Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Opinberar sóttvarnir eru þær ráðstafanir sem skal beita vegna hættulegra smitsjúkdóma:
Með skráningarskyldu er átt við skyldu til að senda sóttvarnalækni ópersónugreindar upplýsingar, en með tilkynningarskyldu er átt við skyldu til að senda honum persónugreindar upplýsingar um sjúkdómstilvik.
Sóttvarnalæknir er ábyrgur fyrir því að haldin sé smitsjúkdómaskrá. Skráin tekur til smitsjúkdóma og ónæmisaðgerða, sbr. 2. tölul. 5. gr., og er til stuðnings sóttvarnastarfi og faraldsfræðirannsóknum. Gæta skal fyllsta trúnaðar um allar einkaupplýsingar sem fram koma í smitsjúkdómaskrá og gilda um skrána sömu reglur og um aðrar sjúkraskrár.
Til embættis landlæknis skal ráða lækni, sóttvarnalækni, til að sinna sóttvörnum. Læknir þessi skal hafa þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra.
Sóttvarnalæknir skal í starfi sínu hafa samvinnu við héraðslækna, aðra starfsmenn og stofnanir heilbrigðisþjónustunnar, heilbrigðisnefndir og yfirdýralækni eftir því sem við á.
Héraðslæknar eru ábyrgir fyrir sóttvörnum, hver í sínu héraði, undir stjórn sóttvarnalæknis.
Héraðslæknar og sóttvarnalæknir skulu hafa samstarf um framkvæmd nauðsynlegra sóttvarna og njóta aðstoðar lögregluyfirvalda ef með þarf.
Þegar fjallað er um mál í sóttvarnaráði, sem tengjast starfssviði Hollustuverndar ríkisins eða embættis yfirdýralæknis, skulu fulltrúar þeirra stofnana sitja fundi ráðsins, eftir því sem við á, með málfrelsi og tillögurétti.
Sóttvarnaráð mótar stefnu í sóttvörnum og skal vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma.
Ráðið skal hafa aðsetur hjá embætti landlæknis og skal sóttvarnalæknir vera ritari þess.
Hver sá sem hefur ástæðu til að halda að hann hafi smitast af smitsjúkdómi sem ógnað geti öðrum mönnum er skyldur að leita læknis án tafar. Leiði læknisrannsókn í ljós að um slíkan sjúkdóm sé að ræða er viðkomandi skyldur að fylgja fyrirmælum læknis um meðferð og ráðstafanir til að fyrirbyggja smitun.
Ef læknir telur mikilvægt að rekja smit til að hefta frekari útbreiðslu þess ber sjúklingi skylda til að veita nauðsynlegar upplýsingar um það af hverjum hann gæti hafa smitast, svo og hverja hann kann að hafa smitað. Komi læknirinn því ekki við ber honum að vísa sjúklingi til stofnunar sem aðstöðu hefur til að rekja smit. Skylt er hlutaðeigendum að hlýða fyrirmælum læknis um nauðsynlegar rannsóknir til varnar útbreiðslu smits frá sjúklingi.
Hliðstæð skylda hvílir á forstöðumönnum rannsóknastofa, sjúkradeilda og annarra heilbrigðisstofnana. Rannsóknastofur, sem fást við rannsóknir á sýnum frá sjúklingum með smitsjúkdóma sem lög þessi taka til, skulu hafa starfsleyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
Hlutaðeigandi aðilum er skylt að aðstoða viðkomandi héraðslækni og sóttvarnalækni, m.a. með því að veita upplýsingar sem þeir telja nauðsynlegar vegna sóttvarna.
Heilbrigðisnefndir, heilbrigðisfulltrúar og dýralæknar skulu aðstoða við sóttvarnir og gefa nauðsynleg fyrirmæli um viðeigandi ráðstafanir ef hætta er á að dýr, matvæli, vatn, skolplagnir, loftræsting eða annað í umhverfinu dreifi eða geti dreift smitnæmum sjúkdómum.
Ráðherra ákveður að tillögu sóttvarnaráðs hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana, svo sem ónæmisaðgerða, einangrunar smitaðra, sótthreinsunar, afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls, lokunar skóla eða samkomubanns. Sóttvarnalæknir eða héraðslæknar geta beitt slíkum vörnum til bráðabirgða án þess að leita heimildar fyrir fram ef þeir telja að hvers konar töf sé hættuleg, en gera skulu þeir ráðherra jafnskjótt kunnar ráðstafanir sínar.
Með aðgerðum er átt við læknisrannsókn, einangrun hins smitaða á sjúkrahúsi og aðrar nauðsynlegar ráðstafanir. Áður en gripið er til þvingunaraðgerða skal ætíð reynt að leysa mál með öðrum hætti.
Ákvörðun sóttvarnalæknis eða héraðslæknis um aðgerðir af þessu tagi má kæra til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Kæra frestar ekki framkvæmd.
Telji sóttvarnalæknir nauðsynlegt að einstaklingur sé settur í einangrun skv. 14. gr. eða 1. mgr. þessarar greinar og framkvæmdin er í andstöðu við hinn smitaða skal sóttvarnalæknir svo fljótt sem verða má bera ákvörðunina skriflega undir héraðsdóm í því umdæmi þar sem hinn smitaði dvelst þegar einangrunar er krafist. Í kröfu sóttvarnalæknis skal koma fram ítarleg lýsing á málavöxtum og nauðsyn einangrunar og tiltekinn sá tími sem einangrun er ætlað að vara, auk annarra gagna sem málið kunna að varða. Dómari skal taka málið fyrir án tafar og skipa þeim er sætir einangrun talsmann, ef hann óskar þess, samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um verjendur og skal gefa honum kost á að bera fram ósk um hver verði skipaður. Dómari getur aflað gagna af sjálfsdáðum. Dómari kveður síðan upp úrskurð um hvort einangrun skuli haldast eða falla niður. Einangrun má ekki vara lengur en 15 sólarhringa í senn, en ef sóttvarnalæknir telur nauðsynlegt að hún vari lengur skal hann að nýju bera kröfu um slíkt undir héraðsdóm. Málsmeðferð fyrir dómi frestar ekki framkvæmd einangrunar.
Dómsathöfnum þeim, sem um ræðir í 2. mgr., má skjóta til Hæstaréttar með kæru og fer um hana eftir almennum reglum um kæru í einkamálum eftir því sem við á. Kæra frestar ekki framkvæmd einangrunar.
Á sjúkrahúsum, sem heilbrigðisráðherra ákveður, skal vera aðstaða til einangrunar þeirra sem eru til rannsóknar eða meðferðar vegna smitsjúkdóma eða gruns um smitsjúkdóm.
Heilbrigðisráðherra getur falið ákveðnum rannsóknastofum að ábyrgjast greiningu örvera eða sníkjudýra úr sýnum frá sjúklingum með smitsjúkdóma og fylgjast með ónæmisástandi einstaklinga gegn þýðingarmiklum smitnæmum sjúkdómum.
Brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum.