Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.


Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1972

1975, nr. 7, 26. febrúar

1. gr.
        [Ríkisstjórninni er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1972, sem undirrituð var í Lundúnum 20. október 1972.
        Ríkisstjórninni er enn fremur heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á alþjóðareglunum sem gerðar voru í Lundúnum 19. nóvember 1981, 19. nóvember 1987 og 19. október 1989.
        Alþjóðareglurnar með áorðnum breytingum eru prentaðar sem fylgiskjal með lögum þessum.]1)

1)L. 19/1993, 1. gr.

2. gr.
        [Þegar alþjóðareglurnar með áorðnum breytingum öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu þær hafa lagagildi hér á landi.]1)

1)L. 56/1986, 2. gr.

3. gr.
        ...

4. gr.
        Brot gegn reglum og viðaukum, sem samþykktinni fylgja, varða sektum, ef ekki liggur þyngri refsing við.

Fylgiskjal.

Samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1972. -- London 20. október 1972.

        Aðilar að samþykkt þessari, sem óska að tryggja víðtækt öryggi á sjó, sem gera sér ljósa nauðsyn þess að endurskoða og færa í nútímahorf alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, er fylgdu lokabókun alþjóðaráðstefnunnar um öryggi mannslífa á hafinu, 1960, sem hafa athugað reglur þessar í ljósi þróunarinnar síðan þær voru samþykktar, hafa orðið ásáttir um eftirfarandi:

1. gr.
        Almennar skyldur. Aðilar að samþykkt þessari skuldbinda sig til að koma í framkvæmd reglunum og öðrum viðaukum, sem mynda meðfylgjandi alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1972 (eftirleiðis nefndar ,,reglurnar``).

2. gr.
        Undirritun, fullgilding, staðfesting, samþykkt og aðild. 1. Samþykkt þessi skal liggja frammi til undirritunar til 1. júní 1973 og eftir það til aðildar.
2. Ríki, sem eru aðilar Sameinuðu þjóðanna eða einhverrar sérstofnunar þeirra eða Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar eða eiga aðild að samþykktum Alþjóðadómstólsins mega gerast aðilar að samþykkt þessari með:
a. undirritun án fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykkt;
b. undirritun með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki og síðari fullgildingu, staðfestingu eða samþykki, eða
c. aðild.
3. Fullgilding, staðfesting, samþykki eða aðild skal fara fram með þeim hætti að skjal þar að lútandi sé afhent Alþjóðasiglingamálastofnuninni (eftirleiðis nefnd ,,stofnunin``), sem tilkynni ríkisstjórnum, sem hafa undirritað eða gerst aðilar að samþykkt þessari, um afhendingu sérhvers slíks skjals og hvenær það hafi verið afhent.

3. gr.
        Gildi samþykktarinnar gagnvart lendum, sem ekki ráða sér sjálfar. 1. Í þeim tilvikum, er Sameinuðu þjóðirnar hafa forræði lendna, eða einhver samningsaðila annast samskipti lendna á alþjóðlegum vettvangi, geta þessir aðilar hvenær sem er látið samþykkt þessa ná til slíkra lendna með því að tilkynna það skriflega aðalritara stofnunarinnar (eftirleiðis nefndur ,,aðalritarinn``).
2. Samþykkt þessi skal frá móttökudegi tilkynningarinnar að telja eða degi, sem þar er tilgreindur, ná til lendunnar, sem þar er nefnd.
3. Sérhverja tilkynningu, sem gefin er samkvæmt 1. tölul. þessarar greinar, má afturkalla, að því er varðar hverja þá lendu, sem í tilkynningunni er greind, og fellur gildi þessarar samþykktar fyrir lenduna niður að ári liðnu frá afturkölluninni eða síðar, sé slíkt fram tekið, þegar afturköllun á sér stað.
4. Aðalritarinn skal kunngera öllum samningsaðilum um tilkynningar, er honum berast varðandi útfærslu á gildissvæði í sambandi við ákvæði þessarar greinar eða afturkallanir.

4. gr.
        Gildistaka. 1. a. Samþykkt þessi skal ganga í gildi að tólf mánuðum liðnum frá þeim degi, er að minnsta kosti 15 ríki hafa gerst aðilar, enda eigi þau ekki minna en 65% af kaupskipum heims, 100 rúmlesta og stærri, miðað annaðhvort við fjölda eða rúmlestatölu eftir því hvoru markinu verður fyrr náð.
b. Þrátt fyrir ákvæði stafliðs a. þessarar greinar, skal samþykkt þessi ekki taka gildi fyrr en 1. janúar 1976.
2. Samþykktin skal ganga í gildi á gildistökudegi fyrir þau ríki, sem í samræmi við 2. gr. hafa fullgilt, staðfest eða gerst aðilar hennar eftir að ákvæðum töluliðs 1 a. hefur verið fullnægt en áður en hún hefur gengið í gildi.
3. Fyrir þau ríki, sem fullgilda, staðfesta, samþykkja eða gerast aðilar að samþykktinni eftir gildistökudag hennar, gengur hún í gildi á afhendingardegi skjals samkvæmt 2. gr.
4. Eftir gildistökudag breytinga á samþykktinni samkvæmt 3. tölul. 6. gr., skal hver fullgilding, staðfesting, samþykkt eða aðild ná til samþykktarinnar í hinu breytta formi.
5. Á gildistökudegi samþykktarinnar koma reglurnar í staðinn fyrir og fella úr gildi Alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1960.
6. Aðalritarinn skal tilkynna ríkisstjórnum, er undirritað hafa eða gerst aðilar að þessari samþykkt, um gildistökudag.

5. gr.
        Ráðstefna um endurskoðun. 1. Stofnuninni er heimilt að kalla til ráðstefnu um endurskoðun á samþykktinni eða reglunum eða hvoru tveggja.
2. Stofnuninni er skylt að kalla til ráðstefnu samningsaðila í þeim tilgangi að endurskoða þessa samþykkt eða reglurnar eða hvort tveggja, ef eigi færri en þriðjungur samningsaðila óskar þess.

6. gr.
        Breytingar á reglunum. 1. Sérhver breyting, sem samningsaðili leggur til að gerð verði á reglunum, skal athuguð hjá stofnuninni, fari hann þess á leit.
2. Hljóti breytingartillagan stuðning 2/3 af aðilum öryggisnefndar stofnunarinnar, sem viðstaddir eru og greiða atkvæði, skal hún kunngerð öllum samningsaðilum og meðlimum stofnunarinnar að minnsta kosti sex mánuðum áður en hún verður lögð fyrir þing stofnunarinnar. Hver sá samningsaðili, sem ekki er aðili stofnunarinnar, hefur rétt til að taka þátt í afgreiðslu breytingartillögunnar.
3. Hljóti breytingartillagan samþykki 2/3 af viðstöddum þingfulltrúum, sem atkvæði greiða, skal aðalritarinn leggja hana fyrir alla samningsaðila til staðfestingar.
4. Slík breyting skal taka gildi á degi, sem þingið ákveður við samþykkt hennar, nema því aðeins að meira en þriðjungur samningsaðila hafi þá fyrir dag tiltekinn af sama þingi tilkynnt stofnuninni að þeir séu breytingunni mótfallnir. Ákvarðanir þingsins varðandi dagsetningar þær, sem um ræðir í þessum tölulið, skulu krefjast stuðnings 2/3 viðstaddra þingfulltrúa, sem atkvæði greiða.
5. Sérhver breyting skal við gildistöku koma í staðinn fyrir og ógilda fyrri ákvæði, sem breytingin tekur til, að því er varðar alla samningsaðila, sem ekki hafa mótmælt henni.
6. Aðalritarinn skal kunngera öllum samningsaðilum og aðilum stofnunarinnar sérhverja beiðni eða tilkynningu samkvæmt þessari grein, svo og gildistökudag hverrar breytingar.

7. gr.
        Uppsögn. 1. Samþykkt þessi er uppsegjanleg af hálfu hvers samningsaðila sem er að liðnum fimm árum frá þeim degi, er hún öðlaðist gildi fyrir þeim aðila.
2. Uppsögn skal fara fram með þeim hætti að skjal þar að lútandi sé afhent stofnuninni til vörslu. Aðalritarinn skal tilkynna öllum öðrum samningsaðilum um móttöku uppsagnarskjalsins og afhendingardag þess.
3. Uppsögn kemur til framkvæmda ári eftir að uppsagnarskjalið hefur borist stofnuninni, eða síðar, ef svo er greint í skjalinu.

8. gr.
        Varsla og skráning. 1. Samþykkt þessi og reglurnar skulu vera í vörslu stofnunarinnar og aðalritarinn skal senda staðfest afrit til allra ríkisstjórna, sem hafa undirritað samþykktina eða gerst aðilar að henni.
2. Þegar samþykktin hefur tekið gildi skal aðalritarinn senda texta hennar skrifstofu Sameinuðu þjóðanna til skráningar og birtingar samkvæmt 102. gr. Sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

9. gr.
        Tungumál. Samþykktin ásamt reglunum er gerð í einu eintaki á ensku og frönsku og eru báðir textarnir jafngildir. Löggiltar þýðingar á rússnesku og spænsku skulu gerðar og varðveittar með hinum undirritaða frumtexta.

Alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1972 (ásamt breytingum 1981).

Kafli A.

Almenn ákvæði.

1. regla. Notkun. a. Reglur þessar gilda um öll skip á hafi úti og á öllum leiðum, sem eru tengdar því og færar eru skipum.
b. Í þessum reglum skal ekkert vera því til fyrirstöðu, að fylgt verði sérreglum, sem hlutaðeigandi yfirvöld setja um skipalægi, hafnir, fljót, vötn eða vatnavegu innanlands, sem tengdir eru úthafi og færir eru skipum. Slíkar sérreglur skulu fylgja reglum þessum eins náið og auðið er.
c. Í þessum reglum skal ekkert vera því til fyrirstöðu, að fylgt verði hverjum þeim sérstöku reglum, er einstakar ríkisstjórnir setja um frekari notkun legu- eða merkjaljósa, dag- eða hljóðmerkja á herskipum og skipum, sem sigla í skipalest. Reglurnar brjóta heldur ekki í bága við frekari notkun legu- eða merkjaljósa eða dagmerkja á fiskiskipum, sem veiða í flota. Legu- eða merkjaljós, dag- eða hljóðmerki, sem eru ákveðin með sérreglum, skulu svo framast sem unnt er vera þannig gerð, að þau verði ekki tekin fyrir nokkur þeirra ljósa eða merkja, sem fyrirskipuð eru annars staðar í þessum reglum.
d. Til að framfylgja þessum reglum kann Alþjóðasiglingamálastofnunin að setja ákvæði um aðskildar siglingaleiðir.
e. [Ef skip af sérstakri gerð eða skip, sem ætlað er sérstakt hlutverk, getur ekki, að áliti ríkisstjórnar, að öllu leyti fylgt ákvæðum einhverra þessara reglna um fjölda, staðsetningu og sjónarlengd ljósa eða dagmerkja, ljósboga þeirra eða lögun, sem og um fyrirkomulag og einkenni hljóðmerkjatækja, þá skal skipið fara eftir öðrum ákvæðum um fjölda, staðsetningu og sjónarlengd ljósa eða dagmerkja, ljósboga þeirra eða lögun, sem og um fyrirkomulag og einkenni hljóðmerkjatækja, þannig að þessum reglum að áliti hlutaðeigandi ríkisstjórnar sé fylgt eins náið og kostur er hvað varðar þetta skip.]1)

1)L. 25/1990, 2. gr.

