Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.


Lög um kísilgúrverksmiðju við Mývatn

1966, nr. 80, 15. ágúst

1. gr.
        Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags, er reisi og reki verksmiðju við Mývatn og Námaskarð í Suður-Þingeyjarsýslu til þess að vinna markaðshæfan kísilgúr úr botnleðju Mývatns. Í því skyni er henni heimilt:
1. Að leggja fram allt að kr. 50 millj. af fé ríkissjóðs sem hlutafé í nefndu hlutafélagi. Einnig er henni heimilt að taka lán í þessu skyni og til greiðslu undirbúningskostnaðar.
2. Að selja verksmiðjunni hráefni úr kísilgúrnámunni í Mývatni utan netlaga eða leigja hlutafélaginu afnot hennar.
3. Að selja kísilgúrverksmiðjunni jarðnæði við Mývatn og Námaskarð eftir því, sem þarfir hennar krefjast og ríkið á eða kann að eignast samkvæmt 7. gr.
4. Að nýta jarðhitasvæðið við Námaskarð í þágu hitaveitu, er ríkisstjórnin lætur reisa og reka og m.a. skal gegna því hlutverki að selja kísilgúrverksmiðjunni jarðhita til reksturs síns.
5. Að semja um lækkun aðflutningsgjalda af vörum til byggingar verksmiðjunnar.
6. Að veita ríkisábyrgð fyrir láni eða lánum, er hlutafélaginu verði veitt til byggingar verksmiðjunnar, að fjárhæð samtals allt að 75 milljónum króna eða jafnvirði þeirra í erlendri mynt, eða taka lán innan sömu marka og endurlána félaginu í sama tilgangi.

        Framleiðslufélagi því, sem um ræðir í grein þessari, skal heimilt að veita sölufélagi samkvæmt 6. gr. laga þessara einkarétt til útflutnings og sölu erlendis á framleiðslu verksmiðjunnar um tiltekinn tíma, eftir því sem um kann að semjast milli stofnenda framleiðslufélagins.
        [Hlutafélaginu er enn fremur ætlað, á eigin vegum, með þátttöku í öðrum félögum eða með stofnun dótturfyrirtækja, að tryggja vöxt fyrirtækisins með arðvænlegum fjárfestingum í skyldum greinum og öðrum greinum atvinnurekstrar.]1)

1)L. 134/1989, 1. gr.

2. gr.
        Áður en framleiðslufélag er stofnað samkvæmt 1. gr., er ríkisstjórninni heimilt að taka þátt í stofnun sérstaks hlutafélags til bráðabirgða, er annist skipulagningu kísilgúrverksmiðjunnar og annan undirbúning að byggingu og rekstri hennar, enda sé stefnt að því að framleiðslufélagið taki við af slíku undirbúningsfélagi. Um hlutafjárframlag ríkisins til undirbúningsfélagsins skal heimilt að beita 1. tölul. 1. gr., enda verði framlagið endurgreitt ríkissjóði við stofnun framleiðslufélagsins með hlutabréfum í framleiðslufélaginu eða skuldabréfum þess, er að nafnverði samsvari hlutafjáreign ríkissjóðs í undirbúningsfélaginu, sem þá verði slitið.

3. gr.
        Stofnun hlutafélaga skv. 1. og 2. gr. skal bundin eftirtöldum skilyrðum:
1. Hlutafélagið greiði ríkissjóði, annaðhvort í peningum eða hlutabréfum, allan kostnað, sem hann hefur haft af undirbúningsrannsóknum og áætlunum vegna kísilgúrverksmiðjunnar.
2. Hlutabréf séu skráð á nafn.

4. gr.
        Fjöldi stofnenda hlutafélaga skv. 1. og 2. gr. laga þessara skal vera óháður ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 77 27. júní 1921, um hlutafélög.1) Sama máli gegnir um hluthafa þess, að því er snertir 38. gr. hlutafélagalaganna.
        Íslenska ríkinu, og hinum erlenda aðila, sem samvinna yrði höfð við um framleiðslu og sölu kísilgúrsins, skal heimilt að vera fullgildir stofnendur framleiðslufélags skv. 1. gr. laganna.
        Fulltrúar hins erlenda aðila í stjórn framleiðslufélagsins mega vera erlendir ríkisborgarar og búsettir erlendis. Stjórn félagsins skal þó jafnan skipuð hérlendis búsettum mönnum að meiri hluta. Stjórnendur framleiðslufélagsins þurfa ekki að eiga hlut í félaginu. Stjórnendum skal heimilt að fela öðrum að sækja stjórnarfundi af sinni hálfu með fullu umboði.
        Fulltrúar ríkisins í stjórn framleiðslufélagsins og varamenn þeirra skulu kosnir á Alþingi til 4 ára í senn.
        Ríkisstjórnin skal bjóða sveitarfélögum á Norðurlandi til kaups hluta af þeim hlutabréfum í framleiðslufélaginu, sem ríkisstjórnin skráir sig fyrir, með þeim skilmálum, sem hún ákveður.

