Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Vinnuveitandi, sem greiðir starfsfólki sínu föst laun fyrir dagvinnu í tímabundinni vinnslustöðvun í samræmi við ákvæði kjarasamnings um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnslu, skal eiga rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði eftir því sem segir í lögum þessum og reglugerð settri samkvæmt þeim. Með tímabundinni vinnslustöðvun er í lögum þessum átt við að hráefnisskortur eða aðrar sambærilegar orsakir valdi því að vinnsla liggur niðri á annars venjubundnum vinnslutíma fyrirtækis.
Fyrirtæki, sem starfrækir fiskvinnslu og fullnægir skilyrðum 2. mgr. þessarar greinar, skal eiga rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag umfram tvo á hverju almanaksári sem það greiðir starfsmönnum laun meðan á tímabundinni vinnslustöðvun stendur, sbr. 2. mgr.
Greiðsla samkvæmt þessari grein skal nema fjárhæð hámarksdagpeninga samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, auk lífeyrissjóðsiðgjalds og tryggingagjalds atvinnurekenda, fyrir hvern starfsmann í fullu starfi sem orðið hefur verkefnalaus vegna vinnslustöðvunar meðan hún varir, þó ekki lengur en 30 greiðsludaga í senn og aldrei lengur en 60 greiðsludaga á hverju almanaksári. Vegna starfsmanna í hlutastarfi skal greiðslan vera í samræmi við samningsbundið starfshlutfall hlutaðeigandi starfsmanna.
Skrifstofa Atvinnuleysistryggingasjóðs metur hvort skilyrði greiðslu eru fyrir hendi og ákvarðar fjárhæð bóta í samræmi við starfshlutfall starfsmanna samkvæmt kauptryggingarsamningum. Bætur greiðast vikulega til hlutaðeigandi fyrirtækis meðan á vinnslustöðvun stendur, sbr. þó 4. mgr. 1. gr.
Ef ágreiningur rís um rétt til greiðslu sker stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs úr honum.
Atvinnuleysisskráningaraðili, sbr. 1. mgr. 2. gr., og Atvinnuleysistryggingasjóður skulu hafa aðgang að launa- og framleiðslubókhaldi fyrirtækis, svo og að kauptryggingarsamningum sem í gildi eru milli fyrirtækis og starfsmanna þess.
Í reglugerð skal kveðið nánar á um þau gögn sem fyrirtæki, sem óskar eftir greiðslum samkvæmt lögum þessum, skal leggja fram.
1)Rg. 308/1995.