Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Launþegar, er stunda störf við landbúnað, skulu vera sjóðfélagar, enda hafi þeir náð 16 ára aldri og eigi ekki sjálfsagða aðild að öðrum lífeyrissjóði.
Heimilt er stjórn sjóðsins að veita bændum, sem ekki eiga lögheimili á bújörðum sínum, aðild að sjóðnum, enda hafi þeir meiri hluta atvinnutekna sinna af búvöruframleiðslu. Enn fremur er henni heimilt að víkja frá skilyrðum um lögbýli ef um er að ræða verulegan búrekstur sem hlutaðeigandi hefur meiri hluta tekna sinna af. Þá getur sjóðstjórn heimilað sjóðsaðild mökum, sambúðarkonum eða sambúðarmönnum, sbr. 1. mgr., þeirra aðila er um ræðir í þessari málsgrein.
Elli- og örorkulífeyrisþegar sjóðsins teljast sjóðfélagar.
[Heimilt er sjóðstjórn að veita lán til sjóðfélaga gegn veði í fasteign.]1)
Heimilt er sjóðstjórninni í samráði við Stofnlánadeild landbúnaðarins að lána fé til vinnslustöðva landbúnaðarins, gróðurhúsa og fleiri stofnana er starfa á vegum sjóðfélaga, enda séu skuldabréfin tryggð með ríkisábyrgð, veði í fasteignum eða öðrum tryggilegum hætti.
...1)
Í reglugerð skal nánar kveðið á um fasteignaveð og aðrar tryggingar sem krafist skal við lánveitingar og verðbréfakaup.
...1)
Iðgjald sjóðfélaga skv. 1. mgr. 2. gr. skal vera 4% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. þessarar greinar. Á móti iðgjaldi sjóðfélaga skal greitt mótframlag sem skal vera 50% hærra en iðgjald skv. 1. málsl. Mótframlag skal greitt af sjóðfélaga sé ekki samið um greiðslu þess úr ríkissjóði í búvörusamningi eða með öðrum sambærilegum hætti.
Á greiðsludögum beingreiðslna samkvæmt búvörulögum skal halda eftir af þeim hjá sjóðfélögum, sem beingreiðslna njóta, iðgjaldi þessara sjóðfélaga fyrir það tímabil og skila því til sjóðsins. Nú nýtur bóndi ekki beingreiðslna og skal þá iðgjald innheimt samtímis og með búnaðargjaldi. Stofn til greiðslu upp í iðgjald skal vera reiknuð laun eða heildarlaun á næstliðnu tekjuári, enda liggi ekki fyrir upplýsingar um reiknuð laun eða laun yfirstandandi árs. Iðgjöldum, sem innheimt eru skv. 1. og 2. málsl., skal skilað til sjóðsins eigi síðar en 30 dögum eftir að þau eru greidd og skulu þau sundurliðuð eftir sjóðfélögum.
Greiðsla upp í iðgjald skv. 2. málsl. 3. mgr. skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum, mánuðina ágúst til desember á tekjuárinu. Gjalddagar iðgjaldagreiðslu skulu vera fyrsti dagur mánaðanna ágúst til og með desember.
Heimilt er sjóðfélaga að sækja um breytingu á iðgjaldagreiðslu vegna breytinga á reiknuðum launum eða greiddum launum sem eiga sér stað á árinu. Slíka umsókn skal senda sjóðnum sem úrskurðar um breytingu greiðsluskyldunnar. Skal að jafnaði ekki taka til greina umsókn nema fyrirsjáanlegt sé að iðgjald breytist sem nemur 25%, þó að lágmarki 10.000 kr., á milli ára.
Frá greiðsluskyldu iðgjaldi skv. 2. mgr. skal draga þá fjárhæð sem greidd hefur verið upp í iðgjald skv. 3., sbr. 4. mgr. Ef iðgjald er hærra en greiðsla upp í iðgjald skal því sem á vantar haldið eftir af beingreiðslu eða innheimt samhliða búnaðargjaldi, eftir því sem við á, á næsta gjalddaga eftir álagningu. Sé iðgjaldið lægra en greitt hefur verið upp í iðgjald skulu vextir reiknaðir á endurgreiðslu samkvæmt vaxtalögum.
