Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 120a. Uppfært til febrúar 1996.


Lög um vörugjald

1987 nr. 97 31. desember


Upphafsákvæði.
1. gr.
     Greiða skal í ríkissjóð vörugjald af innfluttum vörum og vörum sem framleiddar eru eða fá einhverja vinnslumeðferð innan lands eins og nánar er ákveðið í lögum þessum.

Gjaldskyldar vörur og framleiðsla.
2. gr.
     Gjaldskyldan nær til allra vara, nýrra sem notaðra, sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar, unnið er að eða er pakkað hér á landi og flokkast undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í 3. gr. Vara, sem seld er úr landi, er þó ekki gjaldskyld.
     Við flokkun til gjaldskyldu samkvæmt lögum þessum skal fylgt flokkunarreglum tollalaga, nr. 55/1987, og gilda ákvæði þeirra jafnframt um úrskurðarvald í ágreiningsmálum um tollflokkun vara.

3. gr.
     [Gjaldflokkar vörugjalds skulu vera eftirfarandi, sbr. upptalningu tollskrárnúmera gjaldskyldrar vöru í viðauka I við lög þessi:1)
1.
Af vörum í gjaldflokki A skal greiða 6% vörugjald.
2.
Af vörum í gjaldflokki B skal greiða 11% vörugjald.
3.
Af vörum í gjaldflokki C skal greiða 16% vörugjald.
4.
Af vörum í gjaldflokki D skal greiða 18% vörugjald.
5.
Af vörum í gjaldflokki E skal greiða 20% vörugjald.
6.
Af vörum í gjaldflokki F skal greiða 25% vörugjald.
7.
Af vörum í gjaldflokki G skal greiða 30% vörugjald.]2)

1)Viðauki I er ekki birtur hér, en um hann vísast til Stjtíð. 1993 A, bls. 578–581, sbr. 1994 A, bls. 5 og 7, sbr. augl. A 109/1995 og 116/1995.2)L. 122/1993, 47. gr.


Gjaldskyldir aðilar.
4. gr.
     Skylda til að greiða vörugjald hvílir á þessum aðilum:
1.
Öllum þeim sem flytja til landsins vörugjaldsskyldar vörur hvort sem er til eigin nota eða endursölu.
2.
Öllum þeim sem framleiða, vinna að eða pakka vörugjaldsskyldum vörum innan lands. Sama á við um þá sem annast heildsöludreifingu vöru sem um ræðir í þessum tölulið, sbr. 3. mgr. 6. gr.

     Hver sá, sem skattskyldur er skv. 2. tölul. 1. mgr., skal ótilkvaddur og eigi síðar en 15 dögum áður en vörugjaldsskyld starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá skattstjóra þar sem hann er heimilisfastur. Breytingar, sem verða á starfsemi eftir að skráning hefur farið fram, skal tilkynna eigi síðar en 15 dögum eftir að breyting átti sér stað.

Gjaldstofn.
5. gr.
     Gjaldstofn vörugjalds af innfluttum vörum er tollverð þeirra eins og það er ákveðið skv. 8.–10. gr. tollalaga, að viðbættum tollum eins og þeir eru ákveðnir samkvæmt þeim lögum, auk 25% áætlaðrar heildsöluálagningar.
     [Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að gjaldstofn tilgreindra innfluttra vöruflokka skuli ákveðinn í samræmi við ákvæði 6. gr.]1)

1)L. 18/1993, 6. gr.


6. gr.
     Gjaldstofn vörugjalds af gjaldskyldum vörum sem eru framleiddar, unnið að á einhvern hátt eða pakkað hér á landi er heildsöluverð þeirra, þ.e. það verð sem greitt er eða greiða ber við sölu vörunnar til smásala. [Ef framleiðandi eða heildsali vöru er jafnframt smásali hennar eða heildsöluverð vöru liggur ekki fyrir af öðrum ástæðum geta skattyfirvöld metið hvað telja skuli eðlilegt heildsöluverð vörunnar. Við slíkt mat skulu skattyfirvöld taka mið af því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum milli óskyldra aðila.]1)
     Annist innlendur framleiðandi gjaldskyldrar vöru ekki jafnframt heildsölu hennar heldur selur hana heildsala skal hann reikna vörugjald af verksmiðjuverði vörunnar. Verksmiðjuverð vöru er söluverð framleiðanda hennar án vörugjalds.
     Heildsali, sem kaupir gjaldskyldar vörur af innlendum framleiðanda á verksmiðjuverði, skal reikna vörugjald af heildsöluverði sínu, sbr. 1. mgr., að frádregnu innkaupsverði vörunnar, sbr. 2. mgr.
     Samsvari söluverð frá verksmiðju ekki heildarandvirði framleiðsluvöru eða vöru sem fær einhverja vinnslumeðferð eða pökkun hér á landi, t.d. vegna þess að kaupandi eða annar framleiðandi leggur til hráefni, efnisvörur eða annað til framleiðslu, vinnslu eða pökkunar á vöru, skal heildarandvirði hennar teljast gjaldstofn til vörugjalds.