2. regla. Ábyrgð. a. Í þessum reglum getur ekkert leyst skip, eiganda þess, skipstjóra eða áhöfn undan ábyrgð, ef reglunum er ekki fylgt eða vanrækt er að gæta þeirrar varúðar, sem almenn sjómennska krefst eða sérstakar aðstæður kunna að útheimta.
b. Þegar fara skal eftir þessum reglum og túlka þær, ber að taka fullt tillit til hvers konar hættu við siglingar, árekstrarhættu og allra sérstakra kringumstæðna, þar á meðal takmarkaðrar hæfni hlutaðeigandi skipa til að víkja, sem veldur því að ekki verður komist hjá að sniðganga þessar reglur til að forðast yfirvofandi hættu.
3. regla. Almennar skilgreiningar. Við túlkun þessara reglna gilda eftirfarandi skilgreiningar á orðum og hugtökum, nema annað komi fram af samhengi textans:
a. ,,Skip`` merkir sérhvert fljótandi far, þar á meðal farkosti án særýmis og sjóflugvélar, sem eru notaðar eða nota má til flutninga á sjó eða vötnum.
b. ,,Vélskip`` merkir sérhvert skip, sem knúið er áfram með vélarafli.
c. ,,Seglskip`` merkir sérhvert skip undir seglum, svo fremi aflvél --- sé skipið búið henni --- er ekki notuð.
d. ,,Skip að fiskveiðum`` merkir sérhvert skip, sem veiðir með netum, línu, togvörpu eða öðrum veiðarfærum, sem draga úr stjórnhæfni skips, en á ekki við um skip, sem veiðir með toglínum eða öðrum þeim veiðarfærum, sem draga ekki úr stjórnhæfni.
e. ,,Sjóflugvél`` merkir hvert það loftfar, sem er þannig búið, að því má stjórna á sjó.
f. ,,Stjórnvana skip`` merkir skip, sem vegna óvenjulegra aðstæðna verður ekki stjórnað eða snúið eins og krafist er í þessum reglum og getur því ekki vikið fyrir öðru skipi.
g. ,,Skip með takmarkaða stjórnhæfni`` merkir skip, er hefur takmarkaða hæfni til stjórntaka eins og kveðið er á um í þessum reglum, vegna þeirra sérstöku starfa, sem skipið er bundið, og getur það því ekki vikið úr leið fyrir öðru skipi.

Meðal skipa með takmarkaða stjórnhæfni má telja:

1. skip við lögn, viðgerð eða upptöku siglingamerkis, neðansjávarstrengs eða leiðslu;
2. skip við dýpkun, sjómælingar eða neðansjávarvinnu;
3. skip við móttöku eða losun vista og farms skipa á milli eða við flutning manna, vista eða farms meðan skipið er laust;
4. skip við flugtak eða lendingu flugvélar um borð;
5. skip, sem starfar að hreinsun tundurduflasvæða;
6. skip, sem dregur eitthvað við þær aðstæður, að mjög erfitt er fyrir það að víkja frá stefnu sinni.
h. [,,Skip sem er bagað vegna djúpristu`` merkir vélskip sem á mjög erfitt með að víkja frá stefnu sinni vegna mikillar djúpristu miðað við dýpi og breidd á þeirri leið sem skipið getur siglt eftir.]1)
i. ,,Laust`` er skip, sem liggur hvorki við akkeri né landfestar né stendur á grunni.
j. ,,Lengd`` og ,,breidd`` skips merkir mestu lengd og mestu breidd þess.
k. Skip eru því aðeins talin ,,í sjónmáli``, að þau sjáist með berum augum hvert frá öðru.
l. ,,Takmarkað skyggni`` merkir hverjar þær aðstæður, þegar dregur úr skyggni vegna þoku, dimmviðris, snjókomu, steypiskúra, sandstorma eða af öðrum svipuðum orsökum.

1)L. 25/1990, 2. gr.

Kafli B.

Reglur um stjórn og siglingu.

I. hluti. Sigling og stjórn skipa í hvers konar skyggni.
4. regla. Notkun. Reglur í þessum hluta eiga við í hvaða skyggni sem er.
5. regla. Vörður. Á hverju skipi skal ávallt halda dyggilega vörð, jafnt með auga og eyra sem öllum tiltækum tækjum, er eiga við aðstæður og ástand hverju sinni, svo að unnt sé að leggja fullkomið mat á aðstæður og hver hætta sé á árekstri.
6. regla. Örugg ferð. Hverju skipi skal ávallt sigla með öruggri ferð svo að beita megi réttum og fullnægjandi stjórntökum til að komast hjá árekstri og unnt sé að stöðva skipið á hæfilegri vegalengd, sem aðstæður og ástand marka hverju sinni.

Þegar ákveða skal, hvað sé örugg ferð, skal m.a. taka tillit til eftirtalinna atriða:

a. Öll skip skulu taka tillit til:
1. skyggnis;
2. fjölda skipa á siglingaleið, þar með þéttra flota fiskiskipa eða annarra skipa;
3. stjórnhæfni skipa, sérstaklega með tilliti til stöðvunarvegalengdar og hæfni til að snúa við aðstæður hverju sinni;
4. villuljósa að nóttu til frá ljósum í landi eða vegna endurspeglunar ljósa á eigin skipi;
5. vindhraða, sjólags og strauma og nálægðar á hættum fyrir siglingar skipa;
6. djúpristu skipsins miðað við dýpi siglingaleiðar.
b. Skip með gangfæra ratsjá skulu auk þess taka tillit til:
1. fjarlægðarstillingar, myndgæða og takmarkana ratsjár;
2. allra annmarka, sem stafa af fjarlægðarstillingu, sem notuð er;
3. áhrifa sjólags, veðurs og annarra truflanavalda á ratsjármynd;
4. líkinda þess, að lítil skip, ís og reköld komi ekki fram á ratsjánni í nægilegri fjarlægð;
5. fjölda, legu og hreyfinga skipa, sem birtast á ratsjánni;
6. nákvæmara mats á skyggni, sem má fá, þegar ratsjá er notuð til að ákveða fjarlægð til skipa eða annarra hluta í nánd.
7. regla. Hætta á árekstri. a. Á sérhverju skipi skal beita öllum þeim tækjum og ráðum, sem tiltæk eru og eiga við aðstæður og ástand hverju sinni, til að ganga úr skugga um, hvort hætta sé á árekstri. Ef nokkur vafi er, skal líta svo á, að árekstrarhætta sé fyrir hendi.
b. Ef skip er búið ganghæfri ratsjá, skal nota hana af árvekni. Í því felst m.a. stilling ratsjár á lengri vegalengdir, svo að fá megi viðvörun um árekstrarhættu í tæka tíð, svo og útsetning ratsjármyndar eða jafngild kerfisbundin athugun á endurvörpum, sem birtast á ratsjánni.
c. Eigi skal draga ályktanir af ónógum upplýsingum, einkum þó ófullnægjandi upplýsingum frá ratsjá.
d. Þegar ákvarða skal, hvort hætta sé á árekstri, skal m.a. taka til athugunar og hliðsjónar:
1. ef kompásmiðun af skipi, sem nálgast, breytist ekki svo að greint verði, skal gera ráð fyrir, að slík hætta sé fyrir hendi;
2. jafnvel þó að miðun breytist greinilega getur stundum verið hætta á árekstri, einkum þegar komið er nær mjög stóru skipi eða einhverju, sem dregið er, eða nálgast er annað skip, sem er mjög skammt undan.
8. regla. Hvernig komast skal hjá árekstri. a. Sérhver stjórntök, sem beitt er til að komast hjá árekstri, skulu, þegar aðstæður leyfa, framkvæmd hiklaust og í tæka tíð, og um leið skal taka fullt tillit til þess, sem góð sjómennska krefst.
b. Stefnubreyting og/eða hraðabreyting til að komast hjá árekstri skal, ef aðstæður leyfa, vera svo mikil, að á skipi, þar sem fylgst er með siglingu með berum augum eða í ratsjá, verði breytingarinnar vart þegar í stað. Forðast skal tíðar og litlar breytingar á stefnu og hraða.
c. Ef nægilegt svigrúm er, getur stefnubreyting ein saman verið árangursríkast stjórntak til að komast hjá því að nálgast annað skip um of, svo framarlega sem það er gert í tæka tíð, breytt er um stefnu svo um munar og stefnubreyting leiðir ekki til þess, að siglt verði of nærri enn öðru skipi.
d. Þegar afstýra skal árekstri við annað skip, skal það gert þannig, að skipin fari hvort framhjá öðru í öruggri fjarlægð. Fylgst skal vandlega með, að stjórntak til að víkja beri tilætlaðan árangur, uns komið er alveg framhjá skipinu og á frían sjó.
e. Draga skal úr ferð skips eða stöðva það, ef nauðsynlegt er til að forðast árekstur eða ef þörf er frekari tíma til mats á aðstæðum. Þetta skal gert með því að stöðva skrúfu eða annað það, sem knýr skipið áfram, eða með því að láta vél eða skrúfu ganga aftur á bak.
[f. 1. Sé einhvers staðar í reglum þessum mælt svo fyrir að skip hvorki hindri för né örugga leið annars skips, skal það, þegar aðstæður krefjast þessa, beita stjórntökum í tæka tíð, þannig að nægilegt svigrúm verði fyrir örugga leið hins skipsins.
2. Skip, sem ber hvorki að hindra för né örugga leið annars skips, er ekki leyst undan þeirri skyldu sinni þó að það nálgist skipið þannig að hætta geti orðið á árekstri og skal það við stjórntök sín taka fullt tillit til stjórntaka sem kynni að verða gripið til í samræmi við reglur þessa kafla.
3. Skipi, sem má halda óhindrað áfram, ber full skylda til að fylgja reglum þessa kafla þegar skipin tvö nálgast hvort annað þannig að hætta er á árekstri.]1)

1)L. 25/1990, 2. gr.

9. regla. Þröngar leiðir. a. Skip, sem siglir þröngt sund eða ál, skal halda eins nærri ytri mörkum sundsins eða leiðarinnar, sem veit að stjórnborða, og unnt er án áhættu.
b. Skip, sem er styttra en 20 metrar, eða seglskip má ekki hindra siglingu skips, er aðeins getur siglt af fullu öryggi með því að þræða þröngt sund eða ál.
c. Skip, sem er að fiskveiðum, má ekki trufla siglingu skips, er fer eftir þröngu sundi eða ál.
d. Skip má ekki sigla þvert yfir þröngt sund eða ál, ef það truflar með því siglingu skips, sem öryggis vegna verður að þræða sundið eða álinn. Á síðarnefnda skipinu má nota hljóðmerki, sem kveðið er á um í d-lið 34. reglu, ef vafi leikur á um fyrirætlaða siglingu þess skips, sem ætlar þvert yfir.
e. 1. Sé því aðeins unnt að sigla fram úr skipi í þröngu sundi eða ál, að skipið hliðri til og beiti sérstökum stjórntökum, svo að sigla megi framhjá því með fullu öryggi, þá skal á skipinu, sem ætlar að sigla uppi og framhjá, láta þá fyrirætlun í ljós með viðeigandi hljóðmerki, eins og mælt er fyrir um í 1. gr. c-liðar 34. reglu. Sé fallist á framúrsiglingu, skal á skipinu, sem sigla á fram úr, gefa rétt hljóðmerki, eins og ákveðið er í 2. gr. c-liðar 34. reglu, og gera viðhlítandi ráðstafanir til að sigla megi framhjá skipinu með fullu öryggi. Ef nokkur vafi er á því, getur sama skip gefið frá sér hljóðmerki, eins og kveðið er á um í d-lið 34. reglu.
2. Regla þessi leysir ekki þann, sem siglir fram úr, undan ákvæðum 13. reglu.
f. Skip, sem nálgast bugðu eða svæði í þröngu sundi eða ál, þar sem önnur skip geta verið í hvarfi, skal sigla með sérstakri árvekni og varúð og gefa viðeigandi hljóðmerki, eins og mælt er fyrir í e-lið 34. reglu.
g. Sérhvert skip skal, svo fremi aðstæður hverju sinni leyfa, forðast að varpa akkeri í þröngu sundi.
10. regla. Aðskildar siglingaleiðir. a. [Regla þessi gildir um aðskildar siglingaleiðir sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur sett ákvæði um og leysir ekkert skip undan skyldum þess samkvæmt sérhverri annarri reglu.]1)
b. Skip, sem siglir innan aðskilinna siglingaleiða skal:
1. sigla innan afmarkaðrar siglingaleiðar, sem við á, og í þá höfuðátt, sem umferð skipa er stefnt innan leiðarmarka;
2. halda sig eftir því sem framast er unnt frá sjálfum leiðarmörkunum og svæðum, sem afmarka umferðarleiðir;
3. sigla að jafnaði inn á afmarkaða siglingaleið eða út úr henni við enda leiðarinnar. Þegar siglt er frá annarri hvorri hlið inn á afmarkaða siglingaleið eða út úr henni, skal það gert undir eins litlu horni, miðað við höfuðstefnu leiðarinnar, og framkvæmanlegt er.
c. [Eftir því sem framast er unnt skal forðast að sigla skipi yfir afmarkaða siglingaleið, en ef nauðsyn ber til þá skal fara yfir leiðina á stýrðri stefnu er myndar sem næst rétt horn við höfuðstefnu hinnar afmörkuðu siglingaleiðar.]1)
d. [1. Skip á ekki að sigla um strandleið þegar það getur með öryggi siglt eftir þeirri siglingaleið er við á í aðskilinni siglingaleið sem næst liggur. Þó mega skip, sem eru styttri en 20 metrar, seglskip og skip að fiskveiðum sigla um strandleiðina.
2. Þrátt fyrir 1. gr. þessa liðar má skip sigla um strandleið þegar það er á leið til eða frá höfn, mannvirki eða byggingu á hafi úti, stöð hafnsögumanns eða hvaða öðrum stað sem er innan strandleiðar eða til að forðast yfirvofandi hættu.]2)
e. Að jafnaði má ekki sigla skipi yfir svæði, sem skilur að umferðarleiðir, né heldur má sigla yfir markalínu, nema því aðeins, að skipið ætli að sigla þvert yfir leiðina, út úr henni eða inn á hana.

