Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 122a. Uppfært til 1. febrúar 1998.
Nú verður ágreiningur um það hvort kennari eða skólastjóri skuli sæta ákvæðum laga þessara og sker þá menntamálaráðherra úr. Ef starfsmaður vill eigi hlíta úrskurði ráðherra getur hann borið málið undir dómstóla og skal þá höfða mál á hendur menntamálaráðherra.
Ráðningarsamningar skulu vera skriflegir. Þeir skulu gerðir á samræmd eyðublöð sem Samband íslenskra sveitarfélaga lætur í té. Tekið skal fram hvort um er ræða skipun eða ráðningu með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Starfsmaður á rétt á að fá í hendur afrit af fullgildum ráðningarsamningi sínum.
Nú hefur umsækjandi um starf hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað, slíkan sem um ræðir í 1. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga, og telst hann þá ekki fullnægja starfsskilyrðum.
Konur og karlar hafa jafnan rétt til að fá ráðningu eða skipun í kennara- eða skólastjórnendastörf við grunnskóla og til sömu launa fyrir sömu störf.
Veita skal umsækjendum og stéttarfélögum kennara og skólastjórnenda sem starfa á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna kost á að fá vitneskju um það hverjir sótt hafa.
Rétt er að veita starfsmanni lausn um stundarsakir ef hann hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi sínu, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykir að öðru leyti ósæmileg, óhæfileg eða ósamrýmanleg því starfi. Þó skal veita starfsmanni áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en honum er veitt lausn um stundarsakir samkvæmt þessari málsgrein.
Nú hefur starfsmaður fjárreiður eða bókhald með höndum og má þá veita honum lausn um stundarsakir án áminningar ef ætla má eða víst þykir að óreiða sé á bókhaldi eða fjárreiðum, bú hans tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga. Sama er ef hann er grunaður eða sannur orðinn að háttsemi er varða kynni sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga eða heilsu hans er svo farið að eigi þyki gerlegt að láta hann gegna starfa lengur.
Lausn um stundarsakir skal jafnan vera skrifleg með tilgreindum ástæðum.
Úrslit um stöðuna skulu ráðin strax og lokaniðurstöður rannsóknar eru kunnar.
Nú fellur niður lausn um stundarsakir og skal starfsmaður þá fá greiddan þann helming hinna föstu launa er hann hefur verið sviptur.
Nú tekur sá sem lausn hefur fengið um stundarsakir aftur við starfa sínum og skal þá líta svo á um starfsaldur sem hann hafi gegnt starfanum óslitið.
Í lausnarbréfi skal jafnan kveðið á um það frá hvaða degi starfsmaður skuli lausn taka og með hvaða kjörum, svo sem um eftirlaun, sé um þau að ræða, lífeyri, hvenær hann skuli sleppa íbúð, jarðnæði o.s.frv., eftir því sem við á.
Rétt er þeim er vikið er úr stöðu að bera málið undir úrlausn dómstóla. Stefna skal sveitarsjóði fyrir hönd sveitarfélags.
Nú er stöðumissir dæmdur óréttmætur og fer þá um bætur til aðila eftir ákvörðun dómstóla, nema hlutaðeigendur hafi komið sér saman um annað. Þegar bætur eru metnar skal hafa til hliðsjónar ástæður starfsmanns, svo sem aldur og atvinnumöguleika, svo og fram komnar málsbætur sveitarstjórnar.
Heimilt er þó starfsmanni að láta af störfum með rétti til eftirlauna og/eða lífeyris hvenær sem er eftir að hann er orðinn 65 ára eða fyrr ef hann hefur unnið sér þann rétt samkvæmt öðrum lögum.
Ef sama staða er aftur stofnuð innan fimm ára á starfsmaður að öðru jöfnu rétt til hennar.
Nú hefur maður verið leystur frá starfi vegna þeirra orsaka sem um getur í grein þessari eða annarra atvika sem honum verður ekki sök á gefin og skal hann þá í fimm næstu ár að öðru jöfnu sitja fyrir um starf í þjónustu sveitarfélaga, er losna kann, ef hann sækir um það.
Starfsaldur hans áður og eftir skal þá saman lagður og veitir þá sömu réttindi sem óslitin þjónusta.
