Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.


Lög um vöruflutninga á landi

1994, nr. 47, 6. maí

1. gr.
        [Lög þessi gilda um vöruflutninga á landi gegn gjaldi með flutningabifreið eða vagnlest umfram þá hámarkshleðslu sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
        Heimild bifreiðastjóra til að stunda akstur flutningabifreiða samkvæmt lögum þessum fellur niður við lok 70 ára aldurs þeirra. Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn allt til 75 ára aldurs leyfishafa ef hann telst hæfur til að stunda akstur flutningabifreiða á grundvelli hæfnisprófs og læknisskoðunar eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð.]1)

1)L. 64/1995, 1. gr. Sjá einnig brbákv. í þeim lögum.

2. gr.
        Til að stunda vöruflutninga með bifreiðum á milli landa innan Evrópska efnahagssvæðisins þarf sérstakt leyfi. Samgönguráðuneytið veitir slík leyfi til þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem hafa staðfesturétt hér á landi.
        Til að öðlast leyfi skv. 1. mgr. þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
1. Hafa óflekkað mannorð.
2. Hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu.
3. Fullnægja skilyrðum um starfshæfni.

        Skilyrðum skv. 2. mgr. verður leyfishafi einnig að fullnægja eftir að leyfi er fengið. Um skilyrði þessi og gjald fyrir veitt leyfi skv. 2. og 3. gr. skal setja nánari ákvæði í reglugerð.

3. gr.
        Þeir sem hafa leyfi skv. 2. gr. geta sótt um leyfi til samgönguráðuneytis til að stunda flutninga innan lands í aðildarríkjum hins Evrópska efnahagssvæðis. Samgönguráðherra veitir slík leyfi á grundvelli úthlutunar Evrópusambandsins.

4. gr.
        Vöruafgreiðslur fyrir vöruflutningabifreiðar skulu skipuleggja starfsemi sína með þeim hætti að veitt verði góð og örugg þjónusta. Hver vöruafgreiðsla skal fylgjast með því að bifreiðastjórar, sem þar hafa afgreiðslu, fari eftir fyrirmælum laga og reglugerða um vöruflutninga á landi.
        [Til að stunda vöruflutninga með flutningabifreiðum þarf sérstakt leyfi. Samgönguráðuneytið veitir slík leyfi til einstaklinga og fyrirtækja eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð. Til að öðlast slíkt leyfi þarf umsækjandi að uppfylla skilyrði 2. gr. laganna.
        Þeir sem stunda akstur flutningabifreiða við gildistöku laga þessara eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.]1)

1)L. 64/1995, 2. gr.

5. gr.
        Samgönguráðherra getur sett reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara og er heimilt að setja reglugerðir um landflutninga með vöruflutningabifreiðum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þess annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu hins vegar, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið.1)

1)Augl. 443/1994, 458/1994 og 576/1996. Rg. 276/1995.

6. gr.
        Brot gegn lögum þessum og reglugerð sem sett verður samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum og skal farið með mál út af brotum á lögum þessum að hætti opinberra mála.

7. gr.
        Lög þessi öðlast þegar gildi.