Nú hefur sjóðfélagi sem greiðir iðgjald skv. 1. mgr. atvinnutekjur af öðru en búrekstri og þessi störf veita ekki sjálfsagða aðild að öðrum lífeyrissjóði og er honum þá heimilt að greiða iðgjöld af slíkum tekjum til þessa sjóðs. Iðgjöld skulu vera 10% af tryggðum tekjum og teljast 4% vera iðgjöld sjóðfélaga en 6% framlag vinnuveitanda.
Iðgjöld launþega sem eru sjóðfélagar skv. 2. mgr. 2. gr. skulu vera 10% af launum. Teljast 4% vera iðgjald sjóðfélaga en 6% framlag vinnuveitanda. Reki lögaðili búskap skal þó iðgjald skv. 2. mgr., meðan til hrekkur, teljast mótframlag vegna forstöðumanns búsins og maka hans, sambúðarkonu eða sambúðarmanns.
Gjalddagi iðgjalda og framlaga hvers mánaðar skv. 7. og 8. mgr. er tíundi dagur næsta mánaðar. Sé um að ræða sumarfólk, sem einungis starfar á tímabilinu maí–september, er þó heimilt að gera skil í einu lagi fyrir sumarið, með gjalddaga 10. október.
Greiði sjóðfélagi ekki greiðslu upp í iðgjald innan 30 daga frá gjalddaga skv. 4. mgr. eða sé hún vangreidd skulu reiknast hæstu leyfilegu dráttarvextir samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands á þá fjárhæð sem vangoldin er frá gjalddaga, sbr. 4. mgr. Verði vanskil á greiðslu iðgjalda og framlaga skv. 7. og 8. mgr. lengur en 30 daga fram yfir gjalddaga skulu reiknast hæstu leyfilegu dráttarvextir samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands á þá fjárhæð sem vangoldin er frá gjalddaga, sbr. 9. mgr.
Enginn greiðir iðgjöld til sjóðsins lengur en til loka þess almanaksárs er hann nær 69 ára aldri eða eftir að taka ellilífeyris hefst, sbr. 6. mgr. 8. gr.
Sjóðfélagar bera eigi ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.
Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um iðgjaldagreiðslur, innheimtu, innheimtuþóknun, dráttarvexti og annað er varðar framkvæmd þessarar greinar.]1)
Að lokinni skiptingu samkvæmt 1. mgr. skulu samanlögð iðgjöld sjóðfélaga hvert almanaksár umreiknuð í stig er mynda grundvöll lífeyrisréttinda hans. ...1)
[Til grundvallar stigaútreikningi skal reikna fyrir hvern almanaksmánuð til ársloka 1984 fast mánaðarkaup miðað við næstlægsta taxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og fulla starfsaldurshækkun. Frá 1. janúar 1985 skulu laun þessi vera 14.100 kr. á mánuði miðað við þáverandi kauplag. Stjórn sjóðsins ákveður, að fenginni umsögn Kjararannsóknanefndar, breytingar á viðmiðunarlaunum þessum í samræmi við breytingar á launum verkamanna samkvæmt kjarasamningum. Verði grundvöllur þessi að dómi ráðherra ónothæfur sem mælikvarði á breytingar á almennum launakjörum í landinu skal hann að fengnum tillögum frá sjóðsstjórn og Hagstofu Íslands ákveða nýjan grundvöll, svo og tengingu hans við eldri grundvöll. Sama gildir ef stigagrundvöllur, sem ákveðinn hefur verið af ráðherra, reynist síðar ónothæfur.]2)
Stig hvers árs reiknast þannig að deilt skal með viðmiðunarlaunum ársins í 24-föld iðgjöld sjóðfélagans fyrir það árið.
Séu iðgjaldagreiðsluár fleiri en 30 skal aðeins reikna að fullu stig þeirra 30 ára sem hagstæðust eru fyrir sjóðfélagann en að hálfu stig þeirra ára sem afgangs verða.
Ekki skal reikna stig lengur en til upphafs þess almanaksárs er taka ellilífeyris hefst.
Stig skulu reiknuð með þremur aukastöfum.
Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af meðaltali viðmiðunarlauna næstu 5 almanaksár áður en taka lífeyris hefst, og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda, sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér, margfölduðum með 1,8.
