Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Um meðferðina á slíkum eignum gilda, sé ekki öðruvísi ákveðið í eftirfarandi greinum, lagaákvæði þess ríkis, sem gjaldþrotaskiptin eru úrskurðuð í, um þær takmarkanir, sem gjaldþrotið hefir í för með sér á umráðarétti skuldunauts yfir eignum sínum, svo og um það, hvaða eignir tilheyri búinu, eða sem hægt er að draga undir það með riftun gerninga, um réttindi og skyldur skuldunauts meðan stendur á gjaldþrotaskiptum, um stjórn og meðferð búsins, um rétt kröfuhafa og annarra rétthafa til þess að leita fullnægju í gjaldþrotabúinu, og um úthlutun, nauðasamninga, og önnur lok gjaldþrotaskipta.
Eignir, sem ekki verða yfirleitt notaðar til fullnægju kröfuhafa samkvæmt lögum þess lands, þar sem þær eru, verða ekki dregnar inn í búið.
Öllum þeim kröfuhöfum í hinum ríkjunum, sem kunnugt er um, skal send sérstök tilkynning um gjaldþrotið, nema því aðeins, að krafan verði tekin til greina án þess að henni sé lýst í búið. Kröfuhöfum í hinum ríkjunum skal einnig gefin tilkynning um mótmæli, sem eru sett fram gegn kröfum þeirra.
Að öðru leyti geta skiptaráðendur, að því er snertir eignir, sem eru í öðru ríki en því, sem gjaldþrotin eru úrskurðuð í, óskað aðstoðar yfirvaldanna, á sama hátt og þarlendir skiptaráðendur.
Slíka beiðni má senda beint til hlutaðeigandi yfirvalds. Krefjast má fyrirframgreiðslu kostnaðar vegna aðstoðarinnar, ef það telst nauðsynlegt.
Skjölum, sem rituð eru á íslensku eða á finnsku, skal fylgja löggilt þýðing á dönsku, norsku eða sænsku.
Sé svo ákveðið í lögum einhvers samningsríkjanna, að þinglýsing, skrásetning eða önnur birting sé skilyrði fyrir því, að afhending eða sjálfsvörsluveð í öðrum lausafjármunum en þeim, sem nefndir eru í fyrstu málsgrein, hafi gildi gagnvart þrotabúi, þá skal farið eftir lögum þessa ríkis, að því er snertir gildi slíks gernings og um riftun hans, ef fjármunirnir eru þar við byrjun gjaldþrotaskipta.
Um áhrif gjaldþrots á rétt, sem orðið hefir til við fjárnám eða lögtak, fer eftir lögum þess lands, þar sem gerðin hefir verið framkvæmd.
Um áhrif gjaldþrotsins á heimildina til þess að halda áfram fullnægjugerð samkvæmt fjárnámi eða lögtaki, skal farið eftir lögunum í því ríki, þar sem gerðin er framkvæmd.
Um forgangsrétt fyrir sköttum og öðrum opinberum gjöldum, sem jafnað hefir verið niður í öðru samningsríki en því, þar sem gjaldþrot hefir verið úrskurðað, fer eftir lögunum í því ríki, þar sem sköttunum eða gjöldunum hefir verið jafnað niður. Um forgangsrétt fyrir húsaleigu fer, ef húseignin er í öðru ríki en því, þar sem gjaldþrotið var úrskurðað, eftir lögunum í því ríki, þar sem húseignin er. Forgangsrétturinn nær aðeins til eigna í því ríki, þar sem sköttunum eða gjöldunum er jafnað niður, eða húseignin er í. Sé um sérstakan forgangsrétt að ræða, fer um skuldaröðina samkvæmt fyrstu málsgrein. Sé forgangskrafan hinsvegar venjuleg, gengur hún á undan öðrum almennum forgangskröfum. Um röð milli venjulegra forgangsréttinda fyrir sköttum og sérstakra forgangsréttinda, sem getur um í 1. mgr., fer, þrátt fyrir ákvæðin í nefndri málsgrein, eftir lögunum í því ríki, þar sem skatturinn er lagður á. Að öðru leyti er ekkert ákveðið í samningi þessum um það, hvort fullnægju verði leitað í gjaldþrotabúi fyrir sköttum og gjöldum, sem er jafnað niður í öðru af ríkjunum en því, þar sem gjaldþrotin hafa verið úrskurðuð.
Skrásett skip eða flugvél telst vera í því ríki, þar sem það á heimilisfang, nema við framkvæmd 6. gr.
Endanlegur úrskurður réttar í einhverju samningsríkjanna, er staðfestir skuldasamninga í gjaldþrotabúi, skal hafa gildi einnig í hinum ríkjunum.
Ákvæði þessi gilda enda þótt gjaldþrotið nái til eigna í einu eða fleirum ríkjanna.
Í tilkynningu þeirri, sem um ræðir í 2. gr., skal tekið fram, að skiptameðferðin sé þess eðlis, að samningurinn nái til hennar.
Ef tilraun til nauðasamninga leiðir til þess, að slíkur samningur verður staðfestur, þá skal hann einnig verða bindandi í hinum ríkjunum.
Ákvæðin í 13. gr. gilda á tilsvarandi hátt.
Samningurinn gengur í gildi milli þeirra ríkja, er þá hafa fullgilt hann 1. janúar eða 1. júlí næstan eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að minnst þrjú samningsríkjanna hafa afhent fullgildingarskjöl sín að samningnum. Með tilliti til þeirra ríkja, er seinna fullgilda samninginn, gengur hann í gildi 1. janúar eða 1. júlí næstan eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að fullgildingarskjalið var afhent.
Sérhvert samningsríkjanna getur, gagnvart sérhverju hinna ríkjanna, sagt upp samningnum til þess að ganga úr gildi næsta 1. janúar eða 1. júlí eftir að eitt ár er liðið frá uppsögninni.