Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 120a. Uppfært til febrúar 1996.


Lög um framhaldsskóla

1988 nr. 57 19. maí


I. kafli.
Gildissvið.
1. gr.
     Lög þessi taka til náms á framhaldsskólastigi er tekur við af skyldunámsstigi og allt til háskólastigs, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1974, um skólakerfi. Framhaldsskólar er samnefni þeirra skóla er undir lög þessi falla. Þeir eru: menntaskólar, fjölbrautaskólar, iðnfræðsluskólar svo og skólar sem veita sérhæft nám á framhaldsskólastigi. [Enn fremur framhaldsdeildir við grunnskóla sem menntamálaráðuneytið hefur heimilað og mun heimila.]1) Einstakar skólastofnanir geta borið sérstakt nafn, t.d. tengt stað, hefð eða sérstöku hlutverki.
     Setja skal reglugerð2) um sérskóla sem starfa samkvæmt lögum þessum.

1)L. 72/1989, 1. gr.2)Rg. 451/1988 (Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum).


II. kafli.
Hlutverk.
2. gr.
     Hlutverk framhaldsskóla er eftirfarandi:
— að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðissamfélagi með því að skapa skilyrði til náms og þroska við allra hæfi,
— að búa nemendur undir störf í atvinnulífinu með sérnámi er veiti starfsréttindi,
— að búa nemendur undir nám í sérskólum og á háskólastigi með því að veita þeim þekkingu og þjálfun í vinnubrögðum.


III. kafli.
Stofnun og bygging framhaldsskóla.
3. gr.
     Ríki eða sveitarfélög, eitt eða fleiri, geta haft frumkvæði að stofnun nýs framhaldsskóla, en skóli verður þó eigi stofnaður nema með samþykki Alþingis. Ákvæði þetta á þó ekki við um skóla sem stofnaðir kunna að verða samkvæmt ákvæðum 38. gr.
     Standi ríki og sveitarfélag/félög sameiginlega að stofnun framhaldsskóla skal gera samning milli aðila um nýframkvæmdir, stofnbúnað og endurbyggingu húsnæðis sem ríki og sveitarfélög samþykkja að standa að vegna framhaldsskóla. Þar skulu m.a. vera ákvæði um stjórn hönnunar og framkvæmda, hönnun, byggingarhraða og greiðslustreymi. Heimilt er að fela sveitarfélögum, sem aðild eiga að framhaldsskóla, að fara með undirbúning og umsjón með byggingarframkvæmdum.
     Samningar um framkvæmdir skulu undirritaðir af menntamálaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum hins vegar. Fjármálaráðherra skal kynna fjárveitinganefnd slíka samninga.
     Kostnaður við byggingarframkvæmdir og stofnbúnað framhaldsskóla skiptist þannig að ríkissjóður greiðir 60% áætlaðs kostnaðar samkvæmt viðmiðunarreglum (normkostnaðar) þegar sveitarfélag eða sveitarfélög annast ráðningu hönnuða og verkframkvæmd. Hlutur sveitarfélags eða sveitarfélaga er þá sá hluti kostnaðar sem ríkissjóður greiðir ekki. Þegar ríkissjóður ber ábyrgð á hönnun verks og stjórnar framkvæmdum án íhlutunar sveitarfélags eða sveitarfélaga greiðir sveitarfélag eða sveitarfélög 40% miðað við normkostnað en ríkissjóður hinn hlutann. [Kostnað við byggingu heimavistar greiðir ríkissjóður að fullu.]1) Heimilt er ráðuneytinu að semja um aðra kostnaðaraðild þegar um búnað verknámshúsnæðis er að ræða, að fengnu samþykki fjárveitinganefndar. Verði greiðslur eigi inntar af hendi samtímis reiknast verðbætur á ógreidd framlög í hlutfalli við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar.
     [Heimilt er með samþykki Alþingis að víkja frá meginreglum um kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga þegar skóli er í fámennu sveitarfélagi og ekki hefur tekist að fá nærliggjandi sveitarfélög til þess að sameinast um byggingu framhaldsskóla.]1)
     Um undirbúning framkvæmda og málsmeðferð gilda eftir því sem við á ákvæði laga nr. 49/1967, um skólakostnað, og reglugerða sem gefnar eru út samkvæmt þeim lögum2) og þessum lögum.
     Þar sem heimavistir verða reistar í tengslum við framhaldsskóla má gerð húsnæðis og búnaðar miðast við að nýta megi aðstöðuna til gistihúsarekstrar utan reglulegs skólatíma. Um umframkostnað, sem af því kann að leiða, skal samið sérstaklega milli byggingaraðila. Um notkun heimavistarhúsnæðis utan skólatíma skal gerður sérstakur samningur og hann staðfestur af menntamálaráðuneytinu.
     Menntamálaráðuneytið skal í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja viðmiðunarreglur um stærð og gerð húsnæðis fyrir framhaldsskóla og láta gera fyrirmyndir að hönnun og verksamningum.

