Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 120a. Uppfært til febrúar 1996.


Lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

1974 nr. 36 2. maí


1. gr.
     Tilgangur laga þessara er að stuðla að verndun Mývatns- og Laxársvæðisins í Suður-Þingeyjarsýslu.

2. gr.
     Ákvæði laganna taka til Skútustaðahrepps og Laxár með hólmum og kvíslum allt að ósi árinnar við Skjálfanda, ásamt 200 metra breiðum bakka meðfram Laxá báðum megin.

3. gr.
     Á landssvæði því, er um getur í 2. gr., er hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimilt, nema leyfi Náttúruverndarráðs komi til.
     Breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna eru einnig óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra, enda komi til sérstakt leyfi Náttúruverndarráðs.
     Heimilar skulu þó framkvæmdir, sem nauðsynlegar og eðlilegar teljast til búskapar á lögbýlum, nema spjöllum valdi á náttúruverðmætum að dómi Náttúruverndarráðs.
     Þá eru heimilar, án sérstaks leyfis Náttúruverndarráðs, byggingar samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi Náttúruverndarráð fallist á skipulagsáætlun þá, sem um er að ræða.

4. gr.
     Reisa skal og reka náttúrurannsóknastöð við Mývatn. [Umhverfisráðuneytið]1) skipar stjórn stöðvarinnar samkvæmt tilnefningum Náttúrufræðistofnunar Íslands, Verkfræði- og raunvísindadeildar Háskóla Íslands, hreppsnefndar Skútustaðahrepps og Landeigendafélags Laxár og Mývatns og Náttúruverndarráðs, og skal fulltrúi ráðsins vera formaður stjórnarinnar.
     Stjórn stöðvarinnar sér um framkvæmdir og rekstur. Hún er stjórnvöldum til ráðuneytis um allt það, er lýtur að framkvæmd laga þessara. Í reglugerð, er [umhverfisráðuneytið]1) setur, að fengnum tillögum Náttúruverndarráðs, skal nánar kveðið á um starfshætti stjórnarinnar og starfsemi stöðvarinnar, m.a. um samstarf við heimamenn og aðstöðu til námskeiðahalds fyrir háskólanema í náttúrufræðum.

1)L. 47/1990, 3. gr.


5. gr.
     [Umhverfisráðuneytið]1) setur, að fengnum tillögum heilbrigðisráðuneytisins og Náttúruverndarráðs, reglugerð2) um varnir gegn hvers konar mengun svæðis þess, er lögin taka til, og skal þar m.a. kveðið á um sérstakar mengunarvarnir Kísiliðjunnar við Mývatn. Í reglugerðinni skal enn fremur kveðið á um verndun lífríkis á svæðinu og skynsamlega nýtingu þess, svo sem um takmörkun á aðgangi ferðamanna að tilteknum stöðum á svæðinu.

1)L. 47/1990, 3. gr.2)Rg. 136/1978.


6. gr.
     Náttúruverndarráð getur, að fengnum tillögum stjórnar rannsóknastöðvarinnar ráðið starfsmann til eftirlits með framkvæmd laga þessara og reglugerða, er settar verða samkvæmt þeim.

7. gr.
     Kostnaður við framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum.

8. gr.
     Brot gegn lögum þessum og reglugerðum, er settar eru samkvæmt þeim, varða sektum eða varðhaldi. Sektir renni í ríkissjóð.
     Beita má dagsektum, er renna í ríkissjóð, allt að [10.000 krónum],1) til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum, sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögum þessum og reglugerðum, eða láta af atferli, sem er ólögmætt.

1)L. 116/1990, 37. gr.


9. gr.
     Að öðru leyti fer um verndun Laxár- og Mývatnssvæðisins eftir reglum í lögum um náttúruvernd.