Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 120a. Uppfært til febrúar 1996.
Lög um fiskvinnsluskóla
1971 nr. 55 15. apríl
I. kafli.Markmið skólans.
1. gr. Meginhlutverk skólans skal vera að veita fræðslu í vinnslu sjávarafla.
Í lögum þessum nær orðið fiskur, eitt sér og í samsetningum, yfir allan fisk og auk þess krabbadýr og skeldýr.
2. gr. Skólinn skal útskrifa fiskiðnaðarmenn, fiskvinnslumeistara og fisktækna, sbr. 10. gr.
Kennsla skólans skal miða að því, að:
- 1.
- fiskiðnaðarmenn hafi öðlast nægilega undirstöðuþekkingu, bóklega og verklega, til þess að geta annast almenna verkstjórn, gæðaflokkun og stjórn fiskvinnsluvéla;
- 2.
- fiskvinnslumeistarar verði, auk þess sem um getur í 1. tölul., færir um að taka að sér eftirlitsstörf, verkþjálfun, einfalda vinnuhagræðingu og stjórnun;
- 3.
- fisktæknar verði, auk þess sem um getur í 1. og 2. tölul., færir um að annast tiltekin rannsókna- og skipulagsstörf, sbr. 4. gr.
3. gr. [Skólinn skal halda námskeið fyrir starfsfólk í hinum ýmsu greinum fiskiðnaðarins, sem miði að því að veita þeim starfsmönnum fiskiðnaðar, er vinna að móttöku og verkun sjávarafla, hagnýta fræðslu um meðferð og vinnslu aflans. Námskeið þessi skulu haldin í verstöðvum landsins eftir því sem við verður komið. Skólinn skal einnig, þegar þörf krefur, halda námskeið til endurmenntunar matsmanna verkaðs sjávarafla, svo og til þjálfunar og menntunar nýrra matsmanna.
Fela skal skólanum að hafa námskeið í meðferð sjávarafla fyrir nemendur sjómannaskóla.
Skólinn skal hafa samráð við Framleiðslueftirlit sjávarafurða um námskeiðahald fyrir matsmenn samkvæmt þessari grein.]1)
1)L. 18/1981, 1. gr.
4. gr. Heimilt er að stofna til framhaldsdeilda við skólann, er m.a. veiti viðbótarkennslu í sérgreinum fiskiðnaðarins, svo sem niðursuðu, síldar- og fiskmjölsframleiðslu o.s.frv., fyrir fiskvinnslumeistara og aðra starfandi menn í fiskiðnaðinum, sem fullnægja inntökuskilyrðum, er nánar verði kveðið á um í reglugerð.
Viðbótarnámi þessu er ætlað að tryggja aukna sérhæfingu og skal reynt að haga náminu svo, að það auðveldi nemendum aðgang að frekara námi í háskóla.
II. kafli.Stjórnun, húsnæði og kostnaður.
5. gr. Skólinn skal vera sérstök stofnun undir yfirstjórn menntamálaráðuneytisins.
6. gr. Skólinn skal staðsettur á Suðvesturlandi. Auk þess skal stofnaður fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum, sem útskrifi fiskiðnaðarmenn og fiskvinnslumeistara skv. 1. og 2. tölul. 2. gr., og skal námi við skólann skipt í 3 deildir, sbr. 1.–3. tölul. 10. gr.
Á árunum 1972–1975 skal enn fremur undirbúa stofnun fiskvinnsluskóla 1. og 2. stigs á Suðurnesjum, Akranesi og í stærstu fiskiðnaðarstöðum í öðrum landshlutum.
Heimilt skal, að fengnu samþykki ráðuneytisins, að setja á stofn framhaldsdeildir við skólana utan Reykjavíkur, sbr. 4. gr., þegar skilyrði eru fyrir hendi.
Ráðuneytið skipar hverjum skóla þriggja manna skólanefnd til fjögurra ára í senn. Skal einn þeirra tilnefndur af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, annar af samtökum fiskiðnaðarins á hverjum stað, en hinn þriðja skipar ráðuneytið án tilnefningar, og skal hann vera formaður nefndarinnar.
Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
Lög þessi gilda um fiskvinnsluskóla utan Reykjavíkur, að því er varðar greiðslu kostnaðar og annað, sem við getur átt að dómi ráðuneytisins og afmarkað skal í reglugerð.
7. gr. [Menntamálaráðherra skipar sjö manna skólanefnd með þessum hætti:
- Einn nefndarmanna skal skipaður eftir tilnefningu Fiskifélags Íslands, einn eftir tilnefningu Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, einn eftir tilnefningu Fiskiðnar, fagfélags fiskiðnaðarins, einn eftir tilnefningu Fiskmatsmannafélags Íslands og einn úr hópi reglulegra nemenda skólans. Tveir nefndarmenn skulu skipaðir án tilnefningar, annar skal vera frá Framleiðslueftirliti sjávarafurða, hinn úr röðum framleiðenda.
Sjö varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Ráðherra skipar formann.
Tilnefning nemendafulltrúa gildir til eins árs, en hinna til fjögurra ára.]1)
1)L. 18/1981, 2. gr.
8. gr. Stefnt skal að því, að skólinn geti sem fyrst fengið eigið húsnæði til starfsemi sinnar, og skal þar vera aðstaða til bóklegrar og verklegrar kennslu, svo og heimavist.
9. gr. Stofn- og rekstrarkostnaður skólans skal greiddur úr ríkissjóði og kennsla veitt ókeypis.