1)L. 72/1989, 2. gr.2)Rg. 345/1978 (um stofnkostnað skólamannvirkja).


4. gr.
     Skólamannvirki þau, sem lög þessi taka til, skulu vera eign ríkis og sveitarfélaga í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur eða hefur verið greiddur sé um eldra húsnæði að ræða.
     Verði húsnæði framhaldsskóla ráðstafað til annarra nota en framhaldsnáms skulu eignaraðilar gera með sér samkomulag þar um. Verði eign seld öðrum hvorum eignaraðila skal hún metin af dómkvöddum mönnum.

IV. kafli.
Stjórnun.
5. gr.
     Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra mála er lög þessi taka til og annast námsskrárgerð, kennslueftirlit og ráðgjöf um þróunarstörf er snerta framhaldsskóla.
     Ráðuneytið gerir tillögur um fjárveitingu á fjárlögum til hvers skóla, sbr. 3. og 32. gr., og annast fjárhagslegt eftirlit eftir því sem við á.

6. gr.
     Samstarfsnefnd framhaldsskóla, skipuð skólameisturum (rektorum) undir forsæti menntamálaráðherra eða staðgengils hans, fjallar um sameiginleg málefni framhaldsskóla og samræmir störf þeirra. ...1)
     [Nefndin skipuleggur samstarf framhaldsskóla og fjallar hún m.a. um verkaskiptingu, samvinnu um fagstjórn svo og önnur mál sem snerta samstarf skóla. Menntamálaráðherra getur skipt nefndinni í hópa til að fjalla um samstarf, verkaskiptingu og skipulag skóla í einstökum landshlutum eða um einstaka málaflokka.
     Heimilt er menntamálaráðherra að skipta landinu í framhaldsskólasvæði að höfðu samráði við viðkomandi skólanefndir og skólastjórnir. Reglugerð samkvæmt þessari grein skal sett að höfðu samráði við sömu aðila.
     Nánar skal kveðið á um verksvið og starfshætti samstarfsnefndar í reglugerð.]1)

1)L. 72/1989, 3. gr.


7. gr.
     [Menntamálaráðherra skipar skólanefnd við hvern framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd skulu sitja sjö menn: tveir fulltrúar starfsmanna kosnir á starfsmannafundi, einn fulltrúi kosinn af nemendum skólans, þrír fulltrúar tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi eða samtökum sveitarfélaga í viðkomandi landshluta og einn fulltrúa skipar ráðherra án tilnefningar. Fulltrúi nemenda skal þó kosinn til eins árs. Varamenn skulu valdir með sama hætti. Nefndin velur sér formann til tveggja ára í senn.
     Tveir skólar eða fleiri í sama kjördæmi eða landshluta geta sameinast um eina skólanefnd.]1)
     Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar.

1)L. 72/1989, 4. gr.


8. gr.
     Skólanefnd og skólameistari ákveða námsframboð með samþykki menntamálaráðuneytis.
     Skólanefnd undirbýr árlega ásamt skólameistara tillögur til fjárlaga og sendir þær menntamálaráðuneytinu. Í upphafi hvers árs gerir skólanefnd fjárhagsáætlun í samræmi við niðurstöður fjárlaga og fylgist með að henni sé framfylgt.
     Skólanefnd ákveður upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga svo sem innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld og nemendasjóðsgjöld. Halda skal bókhald um fjárreiður þessar og um endurskoðun gilda sömu reglur og um annan rekstur.
     Heimilt er skólanefnd að stofna sérstaka sjóði við framhaldsskóla. Skal um þá sett skipulagsskrá, leitað staðfestingar á henni og hún birt í Stjórnartíðindum.1)

1)Rg. 429/1986.