Undantekning er þó gerð:

1. þegar um bráða hættu er að ræða, sem komast verður hjá;
2. við fiskveiðar á svæði, sem skilur að umferðarleiðir.
f. Á siglingu við endamörk aðskilinna siglingaleiða skal gæta sérstakrar varúðar.
g. Eftir því sem framast er unnt skal komist hjá að varpa akkeri á aðskilinni siglingaleið eða í nánd við endamörk leiðarinnar.
h. Skip, sem siglir ekki eftir aðskilinni siglingaleið, skal halda sig eins fjarri leiðinni og unnt er.
i. Skip að fiskveiðum má ekki trufla ferðir skipa, sem sigla eftir afmarkaðri siglingaleið.
j. Skip, sem er styttra en 20 metrar, eða seglskip má ekki hindra örugga siglingu vélskips á afmarkaðri siglingaleið.
k. Skip með takmarkaða stjórnhæfni vegna aðgerða, sem varða siglingaöryggi, á aðskildum siglingaleiðum, er undanþegið ákvæðum reglu þessarar að því marki, sem nauðsynlegt er, svo það megi ljúka aðgerðum sínum.
l. Skip með takmarkaða stjórnhæfni vegna starfa við lagningu, viðhald eða upptöku neðansjávarstrengja innan aðskilinna siglingaleiða er undanþegið ákvæðum reglu þessarar að því marki, sem nauðsynlegt er, svo það megi sinna störfum sínum.

1)L. 25/1990, 2. gr.2)L. 19/1993, 2. gr.

II. hluti. Sigling skipa, sem eru í sjónmáli hvert frá öðru.
11. regla. Notkun. Reglur í þessum hluta eiga við skip, sem eru í sjónmáli hvert frá öðru.
12. regla. Seglskip. a. Þegar tvö seglskip nálgast hvort annað, þannig að hætta er á árekstri, skulu þau víkja hvort fyrir öðru eftir þeim reglum, sem nú skal greina:
1. þegar þau hafa vind á gagnstæð borð, skal skipið, sem hefur vindinn á bakborða, víkja fyrir hinu;
2. þegar bæði hafa vind á sama borð, skal skipið, sem áveðurs siglir, víkja fyrir hinu, sem til hlés siglir;
3. ef skip sést til kulborða frá seglskipi, sem hefur vind á bakborða, og ekki er hægt að ákvarða með fullri vissu, hvort skipið til kuls hefur vindinn á bakborða eða stjórnborða, þá skal víkja fyrir því.
b. Með orðinu ,,áveðurs`` í þessari reglu er átt við borðið, sem er gagnstætt því, sem stórseglið er haft í, eða --- sé um rásiglt skip að ræða --- gagnstætt því borði sem stærsta stagseglið eða gaffalseglið er haft í.
13. regla. Siglt fram úr skipi. a. Sérhvert skip, sem siglir fram úr öðru skipi, skal víkja fyrir því, án tillits til þess, sem annars segir í kafla B, I. og II. hluta, í reglum þessum.
b. Skip telst sigla fram úr öðru skipi, ef það nálgast það úr átt, sem er meira en 22,5 gráður aftan við þverskipsstefnu þess, þ.e.a.s. í þeirri afstöðu, miðað við skipið, sem siglt er fram úr, að um nóttu mundi aðeins sjást skutljós þess, en hvorugt hliðarljósa.
c. Þegar ekki er unnt að ákvarða með vissu, hvort eigið skip teljist sigla fram úr öðru skipi, þá skal álíta, að svo sé, og haga siglingu samkvæmt því.
d. Ekki skal nein breyting, er síðar verður á innbyrðis afstöðu þessara tveggja skipa, valda því, að skipið, sem siglir fram úr, falli undir ákvæði í reglum þessum um skip, er leiðir þeirra liggja á mis, né leysa það undan þeirri skyldu að halda sig frá skipi því, sem siglt er fram úr, uns komið er alveg framhjá því á frían sjó.
14. regla. Skip, sem sigla gagnstæðar stefnur. a. Þegar tvö vélskip mætast á gagnstæðri eða næstum gagnstæðri stefnu, svo að hætt er við árekstri, skulu bæði víkja til stjórnborða, svo að þau komist hvort framhjá öðru á bakborða.
b. Telja verður, að þetta eigi við, þegar skip sést beint framundan eða næstum beint framundan. Að nóttu mundi þá sigluljós skipsins bera saman eða því sem næst og/eða bæði hliðarljósin sjást, en að degi til væri afstaða skipsins tilsvarandi.
c. Þegar ekki er unnt að ákvarða með vissu, hvort skip séu í þeirri afstöðu, sem að framan greinir, skal álíta, að svo sé, og haga siglingu í samræmi við það.
15. regla. Þegar leiðir skerast. Þegar tvö vélskip stefna þannig, að leiðir þeirra liggja á mis, og hætt er við árekstri, skal það skipið víkja, sem hefur hitt á stjórnborða, og skal, ef aðstæður leyfa, forðast að fara fyrir framan hitt skipið.
16. regla. Stjórntök skips, sem víkur. Skip, sem á að víkja fyrir öðru skipi, skal eftir því sem framast er unnt og í tæka tíð beita stjórntökum, sem um munar og duga til að víkja og veita nóg rúm.
17. regla. Stjórntök skips, sem halda skal stefnu og ferð óbreyttri. a. 1. Þegar annað tveggja skipa á að víkja, skal hitt halda stefnu sinni og ferð óbreyttri.
2. Á skipi, sem halda skal stefnu og ferð óbreyttri, má samt sem áður grípa til eigin stjórntaka til að afstýra árekstri, jafnskjótt og ljóst er, að um borð í skipi því, sem átti að víkja, eru ekki gerðar viðhlítandi ráðstafanir til þess samkvæmt reglum þessum.
b. Þegar skip það, sem halda skal stefnu og ferð óbreyttri, er af einhverjum ástæðum komið svo nærri, að ekki verður komist hjá árekstri með því einu, sem skipið er átti að víkja gerir til þess, skal hið fyrrnefnda grípa til hverra þeirra úrræða, sem best geta afstýrt árekstri.
c. Ef vélskip fylgir 2. gr. a-liðar þessarar reglu til að afstýra árekstri við annað vélskip, er leiðir þeirra liggja á mis, skal það, ef aðstæður leyfa, ekki breyta stefnu til bakborða, þegar vikið er fyrir skipi, sem það hefur á bakborðshlið.
d. Regla þessi leysir ekki skipið, sem á að víkja úr leið, undan þeirri skyldu sinni.
18. regla. Gagnkvæmar skyldur skipa. Komi ekki annað fram í 9., 10. og 13. reglu gilda eftirfarandi ákvæði:
a. Vélskip, sem er laust, skal víkja fyrir:
1. stjórnvana skipi;
2. skipi með takmarkaða stjórnhæfni;
3. skipi að fiskveiðum;
4. seglskipi.
b. Seglskip, sem er laust, skal víkja fyrir:
1. stjórnvana skipi;
2. skipi með takmarkaða stjórnhæfni;
3. skipi að fiskveiðum.
c. Skip að fiskveiðum, sem er laust, skal eftir því sem framast er unnt víkja fyrir:
1. stjórnvana skipi;
2. skipi með takmarkaða stjórnhæfni.
d. 1. Sérhvert skip, annað en stjórnvana skip eða skip með takmarkaða stjórnhæfni, skal, eftir því sem aðstæður leyfa, forðast að tálma örugga leið skips, sem er bagað vegna djúpristu og sýnir ljós- eða dagmerki, sem um getur í 28. reglu.
2. Skip, sem er bagað vegna djúpristu, skal sigla með sérstakri varúð, og taka skal fullt tillit til hinna sérstöku aðstæðna skipsins.
e. Sjóflugvél á sjó skal að jafnaði halda sig fjarri öllum skipum og forðast að hindra siglingu þeirra. Við þær aðstæður, að hætta er á árekstri, skal sjóflugvél þó fara að reglum þessa kafla.
III. hluti. Stjórn og sigling skipa í takmörkuðu skyggni.
19. regla. Stjórn og sigling skipa í takmörkuðu skyggni. a. Regla þessi á við um skip, sem eru ekki í sjónmáli hvert frá öðru, þegar siglt er á eða nærri svæði, þar sem skyggni er takmarkað.
b. Sérhvert skip skal sigla með öruggri ferð, sem miðast við aðstæður og ástand hverju sinni vegna takmarkaðs skyggnis. Vélskip skal hafa vélar sínar viðbúnar tafarlausri gangskiptingu.
c. Þegar fara skal eftir reglum I. hluta þessa kafla, skal á hverju skipi taka fullt tillit til aðstæðna og ástands hverju sinni vegna takmarkaðs skyggnis.
d. Þegar aðeins verður vart nærveru annars skips í ratsjá, skal ganga úr skugga um, hvort skipin muni nálgast hvort annað um of og/eða hvort hætta sé á árekstri. Ef svo er, skal í tæka tíð gera ráðstafanir til að auka fjarlægð milli skipanna og afstýra árekstri. Ef breytt er um stefnu við þau stjórntök, skal eftir því sem framast er unnt komast hjá:
1. að breyta stefnu til bakborða fyrir skipi, sem er framan við þverskipsstefnu, nema breytt sé stefnu fyrir skipi, sem siglt er fram úr;
2. að breyta stefnu í átt að skipi, sem er þvert eða aftan við þverskipsstefnu.
e. Þegar þokumerki heyrast frá skipi, sem virðist vera framan við þvert, eða óumflýjanlegt er að nálgast um of annað skip, sem er framan við þvert, skal sett á minnstu ferð, sem halda má óbreyttri stefnu með. Þetta á við, nema því aðeins að ekki sé talin hætta á árekstri. Ef nauðsyn krefur, skal stöðva skipið alveg og í öllum tilvikum skal sigla með ítrustu varkárni, þar til hætta á árekstri er liðin hjá.

Kafli C.

Ljós og dagmerki.

