Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.


Lög um íslensk vegabréf

1953, nr. 18, 11. febrúar

1. gr.
        Með reglugerð1) getur dómsmálaráðherra ákveðið, hvort íslenskir ríkisborgarar skuli við brottför úr landi eða komu til landsins hafa í höndum vegabréf eða önnur ferðaskilríki.
        Dómsmálaráðherra setur nánari reglur1) um útgáfu vegabréfa til íslenskra ríkisborgara. Lögreglustjórar sjá um útgáfu vegabréfa hver í sínu umdæmi og útsendir fulltrúar landsins erlendis í embættisskrifstofum sínum.
        Utanríkisráðuneytið gefur út vegabréf fyrir starfsmenn sína (diplomatisk vegabréf), svo og önnur sérstök vegabréf, samkvæmt reglum, er það setur.2)

1)Rg. 169/1987 (um íslensk vegabréf), sbr. augl. 276/1987 og 526/1996.2)Rg. 533/1994 (um vegabréf utanríkisráðuneytisins).

2. gr.
        Neita má um útgáfu vegabréfs fyrir íslenskan ríkisborgara eða ógilda vegabréf, sem þegar hefur verið gefið út, þegar svo stendur á:
1. að fram er komin kæra gegn hlutaðeiganda um refsivert brot, sem ætla má að varði refsivist, og ástæður benda til þess, að hann muni reyna að komast undan ábyrgðinni með því að fara úr landi eða dveljast áfram í útlöndum;
2. að hlutaðeigandi hefur verið dæmdur til refsivistar sem ekki hefur verið afplánuð, eða hefur sætt sektarrefsingu eða eignaupptöku, sem hefur ekki náð fram að ganga og hefur ekki verið sett trygging fyrir, og aðstæður benda til þess, að hann muni reyna að komast undan ábyrgðinni með því að fara úr landi eða dveljast áfram í útlöndum;
3. að brottför hans mundi brjóta í bága við lagaákvæði, sem eiga að tryggja nærveru manns í landinu, þar til hann hafi fullnægt skuldbindingum, sem á honum hvíla gegn almannavaldinu eða einstaklingum.

        Sá, sem neitað hefur verið um vegabréf eða hefur sætt ógildingu vegabréfs síns, samkvæmt ákvæðum 1. málsgreinar, getur krafist þess, að ágreiningi um gildi þeirrar athafnar verði skotið til dómstólanna. Ef ógilda skal vegabréf manns, sem dvelur í útlöndum, skal skjóta ákvörðun um ógildinguna til hlutaðeigandi dómstóls, áður en hún kemur til framkvæmda.

3. gr.
        Sá, sem:
1. með vísvitandi röngum upplýsingum eða sviksamlegu undanskoti upplýsinga gagnvart útgefendum vegabréfa aflar sér ranglega vegabréfs eða annars ferðaskilríkis eða verður þess valdandi, að vegabréf eða annað ferðaskilríki, sem gefið er út fyrir hann, hljóðar ekki á raunverulegt nafn hans og fæðingardag,
2. aflar sér í ólögmætum tilgangi fleiri en eins vegabréfs eða ferðaskilríkis, er hljóðar á nafn hans,
3. breytir eða nemur brott, í ólögmætum tilgangi, hluta af vegabréfi eða öðru ferðaskilríki eða áritanir á því,
skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 mánuðum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt hinum almennu hegningarlögum.

4. gr.
        Fyrir önnur brot gegn lögum þessum eða fyrirmælum, sem sett verða samkvæmt þeim, skal refsað með sektum. Þó má beita varðhaldi eða fangelsi allt að 6 mánuðum, ef sakir eru miklar.
        Með mál út af brotum gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.
        Sektir samkvæmt lögum þessum skulu renna í ríkissjóð.