Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Á fyrsta fundi þingsins eftir kosningar til Alþingis skal kjósa níu þingmenn í nefnd eftir reglum 68. gr. til þess að prófa kjörbréf og kosningu nýkjörinna þingmanna og varaþingmanna. Nefndin kýs sér formann og framsögumann og gerir tillögu til þingsins um hvort kosning og kjörgengi þingmanns skuli talin gild. Tillögurnar má bera upp munnlega, án nokkurs fyrirvara, og ræður afl atkvæða um gildi kosninga og kjörgengi, svo og hvort fresta skuli úrskurði þar um, sbr. 46. gr. stjórnarskrárinnar.
Umræður á þingsetningarfundum fara fram eftir fyrirmælum 55. gr.
Rétt kjörinn forseti er sá er hefur meira en helming greiddra atkvæða. Verði þeim atkvæðafjölda eigi náð við fyrstu kosningu skal kosið að nýju um þá tvo þingmenn er flest fengu atkvæði; hafi við þá kosningu fleiri fengið jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti um hverja tvo skuli kjósa. Ef þeir fá báðir jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti hvor þeirra verður forseti. Berist aðeins ein tilnefning skv. 1. mgr. skal kosning eigi að síður fara fram um þann sem tilnefndur er.
Forseti gengst fyrir kosningu [sex varaforseta]1) skv. 68. gr. Ef ekki er samkomulag milli þingflokka um einn lista skal kosning fara eftir reglum 5. mgr. þeirrar greinar.
Þegar þessum kosningum er lokið skal hluta um sæti þingmanna.
Ef nefnd þessi lætur uppi skriflega tillögu eða ef hún leggur til að kosning skuli teljast ógild skulu tillögur hennar ræddar eftir reglunum um 2. umræðu lagafrumvarpa skv. 1. mgr. 39. gr. Ella fer um tillögur nefndarinnar eftir því sem ákveðið er um tillögur hennar í 1. gr.
Sama er um kjörgengi.
Að öðru leyti tekur þingið eigi upp hjá sjálfu sér að rannsaka kosningar eða kjörgengi en gerir það því aðeins að kært sé yfir þeim.
Kæru yfir kosningu þingmanns eða kjörgengi skal því aðeins taka til greina að hún sé komin til Alþingis í byrjun þings næst á eftir kosningu eða áður en kosning þingmanns er tekin gild á Alþingi.
Við prófun kosninga og kjörgengis hefur sérhver þingmaður fullan þingmannsrétt. En fresti þingið úrskurði um kjörbréf þingmanns þá tekur hann engan þátt í störfum þingsins uns það mál er útkljáð og kosning hans og kjörgengi viðurkennd.
Þó er hverjum forseta þingsins heimilt að leggja niður störf ef meiri hluti leyfir; svo getur og Alþingi vikið forseta frá en þó þarf til þess samþykki tveggja þriðju hluta þingmanna. Skal þá þegar kjósa nýjan forseta í sæti það er losnaði.
Nú vill forseti taka þátt í umræðum frekar en forsetastaða hans krefur og víkur hann þá á þingmannabekk en varaforseti tekur forsetasæti á meðan.
Forseti hefur umsjón með starfi þingnefnda, sbr. II. kafla.
Í forföllum forseta ganga varaforsetar að öllu leyti í hans stað.
Forsætisnefnd skipuleggur þinghaldið og hefur umsjón með alþjóðasamstarfi sem Alþingi á aðild að. Hún fjallar um fjárhagsáætlanir þingsins og stofnana sem undir Alþingi heyra. Nefndin setur almennar reglur um rekstur þingsins og stjórnsýslu. Auk þess fjallar forsætisnefnd um þau mál sem forseti leggur fyrir hana eða varaforsetar óska að ræða. Verði ágreiningur í nefndinni sker forseti úr.
Forsætisnefnd fer með þau verkefni sem forsetum Alþingis hafa verið falin í öðrum lögum.
Skrifstofustjóri situr fundi forsætisnefndar og er forseta og nefndinni til aðstoðar í öllu er varðar stjórn þingsins.