20. regla. Notkun. a. Fylgja skal reglum þessa kafla, hvernig sem viðrar.
b. Reglunum um siglingaljós skal fylgja frá sólsetri til sólaruppkomu, og má á þessum tíma engin önnur ljós hafa, sem unnt er að rugla saman við hin lögboðnu siglingaljós og gera erfiðara að greina þau eða draga úr sérstökum einkennum þeirra eða torvelda góða útsýn frá skipinu.
c. Á skipum, sem eru búin þeim ljósum, sem fyrirskipuð eru í þessum reglum, skal einnig hafa ljósin frá sólaruppkomu til sólseturs í takmörkuðu skyggni, og þau má alltaf sýna, þegar það er álitið nauðsynlegt.
d. Reglum um dagmerki skal fylgja að deginum.
e. Siglingaljós og dagmerki þau, sem mælt er fyrir að nota og lýst er í reglunum, skulu vera í samræmi við þau fyrirmæli, sem eru gefin í I. viðauka við þessar reglur.
21. regla. Skilgreiningar. a. ,,Sigluljós`` er hvítt ljós, sem er yfir mið-langskurðarfleti skips og varpar samfelldri birtu á 225 gráðu boga af sjóndeildarhringnum. Sigluljósi skal þannig komið fyrir, að það lýsi beint fram og til hliðar 22,5 gráður aftur fyrir þverskipsstefnu á hvorri hlið skipsins.
b. ,,Hliðarljós`` er grænt ljós á stjórnborðshlið og rautt ljós á bakborðshlið og varpi ljósin hvort um sig samfelldri birtu á 112,5 gráðu boga af sjóndeildarhringnum. Þeim sé þannig komið fyrir, að ljósið lýsi beint fram og til hliðar 22,5 gráður aftur fyrir þverskipsstefnu á hvorri hlið, eftir því sem við á. Á skipi, sem er styttra en 20 metrar, má hafa hliðarljósin í einu samsettu ljóskeri, sem er í mið-langskurðarfleti skipsins.
c. ,,Skutljós`` er hvítt ljós, sem er komið fyrir eins nærri skut skipsins og unnt er og varpar samfelldri birtu yfir 135 gráðu boga af sjóndeildarhringnum, þannig að ljósið lýsi beint aftur og 67,5 gráður á hvora hlið skipsins.
d. ,,Dráttarljós`` er gult ljós, sem lýsir eins og skutljósið, sem skilgreint er í c-lið þessarar reglu og er komið fyrir á sama hátt.
e. ,,Hringljós`` er ljós, sem varpar samfelldri birtu á 360 gráðu boga sjóndeildarhringsins.
f. ,,Blossaljós`` er ljós, sem blossar með reglulegu millibili og með tíðni, sem er 120 blossar eða fleiri á hverri mínútu.
22. regla. Langdrægni siglingaljósa. Ljós, sem kveðið er á um að hafa uppi í reglum þessum, skulu hafa þann ljósstyrk, sem tilgreindur er í 8. hluta I. viðauka við reglurnar. Ljósin skulu að minnsta kosti vera sýnileg þá vegalengd er hér greinir:
a. Á skipum, sem eru 50 metrar á lengd eða lengri:

-- sigluljós sjáist 6 sjómílur;

-- hliðarljós sjáist 3 sjómílur;

-- skutljós sjáist 3 sjómílur;

-- dráttarljós sjáist 3 sjómílur;

-- hvítt, rautt, grænt eða gult hringljós sjáist 3 sjómílur.

b. Á skipum, sem eru 12 metrar á lengd eða lengri, en styttri en 50 metrar:

-- sigluljós sjáist 5 sjómílur, nema á skipum, sem eru styttri en 20 metrar, lýsi ljósið 3 sjómílur;

-- hliðarljós sjáist 2 sjómílur;

-- skutljós sjáist 2 sjómílur;

-- dráttarljós sjáist 2 sjómílur;

-- hvítt, rautt, grænt eða gult hringljós sjáist 2 sjómílur.

c. Á skipum, sem eru styttri en 12 metrar:

-- sigluljós sjáist 2 sjómílur;

-- hliðarljós sjáist 1 sjómílu;

-- skutljós sjáist 2 sjómílur;

-- dráttarljós sjáist 2 sjómílur;

-- hvítt, rautt, grænt eða gult hringljós sjáist 2 sjómílur.

d. Á lítt áberandi skipum að nokkru í kafi eða hlutum í drætti:

-- hvítt hringljós sjáist 3 sjómílur.

23. regla. Vélskip, sem er laust. a. Vélskip, sem er laust, skal hafa uppi:
1. sigluljós frammá;
2. annað sigluljós aftar og ofar en sigluljósið frammá. Skip, styttri en 50 metrar, eru ekki skyld að hafa þetta ljós, en mega hafa það;
3. hliðarljós;
4. skutljós.
b. Svifskip, sem fer á loftpúða yfir sjóinn og án nokkurs særýmis, skal auk þeirra siglingaljósa, sem kveðið er á um að hafa í a-lið þessarar reglu, hafa uppi gult hring-blossaljós.
c. 1. Vélskip, styttra en 12 metrar, má í stað ljósa þeirra, sem kveðið er á um í a-lið þessarar reglu, hafa uppi hvítt hringljós auk hliðarljósanna.
2. Vélskip, sem er styttra en 7 metrar og fer með 7 sjómílna hámarkshraða á klukkustund, má hafa uppi hvítt hringljós í stað þeirra ljósa, sem kveðið er á um í a-lið þessarar reglu, og skal einnig hafa uppi hliðarljós, ef framkvæmanlegt er.
3. Sigluljósinu eða hringljósinu á vélskipi, sem er styttra en 12 metrar, má koma fyrir utan mið-langskurðarflatar skipsins, sé annað óframkvæmanlegt, þó að því tilskildu að skipið sé búið samsettu hliðarljóskeri, sem haft skal í mið-langskurðarfletinum eða eins nærri og mögulegt er í sama langskurðarfleti og sigluljósið eða hringljósið.
24. regla. Skip, sem draga eða ýta. a. Vélskip, sem dregur eitthvað, skal hafa uppi:
1. tvö sigluljós og sé annað lóðrétt upp af hinu, og koma þau í stað ljósanna, sem kveðið er á um í 1. eða 2. gr. a-liðar í 23. reglu; þrjú sigluljós, lóðrétt hvert upp af öðru, þegar lengd þess, sem dregið er, mæld frá skut skipsins, sem dregur, til afturenda þess, sem dregið er, verður yfir 200 metra;
2. hliðarljós;
3. skutljós;
4. dráttarljós, lóðrétt ofan við skutljósið;
5. tígullaga dagmerki, þar sem best verður séð, þegar lengd þess, sem dregið er, er yfir 200 metra.
b. Þegar skip, sem ýtir, og annað, sem ýtt er áfram, eru fast tengd í eina samsetta heild, þá skal líta á þau sem eitt vélskip, og hafa skal uppi ljós, sem mælt er fyrir um í 23. reglu.
c. Þegar vélskip ýtir einhverju áfram eða dregur sér við hlið í öðrum tilvikum en þeim, að um samsetta heild sé að ræða, þá skal skipið hafa uppi þessi ljós:
1. tvö sigluljós og sé annað lóðrétt upp af hinu, og koma þau í stað ljósanna, sem kveðið er á um í 1. eða 2. gr. a-liðar í 23. reglu;
2. hliðarljós;
3. skutljós.
d. Þegar a- eða c-liður þessarar reglu á við vélskip, þá skal það ennfremur hlíta 2. gr. a-liðar í 23. reglu.
e. Á skipi eða öðru því, sem dregið er og ekki fellur undir g-lið þessarar reglu, skal hafa uppi:
1. hliðarljós;
2. skutljós;
3. tígullaga dagmerki, þar sem best verður séð, þegar lengd þess, sem dregið er, verður yfir 200 metra.
f. Ef fleiri skip eru dregin eða þeim ýtt í hóp, skulu þau sýna ljós eins og um eitt skip væri að ræða:
1. skip, sem ýtt er áfram og ekki er hluti samsettrar heildar, skal hafa hliðarljós fram á skipinu;
2. skip, sem dregið er við hlið dráttarskips, skal hafa uppi skutljós og frammá skipinu hliðarljós.
g. Lítt áberandi skip að hluta í kafi eða hlutur í drætti, eða samfelld heild slíkra skipa eða hluta, skal hafa uppi:
1. ef breiddin er undir 25 metrum, hvítt hringljós á eða við framendann og annað á eða við afturendann; undanteknar eru farmslöngur (dracones), sem ekki þurfa að hafa ljós á eða við framendann;
2. ef breiddin er 25 metrar eða meiri, tvö hvít hringljós að auki, sem komið skal fyrir á eða við þá staði, sem breiddin er mest;
3. ef lengdin fer yfir 100 metra, hvít hringljós til viðbótar, sem staðsett skulu milli ljósanna, sem fyrirskipuð eru í 1. og 2. gr. þessa liðar, á þann veg, að fjarlægðin milli ljósanna fari ekki fram úr 100 metrum;
4. tígullaga dagmerki á eða við afturenda aftasta skipsins eða hlutarins, sem dreginn er, og, fari lengd þess, sem dregið er, fram úr 200 metrum, skal haft uppi annað tígullaga dagmerki, þar sem best verður séð og svo nærri framenda, sem unnt er.
h. Sé af gildri ástæðu óframkvæmanlegt á skipi eða öðru því, sem dregið er, að hafa uppi ljós þau eða merki, sem kveðið er á um í e- eða g-lið þessarar reglu, þá skal gera allar hugsanlegar ráðstafanir til að lýsa upp skipið eða það, sem dregið er. Annars skal að minnsta kosti gera viðvart um að verið sé með slíkt skip eða annað í drætti.
i. Sé af gildri ástæðu óframkvæmanlegt á skipi, sem að jafnaði er ekki notað sem dráttarskip, að hafa uppi ljós þau, sem kveðið er á um í a- eða c-lið þessarar reglu, skal því ekki skylt að sýna þau ljós, þegar það dregur annað skip, sem er í nauðum statt, eða á annan hátt þarf aðstoðar við. Allar tiltækar ráðstafanir skulu gerðar til að láta í ljós tengslin milli skips þess, er dregur, og þess, sem dregið er, eins og 36. regla heimilar, svo sem að varpa ljósi á dráttartaugina.
25. regla. Seglskip, sem er laust, og skip undir árum. a. Seglskip, sem er laust, skal hafa uppi:
1. hliðarljós;
2. skutljós.
b. Á seglskipi, sem er styttra en 20 metrar, má hafa ljós þau, sem kveðið er á um í a-lið þessarar reglu, í einu samsettu ljóskeri, á eða nærri siglutoppi, þar sem það sést best.
c. Á seglskipi, sem er laust, má auk þeirra ljósa, sem kveðið er á um í a-lið, hafa uppi, á eða nærri siglutoppi, þar sem þau sjást best, tvö hringljós, annað lóðrétt upp af hinu. Efra ljósið skal vera rautt og neðra ljósið grænt. Hringljósin má þó ekki hafa uppi með samsetta ljóskerinu, sem heimilað er í b-lið.
d. 1. Á seglskipi, sem er styttra en 7 metrar, skal hafa uppi ljósin, sem kveðið er á um í a- eða b-lið, ef slíkt er framkvæmanlegt. Ef seglskipið hefur ekki uppi þessi ljós, skal raflugt eða tendrað ljósker, sem sýnir hvítt ljós, vera tiltækt, og skal því brugðið upp í tæka tíð til að hindra árekstur.
2. Á skipi undir árum má hafa uppi þau ljós, sem seglskip á að hafa samkvæmt þessari reglu, en ef þau ljós eru ekki sýnd, skal raflugt eða tendrað ljósker, sem sýnir hvítt ljós, vera tiltækt, og skal því brugðið upp í tæka tíð til að hindra árekstur.
e. Á skipi undir seglum, sem jafnframt er knúið vélarafli, skal frammá skipinu, þar sem best verður séð, hafa uppi keilu og vísi oddur keilunnar niður.
26. regla. Fiskiskip. a. Skip að fiskveiðum, hvort sem það er laust eða liggur við akkeri, skal aðeins hafa uppi þau ljós og merki, sem kveðið er á um í þessari reglu.
b. Skip að togveiðum, þ.e. skip, sem dregur vörpu eða annað veiðarfæri í sjó, skal hafa uppi:
1. tvö hringljós, annað lóðrétt upp af hinu; efra ljósið skal vera grænt og neðra ljósið hvítt; eða dagmerki, sem er tvær keilur, önnur lóðrétt upp af hinni, og snúi topparnir saman; á skipi, styttra en 20 metrar, má í stað þessa dagmerkis hafa uppi körfu;
2. sigluljós, aftar og ofar en græna hringljósið; á skipi, styttra en 50 metrar, er ekki skylt að hafa uppi þetta ljós, en það má hafa;
3. hliðarljós og skutljós, þegar það er á ferð, auk þeirra ljósa, sem á að hafa uppi eftir þessum lið.
c. Skip að fiskveiðum, annað en skip að togveiðum, skal hafa uppi:
1. tvö hringljós, annað lóðrétt upp af hinu; efra ljósið skal vera rautt og neðra ljósið hvítt; eða dagmerki, sem er tvær keilur, önnur lóðrétt upp af hinni, og snúi topparnir saman; á skipi, styttra en 20 metrar, má í stað þessa dagmerkis hafa uppi körfu;
2. hvítt hringljós eða keilu, þegar veiðarfæri í sjó nær lengra en 150 metra í lárétta stefnu frá skipinu, og snúi toppur keilunnar upp og í þá átt, sem veiðarfærið liggur;
3. hliðarljós og skutljós, þegar það er á ferð, auk þeirra ljósa, sem á að hafa uppi eftir þessum lið.
d. Á skipi að fiskveiðum, rétt í námunda við önnur skip [að fiskveiðum],1) má auk þess hafa uppi þau viðbótarmerki, sem lýst er í II. viðauka við þessar reglur.
e. Þegar skip er ekki að fiskveiðum, má ekki hafa uppi þau ljós eða dagmerki, sem kveðið er á um að sýna í þessari reglu, heldur aðeins þau ljós og dagmerki, sem jafnlöng skip eiga að sýna.

