Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Jöfnun á flutningskostnaði nær til flutninga á bifreiðabensíni, gasolíu, öðrum olíum og blöndum til brennslu, flugvélabensíni og flugsteinolíu (þotueldsneyti) til innanlandsflugs, þó ekki á olíum ætluðum til útflutnings, svo sem til millilandasiglinga, millilandaflugs, erlendra skipa og erlendra flugvéla.
Jöfnun flutningskostnaðar samkvæmt lögum þessum nær til flutnings á bensíni og öðrum olíuvörum sjóleiðis frá innflutningshöfnum til annarra hafna á landinu sem geta tekið við bensíni og olíuvörum með leiðslu úr tankskipi. Jafnframt nær jöfnun flutningskostnaðar til landflutninga á bensíni og dísilolíu með tankbifreið til allra útsölustaða í byggð, þ.e. utan hálendis, frá næstu innflutningshöfn eða næstu höfn sem getur tekið við bensíni og dísilolíu frá tankskipi úr olíuleiðslu.
Samkeppnisstofnun, að fenginni tillögu stjórnar flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara, ákveður gjald á olíuvörum skv. 1. mgr. fyrir minnst þrjá mánuði í senn og skal fjárhæð flutningsjöfnunargjalds hvers flokks, sbr. 4. gr., við það miðuð að tekjur af gjaldinu nægi til að greiða flutningskostnað á því magni af framangreindum olíuvörum sem flytja þarf frá næstu innflutningshöfn eða olíuhöfn til þeirra olíuhafna eða útsölustaða sem jöfnun flutningskostnaðar nær til svo að fullnægt verði eftirspurn eftir þeim olíuvörum sem dreift er þaðan.
Aðrir innflytjendur bensíns og olíu, sbr. 1. gr., skulu greiða flutningsjöfnunargjaldið við innheimtu aðflutningsgjalda miðað við innflutt móttekið magn.
Tollstjórinn í Reykjavík og sýslumenn utan Reykjavíkur annast innheimtu gjaldsins og skulu þeir skila því til flutningsjöfnunarsjóðs.
Mynda skal innan flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara sérstaka reikninga fyrir eftirfarandi flokka: 1) bifreiðabensín, 2) gasolíu, 3) aðrar olíur og blöndur til brennslu og 4) flugsteinolíu (þotueldsneyti). Færa skal tekjur af flutningsjöfnunargjaldi hvers flokks á sérstakan reikning og sömuleiðis útgjöld vegna jöfnunar flutningskostnaðar. Stefnt skal að því að ná jafnvægi milli álagðra flutningsjöfnunargjalda og útgjalda vegna flutningsjöfnunar hvers flokks innan almanaksársins.
Nú hrekkur flutningsjöfnunargjald af einum flokki ekki til greiðslu á kröfum þess flokks og skulu þá innstæður á reikningum annarra flokka notaðar til greiðslu þessara krafna til bráðabirgða. Slíkar bráðabirgðagreiðslur skulu endurgreiddar af hækkuðu flutningsjöfnunargjaldi af umræddum flokki á næsta flutningsjöfnunartímabili.
Fé það, sem á hverjum tíma er í flutningsjöfnunarsjóði, skal ávaxtað í banka á sérstökum reikningi.