1)l. 2/1995.

5. gr.
        Af hlutafé félaga, sem stofnuð verða skv. 1. og 2. gr., skal ekki minna en 51% vera í eigu íslenska ríkisins.
        Ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 77 27. júní 1921,1) um hlutafélög, skulu ekki takmarka atkvæðisrétt hluthafa í félögunum.

1)l. 2/1995.

6. gr.
        Þeim erlenda aðila, sem samvinna yrði höfð við um framleiðslu og sölu kísilgúrsins, skal heimilt að stofna hlutafélag á Íslandi til að annast útflutning og sölu erlendis á framleiðslu kísilgúrverksmiðjunnar, með þeim skilmálum, sem um verður samið við ríkisstjórnina.
        Hinum erlenda aðila heimilast að vera fullgildur stofnandi sölufélags samkvæmt grein þessari, án tillits til ákvæða 2. mgr. 4. gr. laga nr. 77 27. júní 1921, um hlutafélög,1) og skal fjöldi hluthafa félagsins óháður ákvæðum 38. gr. þeirra laga. Enn fremur skulu ákvæði 2. tölul. 3. gr., 3. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 5. gr. í lögum þessum gilda um slíkt félag.

1)l. 2/1995.

7. gr.
        Krefjist framkvæmd 1. gr. kaupa á jarðnæði og annarri aðstöðu í eigu annarra en ríkisins, án þess að samningar náist um kaup þessara réttinda, skal ríkisstjórninni heimilt að taka þau eignarnámi gegn bótum eftir mati óvilhallra manna. Um eignarnámið skal farið að lögum nr. 61 14. nóvember 1917, um framkvæmd eignarnáms.1)

1)l. 11/1973.

8. gr.
        Ríkisstjórninni er heimilt að gera samning innan marka þessara laga við erlendan aðila um samvinnu um framleiðslu og sölu kísilgúrs frá verksmiðjunni og kveða þar á um þær skuldbindingar af sinni hálfu og hins erlenda aðila, sem telja má nauðsynlegar og eðlilegar í sambandi við samaðild þeirra að framleiðslufélaginu og varðandi útflutning og sölu á framleiðslu þess, þar með talin þau málefni, sem 9. gr. þessara laga fjallar um.

9. gr.
        Ríkisstjórninni er heimilt að kveða svo á með samningi, að framleiðslufélag skv. 1. gr. annars vegar og sölufélag skv. 6. gr. hins vegar greiði hvort um sig einn tekjuskatt í stað annarra skatta, venjulegra eða sérstakra, sem á eru lagðir samkvæmt lögum, þann tíma, sem samningurinn tiltekur, og nemi skattur þessi [36%]1) af skattskyldum tekjum félaganna. Að því er framleiðslufélagið varðar er heimilt að kveða svo á, að skattur þessi fari eigi niður úr tilteknu marki fyrir hvert skattár án tillits til tekna. Skattskyldar tekjur félaganna er heimilt að reikna samkvæmt lögum nr. 90/1965,2) þó þannig, að ákvæði 1. og 2. mgr. 17. gr. laganna gildi eigi við ákvörðun þeirra. Varðandi ákvörðun skattskyldra tekna sölufélagsins má kveða svo á, að eigi verði annar kostnaður talinn til frádráttar en beinn kostnaður þess hér á landi.
        Ríkisstjórninni er heimilt að kveða svo á með samningi við hinn erlenda aðila, sem samvinna yrði höfð við um framleiðslu og sölu kísilgúrsins, að því er varðar þóknun fyrir tækni- og stjórnunaraðstoð, er hann kynni að veita framleiðslufélaginu við rekstur verksmiðjunnar, að hann greiði af slíkri þóknun einn tekjuskatt, er nemi 45% af umræddri þóknun, án þess að nokkur kostnaður komi henni til frádráttar við álagningu hans. Ríkisstjórninni er heimilt að ákveða á sama hátt, að eigi skuli skattleggja hlutafjáreign hins erlenda aðila í framleiðslufélaginu og sölufélaginu eða arð af henni, höfuðstól og vexti af lánum hins erlenda aðila til framleiðslufélagsins eða sölufélagsins og greiðslur erlenda aðilans inn á viðskiptareikning sölufélagsins. Hið sama á við um hlutafé og arð annarra erlendra hluthafa í félögum þessum, ef einhverjir yrðu.
        Jafnframt er ríkisstjórninni heimilt að kveða svo á með samningi, að framleiðslufélagi skv. 1. gr., sölufélagi skv. 6. gr. og hinum erlenda aðila skuli eigi skylt að greiða hér á landi, umfram tekjuskatt þann, sem að framan greinir, aðra skatta en þá, sem hér segir:
1. Almenn stimpilgjöld, þinglýsingargjöld og önnur skráningargjöld.
2. Ökutækja- og vegaskatta, sem almennt eru á lagðir.
3. Skoðunargjöld og leyfisgjöld, sem almennt eru á lögð.
4. Félagsleg gjöld, sem íslenskum atvinnurekendum ber almennt að greiða, svo sem lífeyrisiðgjöld til almannatrygginga, slysatryggingagjöld, atvinnuleysistryggingagjöld og launaskatt.
5. Innlendan söluskatt samkvæmt lögum nr. 10/19603) og hliðstæða skatta, sbr. þó 4. mgr. þessarar greinar og 5. tölul. 1. gr.
6. Skatta, sem í eðli sínu eru þóknun fyrir þjónustu við aðilana, þar með talið iðnaðarrannsóknargjald lagt á framleiðslufélagið eins og nú er samkvæmt lögum nr. 64/1965.4)