1)L. 25/1990, 2. gr.

27. regla. Stjórnvana skip og skip með takmarkaða stjórnhæfni. a. Stjórnvana skip skal hafa uppi:
1. tvö rauð hringljós, annað lóðrétt upp af hinu, og þar sem þau sjást best;
2. tvær kúlur eða áþekk dagmerki, annað lóðrétt upp af hinu, og þar sem þau sjást best;
3. hliðarljós og skutljós, þegar skipið er á ferð, auk þeirra ljósa, sem á að hafa uppi eftir þessum lið.
b. Skip með takmarkaða stjórnhæfni, nema skip, sem starfar að hreinsun tundurduflasvæða, skal hafa uppi:
1. þrjú hringljós, lóðrétt hvert upp af öðru, og þar sem þau sjást best. Efsta og neðsta ljósið skal vera rautt, en miðljósið hvítt;
2. sem dagmerki þrjú tákn, lóðrétt hvert upp af öðru, og þar sem best verður séð. Efsta og neðsta merkið á að vera kúla, en miðmerkið tígullaga;
3. sigluljós, hliðarljós og skutljós, þegar það er á ferð, auk þeirra ljósa, sem á að hafa uppi eftir 1. gr. þessa liðar;
4. ljós eða dagmerki þau, sem mælt er fyrir um í 30. reglu, þegar legið er við akkeri, auk ljósa og dagmerkja, sem kveðið er á um að sýna í 1. og 2. gr. þessa liðar.
c. Vélskip, sem dregur, þannig að geta þess eða þess, sem dregið er, til að víkja frá stefnu er verulega takmörkuð, skal hafa uppi, auk ljósanna og dagmerkjanna, sem kveðið er á um í a-lið 24. reglu, ljósin eða dagmerkin, sem fyrirskipuð eru í 1. og 2. gr. b-liðar þessarar reglu.
d. Dýpkunarskip eða skip við neðansjávarvinnu, sem hefur takmarkaða stjórnhæfni, skal hafa uppi þau ljós eða dagmerki, sem kveðið er á um í 1., 2. og 3. gr. b-liðar þessarar reglu; er skipið mætir hindrun, skal það ennfremur hafa uppi:
1. tvö rauð hringljós, annað lóðrétt upp af hinu, eða tvær kúlur, önnur lóðrétt upp af hinni, sem sýna á hvora hlið hindrunin er;
2. tvö græn hringljós, annað lóðrétt upp af hinu, eða tvö tígullaga merki, annað lóðrétt upp af hinu, sem sýna á hvora hlið önnur skip geta siglt framhjá;
3. þegar legið er við akkeri, ljós þau eða dagmerki, sem kveðið er á um í þessum lið, í stað ljósanna eða dagmerkjanna, sem fyrirskipuð eru í 30. reglu.
e. Þegar stærð skips að köfunarstörfum veldur því, að óframkvæmanlegt er að hafa uppi öll þau ljós og dagmerki, sem kveðið er á um í d-lið þessarar reglu, þá skal það sýna:
1. þrjú hringljós, lóðrétt hvert upp af öðru, þar sem þau sjást best. Efsta og neðsta ljósið skal vera rautt, en miðljósið hvítt;
2. stíft spjald með nákvæmri mynd af alþjóðafánanum ,,A``. Spjaldið skal ekki vera lægra en einn metri á hæð og þess skal gætt, að það sjáist úr öllum áttum.
f. Skip, sem starfar að hreinsun tundurduflasvæða, skal auk ljósanna, sem kveðið er á um í 23. reglu að vélskip skuli sýna, eða ljósanna eða dagmerkis, sem fyrirskipuð eru skipum, sem liggja við akkeri, í 30. reglu, eftir því sem við á, hafa uppi þrjú græn hringljós eða þrjár kúlur. Eitt þessara ljósa eða dagmerkja skal vera á eða nálægt húni framsiglu og eitt á hvorum enda framrár. Ljósin eða kúlurnar merkja, að hættulegt sé fyrir önnur skip að fara nær hinu skipinu en 1000 metra.
g. Á skipum, sem eru styttri en 12 metrar, öðrum en þeim, sem eru að köfunarstörfum, er ekki skylt að hafa uppi þau ljós eða dagmerki, sem fyrirskipuð eru í þessari reglu.
h. Ljós og dagmerki, sem á að hafa uppi eftir þessari reglu, eru ekki merki skipa, er þarfnast aðstoðar og eru í sjávarháska. Neyðarmerkjum er lýst í IV. viðauka við þessar reglur.
28. regla. Skip böguð vegna djúpristu. Skip, sem er bagað vegna djúpristu, má auk ljósa þeirra, sem mælt er fyrir um í 23. reglu, að vélskip skuli sýna, hafa uppi, þar sem best verður séð, þrjú rauð hringljós, lóðrétt hvert upp af öðru, eða sívalning.
29. regla. Hafnsöguskip. a. Skip, sem gegnir hafnsöguerindum, skal hafa uppi:
1. tvö hringljós á eða nærri siglutoppi, annað lóðrétt upp af hinu; efra ljósið skal vera hvítt, neðra ljósið rautt;
2. auk þess hliðarljós og skutljós, þegar það er laust;
3. þegar legið er við akkeri, auk ljósanna, sem lýst er í 1. gr., þau ljós eða dagmerki, sem fyrirskipuð eru í 30. reglu um skip, sem liggja við akkeri.
b. Á hafnsöguskipi, sem gegnir ekki leiðsöguerindum, skal hafa uppi sömu ljós eða dagmerki og sams konar skip jafnlöng eiga að hafa uppi.
30. regla. Skip, sem liggja við akkeri eða standa á grunni. a. Skip, sem liggur við akkeri, skal hafa uppi, þar sem best verður séð:
1. hvítt hringljós eða kúlu framan til á skipinu;
2. annað hvítt hringljós á eða nærri skut og lægra en ljósið, sem kveðið er á um í 1. gr.
b. Skip, sem er styttra en 50 metrar, má í stað ljósanna, sem mælt er fyrir um í a-lið, hafa uppi hvítt hringljós, þar sem best verður séð.
c. Þegar skip, sem er 100 metrar á lengd eða lengra, liggur við akkeri, þá skal jafnframt lýsa upp þilför þess með vinnuljósum þeim, sem um borð eru, eða öðrum jafngildum ljósgjöfum. Önnur skip, sem liggja við akkeri, má lýsa upp á sama hátt.
d. Skip, sem stendur á grunni, skal hafa uppi þau ljós, sem mælt er fyrir um að sýna í a- og b-lið þessarar reglu, og auk þess, þar sem best verður séð:
1. tvö rauð hringljós, annað lóðrétt upp af hinu;
2. þrjár kúlur, hver lóðrétt upp af annarri.
e. Á skipi, styttra en 7 metrar, er ekki skylt að hafa uppi þau ljós eða dagmerki, sem kveðið er á um í a- og b-lið þessarar reglu, þegar legið er við akkeri annars staðar en í eða nálægt þröngu sundi eða ál eða á akkerislegu eða þar sem er almenn umferð skipa.
f. Á skipi, styttra en 12 metrar, þegar það stendur á grunni, er ekki skylt að hafa uppi ljós þau eða dagmerki, sem fyrirskipuð eru í 1. og 2. gr. d-liðar þessarar reglu.
31. regla. Sjóflugvélar. Þegar óframkvæmanlegt reynist að hafa uppi ljós og dagmerki á sjóflugvél, með þeim einkennum, lögun og staðsetningu, sem krafist er í reglum þessa kafla, þá skal flugvélin hafa uppi ljós og dagmerki, sem fara eins nærri hinum réttu einkennum og staðsetningu og framast er unnt.

Kafli D.

Hljóð- og ljósmerki.

32. regla. Skilgreiningar. a. ,,Flauta`` er sérhvert hljóðgefandi tæki, sem getur gefið frá sér þau hljóð, sem á að gefa, og fullnægir þeim sérstöku kröfum, sem eru settar fram í III. viðauka við þessar reglur.
b. ,,Stutt hljóð`` merkir hljóð, sem varir í um það bil eina sekúndu.
c. ,,Langt hljóð`` merkir hljóð, sem varir í fjórar til sex sekúndur.
33. regla. Tæki til hljóðmerkjagjafa. a. Skip, sem er 12 metrar á lengd eða lengra, skal búið flautu og skipsklukku. Skip, sem er 100 metrar á lengd eða lengra, skal auk þess vera búið málmtrumbu og verði hljómur hennar og hljóð ekki tekið fyrir klukknahringingu. Skipsflautan, klukkan og málmtrumban eiga að fullnægja þeim sérstöku kröfum, sem eru settar fram í III. viðauka við þessar reglur. Í stað klukkunnar eða málmtrumbunnar má nota annað tæki, sem gefur sömu hljóðeinkenni og þau hvort um sig. Þess skal þó gætt, að ávallt sé unnt að gefa hin fyrirskipuðu hljóðmerki með handafli.
b. Ekki er skylt að búa skip, sem er styttra en 12 metrar, hljóðgjöfum þeim, sem kveðið er á um í a-lið. En ef skipið er ekki búið þessum tækjum, skal það hafa einhvern annan útbúnað, sem gefur frá sér fullnægjandi hljóð.
34. regla. Stjórntök og viðvörunarmerki. a. Þegar skip eru í sjónmáli hvert frá öðru, skal á vélskipi, sem er laust, og ef beitt er stjórntökum, sem heimiluð eru eða krafist er í reglum þessum, láta það í ljós með eftirfarandi hljóðmerkjum frá flautunni:

-- eitt stutt hljóð merkir: ,,Ég sný til stjórnborða``;

-- tvö stutt hljóð merkja: ,,Ég sný til bakborða``;

-- þrjú stutt hljóð merkja: ,,Ég læt vélina knýja aftur á bak``.

b. Á hverju skipi má auk hljóðmerkja, sem lýst er í a-lið þessarar reglu, gefa ljósmerki, sem eftir atvikum eru endurtekin á meðan stefnu skipsins eða ferð er breytt:
1. Ljósmerki þessi skulu hafa svohljóðandi merkingu:

-- einn blossi merkir: ,,Ég sný til stjórnborða``;

-- tveir blossar merkja: ,,Ég sný til bakborða``;

-- þrír blossar merkja: ,,Ég læt vélina knýja aftur á bak``.