Skrifstofustjóri gerir tillögur til forseta um ráðningu annarra starfsmanna þingsins.
Í byrjun fundar skal gerðabók frá síðasta fundi samþykkt og undirskrifuð af forseta. Þingmenn skulu eiga kost á að kynna sér gerðabók í skrifstofunni að minnsta kosti tveimur tímum áður en næsti fundur byrjar.
Forseta er heimilt að kveðja til tvo þingmenn til að telja saman atkvæði við atkvæðagreiðslur og kosningar.
Skrifstofustjóri skal ásamt forseta sjá um að samþykktir þingsins séu skrásettar og rita forsetinn og skrifstofustjórinn undir þær.
Fastanefndir skal kjósa á fyrsta fundi hvers þings og skal kosið hlutbundinni kosningu, sbr. 68. gr. Kosning fastanefnda gildir til upphafs næsta þings.
Fastanefnd kýs sér formann og varaformann er gegnir störfum formanns í forföllum hans. Skulu þeir kosnir á fyrsta fundi nefndarinnar er boða skal til innan viku frá kosningu hennar.
Sá kveður þingnefnd saman til fyrsta fundar er fyrstur var kosinn og lætur hann kjósa formann og varaformann nefndarinnar. Forseti skal tilkynna kjör þeirra á þingfundi.
Formanni og varaformanni nefndar er heimilt að leggja niður störf ef nefnd leyfir; svo getur og nefnd vikið formanni og varaformanni frá en þó þarf til þess samþykki tveggja þriðju hluta nefndarmanna.
[Formanni nefndar er skylt að boða til fundar ef ósk berst um það frá a.m.k. þriðjungi nefndarmanna og taka á dagskrá þau mál sem tilgreind eru. Sama gildir um ósk frá þeim nefndarmanni sem falið hefur verið að vinna að athugun máls, sbr. 27. gr.]1)
Varaþingmaður, sem tekur sæti á Alþingi í forföllum þingmanns, skal eiga sæti í þeim nefndum sem aðalmaður var kjörinn í.
Í forföllum nefndarmanns er þingflokki hans heimilt að tilnefna annan þingmann sem varamann um stundarsakir til setu í nefnd og skal tilkynna formanni nefndar um það. Staðgengill nýtur allra sömu réttinda og aðrir nefndarmenn.
Forseti skal gera áætlun um afgreiðslu mála úr nefndum í samráði við formenn þeirra þannig að unnt sé að skipa málum niður á dagskrá þingsins í hagkvæmri tímaröð og dreifa þeim sem jafnast á þingtímann.
Áður en 1. umræða fer fram um stjórnarfrumvörp eða fyrri umræða um tillögur frá ríkisstjórninni getur forseti heimilað, ef ósk berst um það frá níu þingmönnum, að nefnd athugi mál í því skyni að afla frekari upplýsinga um það eða skýringa á efni þess. Slíkt er og heimilt að gera að lokinni framsöguræðu um málið. Forseti ákveður hve lengi athugun nefndarinnar má standa.
Nefnd, sem fengið hefur mál til athugunar, skal heimilt að vísa því til annarrar fastanefndar telji hún við nánari athugun að málið eigi frekar heima í þeirri nefnd. Áður skal þó liggja fyrir samþykki þeirrar nefndar sem málinu er vísað til.
Fjárlaganefnd getur vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með sama hætti geta aðrar fastanefndir ákveðið að fjalla um einstaka þætti fjárlagafrumvarpsins. Til efnahags- og viðskiptanefndar vísar fjárlaganefnd frumvarpi til lánsfjárlaga og tekjugrein fjárlagafrumvarps. Nefndirnar skila fjárlaganefnd áliti og tillögum svo tímanlega fyrir 2. umræðu fjárlaga sem fjárlaganefnd ákveður. Efnahags- og viðskiptanefnd skal gera grein fyrir áhrifum skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs fyrir 3. umræðu. Álit og tillögur nefndanna skal prenta sem fylgiskjöl með nefndaráliti fjárlaganefndar eða meiri hluta hennar. 3. umræða um frumvarp til fjárlaga skal hefjast eigi síðar en 15. desember.