1)L. 18/1993, 7. gr.


Innheimta, uppgjörstímabil, gjalddagar o.fl.
7. gr.
     Vörugjald af innfluttum gjaldskyldum vörum skal innheimt ásamt tollum við tollafgreiðslu.
     Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum um gjaldskyldu, gjaldfrelsi, álagningu, innheimtu, stöðvun tollafgreiðslu, veð, sektir, viðurlög, refsingar og aðra framkvæmd varðandi vörugjald af innfluttum gjaldskyldum vörum skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði tollalaga, nr. 55/1987, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.1)

1)Augl. 617/1989.


8. gr.
     Vörugjald af innlendum framleiðsluvörum reiknast við sölu eða afhendingu gjaldskyldrar vöru frá framleiðanda eða heildsala og skiptir ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla kaupanda fer fram.
     Hvert uppgjörstímabil vegna gjaldskyldrar innlendrar framleiðslu, aðvinnslu eða pökkunar er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Gjaldskyldir aðilar skulu eftir lok hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs það vörugjald sem þeim ber að standa skil á samkvæmt lögum þessum.
     [Vörugjaldi, ásamt vörugjaldsskýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, skal skila eigi síðar en á gjalddaga. [Gjalddagi er fimmti dagur þriðja mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna sölu eða afhendingar á því tímabili.]1)
     Sé vörugjald ekki greitt á tilskildum tíma skal aðili sæta álagi til viðbótar því vörugjaldi sem honum ber að standa skil á. Sama gildir ef vörugjaldsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og vörugjald því áætlað, nema aðili hafi greitt fyrir gjalddaga vörugjaldsins upphæð er til áætlunar svarar eða gefið fyrir lok kærufrests fullnægjandi skýringu á vafaatriðum.]2)
     [Álag skv. 4. mgr. skal vera 2% af þeirri upphæð sem vangreidd er, fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 20%.
     Sé vörugjald ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Dráttarvextir eru þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt lögum nr. 36/1986.3)]1)

1)L. 18/1993, 8. gr. 2)L. 95/1988, 2. gr.3)l. 25/1987.


9. gr.
     Aðilum, sem keypt hafa hráefni eða efnivöru til gjaldskyldrar framleiðslu sinnar og greitt af því vörugjald, er heimilt að draga innkaupsverð vörunnar frá gjaldstofni, sbr. 6. gr., og reikna vörugjald af þannig fengnum mismun. Sama á við um heildsala sem keypt hefur vörugjaldsskylda vöru af innlendum framleiðanda til endursölu, sbr. 6. gr.

10. gr.
     Að því leyti sem ekki eru ákvæði í lögum þessum um álagningu, kærur og úrskurði um vörugjaldsákvörðun, innheimtu, tilhögun bókhalds, framtöl, eftirlit, stöðvun atvinnurekstrar, viðurlög, sektir, refsingar og aðra framkvæmd varðandi vörugjald af innlendri framleiðsluvöru eða vöru sem unnið er að eða er pakkað hér á landi skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði [laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,]1) með síðari breytingum, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.
     ...1)

1)L. 18/1993, 9. gr.


11. gr.
     Fjármálaráðherra setur í reglugerð1) nánari ákvæði um tilkynningarskyldu, gjaldstofn, gjaldskyldu, uppgjörstímabil, gjalddaga og aðra framkvæmd laga þessara. Ráðherra er heimilt að undanþiggja einstaka vöruflokka gjaldskyldu skv. 3. gr. eða bæta við upptalningu í 3. gr. einstökum vörum eða tollskrárnúmerum til þess að samræmis gæti í skattlagningu sams konar eða hliðstæðra vara.
     [Fjármálaráðherra er enn fremur heimilt að endurgreiða eða fella niður vörugjald af innlendu hráefni, efnivörum og hlutum til framleiðslu innlendra iðnaðarvara og garðyrkjuafurða. Ráðherra kveður nánar á um framkvæmd þessarar málsgreinar í reglugerð.]2)

1)Rg. 157/1994, sbr. 480/1994. Augl. 336/1994.2)L. 52/1994, 2. gr.


12. gr.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1988. ...

Ákvæði til bráðabirgða.
[I.–VI. ...]1)

1)L. 95/1988, brbákv.


[VII.
     Allir þeir, sem stunda starfsemi sem skattskyld er samkvæmt lögum um vörugjald og eru ekki skráðir á vörugjaldsskrá við gildistöku laga þessara, skulu tilkynna innan 15 daga frá því að lög þessi öðlast gildi um rekstur sinn og starfsemi til skattstjóra þar sem þeir eru heimilisfastir.1)
     ...]2)

1)Augl. 102/1995.2)L. 18/1993, brbákv.