2. Lengd hvers blossa skal vera um það bil ein sekúnda; bilið milli blossanna skal einnig vera um það bil ein sekúnda og bil milli ljósmerkja, sem eru send hvert á eftir öðru, skal ekki vera styttra en 10 sekúndur.
3. Ef skipið er búið sérstöku ljóskeri til þessara merkjagjafa, skal það vera hvítt hringljós, sem sést að minnsta kosti í 5 sjómílna fjarlægð og skal það fullnægja þeim fyrirmælum, sem eru sett í I. viðauka við þessar reglur.
c. Þegar skip eru í sjónmáli hvort frá öðru í þröngu sundi eða ál, gilda þessar reglur:
1. Á skipi, sem ætlar að sigla fram úr öðru skipi, skal í samræmi við 1. gr. e-liðar í 9. reglu láta vita um fyrirhugaða framúrsiglingu með hljóðmerkjum frá flautunni:

-- tvö löng hljóð með eftirfarandi stuttu hljóði merkja: ,,Ég ætla að sigla fram úr yður á stjórnborða``;

-- tvö löng hljóð með eftirfarandi tveimur stuttum hljóðum merkja: ,,Ég ætla að sigla fram úr yður á bakborða``.

2. Á skipi því, sem sigla á fram úr, skal í samræmi við 1. gr. e-liðar í 9. reglu láta í ljós að fallist sé á framúrsiglingu með þessum hljóðmerkjum frá flautunni:

-- eitt langt hljóð, eitt stutt, eitt langt og eitt stutt hljóð; og skal gefa hljóðmerkin í þessari röð.

d. Þegar skip eru í sjónmáli hvort frá öðru og nálgast hvort annað, en fyrirætlanir og sigling annars skipsins er af einhverjum ástæðum óskiljanleg stjórnendum hins, eða efast er um, að fullnægjandi ráðstafanir séu gerðar á hinu skipinu til að komast hjá árekstri, þá skal þegar í stað láta slíkar efasemdir í ljós með því að blása hratt að minnsta kosti 5 stutt hljóð í flautuna. Auk hljóðmerkisins má sýna ljósmerki, sem eru a.m.k. 5 stuttir blossar, er lýsa hratt hver á eftir öðrum.
e. Á skipi, sem nálgast bugðu eða svæði í sundi eða ál, þar sem önnur skip geta verið í hvarfi, skal gefa eitt langt hljóð. Á skipi, sem nálgast bugðuna eða hvarfið hinum megin frá, þar sem hljóðmerkið kann að heyrast, skal því svarað með öðru löngu hljóði.
f. Ef skip eru búin flautum með meira en 100 metra innbyrðis fjarlægð, þá skal aðeins nota eina flautu til að gefa hljóðmerki vegna stjórntaka og til viðvörunar.
35. regla. Hljóðmerki í takmörkuðu skyggni. Á eða nærri svæði, þar sem skyggni er takmarkað, skal, hvort sem er á nóttu eða degi, gefa hljóðmerki þau, sem lýst er í þessari reglu, þannig:
a. Á vélskipi, sem er á ferð, skal með 2ja mínútna millibili í mesta lagi láta kveða við eitt langt hljóð.
b. Á vélskipi, sem er laust, en hefur stöðvast og er ferðlaust, skal með 2ja mínútna millibili í mesta lagi láta kveða við tvö löng hljóð með um það bil 2ja sekúndna þögn á milli þeirra.
c. Á stjórnvana skipi, skipi með takmarkaða stjórnhæfni, skipi, sem er bagað vegna djúpristu, seglskipi, skipi að fiskveiðum og skipi, sem dregur annað skip eða ýtir því, skal í stað hljóðmerkja þeirra, sem fyrirskipað er að gefa í a- eða b-lið þessarar reglu, með 2ja mínútna millibili í mesta lagi gefa þrjú hljóð hvert á eftir öðru, sem sé eitt langt hljóð og á eftir því tvö stutt hljóð.
d. Skip, sem liggja við akkeri og eru að fiskveiðum eða öðrum störfum, sem takmarka stjórnhæfni þeirra, skulu í stað hljóðmerkja þeirra, sem kveðið er á um í g-lið þessarar reglu, gefa hljóðmerkið, sem c-liðurinn mælir fyrir um.
e. Á skipi, sem dregið er, eða ef fleiri en eitt skip eru dregin, þá á síðasta skipi í lestinni, ef það er mannað, skal með 2ja mínútna millibili í mesta lagi gefa fjögur hljóð hvert á eftir öðru, sem sé eitt langt hljóð og á eftir því þrjú stutt. Þegar því verður við komið, skal gefa þetta hljóðmerki strax á eftir hljóðmerkjum dráttarskipsins.
f. Þegar skip, sem ýtir, og annað, sem ýtt er áfram, eru fast tengd í eina samsetta heild, þá skal líta á þau sem vélskip og gefa skal hljóðmerki þau, sem fyrirskipað er að gefa í a- eða b-lið þessarar reglu, eftir því sem við á.
g. Á skipi, sem liggur við akkeri, skal með einnar mínútu millibili í mesta lagi hringja skipsklukkunni ótt og títt í um það bil 5 sekúndur. Á skipum, sem eru 100 metrar á lengd eða lengri, skal hringja klukkunni frammá skipinu, og strax á eftir klukknahringingunni skal berja málmtrumbu afturá skipinu ótt og títt í um það bil 5 sekúndur. Á skipi, sem liggur við akkeri, má auk þess gefa þrjú hljóð hvert á eftir öðru, sem sé eitt stutt, eitt langt og eitt stutt hljóð, til að vara skip, sem nálgast, við stað skipsins og hver hætta kunni að vera á árekstri.
h. Á skipi, sem stendur á grunni, skal hringja klukkunni ótt og títt í um það bil 5 sekúndur, og ef þess er krafist skal berja málmtrumbuna eins og kveðið er á um í g-lið þessarar reglu. Auk þess skal slá þrjú aðgreind og greinileg högg á klukkuna strax á undan og eftir hverri klukknahringingu. Á skipi, sem stendur á grunni, má auk þess gefa önnur hljóðmerki með flautunni eftir því sem við á.
i. Á skipi, sem er styttra en 12 metrar, er ekki skylt að gefa ofangreind hljóðmerki. Ef slík hljóðmerki eru ekki gefin, skal með 2ja mínútna millibili í mesta lagi gefa einhver önnur greinileg hljóðmerki.
j. Á hafnsöguskipi, sem gegnir leiðsöguerindum, má auk hljóðmerkja, sem kveðið er á um í a-, b- eða g-lið þessarar reglu, gefa fjögur stutt hljóð til auðkenningar hafnsöguskipinu.
36. regla. Merki til að vekja á sér athygli. Á sérhverju skipi má sýna ljós eða gefa hljóðmerki, ef það telst nauðsynlegt til þess að vekja athygli áhafnar um borð í öðru skipi. Þessum ljós- eða hljóðmerkjum má þó ekki rugla saman við neitt af þeim merkjum, sem heimilað er að nota annars staðar í þessum reglum. Einnig má beina ljóskastara í átt að hættunni, en þó þannig, að það trufli ekki önnur skip. Hvers konar ljós, sem notað er til þess að vekja athygli annars skips, skal vera þannig að það verði ekki tekið fyrir nein þau ljós, er varða siglingaöryggi. Svo regla þessi megi ná tilgangi sínum, skal forðast að nota sterk blikk- eða hverfi-ljós, svo sem ,,strobe`` eða þess háttar.
37. regla. Neyðarmerki. Þegar skip er í sjávarháska og þarfnast aðstoðar, skal nota eða sýna þau merki, sem lýst er í IV. viðauka við þessar reglur.

Kafli E.

Undanþágur.

38. regla. Undanþágur. Sérhvert skip (eða flokkur skipa), sem lagður er kjölur að eða er á samsvarandi smíðastigi, áður en þessar reglur taka gildi, má, svo fremi að skipið uppfylli kröfur í alþjóðareglum til að koma í veg fyrir árekstra á sjó 1960, vera undanþegið að fylgja þessum reglum varðandi þau atriði, sem hér greinir:
a. Uppsetningu ljósa með þá langdrægni, sem krafist er í 22. reglu, í allt að 4 ár frá þeim degi, að þessar reglur taka gildi.
b. Uppsetningu ljósa með þeim sérstöku litareinkennum, sem krafist er í 7. hluta í I. viðauka við þessar reglur, í allt að 4 ár frá þeim degi, að þessar reglur taka gildi.
c. Tilfærslu ljósa vegna breytinga frá ensku máli í metrakerfi og notkun lengdarmála upp á heilan og hálfan metra, um alla framtíð.
d. 1. Tilfærslu á sigluljósi skipa, sem eru styttri en 150 metrar, vegna fyrirmæla í 3. hluta a. í I. viðauka við þessar reglur, um alla framtíð.
2. Tilfærslu sigluljósa skipa, sem eru 150 metrar á lengd eða lengri, vegna fyrirmæla í 3. hluta a. í I. viðauka við þessar reglur, í allt að 9 ár frá þeim degi, er þessar reglur taka gildi.
e. Tilfærslu sigluljósa vegna fyrirmæla í 2. hluta b. í I. viðauka við þessar reglur, í allt að 9 ár frá þeim degi, er þessar reglur taka gildi.
f. Tilfærslu hliðarljósa vegna fyrirmæla í 3. hluta b. í I. viðauka við þessar reglur, í allt að 9 ár frá þeim degi, er þessar reglur taka gildi.
g. Fyrirmæli um hljóðmerkjatæki, sem kveðið er á um í III. viðauka við þessar reglur, í allt að 9 ár frá þeim degi, er þessar reglur taka gildi.
h. Tilfærslu hringljósa í samræmi við 9. hluta b. í I. viðauka við þessar reglur, um alla framtíð.

I. Viðauki.

Staðsetning ljósa og merkja, sérstök gerð þeirra og lögun.