Nú tekur maður, er launagreiðslna nýtur skv. 1. mgr., við starfi í þjónustu sveitarfélaga áður en liðinn er sex eða tólf mánaða tíminn og skulu þá launagreiðslur samkvæmt þessari grein falla niður ef laun þau er nýja starfinu fylgja eru jöfn eða hærri en þau er hann naut í fyrri stöðunni. Ef launin í nýju stöðunni eru lægri skal greiða starfsmanni launamismuninn til loka sex eða tólf mánaða tímabilsins.
Ákvæði ráðningarsamnings, sem gerður hefur verið fyrir gildistöku laga þessara, eða sérákvæði í lögum, er öðruvísi kveða á, skulu standa.
Haldast skulu sérreglur í lögum og ráðningarsamningum um orlof tiltekinna starfsmanna, sbr. 15. gr. Þó sé það aldrei skemmra en lágmark það sem ákveðið er í orlofslögum og kjarasamningum.
Starfsmönnum er skylt að hlíta breytingum á launakjörum sínum samkvæmt lögum eða samþykktum, staðfestum af hlutaðeigandi sveitarstjórn, þar sem heimild er til slíks að lögum, enda standi ráðningarsamningur því eigi í gegn.
Nú fær starfsmaður launahærri stöðu en hann hafði áður og tekur hann þá lægstu laun í hinni nýju stöðu ef þau eru hærri en hæstu laun í hinni fyrri. En ef byrjunarlaun í nýju stöðunni eru jöfn eða lægri en þau er hann hafði þá í hinni fyrri tekur hann næstu laun fyrir ofan þau er hann hafði þar. Starfsaldur til launahækkunar í nýju stöðunni telst frá því er hann fékk skipun eða setningu í hana.
Nú tekur starfsmaður við sams konar stöðu og hann hafði áður og telst starfsaldur hans þá frá skipun eða ráðningu í hina eldri stöðuna.
Nú tekur starfsmaður verr launaða stöðu í sömu starfsgrein en hann hafði áður og fær hann þá laun í nýju stöðunni sem næst eru þeim launum eða hærri en þau laun er hann hafði í fyrri stöðunni. Ef hann tekur stöðu í annarri starfsgrein fær hann hæstu laun þar ef þau eru lægri eða jafnhá þeim er hann hafði. En ef þau eru hærri tekur hann þau er hann hafði í eldri stöðunni.
Nú tekur starfsmaður við stöðu aftur sem hann hafði farið úr og er þá rétt að telja saman allan starfstímann.
Nú tekur maður við starfa eftir fyrsta dag mánaðar og fær hann þá laun í réttu hlutfalli við tölu þeirra daga sem eftir eru af þeim mánuði.
Nú tekur maður sem látið hefur af starfi vegna vanheilsu aftur við starfi í starfsgrein og skal þá starfsaldur hans áður og eftir lagður saman og veitir þá sama rétt og óslitin þjónusta.
Um greiðslu til maka látins starfsmanns fer eftir ákvæðum 1. mgr.
Samsvarandi ívilnun má og öðrum veita er sérstaklega er farið, svo sem vegna heilsuveilu.
Þrátt fyrir ákvæði laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna er skólastjórum og staðgenglum þeirra óheimilt að gera verkfall. Fyrir 1. febrúar ár hvert skal sveitarstjórn birta lista yfir þá sem falla undir málsgrein þessa.
Ágreiningur um það hvort maður falli undir ákvæði 2. mgr. þessarar greinar skal lagður fyrir Félagsdóm sem sker úr honum til fullnustu.
Starfsmanni er skylt að vinna án endurgjalds yfirvinnu allt að tvöföldum þeim tíma er hann hefur verið frá starfi án gildra forfalla eða hlíta því að dregið sé af launum sem því nemur.
Nú sýnir starfsmaður óstundvísi og vanrækslu í starfi sínu og lætur ekki skipast við áminningu yfirboðara og varðar það brottvikningu um stundarsakir eða fyrir fullt og allt ef miklar sakir eru.
Áður en starfsmaður stofnar til atvinnurekstrar, hyggst taka við starfi í þjónustu annars aðila en sveitarfélags gegn varanlegu kaupi eða ganga í stjórn atvinnufyrirtækis ber honum að skýra sveitarstjórn eða eftir atvikum skólastjóra frá því. Innan tveggja vikna skal honum skýrt frá því ef áðurnefnd starfsemi telst ósamrýmanleg stöðu hans og honum bannað að hafa hana með höndum.
Rétt er að banna starfsmanni slíka starfsemi sem í 2. mgr. segir ef síðar er leitt í ljós að hún fer ekki saman við starf hans í þjónustu sveitarfélags.