Heimilt er sjóðfélaga að fresta töku ellilífeyris allt til 70 ára aldurs, og hækkar þá upphæð ellilífeyris vegna réttinda, sem áunnin voru fram til 67 ára aldurs, um 0,4% fyrir hvern mánuð sem töku hans er frestað.
Hámark örorkulífeyris miðast við áunninn lífeyrisrétt samkvæmt 9. gr. að viðbættum lífeyri er svarar til þess stigafjölda sem sjóðfélaginn hefði áunnið sér til loka þess almanaksárs er hann nær 67 ára aldri miðað við meðaltal stiga hans næstu þrjú almanaksárin fyrir orkutapið. Telji sjóðstjórnin þetta þriggja ára meðaltal vera sjóðfélaganum óhagstætt vegna sjúkdómsforfalla, atvinnuleysis eða slæms árferðis er henni heimilt að leggja til grundvallar meðaltal stiga fleiri ár aftur í tímann. Aldrei skal miða meðaltal stiga við fleiri almanaksár en þau sem sjóðfélaginn hefur greitt iðgjöld.
Örorkulífeyrir er sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri og orkutapið er metið, sbr. þó 1. mgr.
Skylt er öryrkja, sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur slíks lífeyris, að láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris.
Stjórn sjóðsins skal lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra öryrkja sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber henni að hækka örorkulífeyrinn ef örorkan vex til muna og án sjálfskaparvíta frá því sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi sjóðfélaginn ekki verið í starfi er veitti honum lífeyrisréttindi í öðrum lífeyrissjóði á þeim tíma er örorka óx.
Örorkulífeyrir fellur niður við lok þess almanaksárs er sjóðfélagi nær 67 ára aldri. Ellilífeyrir skal þá ákveðinn þannig að auk áunninna stiga skal reikna að þeim hluta, er hundraðshluti örorku segir til um, stig sem við úrskurð örorkulífeyris voru reiknuð sjóðfélaganum til loka þess almanaksárs er hann nær 67 ára aldri. Aldrei skal þó slík viðbót við áunnin stig vera meiri en svo að heildarstigafjöldi hvert almanaksár nái þeim mörkum sem af 1. mgr. 7. gr. leiðir.
Sambúð karls og konu, sem bæði eru ógift, veitir sama rétt og hjúskapur samkvæmt 1. mgr., enda hafi ósk um aðild að sjóðnum samkvæmt 1. mgr. 2. gr. borist sjóðnum a.m.k. einu ári fyrir andlátið. Nú annast sambúðarmaður eða sambúðarkona eða systkini sjóðfélaga heimili hans án þess að vera sjálft sjóðfélagi og er þá stjórn sjóðsins heimilt að verða við skriflegri ósk sjóðfélagans um sams konar rétt hlutaðeigandi manni til handa.
Heimilt er sjóðstjórn að greiða makalífeyri að hluta eða að fullu að þeim tíma loknum sem tiltekinn er í 1. mgr. ef trúnaðarlæknir sjóðsins telur makann vanta 50% eða meira á fulla starfsorku. Á sama hátt er sjóðstjórn heimilt að greiða makalífeyri eftir 67 ára aldur hins eftirlifandi maka. Aldrei skal makalífeyrir samkvæmt þessari málsgrein þó vera hærri en svo að hann svari til 40 stiga að frádregnum þeim stigum sem hinum eftirlifandi maka hafa sjálfum verið reiknuð. Taka skal á hliðstæðan hátt tillit til réttinda í öðrum lífeyrissjóðum.
Upphæð fulls makalífeyris er hundraðshluti af meðaltali viðmiðunarlauna næstu 5 almanaksár áður en taka hans hefst, og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda sem sjóðfélaganum er reiknaður, margfölduðum með 0,9. Auk áunninna stiga skal telja með þau stig sem ætla má að sjóðfélaginn hefði áunnið sér til loka þess almananksárs er hann hefði náð 67 ára aldri, reiknuð í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr., en þó skal aldrei miða meðaltal stiga við fleiri almananksár en þau sem sjóðfélaginn hefur greitt iðgjöld. Hafi sjóðfélaginn notið örorkulífeyris úr sjóðnum skal reikna stig frá þeim tíma er honum var veittur örorkulífeyrir og til þess tíma er makalífeyrir er veittur í samræmi við ákvæði síðustu málsgreinar 10. gr., en síðan til loka þess almanaksárs er hann hefði náð 67 ára aldri í samræmi við stig þau sem lögð voru til grundvallar örorkulífeyri. Veiti dauðsfall hinum eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma að hinn látni hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs.