1. Skilgreining. ,,Hæð upp frá bol skipsins`` merkir hæð upp frá efsta þilfari, sem nær stafna á milli. Skal hæðin mæld frá punkti, sem er lóðrétt undir ljósinu.
2. Lóðrétt staðsetning siglingaljósa og fjarlægð á milli þeirra. a. Á vélskipi, sem er 20 metrar á lengd eða lengra, skal koma sigluljósum fyrir sem hér segir:
1. Fremra sigluljósið, eða ef einungis er haft uppi eitt sigluljós, þá það ljós, skal að minnsta kosti vera í 6 metra hæð upp frá bol skipsins. Ef skipið er breiðara en 6 metrar, þá skal ljósið vera að minnsta kosti jafnmarga metra upp frá bol skipsins og breidd skipsins nemur. Sigluljósið þarf þó ekki að setja hærra en 12 metra upp frá bol skipsins.
2. Þegar 2 sigluljós eru höfð uppi skal aftara ljósið vera að minnsta kosti 4,5 metrum hærra en fremra ljósið, mælt í lóðlínu.
b. Lóðrétt fjarlægð milli sigluljósa vélskipa skal vera svo mikil, að aftara sigluljósið sjáist frá sjávarfleti í 1000 metra fjarlægð frá stafni skipsins, og við eðlilegan stafnhalla ofan við fremra sigluljósið og aðgreint frá því.
c. Sigluljósi vélskips, sem er 12 metrar á lengd eða lengra, en styttra en 20 metrar, skal komið fyrir a.m.k. í 2,5 metra hæð ofan við borðstokk skipsins.
d. [Efsta ljósið á vélskipi, sem er styttra en 12 metrar, má vera lægra en 2,5 metra ofan við borðstokkinn. Þegar sigluljós er samt sem áður haft uppi auk hliðarljósa og skutljóss, eða auk hliðarljósa er haft uppi hringljós eins og lýst er í 23. reglu c. 1., þá skal sigluljósið eða hringljósið vera að minnsta kosti einum metra hærra en hliðarljósin.]1)
e. Öðru tveggja eða einu þriggja sigluljósa, sem vélskip skulu hafa uppi, er þau draga annað skip eða ýta því, skal komið fyrir annað hvort á sama stað og fremra eða aftara sigluljósi vélskipa; séu ljósin höfð uppi á aftursiglu, skal það lægsta þeirra að minnsta kosti vera 4,5 metrum hærra en fremra sigluljósið.
f. 1. Sigluljósinu eða ljósunum, sem kveðið er á um í a-lið 23. reglu, skal ætíð komið fyrir ofan við og laust við önnur ljós og hindranir, nema svo standi á, eins og lýst er í 2. gr. þessa liðar.
2. Sé óframkvæmanlegt að hafa hringljósin, sem fyrirskipuð eru í 1. gr. b-liðar 27. reglu eða 28. reglu, undir sigluljósunum, má koma þeim fyrir ofan við aftara sigluljósið eða milli fremra og aftara sigluljóssins, svo fremi að framfylgt verði ákvæðum c-liðar 3. hluta þessa viðauka.
g. Á vélskipi má ekki setja hliðarljós hærra yfir bol skipsins en sem nemur 3/4 af hæð fremra sigluljóssins. Hliðarljósin mega ekki vera svo lág, að þeim verði ruglað saman við þilfarsljós.
h. Ef hliðarljósin eru í samsettu ljóskeri á skipi, sem er styttra en 20 metrar, þá skulu hliðarljósin vera að minnsta kosti einn metra neðan við sigluljósið.
i. Þegar mælt er fyrir í reglunum að hafa uppi tvö eða þrjú ljós lóðrétt hvert upp af öðru, skal fjarlægð milli ljósanna vera sem hér segir:
1. Á skipi, sem er 20 metrar á lengd eða lengra, skulu að minnsta kosti vera 2 metrar á milli ljósanna. Neðra eða neðsta ljósinu skal, nema hafa skuli uppi dráttarljós, komið fyrir að minnsta kosti í 4 metra hæð upp frá bol skipsins.
2. [Á skipi, sem er styttra en 20 metrar, skal að minnsta kosti vera einn metri á milli ljósanna. Neðsta ljósinu skal, nema hafa skuli uppi dráttarljós, komið fyrir að minnsta kosti í tveggja metra hæð ofan við borðstokk skipsins.]1)
3. Þegar þrjú ljós eru höfð uppi, skal vera jafnt bil á milli þeirra.
j. Á skipi að fiskveiðum skal lægra hringljósið, er þau skip skulu hafa uppi, vera svo hátt ofan við hliðarljósin að nemi að minnsta kosti tvöfaldri fjarlægð milli hringljósanna.
k. Þegar höfð eru uppi tvö akkerisljós, skal fremra ljósið, sem krafist er samkvæmt ákvæðum 1. gr. a-liðar 30. reglu, vera að minnsta kosti 4,5 metrum ofar en aftara ljósið. Á skipi, sem er 50 metrar á lengd eða lengra, skal fremra akkerisljósinu komið fyrir að minnsta kosti í 6 metra hæð upp frá bol skipsins.
3. Lárétt staðsetning ljósa og fjarlægð á milli þeirra. a. Lárétt fjarlægð milli sigluljósa á skipi, sem er skylt að hafa uppi tvö sigluljós, skal vera að minnsta kosti hálf skipslengdin, en þarf þó ekki að vera lengri en 100 metrar. Fremra sigluljósi má ekki koma fyrir fjær stafni en sem nemur fjórðungi af lengd skipsins.
b. Á vélskipi, sem er 20 metrar á lengd eða lengra, skal ekki setja hliðarljósin framan við fremri sigluljósin. Hliðarljósunum skal komið fyrir á eða nærri hliðum skipsins.
c. Þegar ljósunum, sem kveðið er á um í 1. gr. b-liðar 27. reglu eða 28. reglu, er komið fyrir milli fremra og aftara sigluljóssins, skulu þau ekki vera nær mið-langskurðarfleti skipsins en 2 metrar, mælt lárétt í þverskipsstefnu.
4. Nánari ákvæði um staðsetningu stefnuljósa á fiskiskipum, dýpkunarskipum og skipum við neðansjávarvinnu. a. Ljósið, sem kveðið er á um að sýna í 2. gr. c-liðar 26. reglu og sýnir í hvaða átt veiðarfæri skips að fiskveiðum liggur, skal vera að minnsta kosti í 2ja metra, en í mesta lagi í 6 metra láréttri fjarlægð frá bæði rauða og hvíta hringljósinu. Ljós þetta skal ekki vera hærra en hvíta hringljósið, sem mælt er fyrir að sýna í 1. gr. c-liðar 26. reglu, og ekki lægra en hliðarljósin.
b. Ljós og merki, sem kveðið er á um að hafa uppi í 1. og 2. gr. d-liðar 27. reglu til að sýna á hvora hlið dýpkunarskips og skips, er vinnur við neðansjávarvinnu, hindrunin er og/eða á hvora hlið telst öruggt að sigla framhjá, skal komið fyrir í eins mikilli láréttri fjarlægð og unnt er frá ljósum þeim eða merkjum, sem kveðið er á um að hafa uppi í 1. og 2. gr. b-liðar 27. reglu; lárétt fjarlægð frá nefndum ljósum og merkjum skal þó aldrei vera minni en 2 metrar. Hærra ljósið eða dagmerkið má ekki undir neinum kringumstæðum vera hærra en það ljós eða dagmerki, sem lægst er þeirra þriggja ljósa og dagmerkja, er á að hafa uppi skv. 1. og 2. gr. b-liðar 27. reglu.
5. Hlífar fyrir hliðarljós. Hliðarljósin á skipum, sem eru 20 metrar á lengd eða lengri, skulu á þeirri hlið, sem veit inn að skipinu, vera búin hlífum, sem eru svartmálaðar, en gljálausar. Hlífarnar skulu fullnægja þeim kröfum, sem eru gerðar í 9. hluta þessa viðauka. Gildir þetta einnig um styttri skip, ef nauðsynlegt er, svo þau megi fullnægja sömu kröfum. Þegar notað er samsett ljósker með einni lóðréttri þráðgrind og örmjóu bili milli græna og rauða ljósgeirans, þá þarf ekki að búa hliðarljósin hlífum að utanverðu.
6. Dagmerki. a. Dagmerki skulu vera svört og af eftirfarandi stærðum:
1. Þvermál kúlu skal ekki vera minna en 0,6 metrar.
2. Þvermál grunnflatar keilu skal ekki vera minna en 0,6 metrar. Hæð keilunnar skal vera jöfn þvermáli grunnflatar hennar.
3. Þvermál sívalnings skal vera a.m.k. 0,6 metrar. Hæð sívalnings skal vera tvisvar sinnum þvermál hans.
4. Tígullaga merki skal vera 2 keilur, sem hafa sameiginlegan grunnflöt og séu keilurnar af sömu gerð og lýst er í 2. gr. að ofan.
b. Lóðrétt fjarlægð á milli merkja skal vera a.m.k. 1,5 metrar.
c. Á skipi, sem er styttra en 20 metrar, má hafa uppi minni dagmerki, en þau skulu svara til stærðar skipsins; fjarlægð milli merkjanna má stytta samsvarandi.
7. Skilgreining lita á ljósum. Litur allra siglingaljósa skal vera í samræmi við eftirfarandi staðla, sem eru innan marka, er tilgreind eru um hvern lit í litatöflu, sem Alþjóðaljósanefndin (CIE) hefur gert.

Mörkin fyrir hvern lit eru gefin með hornhnitum, sem eru þessi:

1.Hvítt
x 0.5250.5250.4520.3100.3100.443
y 0.3820.4400.4400.3480.2830.382
2.Grænt
x 0.0280.0090.3000.203
y 0.3850.7230.5110.356
3.Rautt
x 0.6800.6600.7350.721
y 0.3200.3200.2650.259
4.Gult
x 0.6120.6180.5750.575
y 0.3820.3820.4250.406
8. Ljósstyrkur. a. Minnsta ljósstyrk skal reikna út með því að nota jöfnuna:

I=3,43 x 106 x T x D2 x K-D
þar sem I er ljósstyrkur í kertum (candela), þegar ljósið er komið á sinn stað og í notkun.

T er raftregðustuðull 2 x 10-7 lux.

D er langdrægni (sjónarlengd) ljóssins í sjómílum.

K er ljósburðargæði andrúmsloftsins eða hver skilyrði eru til þess að ljósið sjáist.

Fyrir ljós þau, sem lýst er í reglunum, skal K-gildið vera 0,8 og svarar það til, að skyggni með berum augum sé um það bil 13 sjómílur.

b. Í eftirfarandi töflu er röð samsvarandi gilda, sem eru fundin með jöfnunni:
Langdrægni ljóssinsLjósmagn í kertum
(sjónarlengd) í(candela) K 0,8
sjómílum
DI
10,9
24,3
312
427
552
694

Athugið: Hámarksljósmagn siglingaljósa ætti að miða við að komist verði hjá óæskilegri blindu og skal því takmarki ekki náð með stillanlegum ljósmagnsrofa.

9. Láréttir ljósgeirar. a. 1. Hliðarljósin skulu þaðan, sem þeim er komið fyrir um borð, sýna lágmarksljósmagn, sem krafist er í stefnu fram á við. Ljósstyrkur skal minnka og verða í reynd ómælanlegur 1--3 gráður utan þess geira, sem ljósið skal lýsa í.
2. Lágmarksljósstyrkur skutljósa og hliðarljósa, 22,5 gráður aftan við þverskipsstefnu, skal vera á boga af sjóndeildarhringnum, sem er allt að því 5 gráður frá mörkum og innan þeirra ljósgeira, sem kveðið var á um í 21. reglu. Frá fimm gráðum innan marka lögboðinna ljósgeira má ljósmagnið minnka um 50 af hundraði að endamörkum þeirra; ljósstyrkur skal síðan minnka stöðugt, uns hann er í reynd ómælanlegur og skal vera svo eigi síðar en á boga, sem er 5 gráður utan ljósgeiranna, sem fyrirskipað er að ljósin lýsi.
b. Hringljósum skal þannig komið fyrir, að ekki beri fyrir þau stærri hluti mastra, siglutoppa eða yfirbygginga, en sem nemi 6 gráðum af sjóndeildarhringnum; þetta ákvæði á þó ekki við um akkerisljósin, sem kveðið er á um í 30. reglu, en þau þarf ekki að setja ofar bol skipsins en vel er framkvæmanlegt.
10. Lóðréttir ljósgeirar. a. Lóðréttir ljósgeirar uppsettra rafljósa, nema um seglskip [sem eru laus]1) sé að ræða, skulu lýsa og tryggja:
1. að lágmarksljósmagn, sem krafist er, verði á samfelldum 10 gráðu boga frá 5 gráðum yfir láréttum fleti að 5 gráðum undir láréttum fleti;
2. að minnsta kosti 60 af hundraði þess lágmarksljósmagns, sem krafist er, verði á samfelldum boga frá 7,5 gráðum yfir láréttum fleti að 7,5 gráðum undir láréttum fleti.
b. Ef um seglskip [sem eru laus]1) er að ræða, skal þess gætt, að lóðréttir ljósgeirar uppsettra rafljósa lýsi þannig:
1. að lágmarksljósmagn, sem krafist er, verði á samfelldum 10 gráðu boga frá 5 gráðum yfir láréttum fleti að 5 gráðum undir láréttum fleti;
2. að minnsta kosti 50 af hundraði þess lágmarksljósmagns, sem krafist er, verði á samfelldum boga frá 25 gráðum yfir láréttum fleti að 25 gráðum undir láréttum fleti.
c. Þegar um önnur ljós en rafljós er að ræða, skal fylgja þessum ákvæðum um lýsingu eins náið og kostur er.
11. Ljósstyrkur annarra ljósa en rafljósa. Önnur ljós en rafljós skulu, eftir því sem framkvæmanlegt er, uppfylla kröfur um lágmarksljósstyrk eins og skilgreint er í töflu í 8. hluta þessa viðauka.
12. Stefnuljós. Þrátt fyrir ákvæði í f-lið 2. hluta þessa viðauka, skal stefnuljósi, sem kveðið er á um að hafa í b-lið 34. reglu, komið fyrir í sama lóðrétta langskurðarfleti og sigluljósið eða sigluljósin eru í; þar sem það er framkvæmanlegt skal stefnuljósið vera að minnsta kosti 2 metra lóðrétt ofan við fremra sigluljósið en þess skal þó gætt, að stefnuljósið sé að minnsta kosti 2 metra lóðrétt fyrir ofan eða neðan aftara sigluljósið. Á skipi með aðeins eitt sigluljós skal, ef skip er búið sérstöku stefnuljósi, hafa ljósið þar sem það sést best, en að minnsta kosti í 2ja metra lóðréttri fjarlægð frá sigluljósinu.
13. Samþykki. Útbúnaður ljósa og merkja svo og uppsetning ljósa um borð í skipum skal uppfylla þær kröfur, sem settar eru af hlutaðeigandi opinberum yfirvöldum í landi því, sem á þjóðfána þann, sem skipinu er heimilt að bera.