9. gr.
     Skólameistari stjórnar daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gætir þess að starfsemi hans sé í samræmi við lög, reglugerðir, námsskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma og ber ábyrgð á að fylgt sé fjárhagsáætlun skólans.
     [Skólastjórn skal vera skólameistara til aðstoðar við stjórn skóla og rekstur. Skólameistari er oddviti skólastjórnar sem auk hans skal skipuð fulltrúum kennara, nemenda svo og aðstoðarskólameistara og áfangastjóra starfi þeir við skólann.]1)
     Um skipan [skólastjórnar],1) verksvið þess,2) starfstíma og starfshætti skal nánar kveðið á um í reglum sem menntamálaráðuneyti setur.

1)L. 72/1989, 5. gr.2)Á væntanlega að vera „verksvið hennar“.


[10. gr.
     Almennur kennarafundur í framhaldsskóla fjallar um stefnumörkun, um námsskipan, kennsluhætti og aðra starfsemi. Nánar skal ákvarðað um verksvið þeirra í reglugerð.]1)

1)L. 72/1989, 6. gr.


[11. gr.]1)
     Í hverjum framhaldsskóla skal starfa nemendaráð sem er fulltrúi nemenda í hagsmunamálum þeirra. Nemendaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um markmið náms, námsefni og kennslutilhögun í skóla sínum og gerir tillögu til skólanefndar um nemendasjóðsgjöld. Almenn samtök nemenda í hverjum skóla setja reglur um skipan, starfssvið og starfshætti nemendaráðs.

1)L. 72/1989, 6. gr.


V. kafli.
Starfslið.
12. gr.
     Um fjölda starfsmanna og skiptingu starfa fer eftir stærð og gerð skóla og fjárveitingu hverju sinni. Heimilt er að fela ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla að annast hliðstæða starfsemi fyrir framhaldsskóla.
     [Menntamálaráðherra setur eða skipar skólameistara (rektor) að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólanefndar. Menntamálaráðherra skipar kennara, námsráðgjafa og skólasafnverði að fengnum tillögum skólanefndar og skólameistara hlutaðeigandi skóla.
     Skólameistari ræður, að fengnum tillögum skólanefndar, kennara, námsráðgjafa og skólasafnverði. Hafi umsækjandi um stöðu kennara ekki réttindi til kennslu við framhaldsskóla skal undanþágunefnd framhaldsskóla send beiðni um undanþágu frá ákvæðum laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, um að lausráða hann til bráðabirgða enda sé ekki völ á kennara með full kennsluréttindi.
     Skólameistari ræður stundakennara og aðra starfsmenn.
     Skólameistari ræður aðstoðarskólameistara til fimm ára í senn og áfangastjóra til allt að fjögurra ára og deildarstjóra til tveggja ára að höfðu samráði við skólanefnd. Leggja skal þá ákvörðun fyrir menntamálaráðuneytið til staðfestingar.]1)

1)L. 72/1989, 7. gr.


13. gr.
     Um skilyrði til þess að vera settur eða skipaður skólameistari eða kennari við framhaldsskóla fer eftir ákvæðum laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, nr. 48/1986. [Setja skal í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið námsráðgjafa og skólasafnvarða. Setja má í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið annarra starfsmanna.]1)
     [Menntamálaráðuneytið setur skólameisturum, kennurum, námsráðgjöfum og skólasafnvörðum erindisbréf.]1)

1)L. 72/1989, 8. gr.


14. gr.
     [Hafi kennari starfað, ráðinn, settur eða skipaður, a.m.k. í fimm ár og óski að fá sérstakt orlof til að efla þekkingu sína og kennarahæfni skal hann senda skólanefnd og menntamálaráðuneyti beiðni um orlof ásamt greinargerð um hvernig hann hyggst verja orlofstímanum. Ráðuneytið getur veitt honum orlof allt að einu ári á föstum embættislaunum.]1)
     Menntamálaráðuneytið getur veitt kennara, er orlofs nýtur, styrk til að standa straum af kostnaði við ferðalög og námsdvöl í sambandi við orlofið ef hann ver því til að stunda reglulegt nám við viðurkennda menntastofnun eða til námsferðar njóti hann ekki sambærilegs styrks frá öðrum. Beiðni um orlof skal hafa borist menntamálaráðuneytinu fyrir 1. nóvember ár hvert.
     Að loknu orlofi er kennurum skylt að senda ráðuneytinu skýrslu um störf sín á orlofstíma. Menntamálaráðuneytið setur reglugerð um framkvæmd orlofs kennara.
     Ákvæði þessarar greinar taka einnig til skólameistara og annarra stjórnenda skóla.

1)L. 72/1989, 9. gr.


15. gr.
     Í öllum framhaldsskólum skal vera heilsuvernd.
     Héraðslæknar hafa umsjón með þessari starfsemi undir yfirstjórn heilbrigðisstjórnar og líta eftir að aðbúnaður og aðstaða nemenda og starfsmanna sé viðhlítandi.
     Starfsfólk við heilsuvernd í skólum skal hafa náið samstarf við skólameistara um framkvæmd heilsuverndar í skólanum.
     Sé heilsugæslustöð starfandi í nágrenni skóla er heimilt að fela henni að annast heilsuverndina.

VI. kafli.
Inntökuskilyrði.
16. gr.
     Allir, sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun, eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla að fullnægðum kröfum um starfsþjálfun þar sem hennar er krafist. ...1)
     Nemandi, sem orðinn er 18 ára gamall, getur hafið nám í framhaldsskóla án þess að fullnægja inntökuskilyrðum samkvæmt þessari grein nema að því er varðar starfsþjálfun. ...1) Inntaka nemenda í skóla er á ábyrgð skólameistara.

1)L. 72/1989, 10. gr.


VII. kafli.
Námsskipan.
17. gr.
     Nám í framhaldsskóla skal fara fram á námsbrautum sem skilgreindar eru eftir markmiðum námsins að því er varðar undirbúning til starfa eða áframhaldandi náms. Stefnt skal að því að nemendur eigi völ á námsefni og kennslu í samræmi við þarfir sínar og óskir.
     Í námsskrá skal kveða á um markmið náms á hverri námsbraut, námslok svo og um skiptingu námsefnis í brautarkjarna og valgreinar. Í námsskrá skal kveðið á um einingafjölda til stúdentsprófs.
     Af öllum námsbrautum skulu vera leiðir til frekara náms, annaðhvort beinar eða með skilgreindri viðbót námsáfanga. Jafnframt skulu vera sem greiðastar leiðir milli námsbrauta.

18. gr.
     Í framhaldsskóla skal á öllum námsbrautum fara saman nám sem lýtur að almennri menntun og sérhæft nám í samræmi við markmið brautarinnar. Lögð skal áhersla á tengsl verklegra og bóklegra þátta námsins. Auk skyldunámsefnis skal heimilt að gefa nemendum kost á valgreinum að uppfylltum skilyrðum sem sett skulu í námsskrá.

19. gr.
     Námsefni framhaldsskóla skal skipað í skilgreinda námsáfanga sem metnir skulu til eininga eftir umfangi námsefnis. Námseining skal skilgreind í námsskrá. Þrátt fyrir skiptingu námsefnis í áfanga geta skólar, sem þess óska, haft bekkjakerfi.
     Leitast skal við að hafa námsefni og kennslu hvers áfanga þannig að hann nýtist sem hluti af námi á sem flestum námsbrautum. Þó skal þess gætt að samræmi sé ávallt á milli markmiðs námsbrautar og kennslu námsgreina.

20. gr.
     Um námsáfanga, markmið þeirra, megininntak, umfang og skipan á námsbrautir skal ákveðið í námsskrá sem menntamálaráðuneytið setur. Námsáfangar í sama eða sambærilegu námsefni skulu jafngildir á öllum brautum þar sem þeir eru hluti af náminu. Sé verkþjálfun liður í námsáfanga skal hún metin til eininga í námsskrá.

21. gr.
     Í námsskrá skal mælt fyrir um námsmat, þar með talið próf og vitnisburðir. Þar skulu tilgreind skilyrði til þess að flytjast milli áfanga og lágmarkskröfur til þess að standast tiltekin lokapróf. Í námsskrá skulu birtar reglur um rétt nemenda til að sjá prófúrlausnir sínar og hvernig nám skal metið þegar nemendur flytjast milli skóla.