Réttur til makalífeyris fellur niður ef makalífeyrisþeginn gengur í hjónaband eða tekur upp óvígða sambúð en gengur aftur í gildi ef hjúskapnum eða sambúðinni er slitið án réttar til lífeyris.
Ef barnið á foreldri eða kjörforeldri á lífi er sér um framfærslu þess er samanlagður lífeyrir þess frá almannatryggingum og fullur lífeyrir úr þessum sjóði 50% hærri en barnalífeyrir almannatrygginga. Að öðrum kosti er hinn samanlagði lífeyrir tvöfaldur barnalífeyrir almannatrygginga, en þó skal fullur lífeyrir úr sjóðnum í slíku tilviki aldrei vera lægri en verða mundi ef foreldri eða kjörforeldri sæi um framfærslu barnsins. Fullur barnalífeyrir greiðist ef árleg stig, áætluð í samræmi við 4. mgr. 11. gr., eru a.m.k. 0,5. Séu áætluð árleg stig færri lækkar barnalífeyrir frá sjóðnum hlutfallslega og fellur niður ef árlegur stigafjöldi er minni en 0,1.
Sama rétt öðlast börn og kjörbörn sjóðfélaga er nýtur örorkulífeyris úr sjóðnum, þó svo að barnalífeyrir úr þessum sjóði skal vera jafnmargir hundraðshlutar af fullum barnalífeyri og orkutap hans er metið.
Fósturbörn og stjúpbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, skulu eiga rétt á barnalífeyri. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera hinar sömu og vera mundu ef um börn eða kjörbörn væri að ræða.
Hætti sjóðfélagi búskap eða láti af öðrum ástæðum en veikindum af starfi er veitti honum aðgang að sjóðnum telst hann ekki lengur til sjóðfélaga, og sama gildir ef iðgjaldagreiðslur vegna launþega falla niður í meira en 6 mánuði samfleytt. Skulu þá áunnin stig geymd, og hafi sjóðfélaginn greitt iðgjöld til sjóðsins í 12 mánuði eða lengur og öðlast a.m.k. 0,5 stig fellur réttur til elli-, örorku- og makalífeyris ekki niður þótt sjóðfélaginn hverfi úr sjóðnum, en miðast einungis við áunnin geymd stig.
Nú andast maður sem öðlast hafði rétt til lífeyris samkvæmt 1. mgr. eða var að ávinna sér slíkan rétt og hefði getað uppfyllt skilyrði c-liðar 1. mgr. með áframhaldandi réttindavinnslu og skal þá eftirlifandi maki eiga rétt til makalífeyris samkvæmt 18. gr., enda hafi hinn látni fallið frá eftir 31. desember 1964 og áunnið sér a.m.k. 5 ára réttindi, sbr. 3. mgr. Það er enn fremur skilyrði að hjónabandið hafi staðið a.m.k. í 5 ár og verið stofnað áður en sjóðfélaginn náði 60 ára aldri. Sambúð, sbr. 2. mgr. 11. gr., veitir sama rétt og hjúskapur, enda hafi skilyrðum 21. gr. um tilkynningu til sjóðsins verið fullnægt. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að veita systkini bónda, sem annast hefur heimili hans, hliðstæðan lífeyri að honum látnum, enda hafi bæði verið ógift, sbr. 2. mgr. 11. gr.
Til réttindatíma skal einungis reikna þann tíma frá og með árinu 1955 sem hlutaðeigandi hefur verið bóndi á lögbýli og átt þar lögheimili. Réttindatími manns, sem ekki hafði náð 55 ára aldri í árslok 1954, reiknast frá 1. næsta mánaðar eftir að þeim aldri er náð. Réttindatími reiknast í heilum mánuðum, en aldrei skal hann þó reiknast lengri en 20 ár.