1)L. 25/1990, 2. gr.

II. Viðauki.

Viðbótarmerki fyrir fiskiskip, sem eru að veiðum í grennd hvert við annað.

1. Almenn ákvæði. Ef ljós þau, sem hér er um fjallað, eru samkvæmt heimild í d-lið 26. reglu höfð uppi, skal þeim komið fyrir þar sem þau sjást best með að minnsta kosti 0,9 metra millibili, en lægra en ljósunum, sem lýst er í 1. gr. b- og c-liðar 26. reglu. Ljósin skulu sjást úr öllum áttum, í að minnsta kosti einnar sjómílu fjarlægð, en þó styttra en ljósin, sem skylt er að hafa á fiskiskipum eftir þessum reglum.
2. Merki skipa að togveiðum. a. Á skipi að togveiðum, hvort sem það veiðir með botnvörpu eða flotvörpu, má hafa uppi:
1. þegar vörpunni er kastað: tvö hvít ljós, annað lóðrétt upp af hinu;
2. þegar varpan er hífð um borð: hvítt ljós, lóðrétt yfir rauðu ljósi;
3. þegar varpan er föst í einhverri hindrun: tvö rauð ljós, annað lóðrétt upp af hinu.
b. Á skipum, er toga vörpu á milli sín, má á hvoru þeirra um sig:
1. beina ljóskastara að nóttu til fram á við og fyrir stafn hins skipsins, sem varpan er toguð í félagi með;
2. hafa uppi ljósin, sem kveðið er á um í lið 2 a. að framan, þegar vörpunni er kastað eða hún er hífð um borð, eða er föst í einhverri hindrun.
3. Merki skipa að nótaveiðum. Á skipum að nótaveiðum má hafa uppi 2 gul ljós, annað lóðrétt upp af hinu. Ljósin skulu blossa til skiptis hverja sekúndu, þannig að ljós sé á efra ljóskeri, þegar slökkt er á því neðra og svo öfugt. Ljós þessi má eingöngu sýna, þegar skipið er bundið veiðarfærum sínum.

III. Viðauki.

Um tæknilegan útbúnað og gerð hljóðmerkjatækja.

1. Flautur.
a. Tíðni og langdrægni hljóðmerkja. Grundvallartíðni skal vera innan marka 70 og 700 riða (Hz).

Langdrægni heyranlegra hljóðmerkja frá flautu skal ákvarða með tíðnum, sem eru innan marka 180--700 riða (Hz) (± 1%) og ná því stigi hljóðþrýstings, sem tilgreint er í c-lið hér á eftir. Tíðnirnar geta verið grundvallartíðnin og/eða ein eða fleiri hærri tíðnir.

b. Mörk grundvallartíðna. Til þess að tryggja mikla fjölbreytni í einkennum hljóðmerkja frá skipsflautu skal grundvallartíðni flautu liggja milli eftirfarandi marka:
1. 70--200 rið (Hz) á skipum, sem eru 200 metrar á lengd eða lengri.
2. 130--350 rið (Hz) á skipum, sem eru 75 metrar á lengd eða lengri, en styttri en 200 metrar.
3. 250--700 rið (Hz) á skipum, sem eru styttri en 75 metrar.
c. Styrkur hljóðmerkja og langdrægni þeirra. Skipsflauta um borð skal í þá átt, sem hljóðstyrkur flautunnar er mestur, og í eins metra fjarlægð frá flautunni ná hljóðþrýstistigi, sem er að minnsta kosti einn þriðji úr áttund og innan tíðnimarka 180 og 700 riða (Hz) (± 1%) og ná a.m.k. þeim gildum, sem gefin eru í eftirfarandi töflu:
Skipslengd í metrumTónstiginn 1/3 úr áttund í eins m fjarlægð, talinn í dB 2 x 10-5 N/m2Langdrægni heyranlegra hljóðmerkja í sjómílum
200 eða lengri1432
75, en styttri en 2001381,5
20, en styttri en 751301
Styttri en 201200,5
Tölur um langdrægni hljóðmerkja í töflunni að ofan eru til upplýsinga. Í kyrru veðri um borð í skipi með venjulegan hávaða í bakgrunni á þeim stöðum, sem hlustað er, eru 90% líkur til að tölurnar gefi nokkurn veginn þá langdrægni, sem heyra má í flautu í beinu framhaldi af langskurðarfleti (miðjuási) hennar. Venjulegur bakgrunnshávaði er talinn vera 68 dB í þeirri áttund, sem hefur miðju á 250 riðum (Hz), og 63 dB í áttund, sem hefur miðju á 500 riðum (Hz).

Í reynd er sú vegalengd, sem hljóð flautunnar heyrist, ákaflega breytileg og ræður veðurlag mestu um langdrægni hljóðsins. Gildin, sem eru gefin, má líta á sem dæmigerð, en í roki og miklum hávaða í nánd við þá staði, sem hlustað er, getur dregið verulega úr langdrægni hljóðmerkjanna.

d. Stefnugefandi þættir. Hljóðþrýstistig flautu, sem beinir hljóðinu í ákveðna átt, skal ekki vera meira en 4 dB undir fyrirskipuðu hljóðþrýstistigi í langskurðarfleti flautunnar í hvaða stefnu sem er í láréttum fleti innan ± 45° horns frá langskurðarfletinum. Hljóðþrýstistigið í allar aðrar áttir í láréttum fleti skal ekki vera meira en 10 dB undir fyrirskipuðu hljóðþrýstistigi í langskurðarfleti flautunnar, þannig að langdrægni hljóðsins í allar áttir verði a.m.k. helmingur af langdrægni í stefnu, sem er í beinu framhaldi af langskurðarfletinum. Hljóðþrýstistigið skal mælt á hljóðsviðinu einn þriðji úr áttund, sem ákvarðar langdrægni hljóðmerkja.
e. Staðsetning skipsflautu. Þegar nota skal sem einu flautuna um borð flautu, sem beinir hljóðinu í ákveðna átt, skal koma henni þannig fyrir, að hámarkshljóðstyrkur flautunnar sé beint framundan.

Skipsflautu skal setja eins hátt um borð í skipinu og framkvæmanlegt er til þess að draga úr því, að hljóðið rofni eða truflist af hindrunum, og einnig til að draga sem mest úr þeirri hættu að áhöfnin verði fyrir heyrnarskaða. Hljóðþrýstistig hljóðmerkja frá eigin skipi skal ekki vera hærra en 110 dB (A) á þeim stöðum, sem hlustað er um borð, og ef það er framkvæmanlegt ætti það ekki að vera hærra en 100 dB (A).

f. Skip útbúin fleiri en einni flautu. Ef skip eru búin flautum, sem eru í meira en 100 metra innbyrðis fjarlægð, skal koma þeim svo fyrir, að þær gefi ekki hljóð frá sér samtímis.
g. Samsett flautukerfi. Ef hljóðsvið einu flautunnar um borð eða einnar af flautunum, sem fjallað er um í lið 1 f. að framan, virðist hafa svæði með mjög skertu hljóðmagni, vegna hindrunar, þá er mælt með að setja upp samsett flautukerfi til þess að bæta úr þessari truflun. Eftir skilningi reglnanna er litið á samsett flautukerfi sem einstaka flautu. Í samsettum flautukerfum má ekki vera meira en 100 metrar á milli flautanna og flauturnar skulu þannig útbúnar, að þær gefi samtímis hljóð. Tíðni hverrar einstakrar flautu skal víkja a.m.k. um 10 rið frá tíðni annarrar.
2. Klukkur og málmtrumbur.
a. Hljóðstyrkur. Skipsklukka eða málmtrumba eða önnur tæki, sem hafa svipuð hljóðeinkenni, skulu gefa frá sér hljóðþrýstistig, sem sé a.m.k. 110 dB í eins metra fjarlægð.
b. Gerð. Skipsklukkur og málmtrumbur skulu smíðaðar úr efni, sem stenst ryð, og þannig gerðar, að þær gefi tæran tón. Þvermál klukkunnar að neðan skal ekki vera minna en 300 mm á skipum 20 metra löngum eða lengri, og ekki minni en 200 mm á skipum, sem eru 12 metrar að lengd eða lengri en styttri en 20 metrar. Þar sem það er framkvæmanlegt er mælt með að nota vélknúinn kólf til þess að tryggja jafnan kraft í klukkuslögunum en þannig klukku skal þó vera unnt að hringja með handafli. Efnismassi kólfsins skal að minnsta kosti vera 3 af hundraði af efnismassa klukkunnar.
3. Samþykki. Gerð hljóðgjafatækja, hljómburður þeirra og uppsetning þeirra um borð í skipinu skal uppfylla þær kröfur, sem settar eru af hlutaðeigandi opinberum yfirvöldum í landi því, sem á þjóðfána þann, sem skipinu er heimilt að bera.

IV. Viðauki.

Neyðarmerki.

1. Eftirfarandi merki gefa til kynna, hvort sem þau eru notuð saman eða hvert fyrir sig, að skip sé í sjávarháska og þarfnist aðstoðar:
a. Byssuskot eða annað hvellmerki hleypt af með hér um bil einnar mínútu millibili.
b. Notkun hvers konar þokumerkjatækis í sífellu.
c. Flugeldar eða sprengjur, sem varpa frá sér rauðum stjörnuljósum, og er þeim skotið einu í einu með stuttu millibili.
d. Merkið ... -- -- -- ... (SOS) eftir Morsekerfi, sent með loftskeytatækjum eða öðrum merkjasenditækjum.
e. Orðið ,,Mayday`` kallað út í talstöð.
f. Alþjóðaneyðarmerki sent með merkjaflöggunum N.C.
g. Neyðarmerki, sem er ferhyrndur fáni og kúla eða eitthvað, sem líkist kúlu, fyrir ofan eða neðan fánann.
h. Bál á skipinu (svo sem frá logandi tjörutunnu, olíutunnu o.s.frv.).
i. Fallhlífarflugeldar eða handblys, er sýna rautt ljós.
j. Reykmerki, sem gefur frá sér rauðgulan reyk.
k. Hægar og endurteknar hreyfingar upp og niður með útréttum handleggjum.
l. Loftskeyta-vekjaramerkið.
m. Talstöðvar-vekjaramerkið.
n. Merki, sem send eru frá neyðarradíóbauju, er gefur staðarákvörðun.
[o. Viðtekin merki sem send eru frá fjarskiptakerfum.]1)
2. Framangreind merki má ekki sýna eða gefa, nema í þeim tilgangi einum að gefa til kynna, að skip sé í sjávarháska og þarfnist aðstoðar; notkun annarra merkja, sem rugla má saman við neyðarmerkin, eru bönnuð.
3. Athygli er vakin á köflum um neyðarmerki í Alþjóðlegri merkjabók, handbók um leit og björgun skipa, og svo á eftirfarandi merkjum:
a. dúk, sem er rauðgulur og annað hvort með svörtum ferningi og hring eða öðru heppilegu tákni (til auðkenningar úr lofti);
b. litarefni, sem sett er í sjóinn.

1)L. 25/1990, 2. gr.