        Ríkisstjórninni er heimilt að kveða svo á, að innflutningur framleiðslufélagsins á umbúðum eða efni, sem endurútflutt er frá verksmiðjunni, og útflutningur á framleiðslu hennar og þær sölur, sem fram fara af hálfu framleiðslufélagsins og sölufélagsins sem þáttur í þeim útflutningi, skuli eigi háð aðflutnings- eða útflutningstollum, né heldur sköttum skv. 5. tölul. 3. mgr.
        Skattar þeir og gjöld, sem um ræðir í grein þessari, álagning þeirra, greiðsla og innheimta, skulu háð nánari ákvæðum þeirra samninga, sem ríkisstjórnin gerir við hlutaðeigandi aðila.
        Þar til gerður hefur verið tvísköttunarsamningur við það eða þau ríki, þar sem viðkomandi starfsmenn eru búsettir, er ríkisstjórninni heimilt að beita ákvæðum tillagna Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD) að milliríkjasamþykkt um tvísköttun, að því er varðar skattlagningu á greiðslum, sem inntar yrðu af hendi af aðilum búsettum utan Íslands til starfsmanna, sem hinn erlendi aðili hefur látið sölufélaginu eða framleiðslufélaginu í té við rekstur þeirra hér á landi.
        Ríkisstjórninni skal heimilt að veita framleiðslufélagi skv. 1. gr., sölufélagi skv. 6. gr. og hinum erlenda aðila þau leyfi, sem nauðsynleg eru til starfsemi þeirra hér á landi varðandi framleiðslu og sölu á kísilgúr. Ríkisstjórninni skal heimilt að gefa út verslunarleyfi til sölufélagsins, eftir því sem tilgangur þess segir til um, með þeim skilmálum, sem um verður samið við stofnanda þess. Sölufélaginu skal heimilt að hafa reikninga erlendis fyrir gjaldeyristekjur, sem stafa frá sölu þess á framleiðslu kísilgúrverksmiðjunnar, og að ráðstafa fé úr slíkum reikningum í þágu rekstrar síns á Íslandi og til greiðslu ágóðahlutar til hluthafa sinna, enda geri það gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands grein fyrir slíkum reikningsinnstæðum og ráðstöfunum með samkomulagi við þann aðila.

1)L. 17/1995, 1. gr.2)l. 75/1981.3)l. 50/1988.4)VI. kafli l. 64/1965 var afnuminn með l. 41/1978.

10. gr.
        Framleiðslufélagið skal gera allar þær varúðar- og öryggisráðstafanir, sem við verður komið, til þess að koma í veg fyrir, að dýralíf og gróður við Mývatn bíði tjón af starfsemi kísilgúrverksmiðjunnar. Einnig skal það haga gerð mannvirkja þannig, að þau fari sem best í umhverfinu.

11. gr.
        Iðnaðarmálaráðherra fer með mál, er snerta eignarhlutdeild ríkisins í kísilgúrverksmiðjunni.
        Ráðherra raforkumála fer með mál varðandi hitaveituna, og setur hann nánari reglur um stofnun hennar og rekstur.

[12. gr.
        Starfræktur skal sérstakur sjóður sem hafi það hlutverk að kosta undirbúning aðgerða til þess að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem nú eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi framleiðslufélagsins.
        Ráðstöfunarfé sjóðsins skal vera:
1. 20% af námagjaldi framleiðslufélagsins til ársins 2001.
2. 68% af námagjaldi framleiðslufélagsins frá og með árinu 2002 til og með árinu 2010.
3. Allt að 20% af tekjum ríkisins sem eiganda framleiðslufélagsins samkvæmt heimildum í fjárlögum hverju sinni.
        Stjórn sjóðsins skal skipuð einum fulltrúa framleiðslufélagsins, einum fulltrúa Skútustaðahrepps, einum fulltrúa Húsavíkurbæjar, einum fulltrúa samgönguráðherra, einum fulltrúa umhverfisráðherra og einum fulltrúa iðnaðarráðherra sem jafnframt skal vera formaður stjórnarinnar.
        Iðnaðarráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um sjóð þennan.]1)

1)L. 17/1995, 2. gr. Rg. 205/1995.

[Ákvæði til bráðabirgða.
        ...]1)

1)L. 17/1995, 4. gr. Brbákv. í þeim lögum.