Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar hvors ríkisviðskiptabanka um sig til hlutafélaganna.
Nefndir skv. 1. mgr. skulu hafa fullan aðgang að gögnum hlutaðeigandi ríkisviðskiptabanka þrátt fyrir ákvæði um þagnarskyldu skv. 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Skulu stjórnendur og starfsmenn ríkisviðskiptabankanna veita nefndarmönnum viðkomandi nefndar nauðsynlega aðstoð. Nefndarmenn eru bundnir af 43. gr. laga nr. 113/1996.
Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands skulu lagðir niður þegar nýir hlutafélagsbankar taka til starfa skv. 1. mgr.
Kjósa skal bankaráð hvors hlutafélagsbanka á stofnfundum sem haldnir skulu fyrir yfirtöku hlutafélagsbankanna á ríkisviðskiptabönkunum. Umboð bankaráða Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, sem síðast voru kjörin af Alþingi skv. 27. gr. laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. nú lög nr. 113/1996, falla niður þegar nýir hlutafélagsbankar hafa tekið til starfa skv. 1. mgr.
Ráðherra ákveður heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum hlutafélagsbanka við stofnun. Skal við það miðað að heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum hlutafélagsbanka sé eigi hærri en sem nemur eigin fé Landsbanka Íslands annars vegar og Búnaðarbanka Íslands hins vegar samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi ársins 1996.
Ráðherra skipar sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna til að leggja mat á heildarfjárhæð stofnhlutafjár í hvorum hlutafélagsbanka skv. 2. mgr. Niðurstöður nefndarinnar skulu liggja fyrir í síðasta lagi 1. október 1997. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. eiga við um störf nefndarinnar. Viðskiptaráðherra setur nefndinni erindisbréf.
Sala á hlutafé í eigu ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. er óheimil án samþykkis Alþingis.
Þrátt fyrir 2. mgr. getur ráðherra, til að styrkja eiginfjárstöðu hlutafélagsbankanna, heimilað útboð á nýju hlutafé. Samanlagður eignarhlutur annarra aðila en ríkissjóðs má þó ekki vera hærri en 35% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum bankanna um sig.
Ákvæði 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um tölu stofnenda og fjölda hluthafa í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.
Nú tekur maður, sem gegnir starfi hjá Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands, við starfi hjá Landsbanka Íslands hf. eða Búnaðarbanka Íslands hf., og skal hann þá njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Réttur hans til launa hjá Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands fellur niður er hann tekur við starfinu.
Nú reynir á ábyrgð 1. mgr. og skal þá greiðsluhlutfall ríkissjóðs annars vegar og viðkomandi hlutafélagsbanka hins vegar vera hið sama og hlutfallslegur starfstími viðkomandi starfsmanns hjá hvorum aðila um sig.
Ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum fellur niður við yfirtöku hlutafélagsbankanna á ríkisviðskiptabönkunum. Þó ber ríkissjóður ábyrgð á bundnum innstæðum hafi þær verið lagðar inn fyrir yfirtöku hlutafélagsbankanna á ríkisviðskiptabönkunum. Ríkisábyrgðin fellur niður þegar viðkomandi innstæða er laus til útborgunar að loknum binditíma.
Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. umfram það sem kveðið er á um í lögum þessum og í hlutafélagalögum.
Greiðslustaður skuldaskjala, sem eru í eigu tiltekinna útibúa Búnaðarbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands almennt, verður hjá samsvarandi útibúi Búnaðarbanka Íslands hf. eða almennt hjá Búnaðarbanka Íslands hf. eftir því sem við á hverju sinni þegar Búnaðarbanki Íslands hf. hefur tekið til starfa. Búnaðarbanki Íslands hf. tekur við öllum réttindum og öllum skyldum Búnaðarbanka Íslands, þar á meðal réttindum eða skyldum tengdum skuldaskjölum í eigu Búnaðarbanka Íslands og aðild að dómsmálum sem Búnaðarbanki Íslands rekur eða rekin eru gegn Búnaðarbanka Íslands. Búnaðarbanki Íslands skal birta tvær auglýsingar þessa efnis í Lögbirtingablaðinu.
Vistunarstaður skjala sem innheimt skulu hjá tilteknum útibúum Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands verður samsvarandi útibú viðkomandi hlutafélagsbanka eftir yfirtöku þeirra síðarnefndu á viðkomandi ríkisviðskiptabanka. Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands skulu birta tvær auglýsingar þessa efnis í Lögbirtingablaðinu.
Um auglýsingar samkvæmt þessari grein fer skv. 14. gr. laga þessara.
Landsbanki Íslands hf. tekur við öllum réttindum og skuldbindingum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanki Íslands hf. tekur við öllum réttindum og skuldbindingum Búnaðarbanka Íslands vegna yfirtöku ríkisviðskiptabankanna á sparisjóðum.