Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Lögin gilda ekki um lífverur sem verða til með hefðbundnum kynbótum eða náttúrulegu erfðabreytingaferli.
Lög þessi gilda ekki um afurðir erfðabreyttra lífvera.
Við framkvæmd laganna skal höfð í huga sérstaða landsins á norðurslóð.
Hollustuvernd ríkisins hefur yfirumsjón með framkvæmd laganna, veitir leyfi og stjórnar eftirliti með starfsemi samkvæmt lögum þessum.
Umhverfisráðherra getur með reglugerð, að fenginni umsögn félagsmála-, heilbrigðis-, menntamála- og landbúnaðarráðherra, falið öðrum stjórnvöldum að fara með hluta eftirlitsins í samræmi við lög sem um þau stjórnvöld gilda undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins.
Hollustuvernd ríkisins getur afturkallað leyfi sem hún hefur veitt samkvæmt lögum þessum ef áhætta af leyfðri starfsemi eykst, flokkun erfðabreyttra lífvera breytist, nýjar upplýsingar liggja fyrir um að áhætta af starfseminni hafi verið vanmetin, ný tækni gerir það að verkum að mögulegt er að takmarka frekar en gert er áhættu fyrir heilsu manna og umhverfi eða ef brotið er gegn lögum og reglum sem um starfsemina gilda.
Hollustuvernd ríkisins er óheimilt að veita leyfi ef slík leyfisveiting samræmist ekki markmiðum laga þessara.
Í umsókn skal gerð grein fyrir hugsanlegum afleiðingum afmarkaðrar notkunar hinnar erfðabreyttu lífveru fyrir heilsu manna og umhverfi og fyrirhuguðum öryggisráðstöfunum, auk almennra upplýsinga um tegund starfsemi og flokkun erfðabreyttra lífvera. Einnig skulu fylgja umsagnir eftirlitsaðila um aðstöðu, búnað og tæki, eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
Hollustuvernd getur krafist þess að umsækjandi veiti frekari upplýsingar en fram koma í umsókn um aðstöðu og fyrirhugaða starfsemi.
Hollustuvernd ríkisins tilkynnir umsækjanda skriflega um móttöku umsóknar.
Þegar unnið er með erfðabreyttar lífverur þar sem sérstakrar varúðar er þörf skulu einangrunarráðstafanir og mengunarvarnir viðhafðar í samræmi við flokkun á erfðabreyttum lífverum og tegund starfsemi. Þeir sem bera ábyrgð á starfsemi skv. 1. mgr. skulu taka einangrunarráðstafanir og mengunarvarnir reglulega til endurskoðunar og hafa til hliðsjónar nýjungar á sviði vísinda og tækni.
Aðeins skal veita leyfi til afmarkaðrar notkunar að ekki sé talin hætta á skaðsemi út frá umhverfisverndar- og heilsufarssjónarmiðum og siðferðilega sé réttlætanlegt.
Hollustuvernd ríkisins skal tilkynna umsækjanda skriflega hvort fallist hafi verið á umsókn.
Tilkynna skal Hollustuvernd ríkisins þegar notkun eða framleiðsla erfðabreyttra lífvera hefst og halda dagbók um starfsemina.
Hollustuvernd skal hafa eftirlit með og skrásetja þær tegundir erfðabreyttra lífvera sem unnið er með hverju sinni.
Umsókn skulu fylgja nauðsynlegar upplýsingar um eiginleika og einkenni hinnar erfðabreyttu lífveru, greinargerð um hugsanlegar afleiðingar af sleppingu og dreifingu, fyrirhugaðar öryggisráðstafanir og siðferðileg álitaefni ásamt öðrum gögnum sem ráðherra kveður á um í reglugerð.
Umsóknir um leyfi skulu vera þannig úr garði gerðar að þær séu fallnar til almennrar kynningar eftir því sem ákveðið kann að verða og samrýmist ákvæðum um upplýsingaskyldu og trúnað.
Hollustuvernd ríkisins skal leita umsagna Náttúruverndarráðs og annarra eftir því sem við á og nánar er kveðið á um í reglugerð.
Ef umsókn fær jákvæða afgreiðslu skal Hollustuvernd ríkisins senda útdrátt úr umsókn ásamt umsögn sinni til lögbærra yfirvalda á EES-svæðinu eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
Berist Hollustuvernd ríkisins tilkynning skv. 1. mgr. eða eftir öðrum leiðum skal hún svo skjótt sem auðið er taka afstöðu til þess hvort nauðsynlegt sé að endurskoða eða breyta áður útgefnu leyfi eða afturkalla það. Ákvörðun sína skal stofnunin tilkynna leyfishafa án tafar.
Umhverfisráðherra getur, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins og umsögn ráðgjafanefndar, bannað eða takmarkað hér á landi markaðssetningu tiltekinna erfðabreyttra lífvera eða vöru sem inniheldur þær ef hætta er á að markaðssetningin hafi í för með sér skaðleg áhrif á heilsu manna eða umhverfi. Það sama á við ef leyfisveiting samræmist ekki markmiðum laga þessara að öðru leyti eða samræmist ekki íslenskum lögum.
Hollustuvernd ríkisins skal tilkynna án tafar öðrum lögbærum yfirvöldum á EES-svæðinu ákvörðun umhverfisráðherra skv. 2. mgr.
Starfsmönnum Hollustuverndar ríkisins, ráðgjafanefnd eða öðrum sem fjalla um umsóknir og tilkynningar samkvæmt lögum þessum er óheimilt að greina frá trúnaðarupplýsingum sem þeir kunna að komast að í starfi sínu. Óheimilt er að greina frá umsóknum sem dregnar hafa verið til baka. Trúnaðarskyldan helst þó að látið sé af starfi.
Umhverfisráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð, í samræmi við gildandi lög um upplýsingaskyldu, um meðferð upplýsinga og hvaða upplýsingar skuli ætíð undanþegnar trúnaðarskyldu.
Ef umsókn er þess eðlis að leyfi fyrir starfsemi með erfðabreyttar lífverur getur haft veruleg áhrif á starfsemi og hagsmuni margra aðila er Hollustuvernd ríkisins heimilt að efna til opins áheyrnarfundar áður en endanleg ákvörðun um leyfisveitingu er tekin. Ákvörðun um að halda opinn áheyrnarfund skal auglýsa sérstaklega.
Starfsemi skal því aðeins stöðvuð að um alvarlegt tilvik eða ítrekuð brot sé að ræða, eða ef aðilar sinna ekki kröfum um úrbætur innan tilskilins frests. Ef aðili vanrækir að vinna verk sem Hollustuvernd ríkisins eða önnur stjórnvöld hafa fyrirskipað honum að framkvæma á grundvelli laga þessara eða reglna settra samkvæmt þeim, innan tilskilins frests, er stjórnvöldum heimilt að láta vinna verkið á kostnað umrædds aðila. Kostnaður vegna slíkra aðgerða greiðist til bráðabirgða úr ríkissjóði sem innheimtir hann síðar hjá umræddum aðila.
Hollustuvernd ríkisins er heimilt að ákveða dagsektir, allt að 50.000 kr. á dag, til þess að knýja á um framkvæmdir. Ákvarðanir um greiðslu gjalda, kostnaðar og dagsekta samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.
Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, ef sakir eru miklar. Hlutdeild í brotum á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim, eða tilraun til slíkra brota, er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.