Fjárlaganefnd á rétt á að fá þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar um rekstur og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og stofnana sem óska eftir framlögum úr ríkissjóði. Enn fremur er þeim stofnunum ríkisins, er fást við efnahagsmál, skylt að veita nefndinni upplýsingar og aðstoð sem hún þarf á að halda við afgreiðslu þingmála.
[Ef nefndarmaður gerir tillögu um að athugun máls sé hætt og það afgreitt frá nefndinni er formanni skylt að láta ganga atkvæði um þá tillögu á þeim fundi sem hún er borin fram. Tillagan telst því aðeins samþykkt að meiri hluti nefndarmanna greiði henni atkvæði.]1)
Forseti setur nánari reglur um meðferð erinda og umsagna sem berast nefndum.
Fái nefnd mál til umfjöllunar á nýjan leik eftir útgáfu nefndarálits getur hún gefið út framhaldsnefndarálit.
Mæli nefnd með samþykkt lagafrumvarps eða þingsályktunartillögu skal hún láta prenta með áliti sínu áætlun um þann kostnað sem hún telur ný lög eða ályktun hafa í för með sér fyrir ríkissjóð.
Forseti skal setja nánari reglur um frágang nefndarálita, m.a. um hvað koma skuli fram í þeim, og um prentun fylgiskjala.
Til hverrar alþjóðanefndar skal velja samkvæmt starfsreglum sem um hana gilda. Þó er þingflokkum heimilt að tilnefna þingmenn í alþjóðanefndir ef um það er samkomulag milli þeirra. Tilnefningu skal þá lýst á þingfundi.
Hver alþjóðanefnd skal hafa ritara sem er nefndinni til aðstoðar.
Um aðrar alþjóðanefndir, er Alþingi kann að koma á fót, gilda ákvæði 2. og 3. mgr.
Forseti setur almennar reglur um störf alþjóðanefnda þingmanna.
Lagafrumvörp, sem útbýtt er sex mánuðum eftir þingsetningu, verða því aðeins tekin á dagskrá að meiri hluti þingmanna samþykki það.
Breytist frumvarp við aðra umræðu á annan hátt en þann er nefnd leggur til skal hún fjalla um það áður en þriðja umræða hefst ef einhver þingmaður eða ráðherra óskar þess.
Hafi breytingartillaga verið samþykkt við 3. umræðu en umræðunni verið frestað áður en atkvæðagreiðsla fór fram um frumvarpið í heild og því vísað á ný til nefndar, sbr. 23. gr., er ráðherra, þingnefnd, sem haft hefur málið til athugunar, eða einstökum nefndarmönnum heimilt að leggja fram nýjar breytingartillögur við frumvarpið. Við framhald umræðunnar gilda ákvæði 55. gr. að nýju ef breytingartillögur hafa komið fram. Þegar umræðum er lokið skal fyrst greiða atkvæði um breytingartillögurnar og síðan frumvarpið í heild eins og það þá er orðið.
Breytingartillögu, sem felur í sér tillögu um breytingu á stjórnarskránni eða viðauka við hana, má aðeins gera við frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Sé hún gerð við annað frumvarp vísar forseti henni frá.
Ekki er þingsályktunartillaga samþykkt til fullnaðar fyrr en hún hefur verið rædd við tvær umræður. Tillögur um vantraust og um frestun á fundum Alþingis skulu þó afgreiddar við eina umræðu.
Við fyrri umræðu má hver ræðumaður tala tvisvar, flutningsmaður allt að fimmtán mínútum og aðrir þingmenn og ráðherrar allt að átta mínútum í senn. Þá er þessari umræðu er lokið er leitað atkvæða um hvort tillagan eigi að ganga til síðari umræðu og nefndar. Forseti getur ákveðið frávik frá þessari málsmeðferð ef fyrir liggur rökstudd beiðni þingflokks þar að lútandi. Hver þingflokkur hefur rétt til að bera slíka beiðni fram við forseta einu sinni á hverju þingi.
Síðari umræða fer eigi fram fyrr en einni nóttu eftir fyrri umræðu eða útbýtingu nefndarálits. Skal þá ræða tillögugreinar og breytingartillögur við þær. Þá er umræðu er lokið skal greiða atkvæði um hverja tillögugrein og breytingartillögur við þær og loks tillöguna í heild sinni. Við umræðuna gilda ákvæði 55. gr.
Forseta er heimilt að láta ákvæði 55. gr. gilda við fyrri umræðu um þingsályktunartillögur, er fjalla um stjórnskipun, utanríkis- eða varnarmál, staðfestingu framkvæmdaáætlana, alþjóðasáttmála eða milliríkjasamninga, liggi fyrir ósk um það.
Þingsályktunartillögur, sem útbýtt er sex mánuðum eftir þingsetningu, verða því aðeins teknar á dagskrá að meiri hluti þings samþykki það.
Ef ráðherra óskar skal skýrslan tekin til umræðu. Sama gildir ef níu þingmenn óska þess. Ráðherrann gerir þá grein fyrir skýrslunni.
Ef ekki verður við komið að prenta og útbýta skýrslu skv. 1. mgr. eða ekki þykir ástæða til getur ráðherra gert grein fyrir opinberu málefni með munnlegri skýrslu til Alþingis. Fer þá um umræðu sem um skriflega skýrslu, sbr. 48. gr.
[Ráðherra skal ljúka skýrslugerðinni innan 10 vikna og skal skýrslan þá prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi.]1)
Ef ráðherra eða skýrslubeiðendur, einn eða fleiri, óska þess skal skýrslan tekin til umræðu. Ráðherra gerir þá grein fyrir henni.
Vísa má skýrslu til nefndar. Sé það gert skal fresta umræðunni og henni eigi fram haldið fyrr en einni nóttu eftir útbýtingu nefndarálits.
Forseti ákveður svo fljótt sem hann telur sér unnt hvort fyrirspurn skuli leyfð eða ekki. Ef vafi er getur forseti þó borið málið umræðulaust undir atkvæði á þingfundi. Skal það einnig gert ef fyrirspyrjandi óskar þess er forseti synjar fyrirspurn.
Fyrirspurn skal prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Fyrirspurn, sem leyfð hefur verið, skal send hlutaðeigandi ráðherra eða ráðherrum.
Á sérstökum þingfundi skal forseti taka á dagskrá fyrirspurnir er útbýtt hefur verið í síðasta lagi þremur virkum dögum fyrir fundinn. Fyrirspurn skal þó að jafnaði ekki tekin á dagskrá síðar en átta virkum dögum eftir að henni var útbýtt.
Fyrirspyrjandi eða framsögumaður fyrirspyrjenda mælir fyrir fyrirspurn. Ráðherra, er hlut á að máli, svarar síðan fyrirspurn. [Hvor um sig, fyrirspyrjandi og ráðherra, má ekki tala oftar en tvisvar, fyrirspyrjandi eigi lengur en þrjár mínútur í fyrra sinn og eigi lengur en tvær mínútur í síðara sinn og ráðherra eigi lengur en fimm mínútur í fyrra sinn og eigi lengur en tvær mínútur í síðara sinn.]1) Öðrum þingmönnum er heimilt að gera einu sinni stutta athugasemd, eina mínútu hverjum.
Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðherra forseta það að jafnaði eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð. Forseti sendir fyrirspyrjanda svarið og skal það prentað og útbýtt meðal þingmanna á fundi.
Í allt að hálftíma á fyrir fram ákveðnum fundi getur forseti heimilað þingmönnum að bera fram munnlegar fyrirspurnir til ráðherra. [Hvor um sig, fyrirspyrjandi og ráðherra, má ekki tala oftar en þrisvar, eigi lengur en tvær mínútur í fyrsta sinn og eigi lengur en eina mínútu í annað og þriðja sinn.]1)
Við umræður um fyrirspurnir má engar ályktanir gera.
Forseti getur leyft að tekið sé fyrir mál utan dagskrár sem í senn er svo mikilvægt að ekki rúmast innan ramma 1. mgr. og svo aðkallandi að ekki geti beðið meðferðar formlegra þingmála. Málshefjandi og ráðherra, sem hlut á að máli, mega eigi tala lengur en þrjátíu mínútur og aðrir þingmenn og ráðherrar eigi lengur en fimmtán mínútur í senn. Enginn má tala oftar en tvisvar. 2. og 3. málsl. fyrri málsgreinar gilda einnig um umræður samkvæmt þessari málsgrein.
[Í upphafi fundar, áður en gengið er til dagskrár, geta þingmenn gert athugasemdir er varða störf þingsins. Enginn má tala oftar en tvisvar og ekki lengur en tvær mínútur í senn. Umræður um athugasemdir mega ekki standa lengur en í tuttugu mínútur.]2)
Breytingartillögu við breytingartillögu má þingmaður bera upp við upphaf þess fundar er hún skal tekin til umræðu. Þó skal þá vera búið að útbýta henni. Nefnd getur einnig borið upp breytingartillögu við frumvarp eða þingsályktunartillögu með jafnstuttum fresti.
Breytingartillögu um atriði, sem búið er að fella, má eigi bera upp aftur á sama þingi. Forseti úrskurðar hvort það er sama atriði sem gerð er tillaga um og áður hefur verið fellt og er þingmönnum skylt að hlíta þeim úrskurði.
Ef þingmaður forfallast svo að nauðsyn krefji að varamaður hans taki sæti hans á meðan skal hann tilkynna forseta það bréflega og jafnframt gera grein fyrir í hverju forföllin eru fólgin og hversu lengi þau muni vara. Forseti kynnir þinginu bréfið. Þegar varamaður tekur sæti í forföllum þingmanns skal hann ekki sitja skemur en tvær vikur nema þingið hafi áður verið rofið eða því frestað. Þingmaður nýtur ekki þingfararkaups meðan varamaður hans situr á þingi nema fjarvist sé vegna veikinda eða þingmaður sé fjarverandi í opinberum erindum.
Þegar fundur er settur skal samþykkja gerðabók frá síðasta fundi, sbr. 12. gr. Þar næst skýrir forseti frá erindum þeim sem honum hafa borist eða þingskjölum sem útbýtt hefur verið. Þá er gengið til dagskrár.
Jafnan er heimilt að gera stutta athugasemd um atkvæðagreiðslu, [um fundarstjórn forseta]1) og til þess að bera af sér sakir. [Enginn má þó tala lengur en þrjár mínútur í senn [og ekki oftar en tvisvar um hvert atriði.]1)]2)
Þegar útvarpað er umræðum um þingmál skal farið eftir reglum VI. kafla.
[Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má framsögumaður máls, ráðherra eða þingmaður, eigi tala lengur en þrjátíu mínútur í fyrsta sinn, fimmtán mínútur í annað sinn og fimm mínútur í þriðja sinn við 1. umræðu um lagafrumvörp. Aðrir þingmenn og ráðherrar mega eigi tala lengur við þá umræðu en 20 mínútur í fyrra sinn og tíu mínútur í síðara sinn. Hver þingflokkur á rétt á að fá ræðutíma samkvæmt þessari málsgrein lengdan, allt að tvöföldum tíma, ef fyrir liggur rökstudd beiðni þar að lútandi áður en frumvarp er tekið til umræðu.]1)
Forseti getur leyft þingmönnum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum strax og þær hafa verið fluttar. Skal þá sá er vill svara bera fram ósk um það við forseta. Andsvari má einungis beina að máli ræðumanns en ekki öðru andsvari. Hvert andsvar má ekki taka lengri tíma en tvær mínútur og skal ræðumanni heimilt að svara því á tveimur mínútum. Heimilt er forseta að stytta ræðutíma hvers ræðumanns í þessum umræðum. Enginn má veita andsvar oftar en tvisvar sinnum hverju sinni. Orðaskipti í andsvörum mega ekki standa lengur en í fimmtán mínútur í einu.
Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.
Sömuleiðis geta níu þingmenn krafist þess að greidd séu atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu skuli lokið, umræðutími eða ræðutími hvers þingmanns takmarkaður. Nöfn þeirra þingmanna skulu lesin upp og rituð í gerðabókina.
Nú hefur verið samþykktur takmarkaður umræðutími eða ákveðinn ræðutími hvers þingmanns og skal þá forseti skipta umræðutímanum í heild sem jafnast á milli fylgismanna og andstæðinga máls þess sem er til umræðu, án þess að hann sé bundinn við í hvaða röð þingmenn hafa kvatt sér hljóðs, eða milli flokka ef hentara þykir.
Ákvæði þessarar greinar ná einnig til ræðutíma ráðherra.
Breytingartillögu, sem er á dagskrá við 2. umræðu um lagafrumvarp, má flutningsmaður kalla aftur, að hluta eða í heild, til 3. umræðu og kemur hún þá til afgreiðslu við þá umræðu.
Meðan á umræðum stendur má gera rökstudda tillögu um að taka skuli fyrir næsta mál á dagskránni og skal þá afhenda forseta tillöguna um það skrifaða. Slíka tillögu má og gera í prentuðu þingskjali.
Forseti getur breytt röðinni á þeim málum sem eru á dagskrá og einnig tekið mál út af dagskrá.
Forseti getur heimilað, ef ósk berst um það frá flutningsmanni eða flutningsmönnum og enginn þingmaður andmælir því, að umræður fari fram um tvö eða fleiri dagskrármál í einu ef þau fjalla um skyld efni eða það þykir hagkvæmt af öðrum ástæðum.
Engin ályktun er lögmæt nema meira en helmingur fundarmanna, þeirra sem atkvæði greiða, greiði atkvæði með henni.
Skylt er þingmanni að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.
Enginn þingmaður má greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín.
Atkvæðagreiðslan fer fram á þann hátt að hver þingmaður réttir upp hönd hvort sem hann greiðir atkvæði með eða móti máli. Teljarar telja atkvæðin en forseti skýrir frá úrslitum atkvæðagreiðslunnar eftir að atkvæða hefur verið leitað með og móti. Hafi atkvæðagreiðslan fallið þannig að málið sé hvorki samþykkt né fellt lætur forseti nafnakall fara fram. Sömuleiðis er forseta heimilt að láta atkvæðagreiðslu fara fram með nafnakalli annaðhvort þegar í stað eða ef atkvæðagreiðsla hefur áður farið fram en verið óglögg. Komi fram ósk um nafnakall skal við henni orðið.
Við nafnakall skal farið eftir tölusettri nafnaskrá í stafrófsröð og hluta um í hvert sinn á hverri raðtölunni skuli byrja nafnakallið.
Forseti skal jafnan greiða atkvæði síðastur.
Atkvæðagreiðsla með rafeindabúnaði, þar sem staðfest er hverjir taka þátt í henni og hvernig hver þingmaður greiðir atkvæði, jafngildir nafnakalli. Atkvæði hvers þingmanns við lokaafgreiðslu lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna skal skrásetja í þingtíðindunum. Sama gildir við aðrar atkvæðagreiðslur ef einhver þingmaður óskar þess á fundinum.
[Við atkvæðagreiðslu með rafbúnaði, svo og nafnakall, er þingmanni heimilt að gera stutta grein fyrir atkvæði sínu. Slík greinargerð má þó eigi taka lengri tíma en eina mínútu.]1)
Þeir þingmenn, er komið hafa sér saman um að kjósa allir sömu menn í sömu röð, afhenda forseta, þegar til kosninga kemur, lista yfir þá í þeirri röð. Þegar hann hefur tekið við listunum merkir hann hvern þeirra bókstaf, A, B, C o.s.frv., eftir því sem sjálfur hann ákveður eða ákveðið hefur verið með samkomulagi eitt skipti fyrir öll þann þingtíma. Síðan les forseti upphátt stafnafn hvers lista og nöfn þau er á honum standa. Þá kjósa þingmenn þannig að hver ritar á kjörmiða aðeins stafnafn (A, B o.s.frv.) þess lista er hann vill kjósa eftir. Kjörmiðarnir eru afhentir forseta og nefnir hann upphátt bókstaf hvers miða en teljarar rita jafnóðum og telja saman hve mörg atkvæði hafa fallið á hvern lista, hve mörg á A, hve mörg á B o.s.frv. Tölu þeirri, sem hver listi fær þannig, er svo skipt, fyrst með 1, síðan 2, síðan með 3 o.s.frv. eftir því sem með þarf. Hlutatölur hvers lista eru ritaðar í röð, hver niður undan annarri, og yfir dálkinum er ritaður bókstafur þess lista.
