a. Að gera tillögur til utanríkisráðherra um samstarfsverkefni í þróunarlöndunum, sem fjármögnuð yrðu af íslenska ríkinu samkvæmt fjárlagaheimild, annaðhvort eingöngu eða í samvinnu við aðra. Verkefni þessi skulu einkum beinast að því að miðla til umræddra landa reynslu og sérþekkingu, sem Íslendingar búa yfir og þau hafa áhuga á að afla sér.
b. Að skipuleggja, annast framkvæmd og/eða yfirstjórn á og hafa eftirlit með þeim samstarfsverkefnum, sem um ræðir í staflið a. þessarar greinar.
c. Að sjá á sama hátt um samstarfsverkefni í þróunarlöndunum, sem Íslandi kynnu að vera falin af Sameinuðu þjóðunum, sérstofnunum þeirra eða öðrum ríkjasamtökum.
d. Að kanna möguleika á auknum viðskiptatengslum við þróunarlöndin og koma upplýsingum þar að lútandi á framfæri við aðila hérlendis.
e. Að vinna að auknum menningartengslum, m.a. að því að Ísland taki þátt í menntun fólks frá þróunarlöndunum, bæði veiti því aðgang að hérlendum menntastofnunum og fái hæfa íslenska menn til að annast kennslu við menntastofnanir í þróunarlöndunum eða sem reknar eru í þágu þróunarlandanna.
f. Að veita aðilum, er hafa með höndum hjálparstarfsemi í þróunarlöndunum, þær upplýsingar og leiðbeiningar, sem þeir kunna að óska.
g. Að vinna að kynningu á þróunarlöndunum og málefnum þeirra með það fyrir augum að efla áhuga almennings, hagsmunasamtaka og hvers konar félaga á auknu samstarfi og aðstoð við þau.
h. Að gangast fyrir samráðum aðila hérlendis, sem láta þróunarsamstarf til sín taka, þ. á m. efna til ráðstefna og funda með þeim, eftir því sem þurfa þykir, til þess að tryggja að þróunarsamstarfið verði sem árangursríkast.
i. Að vinna á annan hátt að því að framlög Íslendinga til aðstoðar við þróunarlöndin nái sem fyrst því marki, sem samþykkt hefur verið á þingi Sameinuðu þjóðanna, að þau nemi 1% af þjóðartekjum.