22. gr.
     Fræðsla skal veitt í löggiltum iðngreinum og öðrum iðnaði samkvæmt nánari ákvæðum í námsskrá. Í reglugerð skal kveða á um hverjar skuli vera löggiltar iðngreinar.1)
     Menntamálaráðherra skipar Iðnfræðsluráð til fjögurra ára í senn og skal það vera til ráðuneytis um mótun heildarstefnu og skipulag í iðnfræðslu, löggiltum iðngreinum og verksmiðjuiðnaði. Iðnfræðsluráð skal skipað níu mönnum. Skulu tveir þeirra vera iðnmeistarar, tilnefndir af Landssambandi iðnaðarmanna, tveir iðnsveinar og einn fulltrúi iðnverkafólks, tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands. Félag íslenskra iðnrekenda tilnefnir einn, Samband iðnfræðsluskóla einn og Iðnnemasamband Íslands einn. Menntamálaráðherra skipar formann án tilnefningar. Varamenn skulu valdir með sama hætti og aðalmenn. Iðnfræðsluráð veitir umsögn um tillögur að námsskrám í verklegum og bóklegum faggreinum og að stöðlum um búnað og aðstöðu og gerir tillögur um skipulag kennslueftirlits í iðngreinum. Iðnfræðsluráð gerir tillögur til menntamálaráðuneytisins um reglur varðandi framkvæmd námssamninga. Nánar skal kveðið á um hlutverk Iðnfræðsluráðs í reglugerð sem menntamálaráðuneytið setur.

1)Rg. 558/1981 (um iðnfræðslu), sbr. rg. 40/1973. Rg. 102/1990, sbr. 157/1992, 240/1993 og 581/1994, (um löggiltar iðngreinar o.fl.).


23. gr.
     Menntamálaráðherra skipar fræðslunefndir í einstökum iðngreinaflokkum til fjögurra ára í senn. Nefndirnar fjalla um tilhögun fræðslunnar hver á sínu sviði og gera tillögur að námsskrám. Iðnfræðsluráð tilnefnir þrjá fulltrúa í hverja nefnd en ráðherra skipar formann og ritara. Verði því við komið skulu sömu menn gegna þeim störfum í öllum nefndunum til þess að tryggja nauðsynlega samræmingu og hagkvæmni á námsskipan iðn- og tæknibrauta. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti og aðalmenn.

24. gr.
     Heimilt er skólanefnd að gera samninga við iðnmeistara, fyrirtæki eða stofnun um að annast tiltekna þætti verklegrar menntunar í samstarfi við framhaldsskóla. Slíkir samningar skulu staðfestir af menntamálaráðuneytinu og hefur ráðuneytið yfirumsjón með framkvæmd þeirra.
     Heimilt er iðnmeisturum að taka nemendur til verklegs náms í löggiltum iðngreinum og skal gera um það sérstaka námssamninga. Í reglugerð, sem menntamálaráðherra setur, skal kveðið á um gerð námssamninga, réttindi og skyldur samningsaðila, námslok, próf, útgáfu prófskírteina og starfsréttindi í samræmi við lög um atvinnuréttindi iðnaðarmanna.
     Menntamálaráðuneytið getur veitt heimild til þess að umsækjandi gangi undir verklegt próf í iðngrein án skólanáms, enda liggi fyrir:
a.
umsögn viðkomandi iðnaðarmannafélags,
b.
umsögn Iðnfræðsluráðs,
c.
umsögn meistara og vottorð um að viðkomandi hafi unnið við iðnina í 10 ár.

     Standist umsækjandi prófið öðlast hann sveinsbréf sem veitir ekki réttindi til inngöngu í meistaraskóla nema hann ljúki burtfararprófi frá iðnfræðsluskóla í faggreinum iðngreinarinnar.

25. gr.
     Skylt er menntamálaráðuneytinu að halda uppi framhaldsnámi fyrir iðnsveina til meistaraprófs í því skyni að veita þeim aukna þekkingu í starfsgrein sinni, stjórnun og rekstri fyrirtækja.1)
     Setja skal í námsskrá, sbr. 17., 20. og 21. gr., nánari ákvæði um nám til meistaraprófs.
     Um námsgjöld vegna náms samkvæmt þessari grein gilda ákvæði IX. kafla.

1)Sbr. rg. 98/1988 (um meistaranám og útgáfu meistarabréfa).