III. kafli.Nám, próf, inntökuskilyrði, námsefni.
10. gr. Námi í skólanum skal skipt í þrjár deildir, auk framhaldsdeildar, sem heimilt verði að starfrækja, sbr. 4. gr. Heildarnámstími í hverri deild skal vera sem næst 11 mánuðir, og skiptist námið í skólanám, bóklegt og verklegt, og verklega þjálfun, sem skólinn skipuleggur á vinnustöðum. Deildirnar eru þessar:
- 1.
- undirbúningsdeild;
- 2.
- fiskiðndeild;
- 3.
- meistaradeild;
- 4.
- framhaldsdeild.
Af námstímanum skal 60% varið til skólanáms að jafnaði í undirbúningsdeild og fiskiðndeild, en afganginum til verklegrar þjálfunar. Í fisktæknideild og framhaldsdeild skal sem næst 80% tímans varið til skólanáms, en um 20% til verklegrar þjálfunar. Nánar skal kveðið á um skiptingu námstímans í reglugerð.
[Til þess að öðlast starfsréttindi sem fiskiðnaðarmaður skal nemandi hafa staðist próf upp úr fiskiðndeild og auk þess lokið 9 mánaða skipulagðri starfsþjálfun, sem lýkur með prófi eða sérstöku verkefni. Varðandi saltfisk, skreið og saltsíld skal fara fram sérstakt verklegt próf, sem geti sýnt alhliða þekkingu á meðferð og mati afurðanna í samræmi við þarfir markaðslandanna, sbr. 11. gr. Setja skal með reglugerð nánari ákvæði um efni og framkvæmd þessara verklegu prófa.]1)
Úr meistaradeild útskrifast fiskvinnslumeistarar. Starfsréttindi þeirra skulu háð því, að þeir hafi hlotið a.m.k. tveggja ára viðurkennda starfsreynslu á viðeigandi vinnustað að loknu námi í fiskiðndeild.
Heimilt er að veita nemendum, sem útskrifast úr framhaldsdeild, titilinn fisktæknir, enda hafi þeir áður öðlast starfsréttindi sem fiskiðnaðarmenn.
1)L. 18/1981, 3. gr.
11. gr. Próf skulu haldin í lok allra bóknámsáfanga og í lok 11 mánaða starfsþjálfunaráfanga að loknu námi í fiskiðndeild. Jafnan skal ákveðins námsárangurs krafist, til þess að nemandi teljist hafa lokið námi hverrar deildar eða öðlast rétt til að hefja nám í næstu deild.
Nánari ákvæði um próf og einkunnagjöf skulu sett í reglugerð.
12. gr. Inntökuskilyrði skulu vera þessi:
- 1.
- Til að hefja nám í undirbúningsdeild skal nemandi hafa staðist gagnfræðapróf eða landspróf miðskóla ellegar aflað sér á annan hátt hliðstæðrar, bóklegrar menntunar. Innan takmarka, sem skólanefnd setur, skal skólastjóra heimilt að veita undanþágu frá þessu inntökuskilyrði. Skal þessi heimild einkum notuð til að veita fólki, sem starfað hefur í fiskiðnaði, rétt til skólavistar.
- 2.
- Til að hefja nám í fiskiðndeild skal nemandi hafa lokið námi í undirbúningsdeild, fiskimannadeild stýrimannaskóla eða staðist próf í samræmi við ákvæði 15. gr. og jafnframt fengið a.m.k. þriggja mánaða verklega þjálfun, eftir að hann varð 15 ára gamall.
- 3.
- Til að hefja nám í meistaradeild skal nemandi hafa lokið fiskiðndeild.
- 4.
- Um nám í framhaldsdeild fer eftir ákvæðum 4. gr.
13. gr. Helstu bóklegar námsgreinar skulu vera: fiskvinnslufræði, vél- og teiknifræði, vinnuhagræðing, framleiðslufræði og verkstjórn, gæðaeftirlit og tölfræði, markaðsfræði, rekstrarbókhald, lög og reglur um fiskvinnslu og fiskmat, haflíffræði, efnafræði, lífefnafræði, gerlafræði og hreinlæti, eðlisfræði, stærðfræði, íslenska, svo og rannsóknastofustörf, m.a. í efnafræði, lífefnafræði, gerlafræði og eðlisfræði.
Heimilt er að bæta við námsgreinum, ef skólanefnd telur ástæðu til.
14. gr. Helstu verklegar námsgreinar skulu vera: meðferð á nýjum fiski, ísun, flökun, frysting, söltun, flatning, síldarsöltun, hersla, reyking, niðursuða, framleiðsla fiskrétta, lifrarbræðsla, fiskmjölsframleiðsla, hvalvinnsla, fiskmat, vinnuhagræðing, meðferð og notkun fiskvinnsluvéla, svo og aðrar námsgreinar, sem skólanefnd telur ástæðu til að kenna.
15. gr. Verði stofnað til eins árs matvælakjörsviðs í framhaldsdeildum, er taka við nemendum að loknu gagnfræðaprófi eða landsprófi miðskóla, skulu nemendur, sem staðist hafa próf á því kjörsviði, öðlast rétt til inngöngu í fiskiðndeild, sbr. 12. gr., 2. tölul., samkvæmt nánari ákvörðun, er sett verði í reglugerð. Við útskrift úr fiskiðndeild skal þess gætt, að þessir nemendur hafi fullnægt námsskrá skólans varðandi verklega þjálfun.
16. gr. Nánari ákvæði um starfsemi skólans skulu sett í reglugerð.
IV. kafli.Gildistaka laganna.
17. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi ...