Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.


Lög um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar, sem háðar eru sérstökum leyfum

1975, nr. 12, 25. apríl

1. gr.
        Sjávarútvegsráðuneytið getur samkvæmt lögum þessum sett almennar og svæðisbundnar reglur,1) er stuðli að samræmingu milli veiðiheimilda samkvæmt sérstökum leyfum ráðuneytisins til rækju- og skelfiskveiða og vinnslugetu þessara greina fiskiðnaðarins, meðal annars með skiptingu afla milli vinnslustöðva og/eða þeirra báta, sem veiðileyfi hljóta.

1)Rg. 78/1978 (um skelfiskveiðar).

2. gr.
        Í þeim greinum veiða, sem háðar eru sérstökum leyfum samkvæmt 1. gr., skal leita leyfis sjávarútvegsráðuneytisins til að koma á fót vinnslustöðvum eða til aukningar á afkastagetu þeirra sem fyrir eru. Ráðuneytið getur synjað um slík leyfi, ef ekki er fyrirsjáanleg aflaaukning á viðkomandi svæði né samdráttur í starfsemi annarra vinnslustöðva á svæðinu.
        Opinberum fjárfestingarlánasjóðum skal tilkynnt um synjun slíkra leyfa.

3. gr.
        Ráðherra getur sett nánari fyrirmæli um framkvæmd þessara laga.

4. gr.
        Hver sá, er sekur gerist um brot á lögum þessum eða fyrirmælum samkvæmt þeim, skal sæta sektum, nema þyngri viðurlögum varði samkvæmt öðrum lögum. Sektir renni í ríkissjóð. Um mál út af brotum á lögum þessum eða fyrirmælum settum samkvæmt þeim skal fara að hætti opinberra mála.