Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.
Dvöl í gistihúsi, fangelsi, vinnuhæli, sjúkrahúsi, athvarfi, heimavistarskóla, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði, sem jafna má til þessa, er ekki ígildi fastrar búsetu.
Starfsmenn sendiráða á Íslandi, sem eru erlendir ríkisborgarar, og liðsmenn Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110 19. desember 1951, eiga ekki lögheimili í landinu. Sama gildir um skyldulið þessara manna sem dvelst hér á landi og hefur ekki íslenskt ríkisfang.
Félagsmálaráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að lögheimili þeirra, sem búa í fjölbýlishúsum, skuli auðkennt með sérstöku íbúðarnúmeri.
Leiki vafi á því hvar telja skuli að föst búseta manns standi, t.d. vegna þess að hann hefur bækistöð í fleiri en einu sveitarfélagi, skal hann eiga lögheimili þar sem hann dvelst meiri hluta árs. Dveljist hann ekki meiri hluta árs í neinu sveitarfélagi skal hann eiga lögheimili þar sem hann stundar aðalatvinnu sína enda hafi hann þar bækistöð. Það telst aðalatvinna í þessu sambandi sem gefur tvo þriðju hluta af árstekjum manns eða meira.
Dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst getur hann átt lögheimili þar áfram enda hafi hann þar bækistöð í leyfum og taki ekki upp fasta búsetu annars staðar.
[Manni, sem flyst á dvalarheimili aldraðra, er heimilt í allt að 18 mánuði frá flutningi að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi sem hann hafði fasta búsetu í áður.]1)
Alþingismanni er heimilt að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi þar sem hann hafði fasta búsetu áður en hann varð þingmaður. Sama gildir um ráðherra.
Verði eigi skorið úr um fasta búsetu manns skv. 2. og 3. mgr. skal maðurinn sjálfur ákveða hvar lögheimili hans skuli vera. Geri hann það ekki ákveður Þjóðskráin það.
Hjón, sem slitið hafa samvistir, eiga sitt lögheimilið hvort.
Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um lögheimili kjörbarna og fósturbarna.
Íslenskur ríkisborgari, sem gegnir störfum erlendis á vegum ríkisins við sendiráð, fastanefnd eða ræðismannsskrifstofu og tekur laun úr ríkissjóði, svo og íslenskur ríkisborgari sem er starfsmaður alþjóðastofnunar sem Ísland er aðili að, á lögheimili hér á landi hjá skyldfólki sínu eða venslafólki eða í því sveitarfélagi þar sem hann átti lögheimili er hann fór af landi brott.
Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda einnig um skyldulið þeirra manna sem þar um ræðir og dvelst með þeim erlendis.
Tilkynning um að lögheimili sé að heimili annars manns verður ekki tekin til greina ef hann mótmælir því að lögheimilið sé talið hjá honum.