26. gr.
     Menntamálaráðherra skipar fræðsluráð sjávarútvegs til fjögurra ára í senn og skal það skipað átta mönnum. Ráðið skal skipað með eftirfarandi hætti: Einum fulltrúa sölusamtaka í sjávarútvegi tilnefndum af Útflutningsráði Íslands, einum fulltrúa útvegsmanna tilnefndum af Landssambandi íslenskra útvegsmanna, einum fulltrúa samtaka sjómanna tilnefndum sameiginlega af Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, einum fulltrúa fiskvinnslufólks tilnefndum af Verkamannasambandi Íslands, einum fulltrúa rannsóknastofnana í sjávarútvegi tilnefndum sameiginlega af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnuninni, einum fulltrúa fiskeldisstöðva tilnefndum af Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, einum fulltrúa menntamálaráðuneytisins og einum fulltrúa sjávarútvegsráðuneytisins. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti og aðalmenn.
     Fræðsluráð velur sér formann og varaformann úr hópi ráðsmanna. Fræðsluráð sjávarútvegs mótar í samvinnu við menntamálaráðuneytið heildarstefnu og fræðsluskipulag í sjávarútvegs- og fiskeldisgreinum og veitir umsögn um tillögur að námsbrauta- og áfangalýsingum í verklegum og bóklegum faggreinum tengdum sjávarútvegi.

27. gr.
     Til að tryggja sem víðtækust samráð við atvinnulífið er menntamálaráðuneytinu heimilt að skipa sérstakar ráðgjafarnefndir til viðbótar þeim sem nefndar eru í 22. og 26. gr. til að vera ráðuneytinu til aðstoðar við framkvæmd laga þessara. Kveðið skal á um starfssvið og skipan slíkra nefnda í reglugerð.

28. gr.
     Nám, sem krafist er til þess að öðlast atvinnuréttindi, skal skipulagt í samvinnu við stofnanir og/eða þá sérskóla á framhaldsskólastigi sem starfa samkvæmt sérstökum reglugerðum. Auk starfsréttinda skal námið veita rétt til frekara náms. Nánari ákvæði hér að lútandi skulu tilgreind í námsskrá, sbr. 17. og 20. gr. Starfi sérstök fræðsluráð tengd atvinnuvegum skulu þau vera umsagnaraðilar um hlutaðeigandi námsbrauta- og áfangalýsingar, sbr. 22. gr. og 26. gr.

29. gr.
     Í öllum framhaldsskólum skal vera skólasafn. Hlutverk þess er að vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Það skal búið bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist kennslugreinum skóla.

30. gr.
     Á framhaldsskólastigi skal veita fötluðum nemendum, samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu fatlaður í 2. gr. laga nr. 41/1983,1) um málefni fatlaðra, kennslu og þjálfun við hæfi og sérstakan stuðning í námi. Í því skyni skal látin í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður eftir því sem þörf krefur að mati menntamálaráðuneytisins. Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.
     Heimilt er að stofna sérskóla fyrir þroskahefta nemendur. Menntamálaráðuneytið setur reglugerð með nánari ákvæðum um framkvæmd kennslu og nám fatlaðra nemenda.

1)l. 59/1992.


31. gr.
     Árlegur starfstími framhaldsskóla skal eigi vera skemmri en níu mánuðir. Menntamálaráðuneytið setur árlega nánari reglur um skiptingu starfstíma skóla.

