Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess óheimil án samþykkis Alþingis.
Heimilt er hlutafélaginu að stofna nýtt félag eða félög, sem alfarið verði í eigu þess, til þess að annast ákveðna þætti í starfsemi þess. Í sama tilgangi getur hlutafélagið ákveðið skiptingu þess í samræmi við ákvæði 133. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995.
Hlutafélaginu er heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt skv. 1. mgr. þessarar greinar.
Tilgangi og verkefnum félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.
Í stofnyfirlýsingu skal mælt fyrir um þau atriði sem áskilið er að fram komi í stofnsamningi samkvæmt hlutafélagalögum að öðru leyti en getið er um í lögum þessum.
Að öðru leyti skulu ákvæði laga um hlutafélög gilda um hið nýja félag.
Eitt hlutabréf skal gefið út við skráningu félagsins. Hlutabréf, sem gefið verður út í tengslum við stofnun félagsins eða skiptingu þess samkvæmt niðurlagsákvæði í 2. mgr. 2. gr., skal undanþegið stimpilgjöldum.
Samgönguráðherra fer með eignaraðild ríkissjóðs að Pósti og síma hf.
Samgönguráðherra skipar þriggja manna undirbúningsnefnd til þess að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna breytingarinnar. Nefndin skal hafa heimild til þess að gera hvers kyns löggerninga sem eru nauðsynlegir til undirbúnings stofnun félagsins og fyrirhugaðri starfrækslu. Við stofnun skal félagið bundið við umrædda löggerninga.
Nú hefur félagið boðið fastráðnum starfsmanni Póst- og símamálastofnunar sambærilega stöðu hjá félaginu með eigi lakari launum en hann áður naut og fellur biðlaunaréttur þá niður ef starfsmaður hafnar boðinu eða hefur ekki samþykkt það innan sex vikna frá því honum barst boðið.
Ef fastráðinn starfsmaður Póst- og símamálastofnunar, sem ráðinn hefur verið hjá félaginu samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr., fær eigi að síður greidd biðlaun eða bætur fyrir missi biðlauna úr ríkissjóði vegna formbreytingar þeirrar á starfsemi stofnunarinnar, sem lög þessi kveða á um, fellur sjálfkrafa niður biðlaunaréttur hans hjá félaginu.
Fastráðinn starfsmaður stofnunarinnar, sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og hefur ráðist til starfa hjá félaginu með óskertum launum skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar, heldur þeim réttindum gagnvart félaginu sem 12. gr. greinir, en á ekki jafnframt rétt til greiðslu lífeyris úr sjóðnum meðan hann heldur óskertum launum sínum hjá félaginu skv. 9. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, með síðari breytingum.
Gjaldskrá fyrir einkaleyfisþjónustu1) öðlast gildi þegar hún hefur verið staðfest af samgönguráðherra og birt í Stjórnartíðindum.
...