Við ákvörðun örorkulífeyris manns, sem lífeyrisrétt á samkvæmt 10. gr., fæddur er árið 1914 eða fyrr og verið hefur sjóðfélagi frá stofnun sjóðsins, skal reikna með réttindatíma til ársloka 1970 í samræmi við 3. mgr. þessarar greinar og áætla stig aftur í tímann í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr. Bráðabirgðaákvæði eldri laga um skert iðgjöld til sjóðsins árin 1971–1973 skulu ekki skerða lífeyrisréttinn. Þá skal við ákvörðun ellilífeyris samkvæmt þessari grein reikna sem réttindatíma tímabil frá því er slíkur öryrki hefur látið af búskap til 70 ára aldurs.
Heimilt er stjórn sjóðsins að víkja frá skilyrðum þessarar greinar um lögheimili ef hlutaðeigandi bóndi hefur haft meiri hluta tekna sinna af búvöruframleiðslu. Enn fremur er henni heimilt að víkja frá skilyrðinu um lögbýli ef um hefur verið að ræða verulegan búrekstur sem hlutaðeigandi hefur haft allar eða nær allar tekjur sínar af. Áður en umsókn frá umsækjanda utan lögbýlis er afgreidd skal leita álits stjórnar hlutaðeigandi búnaðarsambands á því hvaða býlum á sambandssvæðinu megi í þessu sambandi jafna til lögbýla.
1)L. 89/1991, 1. gr.2)Nú l. 113/1994.
Hafi bóndi stundað búskap þar til hann lést og verið yngri en 67 ára skal við ákvörðun hundraðshluta makalífeyris auk réttindatíma samkvæmt 3. mgr. 17. gr. taka tillit til þess tíma sem eftir var til 67 ára aldurs bóndans.
...1)
Greiðslur úr öðrum lífeyrissjóðum og hliðstæðar greiðslur úr ríkissjóði eða öðrum opinberum sjóðum koma til frádráttar greiðslum samkvæmt grein þessari. Hafi hlutaðeigandi gengið úr lífeyrissjóði eftir árslok 1969 og afsalað sér réttindum sínum þar skal sá lífeyrir, sem hann ella hefði átt rétt á, dragast frá á sama hátt. Stjórn Lífeyrissjóðs bænda úrskurðar hvernig innstæða í lífeyrissjóði með séreignarskipulagi skuli metin til frádráttar.
Eigi maður auk réttindatíma sem bóndi jafnframt að baki réttindatíma samkvæmt lögum nr. 97/1979,2) um eftirlaun til aldraðra, skal taka tillit til samanlagðs réttindatíma og ákveða lífeyrisgreiðslur í hlutfalli við réttindatíma og fjárhæð sem hvor aðili hefði greitt ef réttindatíminn hefði verið óskiptur. Aldrei skal reikna sama tímabil sem réttindatíma hjá báðum aðilum. Stjórn sjóðsins skal hafa samráð við umsjónarnefnd eftirlauna um nánari tilhögun við úrskurð og greiðslu lífeyris samkvæmt þessari málsgrein.
Lífeyrir samkvæmt þessari grein skerðist ef hlutaðeigandi hefur tekjur af vinnu er nema 1/4 viðmiðunarlauna eða meira á almanaksári, sbr. 3. mgr. 8. gr., og skal þá skerða lífeyrinn um 1/12 fyrir hvern 1/12 hluta viðmiðunarlauna. Skerðist lífeyrir með þessu móti um meira en 3/4 skal hann felldur niður með öllu.
Skylt er þeim, er nýtur lífeyris samkvæmt 18. gr. sem kvæntur bóndi, að tilkynna stjórn sjóðsins skriflega og án tafar ef maki eða sambúðarmaður eða sambúðarkona fellur frá ellegar hjúskap eða óvígðri sambúð er slitið. Í síðarnefnda tilvikinu skal ellilífeyri skipt að jöfnu.
Upphaf sjóðsaðildar vegna óvígðrar sambúðar og skyldur þær og réttindi samkvæmt I. kafla, er af henni leiða, miðast við þann tíma er skrifleg ósk beggja aðila hefur borist sjóðstjórn. Úrganga úr sjóðnum vegna slita á óvígðri sambúð og brottfall slíkra réttinda og skyldna er af því leiða miðast við þann tíma er skrifleg tilkynning annars sambúðaraðila um sambúðarslitin berst sjóðstjórn.