VIII. kafli.
Rekstur framhaldsskóla.
32. gr.
     [Ríkissjóður greiðir samkvæmt lögum þessum rekstrarkostnað framhaldsskóla. Hver skóli er sjálfstæð rekstrareining og hefur sérstaka fjárveitingu á fjárlögum.
     Ríkissjóður greiðir allan launakostnað við kennslu sem fram fer og skipulögð er í samræmi við áætlun sem samþykkt er af menntamálaráðuneytinu.
     Við ákvörðun fjárveitinga til kennslu í framhaldsskólum skal miða við grunntöluna 1,7 til 2,0 kennslustundir á viku á hvern nemanda í fullu bóknámi eftir stærð og gerð skóla. Þessu til viðbótar skal koma sá stundafjöldi sem nauðsynlegur er til að halda megi uppi kennslu í viðurkenndu verknámi og sérnámi er krefst skiptingar nemenda í smáa námshópa. Þurfi að taka tillit til sérstakra aðstæðna skal veitt sérgreint framlag til að mæta þeirri þörf.
     Auk kostnaðar við kennslu greiðir ríkissjóður launakostnað við stjórnun, námsráðgjöf, störf í skólasafni, á skrifstofu, félagsstörf, eftirlit og umsjón með heimavistum og eignum skóla og annarra þeirra starfa er nauðsynleg teljast vera.
     Ríkissjóður greiðir enn fremur laun prófdómara á lokaprófi og þann launakostnað er stafar af lækkun kennsluskyldu samkvæmt ákvörðun menntamálaráðuneytisins og annan þann kostnað er leiðir af kjarasamningum.
     Auk launakostnaðar greiðir ríkissjóður annan rekstrarkostnað af starfsemi skólans, viðhaldi húsa og tækja að frátalinni kostnaðarþátttöku nemenda, sbr. 33. gr.
     Við gildistöku laganna skal gerður samningur milli menntamálaráðuneytisins og hvers skóla um tilhögun á greiðslum til skólanna af fjárlagalið þeirra í þeim tilgangi að skólarnir taki á sig aukna rekstrarábyrgð. Rekstrarframlag, annað en kennslulaun, laun fastra starfsmanna og meiri háttar viðhalds- og stofnkostnaður, skal greitt hverjum skóla fyrir fram. Heimilt er menntamálaráðherra að semja við hvern skóla um aðra tilhögun ef aðilum þykir ástæða til.
     Menntamálaráðuneytið setur nánari reglur um ákvæði þessarar greinar þar sem m.a. skal tilgreint hvaða kennslugreinar skuli teljast verknám og sérnám. Þá skulu settar viðmiðunarreglur um vinnumagn fyrir önnur störf en kennslu er lagðar verði til grundvallar árlegum fjárveitingum.
     Heimilt er að ráða sérstakan fjármálafulltrúa til þess að annast fjárreiður skóla og bókhald og starfar hann þá undir stjórn skólameistara.]1)

1)L. 72/1989, 11. gr.


33. gr.
     Þar sem talið er nauðsynlegt að reka heimavist vegna framhaldsskóla greiðir ríkissjóður kostnað við umsjón og almennan rekstur. Nemendur bera sjálfir hluta sérgreinds kostnaðar í heimavistum, rekstri mötuneyta, skipulögðum skólaakstri og efniskaupum vegna verklegrar kennslu o.fl. samkvæmt ákvörðun skólanefndar, sbr. 8. gr., og sérstökum reglum sem menntamálaráðherra setur.
     Skólameistari og skólanefnd hafa umsjón með rekstri heimavistar og mötuneytis nemenda.
     Hagnaður af leigu skólahúsnæðis skal renna til viðhalds og endurnýjunar húsnæðis og búnaðar.

34. gr.
     [Menntamálaráðuneytið getur heimilað stofnun og starfrækslu framhaldsdeildar við grunnskóla. Námstilhögun og námsframboð í framhaldsdeildum skal vera undir faglegri stjórn þeirra framhaldsskóla er menntamálaráðuneytið ákveður.
     Ríkissjóður greiðir rekstrarkostnað framhaldsdeilda. Skal við það miðað að framlag á nemanda verði sem næst jafnhátt framlagi til þess skóla er hefur faglega stjórn námsins á hendi.
     Menntamálaráðuneytið setur nánari reglur um lágmarksfjölda nemenda og önnur grundvallarskilyrði um stofnun framhaldsdeilda.]1)

1)L. 72/1989, 12. gr.


IX. kafli.
Fullorðinsfræðsla og endurmenntun.
35. gr.
     Heimilt er framhaldsskólum að veita þeim er orðnir eru 18 ára að aldri aðgang að einstökum námsáföngum dagskóla án tillits til þess hvort þeir uppfylla skilyrði til inntöku að öðru leyti. Einnig er framhaldsskólum heimilt að stofna til sérstakra námskeiða, þar á meðal kvöldskóla (öldungadeilda), fyrir fólk sem hentar ekki að sækja reglubundna kennslu í skóla en æskir að ljúka námi hliðstæðu því sem í boði er á námsbrautum hans. Fyrir slíka kennslu skulu nemendur greiða kennslugjald sem svarar til sem næst þriðjungs kennslulauna. Nánari ákvæði um þessa starfsemi skulu sett í reglugerð.1)

1)Rg. 490/1984.