Kosning fer eftir hlutatölunum þannig að sá listi fær fyrsta mann er hæsta á hlutatöluna, sá listi næsta mann er á næsthæsta hlutatölu o.s.frv. þar til fullskipað er. Ef jafnháar hlutatölur koma á tvo eða fleiri lista skal varpa hlutkesti um hvor eða hver listanna skuli koma að manni.
Af hverjum lista skulu menn hljóta kosningu í þeirri röð sem þeir standa á listanum.
Þegar kosnir eru varaforsetar samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 3. gr. skal fella niður hæstu hlutatölu þess lista sem þingflokkur forsetans á aðild að. Að öðru leyti gilda ákvæði 3. og 4. mgr. um kjör varaforseta og röð þeirra.
Ef kjósa skal einnig varamenn skal listi, sem hlotið hefur mann eða menn, eiga rétt til jafnmargra varamanna í þeirri röð sem þeir standa á listanum.
Í þingflokki skulu vera a.m.k. tveir þingmenn og má enginn þingmaður eiga aðild að fleiri en einum þingflokki.
Enn fremur skal forseti hafa samráð við formenn þingflokka um fyrirkomulag umræðna um mikilvæg mál ef ætla má að umræður verði miklar. [Forseti getur þá, með samþykki allra þingflokka, ákveðið að ræðutími skuli vera annar en ákveðið er í 44., 48. og 50. gr. og hve lengi umræðan má standa. Um slíka ákvörðun skal þó leita samþykkis þingfundar ef a.m.k. þrír þingmenn krefjast þess.]1)
Forseti skal sjá um að þingflokkum og einstökum þingmönnum innan þeirra sé búin starfsaðstaða og hafa um það samráð við formenn þingflokkanna. Sama gildir um þingmenn utan flokka.
[Formenn þingflokka eru réttir aðilar gagnvart forseta að því er varðar lengingu ræðutíma, sbr. 3. og 5. mgr. 44. gr., 48. gr. og 3. mgr. 55. gr., svo og breytingar skv. 2. mgr. þessarar greinar.]1)
Útvarpa skal stefnuræðunni og umræðu um hana. Umferðir skulu vera tvær. Í fyrri umferð hefur forsætisráðherra til umráða allt að hálfri klukkustund og fulltrúar annarra þingflokka en forsætisráðherrans 20 mínútur hver. Í annarri umferð hefur hver flokkur 10 mínútur til umráða.
Þegar útvarpsumræðu um þingmál er lokið getur umræða haldið áfram eftir venjulegum reglum.
Forseti ákveður í samráði við þingflokka tölu umferða og ræðutíma í einstökum umferðum. Það er umferð þegar fulltrúar allra þingflokka hafa tekið til máls og þeir þingmenn utan flokka sem þátt taka í umræðum.
Ef útvarps- og sjónvarpsstöð óskar hins vegar að útvarpa venjubundinni umræðu eða hluta af umræðu ákveður forseti hvort það skuli leyft. Þegar útvarpað er umræðu á þennan hátt skal þess gætt að ræðutími skiptist sem jafnast milli flokka eða mismunandi sjónarmiða.
Þar sem segir að útvarpa skuli, sbr. 73.--78. gr., er skyldan bundin við Ríkisútvarpið, hljóðvarp.
Í Alþingistíðindunum má ekkert undan fella, það er þar á að standa og fram hefur komið í þinginu og gerðabækur þingsins og handrit af umræðum í þinginu bera með sér. Engar breytingar má gera á hvorugu þessu nema leiðrétta þurfi auðsæjar og sannanlegar villur. Engu má bæta inn í Alþingistíðindin, hvort sem það varðar menn eða málefni, nema þess sé óhjákvæmilega þörf eða í því felist sjálfsögð leiðrétting. Forseti getur sett nánari reglur um útgáfu Alþingistíðinda, frágang þingskjala o.fl.