndarinnar um fiskverð, hvort sem hún varðar viðskipti milli skyldra aðila eða óskyldra, gildir ekki þegar afli er seldur á innlendum eða erlendum uppboðsmörkuðum.
Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Varði ákvörðun nefndarinnar fiskverð í skiptum óskyldra aðila skal og taka tillit til heildarráðstöfunar á afla skips.
Samkomulagi nefndarinnar um fiskverð skulu fylgja forsendur þess en úrskurður fullskipaðrar nefndar skal vera rökstuddur.