36. gr.
     Heimilt er framhaldsskólum að bjóða fram annars konar nám en 35. gr. tekur til og efna til endurmenntunarnáms, m.a. í samráði við faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- eða áhugahópa.
     Námsgjöld miðast við að nemendur greiði a.m.k. þriðjung kennslulauna. Í slíku námi er kostnaðaraðild ríkissjóðs háð samþykki menntamálaráðuneytis.

X. kafli.
Ýmis ákvæði.
37. gr.
     Samvinnuskólinn og Verslunarskóli Íslands hafa rétt til þess að reka áfram það fræðslustarf sem þeir hafa annast og til þess að auka það og sérhæfa eftir því sem aðstæður leyfa og þörf krefur.
     Um fjárveitingu úr ríkissjóði gilda sömu ákvæði og um aðra framhaldsskóla varðandi rekstrar- og stofnkostnað, sbr. 3. og 32. gr., enda hafi menntamálaráðuneytið samþykkt áætlun um rekstur skólanna og fé verið veitt í fjárlögum fyrir stofnkostnaði. Framlög ríkisins samkvæmt þessari grein miðast við að skólar þessir starfi í samræmi við meginstefnu þessara laga og samkvæmt námsskrám og reglugerðum sem settar verða.
     Verði skólar þessir lagðir niður eða húsnæði þeirra eigi nýtt til kennslu eða heimavistar fær ríkissjóður eignarráð yfir hlutaðeigandi húsnæði í samræmi við stofnkostnaðarframlög sín. Ríki ágreiningur um eignaskiptingu skal dómkveðja þrjá óvilhalla menn til þess að kveða á um skiptingu og er úrskurður þeirra endanlegur.
     Skólanefndir skulu starfa við Samvinnuskólann og Verslunarskóla Íslands. Skal einn skólanefndarmaður tilnefndur af menntamálaráðherra en eignaraðilar skipa hina. Hafa þær með höndum fjárreiður skólanna og eignaumsýslu í umboði eigenda. Skólanefndir ráða skólameistara svo og kennara í samráði við hann. Nefndin kýs sér sjálf formann og varaformann.

38. gr.
     Alþingi ákveður framlag ríkissjóðs til skóla á framhaldsskólastigi sem stofnaðir eru af einkaaðilum eða samtökum með hliðstæðum hætti og nú er um Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólann, enda uppfylli þessir skólar sams konar skilyrði um námsframboð og kennsluskipan og hafa hlotið starfsleyfi menntamálaráðuneytis.
     Ekki eiga einkaskólar kröfu til styrks af almannafé.

39. gr.
     Heimilt er að lána skólahúsnæði til félagsstarfsemi utan reglulegs skólatíma, enda greiðist fyrir leiga sem nemur a.m.k. kostnaði fyrir rafmagn, hita, ræstingu og vörslu. Skólanefnd setur almennar reglur um slíka ráðstöfun skólahúsnæðis.

[39. gr. a.
     Menntamálaráðherra er heimilt að efna til tilraunastarfs í starfsnámi í samráði við einstaka skóla og víkja þá frá ákvæðum þessara laga ef nauðsyn krefur. Slíkt tilraunastarf skal að jafnaði ekki skilgreint til lengri tíma en tveggja ára í senn og skal skipulagt í samvinnu við fulltrúa atvinnurekenda og launþega í viðkomandi starfsgrein.]1)

1)L. 81/1993, 1. gr.


40. gr.
     Menntamálaráðuneytið setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laga þessara.1)

1)Sjá t.d. rg. 330/1976 (Flensborgarskólinn í Hafnarfirði), sett skv. l. 14/1973 og rg. 202/1987 (Kvennaskólinn í Reykjavík), sett skv. l. 12/1970. Sjá enn fremur rg. 270/1974, sbr. 600/1982 (um menntaskóla). Rg. 102/1990 (um löggiltar iðngreinar o.fl.). Rg. 105/1990, sbr. 23/1991 og 421/1991 (um framhaldsskóla). Rg. 247/1995 (um kennslu á framhaldsskólastigi í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað).


XI. kafli.
Lög sem úr gildi falla og gildistökuákvæði.
41. gr.
     ...

42. gr.
     ...

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. þessara laga, um kostnaðarskiptingu við byggingarframkvæmdir, skulu gerðir samningar um byggingarframkvæmdir halda gildi sínu.