Heimilt er stjórn sjóðsins að greiða lífeyri sjaldnar en mánaðarlega, en þó eigi sjaldnar en ársfjórðungslega.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 18. gr. skal lífeyrir skv. II. kafla frá 1. janúar 1992 miðast við 80,1% af þágildandi viðmiðunarlaunum. Hinn 1. júlí 1992 hækki lífeyrir síðan í hlutfalli við hækkun viðmiðunarlauna frá 1. janúar til 1. júlí og eftir það með sama hætti hvern 1. janúar og 1. júlí ...1)
Elli-, örorku- og makalífeyrir þeirra lífeyrisþega, sem ekki eiga rétt skv. II. kafla, skal reiknaður á sama hátt og segir í 2. mgr., þó þannig að miðist lífeyrir við fleiri stig en 40 verði einungis sá lífeyrir, er svarar til 40 stiga, reiknaður á þennan hátt, en um afganginn fer eftir ákvæðum 1. mgr. og 25. gr. Nú á lífeyrisþegi rétt skv. II. kafla, en mundi engu að síður fá hærri lífeyri ef farið væri eftir reglu 1. málsl. og skal þá sjóðurinn greiða honum mismuninn.]2)
Stjórnin skal leita álits tryggingafræðings á því hve miklar uppbætur hann telur sjóðinn megnugan að greiða. Tryggingafræðingurinn skal hafa hliðsjón annars vegar af hækkun viðmiðunarlauna samkvæmt 8. gr. frá því sem þau voru á því tímabili er lífeyrisfjárhæð hvers einstaks lífeyrisþega miðast við en hins vegar af ávöxtun og verðtryggingu eigna og fjárhagsstöðu sjóðsins í heild. Aldrei má hækka lífeyri meira en tryggingafræðingurinn hefur lagt til.
Uppbætur, sem stjórn sjóðsins hefur einu sinni ákveðið, skulu ekki felldar niður né lækkaðar, nema lækkun verði á viðmiðunarlaunum. Lækki viðmiðunarlaun skal endurskoða fjárhæðir uppbóta með hliðsjón af breyttum forsendum, sbr. 2. mgr.
Við slit hjúskapar eða óvígðrar sambúðar skal áunnum stigum sjóðfélaga, þau ár sem hjónabandið eða sambúðin hefur staðið fram til ársloka 1983, skipt að jöfnu, sbr. þó 5. mgr.
Um lífeyrisgreiðslur samkvæmt I. kafla fram til ársloka 1983 fer eftir eldri lögum. Þeir, sem njóta lífeyris í árslok 1983, skulu frá 1. janúar 1984 taka lífeyri samkvæmt lögum þessum, nema þeir eigi betri rétt samkvæmt eldri lögum.
Falli sjóðfélagi frá eftir árslok 1983 helst réttur til makalífeyris samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/1970, sbr. lög nr. 67/1974, vegna stiga sem áunnin hafa verið til ársloka 1983, að því leyti sem hann er betri en réttur samkvæmt lögum þessum, sbr. þó 5. mgr. Slíkur réttur skal þó einungis miðast við áunnin stig án framreiknings.
Nú óskar bóndi, sem fæddur er árið 1915 eða síðar, eftir skiptingu réttinda sem áunnin eru fyrir árslok 1983, í samræmi við 1. mgr. 8. gr. og miðað við þann tíma er hjúskapur eða sambúð hefur staðið, sbr. síðasta málslið 1. mgr. 7. gr., og skal þá orðið við slíkri ósk, enda berist hún stjórn sjóðsins ásamt samþykki maka eða sambúðaraðila fyrir árslok 1984. Það er enn fremur skilyrði fyrir slíkri skiptingu að taka lífeyris samkvæmt ákvæðum eldri laga hafi ekki átt sér stað. Við skiptinguna fellur niður réttur sá sem nefndur er í 4. mgr. og skiptingin veitir ekki rétt til lífeyris vegna orkutaps eða fráfalls sem átt hefur sér stað fyrir árslok 1983.
1)Rg. 430/1984, sbr. 429/1989 og 622/1994.