Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Í lögum þessum telst handhafi farmskírteinis móttakandi innfluttrar vöru og sendandi útfluttrar vöru sá, er samkvæmt farmskírteini því, sem fylgja á vörunum til útlanda, er sendandi vörunnar. En sé sendandi fjarverandi þá hvílir skyldan til að gefa verslunarskýrslu á þeim, sem annast afgreiðsluna á vörunni fyrir hann á burtfararstað útflutningsskips. Útflutningshöfn telst sú höfn, þar sem vara er látin í skip og farmskírteini gefið út yfir hana beint til útlanda, hvort sem hún er flutt alla leið með sama skipi eða umhlaðin síðar í önnur skip.
Á sama hátt skal gefa skýrslur um böggla, sem koma til landsins eða sendir eru úr landi í bögglapósti, en póststjórnin heimtir inn skýrslur um þá, en eigi [tollstjóri].1)
1)Nú l. 55/1987.2)L. 92/1991, 7. gr.
Nú er innflutt vara tilfærð á farmskrá skips til annars staðar en þess, sem innflytjandi samkvæmt farmskírteini á að fá hana afhenta, og skal þá sá, er annast um umhleðsluna, eða ef um skipaafgreiðslumenn er að ræða, afgreiðslumaður sá, sem veitti vörunum móttöku frá útlöndum, senda [tollstjóra]2) eða umboðsmanni hans, þar sem móttakandi er, farmskrá yfir vörur þær, sem sendar eru, og annað eintak af þeirri farmskrá ber honum að afhenda [tollstjóra]2) eða umboðsmanni hans á þeim stað, sem varan er send frá, og varðar sömu sektum og getur í 2. gr., ef út af er brugðið. Skal [tollstjóri]2) eða umboðsmaður hans á þeim stað, sem varan er send frá, bera farmskrá þessa saman við hina erlendu farmskrá og skrifa þar að lútandi vottorð á hana. Um innheimtu og skil innflutningsskýrslna fyrir slíkum vörum fer svo á sömu leið og þær hefðu verið innfluttar beint frá útlöndum til viðtakanda.
Fyrir hvert skip, er tekur vörur til útflutnings á einhverri höfn, skal skipstjóri eða afgreiðslumaður þess afhenda [tollstjóra]2) eða umboðsmanni hans þar samrit af farmskrá um farm skipsins frá þeirri höfn, þar sem taldar séu upp allar vörur, sem skipið hefir tekið þar við til útflutnings, þar með einnig þær vörur, sem umhlaðnar hafa verið þar úr öðrum skipum, og tilgreint vörumagn hverrar vöru, er komi heim við hleðsluskírteini, og sé skráin undirrituð af skipstjóra. Farmskráin sendist svo hagstofunni ásamt verslunarskýrslunum um vörur þær, sem á henni standa.